Ferill 523. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1338  —  523. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, með síðari breytingum.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu er það flutt í því skyni að heimild Fjármálaeftirlitsins til að setja reglur um jöfnuð verðtryggðra eigna og skulda verði felld úr vaxtalögum og færð yfir í lög um viðskiptabanka og sparisjóði, en hér er um að ræða varúðarákvæði sem lýtur að áhættu viðskiptabanka og sparisjóða.
    Meiri hlutinn gerir breytingartillögu við frumvarpið þess efnis að viðskiptabanki eða sparisjóður skuli á hverjum tíma hafa yfir að ráða tryggu eftirlitskerfi með áhættu, þ.m.t. vaxtaáhættu og verðtryggingaráhættu, í tengslum við öll viðskipti sín. Fjármálaeftirlitið geti sett leiðbeinandi reglur um eftirlitskerfi með áhættuþáttum í starfsemi viðskiptabanka eða sparisjóðs. Þannig var heimild Fjármálaeftirlitsins til að setja reglur sem aðilum bar að fylgja þrengd í meðförum nefndarinnar þannig að eftir stendur eingöngu heimild til að setja leiðbeinandi reglur sem viðkomandi aðilum ber engin skylda til að fara eftir.
    Við meðferð frumvarpsins í nefndinni kom fram að Seðlabanki Íslands legðist gegn breytingartillögu meiri hlutans á þeirri forsendu að öruggara væri að hafa þá heimild í lögum að unnt væri að setja reglur um jöfnuð verðtryggðra eigna og skulda eins og frumvarpið hefði upphaflega falið í sér. Seðlabankinn nefndi í þessu sambandi að hefði banki neikvæðan verðtryggingarjöfnuð, þ.e. meiri verðtryggðar skuldir en eignir, yrði hann fyrir tapi af snöggri aukningu verðbólgu. Hefði banki hins vegar mikið af verðtryggðum eignum umfram verðtryggðar skuldir hefði hann stundarhag af aukningu verðbólgu þar sem vextir væru oft tregbreytanlegir. Væri verðbólga viðvarandi og ójafnvægi á milli verðtryggðra eigna og skulda banka væri hætt við að skammtímavextir réðust einkum af kjörum á langtímamarkaði, þ.e. af vöxtum af verðtryggðum skuldabréfum sem gjarnan eru til langs tíma. Frá peningapólitísku sjónarmiði væri heppilegra að skammtímavextir réðust af öðrum þáttum en langtímavöxtum, svo sem af vöxtum af stuttum lánum Seðlabankans og eftirspurn eftir skammtímalánum.
    Minni hlutinn bendir á að þrátt fyrir að aðstæður séu nú metnar svo að ekki sé mikil ástæða til að hafa reglur eins og þær sem frumvarpið gerði upphaflega ráð fyrir í lögum geta aðstæður breyst skyndilega. Því tekur minni hlutinn undir sjónarmið Seðlabanka Íslands og telur mikilvægt frá öryggissjónarmiði að lagaheimild til að setja reglur sem viðskiptabönkum og sparisjóðum beri að fylgja sé fyrir hendi í stað þess að Fjármálaeftirlitið setji leiðbeinandi reglur, sem hafa ekkert skuldbindingargildi gagnvart þessum aðilum, breytist aðstæður skyndilega.
    Í fylgiskjali með nefndaráliti þessu er að finna umsögn Seðlabanka Íslands þar sem framangreind sjónarmið koma fram.
    Minni hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt, í þeirri mynd sem viðskiptaráðherra lagði það fram.

Alþingi, 14. maí 2001.



Jóhanna Sigurðardóttir,


frsm.


Margrét Frímannsdóttir.




Fylgiskjal.


Seðlabanki Íslands:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 113/1996,


um viðskiptabanka og sparisjóði, með síðari breytingum.


(7. maí 2001.)



    Á fundi efnahags- og viðskiptanefndar 27. apríl sl. beindust spurningar til mín um verðtryggingarjöfnuð banka og sparisjóða. Jóhanna Sigurðardóttir hefur fylgt þeim eftir með tölvupósti til mín í dag þar sem hún spyr um afstöðu Seðlabanka Íslands til frumvarps um breytingu á lögum nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, með síðari breytingum, máls nr. 523. Greinir Jóhanna frá því að efnahags- og viðskiptanefnd hafi tekið upp breytingartillögu samtaka banka og verðbréfafyrirtækja við frumvarp ráðherra um að Fjármálaeftirlitinu sé heimilt að setja reglur um jöfnuð verðtryggðra eigna og skulda viðskiptabanka og sparisjóða þess efnis að viðskiptabanki eða sparisjóður skuli á hverjum tíma hafa yfir að ráða tryggu eftirlitskerfi með áhættu, þar með talið vaxtaáhættu og verðtryggingaráhættu í tengslum við öll viðskipti sín. Fjármálaeftirlitið geti sett leiðbeinandi reglur um eftirlitskerfi vegna áhættuþátta í starfsemi sinni. Spyr Jóhanna hvort Seðlabankinn telji rétt að láta ákvæði frumvarps ráðherrans standa óbreytt.
    Þegar ég mætti á fund efnahags- og viðskiptanefndar skýrði ég frá því að Seðlabankinn væri fylgjandi þessu frumvarpi. Hann er það enn, enda telur bankinn öruggara að hafa þá heimild í lögum að unnt sé að setja reglur um jöfnuð verðtryggðra eigna og skulda banka og sparisjóða eins og frumvarp ráðherrans felur í sér. Ég nefni hér nokkrar ástæður sem sumar hverjar komu fram á umræddum fundi:
     1.      Hafi banki neikvæðan verðtryggingarjöfnuð (meiri verðtryggðar skuldir en eignir) verður hann fyrir tapi af snöggri aukningu verðbólgu.
     2.      Hafi banki mikið af verðtryggðum eignum umfram verðtryggðar skuldir hefur hann stundarhag af aukningu verðbólgu þar eð vextir eru oft tregbreytanlegir.
     3.      Sé verðbólga viðvarandi og ójafnvægi er á milli verðtryggðra eigna og skulda banka er hætt við að skammtímavextir ráðist einkum af kjörum á langtímamarkaði, þ.e. af vöxtum af verðtryggðum skuldabréfum sem gjarnan eru til langs tíma. Frá peningapólitísku sjónarmiði er heppilegra að skammtímavextir ráðist af öðrum þáttum en langtímavöxtum, svo sem af vöxtum af stuttum lánum Seðlabankans og eftirspurn eftir skammtímalánum.
    Svo má bæta við atriði sem varðar þá stefnu að dregið verði úr notkun verðtryggingar, einkum með því að hætta að verðtryggja innlán:
     4.      Aukist verðbólga skyndilega er viðbúið að sparifjáreigendur færi fé af óverðtryggðum yfir á verðtryggða innlánsreikninga, séu þeir fyrir hendi. Því gæti banki sem hefur verðtryggðar eignir umfram skuldir, eða hefur jafnvægi þar á milli, lent í því að gjörbreyting verði á þessu á skömmum tíma. Hann á ekki auðvelt með að laga jöfnuðinn með því að auka verðtryggðar eignir sínar þar eð svona viðbrögð sparifjáreigenda færa honum ekki nýtt fé til ráðstöfunar. Haldi bankar áfram að bjóða verðtryggða innlánsreikninga er þessi hætta fyrir hendi og getur reynst fjármálakerfinu í heild þung í skauti. Seðlabankinn hefur margoft bent bönkum á þessa hættu og jafnframt á þá leið til lausnar að hætt verði að verðtryggja innlán. Hættan er hins vegar ekki til staðar á meðan verðbólga er lág.
    Þótt bankar hætti að bjóða verðtryggða innlánsreikninga gætu þeir, eins og aðrir, gefið út og selt verðtryggð skuldabréf til að afla ráðstöfunarfjár. Framboði slíkra bréfa geta þeir ráðið sjálfir og þá m.a. tekið mið af jafnvæginu milli verðtryggðra eigna og skulda. Þeir ættu m.ö.o. auðveldara með að halda nauðsynlegu jafnvægi.
    Á móti hefur verið bent á að verðtrygging sé notuð á öðrum sviðum, svo sem í verksamningum og leigusamningum, og því eigi ekki að setja bönkum skorður við notkun verðtryggingar. Þessu er til að svara að verðtrygging verksamninga og leigusamninga fylgir ekki kerfisáhætta, a.m.k. ekki fyrir fjármálalífið í heild.

Virðingarfyllst
SEÐLABANKI ÍSLANDS

Eiríkur Guðnason
bankastjóri