Ferill 229. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 255  —  229. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)



1. gr.

    Á eftir 37. gr. koma tvær nýjar greinar, 37. gr. a og 37. gr. b, svohljóðandi:

    a. (37. gr. a.)
37.a.1.    Starfrækja skal stofnun sem nefnist Heyrnar- og talmeinastöð.
37.a.2.    Hlutverk Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar er eftirfarandi:
                   1.     Að annast þjónustu við heyrnarlausa, heyrnarskerta og þá sem eru með talmein og eru sjúkratryggðir samkvæmt lögum um almannatryggingar.
                   2.     Að sjá um heyrnarmælingar, greiningu og meðferð á heyrnar- og talmeinum ásamt ráðgjöf, þjálfun og endurhæfingu vegna þeirra.
                   3.     Að sinna forvörnum á starfssviði sínu í samvinnu við aðrar stofnanir um forvarnir eftir því sem við á.
                   4.     Að útvega hjálpartæki fyrir heyrnarskerta, heyrnarlausa og þá sem eru með talmein og sjá um viðeigandi fræðslu og þjálfun þeirra. Stofnunin skal enn fremur sjá um viðhald hjálpartækjanna.
                   5.     Að stunda rannsóknir og sinna fræðslu á starfssviði sínu. Stofnunin skal safna upplýsingum um alla þá sem eru heyrnarskertir, heyrnarlausir og/eða búa við talmein og öðrum tölfræðilegum upplýsingum sem nýtast við rannsóknar- og þróunarstörf. Um söfnun upplýsinga skal fara samkvæmt lögum um persónuvernd og reglum settum með stoð í þeim lögum og 3. gr. laga þessara.
37.a.3.    Við Heyrnar- og talmeinastöðina skal vera fimm manna fagráð sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Fagráðið skal skipað þremur mönnum með menntun og/eða sérþekkingu á verksviði stofnunarinnar og tveimur fulltrúum notenda þjónustunnar. Fagráðið er framkvæmdastjóra til ráðuneytis um fagleg málefni og stefnumótun. Ráðherra skipar framkvæmdastjóra til fimm ára. Framkvæmdastjóri ræður aðra starfsmenn stofnunarinnar, og skulu þeir hafa viðeigandi menntun á starfssviði stofnunarinnar. Heimilt er að ákveða nánar um menntunarskilyrði starfsmanna í reglugerð.
37.a.4.    Ráðherra skal setja reglugerð um þátttöku ríkisins í kostnaði hjálpartækja vegna heyrnar- og talmeina að höfðu samráði við Heyrnar- og talmeinastöðina.
37.a.5.     Sjúkratryggður einstaklingur, sbr. 1. tölul. 2. mgr., skal greiða gjald vegna viðgerða á hjálpartækjum.
37.a.6.    Sjúkratryggður einstaklingur, sbr. 1. tölul. 2. mgr., skal greiða gjald fyrir sérfræðilæknisþjónustu og rannsóknir samkvæmt ákvæðum laga um almannatryggingar, með síðari breytingum, og reglum settum með stoð í þeim lögum.
37.a.7.    Sjúkratryggður einstaklingur, sbr. 1. tölul. 2. mgr., skal greiða gjald fyrir greiningu á máltruflun, komu vegna endurmats hjá talmeinafræðingi og aðrar talrannsóknir.
37.a.8.    Fyrir heyrnarrannsókn á vinnustað skal greiða gjald sem standa skal undir kostnaði stofnunarinnar við rannsóknina.
37.a.9.    Ráðherra setur gjaldskrá vegna 5., 7. og 8. mgr. að höfðu samráði við framkvæmdastjóra og fagráð Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar. Skal gjaldskráin taka mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna. Heyrnar- og talmeinastöðin innheimtir gjöld þessi.
37.a.10.    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd þessarar greinar.

    b. (37. gr. b.)
37.b.1.    Ráðherra er heimilt að veita rekstrarleyfi til að annast þá þjónustu eða hluta þeirrar þjónustu sem greinir í 2. mgr. 37. gr. a. Beiðni til ráðherra um rekstrarleyfi skulu fylgja upplýsingar sem kveðið er á um í 1. mgr. 27. gr. eftir því sem við á. Enn fremur gilda ákvæði 2. mgr. 27. gr. um veitingu rekstrarleyfis og 28. gr. um eftirlit heilbrigðisyfirvalda.
37.b.2.    Leyfishafi skal ráða starfsmenn með viðeigandi menntun til að tryggja að hann geti veitt þjónustu skv. 1. mgr. Heimilt er að kveða nánar á um menntunarskilyrði í reglugerð.
37.b.3.    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið getur ákveðið þátttöku ríkisins í kostnaði við hjálpartæki vegna heyrnar- og talmeina með þjónustusamningi við rekstrarleyfishafa.
37.b.4.    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd þessarar greinar.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög nr. 35/1980, um Heyrnar- og talmeinastöð Íslands.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I.


    Frumvarp þetta var samið í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu í samvinnu við formann stjórnar Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands.
    Markmiðið með frumvarpinu er að bæta þjónustu við heyrnarlausa, heyrnarskerta og þá sem eru með talmein. Hlutverk stöðvarinnar er skilgreint nánar, lagt er til að fagráð komi í stað stjórnar og ákvæði um gjaldtöku sett í frumvarpið vegna þeirra krafna sem gerðar eru til gjaldtökuákvæða í stjórnskipunarlögum. Frumvarpið var sent sextán aðilum til umsagnar. Umsagnir bárust frá níu aðilum og var tekið tillit til athugasemda þeirra við endanlega gerð frumvarpsins. Umsagnaraðilar voru Félag háls-, nef- og eyrnalækna, Félag heyrnarfræðinga, Félag heyrnarlausra, Félag talkennara og talmeinafræðinga, heilsugæslan í Reykjavík, Heyrnar- og talmeinastöð Íslands, Heyrnarhjálp, landlæknir, Landspítali–háskólasjúkrahús, Landssamtök heilsugæslustöðva, Læknafélag Íslands, Neytendasamtökin, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, Sjálfsbjörg, Tryggingastofnun ríkisins og Öryrkjabandalagið.

II.


    Fram til ársins 1962 var meðhöndlun og endurhæfing heyrnarskertra og þeirra sem voru með talmein hjá starfandi háls-, nef- og eyrnalæknum, félaginu Heyrnarhjálp og Heyrnleysingjaskólanum sem kenndi og annaðist heyrnarlaus börn á aldrinum fjögurra til sextán ára. Árið 1962 var komið á fót vísi að heyrnarstöð við Heilsuverndarstöð Reykjavíkur og árið 1966 var svo stofnuð heyrnardeild Heilsuverndarstöðvar að fyrirmynd nágrannaþjóða og ráðnir til starfa fyrstu sérmenntuðu starfsmennirnir á sviði heyrnar- og talmeinafræði. Fyrst í stað þjónaði hún einungis Reykvíkingum enda borgarstofnun, en 1. janúar 1979 tók Heyrnar- og talmeinastöð Íslands til starfa og náði þjónusta hennar til allra landsmanna.

III.


    Heyrnar- og talmeinastöð Íslands starfar samkvæmt lögum nr. 35/1980. Þar segir m.a. að stofnunin skuli skipuð yfirlækni, sérmenntuðum í heyrnarfræði, í fullu starfi og skuli hann annast faglega stjórn stofnunarinnar. Honum til aðstoðar skuli vera yfirheyrnar- og taluppeldisfræðingur. Aðrir starfsmenn stofnunarinnar skuli vera heyrnar- og taluppeldisfræðingar, heyrnarritarar, tæknimenn, hlustarstykkjasmiðir og aðstoðarfólk. Þá er kveðið á um að ráðherra skipi framkvæmdastjóra stofnunarinnar til fimm ára, að fengnum tillögum stjórnar, og að hann ráði yfirlækni, að fenginni umsögn stöðunefndar, og ráði aðra starfsmenn.
    Stofnunin heyrir undir heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, sem skipar henni sérstaka stjórn. Skal stjórnin skipuð sjö mönnum til fjögurra ára í senn. Ráðherra skipar einn án tilnefningar og skal hann vera formaður. Menntamálaráðuneytið tilnefnir einn, Foreldra- og styrktarfélag heyrnardaufra einn, Félagið Heyrnarhjálp einn, Talkennarafélag Íslands einn, Félag háls-, nef- og eyrnalækna einn og Heyrnleysingjaskóli Íslands einn.
    Um hlutverk stofnunarinnar segir að stofnunin skuli annast hvers konar þjónustu við heyrnarskerta, t.d. prófun heyrnar og úthlutun heyrnartækja. Hún skuli annast sjúkdómsgreiningu málhaltra, bæði barna og fullorðinna, hafa yfirumsjón með þjálfun og endurhæfingu heyrnarskertra og málhaltra, heyrnartækjameðferð og heyrnarrannsóknum í samráði við aðra aðila sem starfa á þessum vettvangi. Þá skuli hún annast heyrnarmælingar á fólki í fyrirbyggjandi tilgangi, t.d. vegna hávaða við vinnu eða notkunar lyfja, og annast útvegun á hvers konar hjálpartækjum fyrir heyrnarskerta og málhalta sem yfirlæknir stofnunarinnar úrskurðar nauðsynleg. Að lokum skuli stofnunin halda skrá yfir alla þá sem eru heyrnarskertir og/eða málhaltir.
    Þá skal stofnunin hafa samráð við skólastjóra og kennara Heyrnleysingjaskólans um sérfræðilega umsjón með heyrnaruppeldis- og læknisfræðilegri meðferð og rannsókn nemenda skólans. Heilsugæslustöðvar skulu hafa samráð við stofnunina um alla þjónustu við heyrnardaufa og málhalta sem veitt er á heilsugæslustöðvum.

IV.


    Á árinu 1994 fór fram á vegum Ríkisendurskoðunar stjórnsýsluendurskoðun á Heyrnar- og talmeinastöð Íslands. Ríkisendurskoðun gerir ýmsar athugasemdir við starfsemi stöðvarinnar. Þar segir m.a. að stjórn félagsins virðist ekki vera mjög virk. Þá megi ráða af fundargerðum og viðtölum að stjórnin virðist vera að sinna málum sem mætti flokka undir afgreiðslu sem ætti að vera í höndum daglegra stjórnenda stöðvarinnar. Enn fremur segir Ríkisendurskoðun að stofnunin virðist ekki hafa myndað heildarstefnu í málefnum stöðvarinnar heldur tali menn gjarnan út frá hagsmunum þeirra samtaka sem þeir eru fulltrúar fyrir. Einnig virtist túlkun manna vera mismunandi á lögum stofnunarinnar, hvað eigi að vera verkefni stofnunarinnar og skyldur. Ríkisendurskoðun telur að lög um Heyrnar- og talmeinastöð Íslands, Heyrnleysingjaskólann og Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins skarist að sumu leyti.
    Þá kemur enn fremur fram hjá Ríkisendurskoðun að Heyrnar- og talmeinastöð Íslands beri þess nokkur merki hvernig að uppbyggingu stöðvarinnar var staðið í upphafi. Sjö manna stjórn sé skipuð fulltrúum hagsmunahópa er tengist á einn eða annan hátt starfsemi stöðvarinnar. Skipun stjórnarinnar hafi í upphafi verið eins konar málamiðlun vegna hinna ýmsu hagsmunahópa og átti hún aðeins að sitja til bráðabirgða. Nauðsynlegt sé að skilgreina betur hvað eigi að vera starfs- og verksvið stöðvarinnar. Stöðin vinni í rauninni með fjölda þjónustuaðila og stofnana. Þyrfti að skilgreina allítarlega hvað sé á verksviði hvers og eins til að forðast tvíverknað.

V.


    Í framhaldi af athugun Ríkisendurskoðunar var á árinu 1996 m.a. kannaður sá möguleiki að stöðin sameinaðist Sjúkrahúsi Reykjavíkur en af því varð ekki. Fjárveitingar til Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands fóru heldur minnkandi á sama tíma og eftirspurn eftir þjónustu stöðvarinnar jókst samfara fjölgun aldraðra í þjóðfélaginu, en þeir eru sá hópur sem mest leitar til stöðvarinnar. 87% þeirra sem leita til stöðvarinnar eru eldri en 67 ára. Miklar framfarir hafa orðið í gerð heyrnartækja, ný stafræn tækni í gerð heyrnartækja hefur rutt sér til rúms og kostnaður við innkaup slíkra tækja hefur farið vaxandi. Hefur þetta leitt til aukinnar eftirspurnar eftir hjálpartækjum og í janúar 2001 biðu u.þ.b. 1.200 einstaklingar eftir heyrnartækjum. Heilbrigðisyfirvöldum hefur verið ljóst að við vanda er að etja sem takast þarf á við.
    Í apríl 2000 var kynnt í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu greinargerð um málefni Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands sem unnin var, að undirlagi formanns stjórnar stöðvarinnar, af ráðgjafafyrirtækinu Ráðgarði. Niðurstöður þessarar greinargerðar voru í svipuðum anda og athugun Ríkisendurskoðunar frá 1994 og eru þessar helstar:
     1.      Stjórn stofnunarinnar hefur verið óstarfhæf í mörg ár. Nokkrar ástæður liggja þar að baki, en líklegt er að hagsmunaárekstrar valdi þar mestu. Nauðsynlegt er að gera sem fyrst breytingar á lögum þar sem stjórn verði skipuð með öðrum hætti og hlutverk stöðvarinnar endurskilgreint.
     2.      Mikið álag er á læknum stöðvarinnar. Eftirspurn eftir þjónustunni er mikil. Erfitt hefur reynst að ráða við afleysingar sem stundum hefur verið þörf á með stuttum fyrirvara.
     3.      Afgreiðslufyrirkomulag er í dag þannig að tekin er ákvörðun fyrir skjólstæðinginn um tækjanotkun án formlegrar umsóknar frá honum. Þessu er nauðsynlegt að breyta í sama horf og notað er hjá hjálpartækjamiðstöð Tryggingastofnunar ríkisins um leið og skjólstæðingi er gefið meira val.
     4.      Ráðgjafaþjónusta og eftirfylgni með skjólstæðingum er of lítil. Þannig hefur stöðin lent í andbyr þar sem framboð hjálpartækja hefur verið lítið og illa kynnt.
    Í greinargerðinni er bent á að takmarkað traust sé til starfseminnar og að hún njóti takmarkaðra vinsælda hjá samskiptaaðilum og að mörg félagasamtök gagnrýni þjónustu stöðvarinnar.
    Í framhaldi af niðurstöðu greinargerðarinnar hefur verið unnið að endurbótum á starfsemi Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið setti á laggirnar starfshóp til að móta framtíðarsýn og stefnu stofnunarinnar. Í tillögum starfshópsins er gert ráð fyrir að gerður verði árangursstjórnunarsamningur við stofnunina þar sem tekið verði á ýmsum vandamálum sem við er að glíma.
    Í samræmi við framangreint og í kjölfar breytinga á stjórnarskipunarlögum, nr. 33/1944, sbr. 15. gr. laga nr. 97/1995, að því er snertir gjaldtöku ákvað heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra að láta endurskoða gildandi lög um Heyrnar- og talmeinastöð Íslands. Sérlög um stofnunina hafa verið í gildi frá 1980 en eðlilegt verður að telja að lagaákvæði um þennan þátt í heilbrigðisþjónustu við landsmenn falli undir almenna heilbrigðislöggjöf og verði hluti af lögum um heilbrigðisþjónustu. Skýrara þótti að setja ákvæði um þátttöku ríkisins í kostnaði vegna hjálpartækja og um gjaldtöku sjúklinga í lög um heilbrigðisþjónustu og lög um almannatryggingar. Eru þá öll ákvæði um þennan málaflokk á einum stað í lögum en unnt er að setja ákvæði um nánari útfærslu í reglugerð sem sett yrði með stoð í lögum um heilbrigðisþjónustu og lögum um almannatryggingar.
    Í frumvarpi þessu eru meginákvæði laga um Heyrnar- og talmeinastöð Íslands felld inn í lög nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, með síðari breytingum, jafnframt því sem í frumvarpinu er gerð tillaga um einföldun lagatextans, hann gerður skýrari og færður til nútímalegs horfs. Felld eru út ákvæði sem eðlilegt má telja að kveðið sé á um í árangursstjórnunarsamningi milli stöðvarinnar og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins um markmið og þjónustustig stöðvarinnar og það verði í samræmi við fjárveitingar hverju sinni. Er það í samræmi við nútímastjórnsýslu og aðra samninga sem unnið er að í ráðuneyti heilbrigðis- og tryggingamála.
    Vegna áhuga einkaaðila á að hefja sölu á hjálpartækjum fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta og vandkvæða Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands við að uppfylla þörf fyrir heyrnartæki þótti rétt að opna þann möguleika í frumvarpinu að ráðherra gæti veitt öðrum rekstrarleyfi til að annast þá þjónustu eða hluta þeirrar þjónustu sem Heyrnar- og talmeinastöð Íslands veitir í dag. Er í frumvarpinu gert ráð fyrir að slíkt leyfi sé háð sömu skilyrðum og eftirliti og þegar um er að ræða aðrar stofnanir eða fyrirtæki sem veita heilbrigðisþjónustu samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu. Gert er ráð fyrir að hjálpartækin verði veitt einstaklingum á svipuðum kjörum og hjá Heyrnar- og talmeinastöðinni.
    Með vísan til framanritaðs er því gerð tillaga um að inn í IV. kafla laga nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, komi á eftir 37. gr. tvær nýjar greinar sem verði 37. gr. a. og 37. gr. b.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Um a-lið (37. gr.a).
    Í greininni er starfsvettvangur Heyrnar- og talmeinastöðvar rýmkaður þannig að stöðinni er jafnframt ætlað það hlutverk að sinna málefnum heyrnarlausra en gildandi lög kveða einvörðungu á um þjónustu við heyrnarskerta og heyrnardaufa. Rýmkunin er í samræmi við breytt viðhorf og núverandi framkvæmd en Heyrnar- og talmeinastöð Íslands hefur sinnt málefnum heyrnarlausra, m.a. hefur hún haft milligöngu um útvegun og afgreiðslu tölvubúnaðar til þessa hóps ásamt því að þjónusta hann og annast þjálfun, forrannsóknir og eftirmeðferð vegna kuðungsígræðslna (cochlear implant). Búast má við að þessi þjónusta stöðvarinnar fari vaxandi.
    Í frumvarpinu eru felld brott ákvæði um ferðalög út á land til aðstoðar heyrnarskertum. Ekki er talin þörf á slíku sérákvæði, enda er Heyrnar- og talmeinastöðinni ætlað að sinna þjónustu við alla landsmenn óháð búsetu. Gert er ráð fyrir að ákvæði um ferðir út á land verði í árangursstjórnunarsamningi sem unnið er að. Þar verði umfang þessa hluta þjónustu stöðvarinnar ákvarðað.
    Í 1. mgr. segir að starfrækja skuli stofnun sem nefnist Heyrnar- og talmeinastöð.
    Í 2. mgr. er kveðið á um hlutverk Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar og í fimm töluliðum er upptalning á einstökum þáttum. Er m.a. tekið mið af athugasemdum Ríkisendurskoðunar og greinargerð ráðgjafafyrirtækisins Ráðgarðs eins og fyrr greinir.
    Í 1. tölul. er það nýmæli að þjónusta stöðvarinnar nær til heyrnarlausra og þeirra sem eru með talmein. Orðið talmein hefur öðlast sess í íslensku máli og er notað í stað málhaltra nú. Annað nýmæli er að kveðið er á um það hverjir geti notið þjónustu stöðvarinnar, þ.e. þeir sem eru sjúkratryggðir samkvæmt lögum um almannatryggingar. Er talið rétt að sömu skilyrði gildi um þjónustu Heyrnar- og talmeinastöðvar og þjónustu sjúkrahúsa og Tryggingastofnunar ríkisins, þ.m.t. hjálpartækjamiðstöðvar Tryggingastofnunar.
    Í 2. tölul. er kveðið skýrar á um einstaka þjónustuþætti stöðvarinnar en ekki er um nýmæli að ræða.
    Í 3. tölul. er fjallað um forvarnir sem eru taldar mjög mikilvægur þáttur í starfsemi stöðvarinnar en þann þátt þarf að efla verulega. Það er kunnugra en frá þurfi að segja að hávaði og hávaðamengun er vaxandi vandamál í nútímaþjóðfélagi og brýnt að sinna öflugu forvarnarstarfi og þá ekki síst meðal ungs fólks, m.a. í skólum landsins. Þá eru heyrnarrannsóknir á vinnustöðum umtalsverður hluti af þjónustu stöðvarinnar sem fer vaxandi.
    Í 4. tölul. er fjallað um hjálpartæki fyrir heyrnarskerta, heyrnarlausa og þá sem eru með talmein ásamt viðhaldi á þeim tækjum. Reikna má með að einhverjar breytingar verði á þessum þætti í þjónustu stöðvarinnar ef frumvarpið verður að lögum. Heyrnartæki verða brátt til sölu á almennum markaði eftir nánari reglum sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra setur. Reynsla nágrannaþjóðanna hefur sýnt að þar sem þetta fyrirkomulag hefur verið reynt hefur samt sem áður lítið dregið úr eftirspurn eftir heyrnartækjum á opinberum heyrnarstöðvum. Má að einhverju leyti rekja það til sífellt vaxandi eftirspurnar og tæknilegra framfara. Í 4. tölul. er gert ráð fyrir að aðrir en yfirlæknir Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar, eins og kveðið er á um í núgildandi lögum, geti metið þörf fyrir hjálpartæki fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta. Er það eðlileg þróun og í samræmi við það sem er að gerast í nágrannaríkjunum.
    Í 5. tölul. er ákvæði um heyrnarrannsóknir og rannsóknir á talmeinum ásamt fræðsluskyldu stöðvarinnar. Efla þarf þennan þátt stöðvarinnar en til þessa hefur bæði skort sérmenntað fólk og nægjanlegt fjármagn. Heyrnar- og talmeinastöð Íslands hefur ráðið sérmenntað fólk í þessu skyni en gera þarf enn betur. Sú fræðsla sem þegar er veitt hefur mælst mjög vel fyrir. Reynslan hefur sýnt að þeir sem fá hjálpartæki þurfa mun meiri fræðslu, þjálfun og æfingu í notkun þeirra en veitt er í dag. Í 5. tölul. er það nýmæli að stöðin skuli safna tölfræðilegum upplýsingum sem nýtast við rannsóknar- og þróunarstörf og er sérstaklega kveðið á um að söfnun slíkra upplýsinga skuli vera í samræmi við lög um persónuvernd og reglur settar með stoð í þeim lögum og lögum um almenna skráningu í heilbrigðisþjónustu eftir því sem við á.
    Í 3. mgr. er kveðið á um fagráð stofnunarinnar sem ráðherra skipar. Fagráðið skal skipað fimm mönnum og skulu þrír hafa menntun og/eða sérþekkingu á verksviði stofnunarinnar en tveir vera úr hópi notenda þjónustunnar. Fagráðið skal vera framkvæmdastjóra til ráðuneytis um fagleg málefni og stefnumótun. Horfið er frá núverandi fyrirkomulagi um sjö manna stjórn tilnefnda af ýmsum hagsmunaaðilum. Reynslan af því fyrirkomulagi hefur ekki verið sem skyldi og stjórnin stundum verið óstarfhæf eins og kemur fram í almennum athugasemdum við frumvarpið. Í 3. málsl. 3. mgr. er kveðið á um skipan framkvæmdastjóra og er það í samræmi við gildandi ákvæði starfsmannalaga.
    4. mgr. er efnislega óbreytt frá núgildandi lögum og þarfnast ekki skýringa. Þó má reikna með að í reglugerðinni verði tekið mið af reglum Tryggingastofnunar ríkisins um hjálpartæki.
    Í 5., 7. og 8. mgr. eru ákvæði í núgildandi reglum og gjaldskrá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins tekin upp í frumvarpið en ekki er um efnislegar breytingar að ræða. Þó er gert ráð fyrir að einungis þeir sem eru sjúkratryggðir samkvæmt lögum um almannatryggingar greiði gjöld samkvæmt ákvæðum frumvarpsins. Er það til samræmis við það að Heyrnar- og talmeinastöðin veitir einungis þeim hópi þjónustu, sbr. athugasemdir við 1. tölul. 2. mgr. Í 9. mgr. er síðan gert ráð fyrir að heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra setji gjaldskrá að fengnum tillögum fagráðs Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar og skuli gjöldin taka mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna. Enn fremur er kveðið á um að stöðin skuli innheimta gjöld þessi.
    Í 6. mgr. er kveðið sérstaklega á um að gjald einstaklings fyrir sérfræðilæknisþjónustu og rannsóknir skuli vera samkvæmt ákvæðum laga um almannatryggingar og reglum settum með stoð í þeim lögum. Rétt þykir að hafa gjöld fyrir þjónustu þessa þau sömu og eru í sjúkratryggingum almannatrygginga en kveða ekki á um þau í sérstakri gjaldskrá.
    Í 10. mgr. er gert ráð fyrir almennri reglugerðarheimild en slík heimild er ekki í núgildandi lögum.
     Um b-lið (37. gr. b).
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því nýmæli að þjónusta Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar eða hluti þeirrar þjónustu sem hún skal veita geti verið falin öðrum með sérstöku rekstrarleyfi frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. 37. gr. b fjallar um útgáfu, skilyrði og þátttöku
ríkisins í kostnaði hjálpartækja vegna rekstrarleyfisins.
    Í 1. mgr. er gert ráð fyrir að heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra sé heimilt að veita öðrum rekstrarleyfi til að annast þá þjónustu eða hluta þeirrar þjónustu sem Heyrnar- og talmeinastöðin skal veita skv. 2. mgr. 37. gr. a í 1. gr. frumvarpsins. Vegna áhuga einkaaðila á að hefja sölu á hjálpartækjum fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta og vandkvæða Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands við að uppfylla þörf fyrir heyrnartæki þótti rétt að opna þann möguleika í frumvarpinu að ráðherra gæti veitt öðrum rekstrarleyfi til að annast slíka þjónustu. Beiðni til ráðherra um rekstrarleyfi skulu fylgja upplýsingar um verksvið umsækjanda, hvar starfseminni er ætlaður staður ásamt lýsingu á húsakynnum. Enn fremur skal fylgja greinargerð um væntanlegan rekstrarleyfishafa, fjárhagsástæður, starfsáætlun, stjórn, starfsfólk og rekstrarfyrirkomulag. Þá skulu fylgja upplýsingar um hversu mörgum einstaklingum fyrirhugað er að veita þjónustu og með hvaða kjörum. Upplýsingar þessar eru í samræmi við ákvæði 1. mgr. 27. gr. núgildandi laga um heilbrigðisþjónustu. Við veitingu leyfisins skal fara skv. 2. mgr. 27. gr. laganna en þar er kveðið á um að ráðherra veiti því aðeins leyfi að ætla megi að umsækjandi geti leyst verkefni sitt á viðunandi hátt og að ætíð skuli leita álits landlæknis á nauðsyn og gagnsemi stofnunar. Enn fremur skulu ákvæði 28. gr. núgildandi laga um heilbrigðisþjónustu gilda um að heilbrigðisyfirvöldum sé tryggður greiður aðgangur til eftirlits. Ekki er gert ráð fyrir að þeir sem eru starfandi samkvæmt samningi við Tryggingastofnun ríkisins við gildistöku frumvarpsins þurfi að sækja um sérstakt rekstrarleyfi samkvæmt frumvarpinu.
    Í 2. mgr. er kveðið á um þær kröfur sem gerðar eru til menntunar starfsfólks væntanlegs rekstrarleyfishafa og er það til að tryggja að faglega geti stöðin innt af hendi þá þjónustu sem kveðið er á um í rekstrarleyfi.
    Í 3. mgr. er gert ráð fyrir þátttöku ríkisins í kostnaði vegna hjálpartækja fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta sem rekstrarleyfishafi útvegar. Er ákvæðinu ætlað að tryggja að neytendur greiði svipað gjald fyrir sambærileg tæki án tillits til þess hvort þau eru veitt af Heyrnar- og talmeinastöðinni eða af rekstrarleyfishafa.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra sé heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd greinarinnar.

Um 2. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu,
nr. 97/1990, með síðari breytingum.

    Markmið frumvarpsins er að bæta þjónustu við heyrnarlausa, heyrnarskerta og þá sem eru með talmein. Í þeim tilgangi er stjórnun Heyrnar- og talmeinastöðvar gerð markvissari, hlutverk hennar skilgreint nánar og það rýmkað nokkuð frá því sem nú er. Skal hún annast jafnt þjónustu við heyrnarlausa, heyrnarskerta og þá sem eru með talmein enda séu þeir sjúkratryggðir samkvæmt lögum um almannatryggingar. Stofnuninni er ætlað m.a. að sinna forvörnum á vinnustöðum, fræðslu og rannsóknum á starfssviði sínu í samvinnu við aðrar stofnanir. Breytt hlutverk stöðvarinnar er að mestu leyti í samræmi við þær breytingar sem þegar hafa orðið á starfsemi stöðvarinnar. Þá er Heyrnar- og talmeinastöðinni ætlað að útvega þeim sem hún á að þjóna tilskilin hjálpartæki og annast fræðslu og þjálfun um notkun þeirra, svo og viðhald tækja. Skal ráðherra setja reglugerð um þátttöku ríkisins í kostnaði við hjálpartæki vegna heyrnar- og talmeina. Sjúkratryggður einstaklingur skal greiða gjald fyrir sérfræðilæknisþjónustu og rannsóknir samkvæmt ákvæðum laga um almannatryggingar. Setja skal gjaldskrá fyrir þjónustu stöðvarinnar og skulu gjöldin taka mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna, svo sem viðgerða á tækjum og heyrnarrannsókna á vinnustöðum. Loks er gert ráð fyrir að þjónusta Heyrnar- og talmeinastöðvar eða hluti þeirrar þjónustu sem hún skal veita geti verið falin öðrum með sérstöku rekstrarleyfi ráðherra. Ekki er gert ráð fyrir að lögfesting frumvarpsins hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.