Ferill 67. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 67  —  67. mál.




Fyrirspurn



til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um endurgreiðslur fyrir tannlæknaþjónustu.

Frá Jóhönnu Sigurðardóttur.



     1.      Hver voru árleg útgjöld Tryggingastofnunar og fjöldi þeirra sem fékk endurgreiðslu á tannlæknakostnaði sl. þrjú ár og hver hefðu þau orðið ef gjaldskrá Tannlæknafélags Íslands og Tryggingastofnunar hefði fylgt verðlagsþróun? Útgjöld óskast aðgreind eftir hópum í samræmi við lög og reglur þar að lútandi.
     2.      Hve mikil er hlutfallsleg lækkun, sbr. 1. tölul., árlega sl. þrjú ár skipt milli hópa? Hvað má ætla að sú lækkun sé mikil í fjárhæðum að raungildi í heild? Sérstaklega óskast sundurgreind lækkun endurgreiðslna á þessum tíma fyrir lífeyrisþega annars vegar og börn með umönnunargreiðslur og andlega þroskahamlaða einstaklinga 17 ára og eldri hins vegar miðað við endurgreiðslur Tryggingastofnunar til þessara hópa sl. þrjú ár.
     3.      Hvers vegna beitir ráðherra ekki ákvæðum 37. gr. almannatryggingalaga og setur einhliða gjaldskrá sem tekur mið af verðlagsþróun sl. þrjú ár?
     4.      Hver er staðan núna í samningaviðræðum milli Tannlæknafélags Íslands og Tryggingastofnunar, hver eru helstu ágreiningsatriðin að mati ráðherra og hvað hyggst ráðherra gera til að leysa þann hnút sem samningamálin eru komin í? Mun ráðherra beita sér fyrir því að þeir sem hafa fengið skerta endurgreiðslu sl. þrjú ár fái mismun á nýrri og eldri gjaldskrá greiddan?


Skriflegt svar óskast.