Ferill 567. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1224  —  567. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um breyt. á l. nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, með síðari breytingum.

Frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar (JóhS, MF).


    
     1.      Við a-lið 3. gr. (37. gr. A) bætist ný málsgrein, 2. mgr., svohljóðandi:
                  Sparisjóður sem hyggst breyta sér í hlutafélag skv. 1. mgr. skal hafa að lágmarki tvöfaldan fjölda stofnfjáreigenda eins og þeir voru við gildistöku laganna, en þó aldrei færri en sem nemur 2% af íbúatölu þess sveitarfélags þar sem sparisjóðurinn hefur höfuðstöðvar sínar. Þessum fjölda stofnfjáreigenda er m.a. hægt að ná fram með almennu útboði til almennings á starfssvæði sparisjóðsins sem standi eigi skemur en sex mánuði.
     2.      Við b-lið 3. gr. (37. gr. B). Lokamálsliður 4. mgr. orðist svo: Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi sjálfseignarstofnunar samkvæmt þessari grein.
     3.      Við 3. gr. bætist nýr liður, c-liður (37. gr. C), svohljóðandi:
                  Við sölu hlutabréfa í sparisjóði, sem breytt hefur verið í hlutafélag samkvæmt ákvæðum laga þessara, skal skattskyldur söluhagnaður vera söluverð bréfanna að frádregnu kaupverði þeirra. Kaupverð hlutabréfa í eigu stofnfjáreigenda skal ákveðið sem stofnfé sjóðsins endurmetið til ársloka 1996 skv. 23. gr. að viðbættu því stofnfé sem greitt hefur verið inn á stofnfjárreikninga frá þeim tíma þar til sparisjóðnum var breytt í hlutafélag. Kaupverð hlutabréfa í sparisjóði í eigu sjálfseignarstofnunar ákvarðast sem raunvirði hreinnar eignar sparisjóðsins við breytingu hans í hlutafélag að frádregnu kaupverði hlutabréfa í eigu stofnfjáreigenda, sbr. framangreint. Raunvirði hreinnar eignar skal ákveðið samkvæmt þeim reglum sem gilda um ákvörðun á jöfnunarverðmæti hlutabréfa, sbr. 3. mgr. 17. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Kaupverð hlutabréfa í eigu rekstraraðila skal hækkað eða lækkað samkvæmt verðbreytingarstuðli, sbr. 26. gr. laga nr. 75/1981, til söluárs, enda séu hlutabréfin eignfærð í atvinnurekstrinum.
                  Ef sparisjóði er breytt í hlutafélag samkvæmt ákvæðum laga þessara skal sú breyting ekki hafa í för með sér skattskyldar tekjur fyrir sparisjóðinn, hlutafélagið eða hluthafa í því, þar á meðal þær sjálfseignarstofnanir sem verða hluthafar í sparisjóðnum.
                  Fjárhæð sem sjálfseignarstofnun skv. 37. gr. laga þessara úthlutar af rekstrarhagnaði ársins í samræmi við 4. mgr. þeirrar greinar skal heimilt að draga frá tekjuskattsstofni á því ári.