Ferill 226. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1350  —  226. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um flutning menningarverðmæta úr landi og um skil menningarverðmæta til annarra landa.

Frá menntamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þórunni J. Hafstein frá menntamálaráðuneyti, Gunnar Jóhann Birgisson hrl., Hjörleif Kvaran frá Reykjavíkurborg og Ólaf Kvaran frá Listasafni Íslands. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá fræðslu- og menningarsviði Austur-Héraðs, Borgarbyggð, Byggðasafni Árnesinga, Byggðasafni Skagfirðinga, Byggðasafni Snæfellinga og Hnappdælinga, Eyþingi – sambandi sveitarfélaga á Norðurlandi eystra, Félagi íslenskra safnmanna, Fornleifastofnun Íslands, Kristínu Huld Sigurðardóttur, Kvikmyndasafni Íslands, Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni, safnráði Listasafns Íslands, Minjasafni Egils Ólafssonar, Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavíkurborg, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Samtökum sveitarfélaga í Norðurlandskjördæmi vestra, Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Sjóminjasafninu á Eyrarbakka, starfsmönnum Árbæjarsafns, Sögufélaginu, þjóðminjaráði, Þjóðminjasafni Íslands, þjóðminjaverði, Þjóðskjalasafni Íslands og Þór Magnússyni, fyrrverandi þjóðminjaverði.
    Með lögum nr. 60/1996 var þjóðminjalögum, nr. 88/1989, breytt, m.a. til samræmis við tilskipun ráðs Evrópusambandsins 93/7/EBE frá 15. mars 1993 um að skila menningarminjum sem hafa verið fluttar ólöglega frá yfirráðasvæði aðildarríkis. Með aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, var Ísland skuldbundið til að lögleiða þessi ákvæði. Þá var einnig tekið mið af samsvarandi reglum um útflutning menningarverðmæta. Þrátt fyrir þessar lagabreytingar gerði Eftirlitsstofnun EFTA athugasemdir við framkvæmd tilskipunarinnar hér á landi og fór fram á að gerðar yrðu breytingar til samræmis við ákvæði hennar. Þar sem þessi málaflokkur er nokkuð sérhæfður þykir rétt að setja þessar reglur í sérstakan lagabálk og aðgreina þær þannig frá öðrum reglum er gilda um vörslu þjóðminja hér á landi.
    Helstu breytingar sem nefndin leggur til að gerðar verði á frumvarpinu eru eftirfarandi:
    Lagðar eru til breytingar á 2. gr. og 4. mgr. 3. gr. þar sem tekið er tillit til tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 96/100/EB frá 17. febrúar 1997 um breytingu á viðauka við tilskipun 93/7/EBE um að skila menningarminjum sem hafa verið fluttar ólöglega frá yfirráðasvæði aðildarríkis. Gerð er sú breyting að bætt er við einum flokki minja og mótsvarandi verðflokki. Framangreind tilskipun 96/100/EB tók gildi í EFTA-löndunum 1. júlí 2000 þegar Ísland hafði veitt samþykki sitt í sambandi við kröfu um stjórnskipulega meðferð.
    Nefndin leggur til að safnaráð taki við hlutverki þjóðminjavarðar við leyfisveitingar varðandi útflutning muna eða gripa. Telur nefndin óeðlilegt að þjóðminjavörður eigi einn að hafa það hlutverk að fjalla um útflutning margs konar menningarminja sem eru utan hans verksviðs. Óeðlilegt sé að þjóðminjavörður skuli eiga að gefa leyfi til útflutnings málverka, mósaíkverka, myndlistarverka ýmiss konar, höggmynda og myndastyttna, bóka og handrita og náttúrufræðilegra gripa. Varðandi hið síðastnefnda bendir nefndin á að skv. 15. gr. laga nr. 60/1992, um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, þarf leyfi Náttúrufræðistofnunar til að flytja náttúrugripi úr landi. Telur nefndin eðlilegra að umfjöllun þessara mála sé falin nefnd forstöðumanna höfuðsafna landsins sem hafa fagþekkingu hver á sínu sviði.
    Í ljósi þeirra breytinga sem nefndin leggur til á hlutverki og skipan safnaráðs samkvæmt safnalögum á þann veg að ráðið verði fyrst og fremst samráðsvettvangur forstöðumanna höfuðsafna í landinu og skipað þeim, auk fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga og Félags íslenskra safnmanna, leggur nefndin til að safnaráði verði falið það hlutverk að fjalla um og veita formlegt leyfi til að flytja úr landi þau menningarverðmæti sem frumvarpið fjallar um. Telur nefndin mikilvægt vegna skýrrar stjórnsýsluframkvæmdar að umsýsla samkvæmt frumvarpinu sé falin einum aðila. Vegna hlutverks Þjóðskjalasafns Íslands og Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi telur nefndin rétt að samráð sé milli safnaráðs og framangreindra stofnana þegar um er að ræða útflutning á bókum, skjölum og handritum. Nefndin telur að meðferð náttúrugripa, sbr. 12. tölul. 1. mgr. 2. gr., hafi nokkra sérstöðu vegna ákvæða laga nr. 60/1992 um leyfisveitingar Náttúrufræðistofnunar til útflutnings náttúrugripa. Nefndin telur ekki ástæðu til að breyta þeirri tilhögun sem þar er kveðið á um. Telur nefndin eðlilegt að einungis einn aðili veiti leyfi til útflutnings á náttúrugripum og því ekki rétt að víkja frá því hlutverki sem Náttúrufræðistofnun er falið með lögum nr. 60/1992 og leyfisveitingar vegna útflutnings náttúrugripa verði því á hendi Náttúrufræðistofnunar Íslands.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.


Alþingi, 9. maí 2001.



Sigríður A. Þórðardóttir,


form., frsm.


Sigríður Jóhannesdóttir.


Tómas Ingi Olrich.



Ólafur Örn Haraldsson.


Einar Már Sigurðarson.


Einar Oddur Kristjánsson.



Kolbrún Halldórsdóttir.


Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


Hjálmar Árnason.