Ferill 731. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1231  —  731. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)


1. gr.

    Í stað orðsins „tolli“ í 3. mgr. 6. gr. A laganna kemur: verð- og/eða magntolli.

2. gr.

    Viðauki IVB við lögin ásamt fyrirsögn orðast svo:

    Viðauki IVB

Vörulýsing

Vöruliðir í
tollskrá

Heildartollkvótar

í tonnum

Lifandi eða afskorin blóm og plöntur

0601
0602
0603
0604

         500

Nýjar eða kældar garð- og gróðurhúsavörur
Kartöflur

0701
0710

         4000

Tómatar

0702

    500

Laukur

0703

    1500

Kál

0704

        1100

Salat

0705

        1000
Gulrætur, næpur, rófur og aðrar rætur

0706

        500

Gúrkur

0707

200

Ertur og belgaldin

0708

100

Aðrar matjurtir

0709

800

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á tollalögum og viðauka IVB með lögunum. Breytingar þessar veita landbúnaðarráðherra aukið svigrúm til að fjölga þeim grænmetistegundum sem unnt er að flytja inn á lægri tollum eða án tolla.
    Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að orðalagi 6. gr. A verði breytt til að taka af öll tvímæli um að landbúnaðarráðherra geti lækkað eða fellt niður magn- og/eða verðtoll samkvæmt tollskrá um þann hundraðshluta sem tilgreindur er í ákvæðinu en fram að þessu hefur framkvæmdin verið sú að magn- og verðtollar hafa verið lækkaðir um sama hundraðshluta hverju sinni. Með þessari breytingu verður til dæmis unnt að lækka verðtoll um 25% en magntoll um 75% eða fella þá alveg niður.
    Breytingar sem eru lagðar til á viðauka IVB við tollalög eru þær að heildartollkvótar á grænmeti sem landbúnaðarráðherra hefur til úthlutunar eru auknir auk þess sem bætt er inn nýjum vörulið, 0708, ertur og belgaldin. Miðað er við að heildartollkvótar í tonnum nemi ríflegu heildarmagni árlegs innflutnings í viðkomandi vöruliðum samkvæmt innflutningstölum á grænmeti fyrir árin 1999 og 2000.
    Árlegar tolltekjur ríkissjóðs af innfluttu grænmeti árin 1999 og 2000 námu um 150 til 170 milljónum króna. Samkvæmt frumvarpinu fær landbúnaðarráðherra aukið svigrúm til að ákveða að hve miklu leyti tollar verða felldir niður og fer tekjutap ríkissjóðs eftir því að hve miklu leyti hann nýtir það svigrúm.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Frumvarp til laga um breyting á tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu er lagt til að ákvæðum tollalaga og viðauka IVB með þeim verði breytt á þann veg að landbúnaðarráðherra verði heimilt að fjölga grænmetistegundum sem fluttar eru inn til landsins á lægri tollum eða án tolla. Samkvæmt frumvarpinu ákveður landbúnaðarráðherra að hve miklu leyti tollar verða felldir niður og þar með hversu miklum tekjum ríkissjóður verður af. Tekjur ríkisins af þessum tollum námu um 150–170 m.kr. á árunum 1999–2000 og má því ætla að hugsanlegt tekjutap yrði í mesta lagi á því bili miðað við að landbúnaðarráðherra fullnýti heimildir til lækkunar eða niðurfellingar á tollunum. Ekki er gert ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs breytist verði frumvarpið lögfest.