Ferill 114. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 464  —  114. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, lögum nr. 83/1989, um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga, lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum nr. 144/1994, um ársreikninga, og lögum nr. 145/1994, um bókhald, með síðari breytingum.

Frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Samfylkingin telur mikilvægt að treysta starfsskilyrði og samkeppnishæfni atvinnulífsins, m.a. með því að skattalegt umhverfi verði með því besta sem þekkist í alþjóðlegum samanburði til að örva nýsköpun og hagvöxt. Samfylkingin telur jafnframt að skattkerfið eigi að endurspegla jafnræði í skattlagningu og sanngirni í dreifingu skattbyrði, en því miður er langur vegur frá því að tillögur stjórnarflokkanna nái þeim markmiðum. Tillögurnar fela í sér veigamikla og alvarlega galla, sem fjöldi umsagnaraðila hefur mótmælt harðlega.
    Helstu gallarnir eru að skattalagabreytingar ríkisstjórnarinnar fela m.a. í sér eftirfarandi:
     *      tilfærslu á skattbyrði af fjármagni yfir á vinnuafl og launatekjur,
     *      að stærri hluti heildarskattheimtu er fluttur yfir á einstaklinga,
     *      mismunun innan atvinnulífsins sem birtist í að þær gagnast aðallega stórfyrirtækjum sem skila hagnaði á kostnað lítilla fyrirtækja,
     *      landsbyggðarskatt, þar sem heilu landshlutarnir tapa,
     *      að láglaunafólk og lífeyrisþegar fá minnst í sinn hlut,
     *      aukna möguleika á skattasniðgöngu og tilfærslu á launatekjum yfir í arð og hagnað,
     *      tekjutap sveitarfélaga sem nemur um 1,5–1,8 milljörðum kr.

Skattaumhverfi fyrirtækja.
    Helstu rök fyrir tillögum ríkisstjórnarinnar eru þau að verið sé að fylgja þróun hjá öðrum ríkjum og að halda forskoti, sem Ísland hefur haft til þessa. Í greinargerð með frumvarpinu er fullyrt að tekjuskattshlutfall fyrirtækja sé nú rétt undir meðallagi OECD-ríkjanna. Í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur (sjá fylgiskjal I) um skattgreiðslur einstaklinga og fyrirtækja kemur þó í ljós að forskot Íslands er þegar verulegt á þessu sviði. Þar er upplýst að af 22 ríkjum OECD eru 14 með hærra skatthlutfall en Ísland og sömuleiðis að einungis fimm ríki njóta lægra skatthlutfalls. Það eru Svíþjóð, Noregur, Finnland sem eru með 28% skatt á hagnað fyrirtækja, Sviss með 28% og Írland með 20%.
    Í sama svari er einnig upplýst um skattlagningu arðgreiðslna. Þar kemur fram að Ísland er með langlægsta skatt á arð, eða aðeins 10% (fylgiskjal X). Flest ríki OECD eru hins vegar með 25–48% skatt á arðgreiðslur. Athygli vekur að um tryggingagjald og aðra launaskatta gildir einnig að Ísland er á bekk með þeim þjóðum sem minnst greiða (fylgiskjal VIII). Hins vegar er þar líka upplýst að tekjuskattur einstaklinga á Íslandi er með því hæsta sem þekkist, sem og skattur á vöru og þjónustu.

    Mjög athyglisverðar upplýsingar um þróun á tekjuskatti einstaklinga og félaga innan ríkja OECD komu fram í efnahags- og viðskiptanefnd frá ríkisskattstjóra (sjá fylgiskjal II). Þar kemur fram að sem hlutfall af þjóðarframleiðslu hafa skattar á einstaklinga frá árinu 1990 til ársins 1999 þyngst verulega hér á landi, eða úr 8,2% í 12,7%, meðan skattar á félög hafa aðeins breyst lítillega, eða úr 0,9% sem hlutfall af landsframleiðslu 1990 í 1,5% árið 1999. Skattbyrðinni hefur því í auknum mæli á sl. áratug verið velt af fjármagni og fyrirtækjum og yfir á laun og vinnuafl.
    Þróunin hefur verið þveröfug í Danmörku, Finnlandi, Írlandi og Svíþjóð. Þar hafa skattar á einstaklinga verið að minnka sem hlutfall af landsframleiðslu en aukast á fyrirtæki. Meðaltal skatta einstaklinga innan OECD (Evrópa) var 10,6% af landsframleiðslu á árinu 1990 en var komið niður í 10% á árinu 1999. Á sama tíma jukust hins vegar skattar á félög sem hlutfall af landsframleiðslu úr 2,5% á árinu 1990 í 3,2% á árinu 1999.
    Þetta sýnir þvert á það sem haldið er fram í greinargerð frumvarpsins að skattlagning á lögaðila er mjög hagstæð hér á landi samanborið við önnur lönd. Aftur á móti er hlutur einstaklinga í skattbyrðinni verulega hærri hér en hjá öðrum þjóðum. Má í því sambandi líka minna á það sem fram kemur í fylgiskjali III að skipting á skattgreiðslum milli fyrirtækja og einstaklinga á árinu 2001 var þannig að einstaklingar greiddu samtals 83% en fyrirtæki aðeins 17%.
    Athyglisvert er líka að fjöldi skattskyldra lögaðila á öllu landinu var á þessu ári 17.133 en af þeim greiddu einungis 7.536 tekjuskatt (sjá fylgiskjal IV).
    Í umsögn ASÍ er einmitt bent á að með lækkun tekjuskatts fyrirtækja samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar verði tekjuskattshlutfall íslenskra fyrirtækja langt undir því sem gerist innan OECD. ASÍ vekur á því sérstaka athygli að á alþjóðavettvangi er slík samkeppni afar umdeild.
    Fram kemur í umsögnum, t.d. bæði frá Þjóðhagsstofnun og ASÍ, að það séu fyrst og fremst fjármála- og tryggingafyrirtæki sem muni njóta góðs af lækkun tekjuskatts. En orðrétt segir í umsögn ASÍ: „Skýrist það fyrst og fremst af því að þau eiga fæst hver uppsafnað skattalegt tap og hafa skilað hagnaði síðustu ár. Hins vegar er ljóst að fyrirtæki í sjávarútvegi eiga mörg hver verulegt uppsafnað tap og munu því ekki njóta góðs af lækkun tekjuskatts á næstu missirum.“
    Samtök ferðaþjónustunnar benda einnig á að tryggingagjöld muni hækka um rúmlega 100 millj. kr. í ferðaþjónustu án þess að ávinningur verði á móti á næstu 2–5 árum.
    BSRB vekur athygli á því í umsögn sinni að lækkun á tekjuskatti fyrirtækja muni einvörðungu gagnast þeim sem sýna hagnað. Samtökin telja óeðlilegt að létt sé undir með þeim fyrirtækjum sem sýna hagnað, en um leið sé tryggingjaldið hækkað, sem sé lagt á fyrirtæki óháð því hvernig þeim vegnar og sé auk þess skattlagning á vinnuafl. BSRB bendir þó á að með tryggingagjaldi séu fjármagnaðir ýmsir þættir sem hreyfing launafólks leggur mikið upp úr.
    Þjóðhagsstofnun bendir á í sinni umsögn að þekkingarfyrirtæki sem eru á frumkvöðlastigi í rannsóknum og þróun án þess að hafa tekjur á móti munu ekki njóta lækkunar tekjuskatts fyrr en eftir langan tíma. Benda má á að í umsögn ASÍ í sambandi við einstaklingshlutafélög kemur fram að endurskoða þurfi upphæð fjármagnstekjuskatts ef tekjuskattshlutfall fyrirtækja verður lækkað úr 30% í 18%. Með því að lækka tekjuskatt fyrirtækja en hækka ekki fjármagnstekjuskatt sé verið að auka mismun í skattlagningu eftir uppruna tekna.
    Þessar röksemdir sýna ljóslega að Íslendingar skipa sér nú þegar í röð þeirra þjóða þar sem skattar á fyrirtæki eru hvað lægstir. Engin rök hafa því verið færð fyrir því af hálfu ríkisstjórnarinnar að nauðsynlegt sé að ganga jafnlangt í að lækka skatthlutfall fyrirtækja og gert er í tillögum hennar, ef markmiðið er að halda skattalegu forskoti Íslands. Samfylkingin telur það ranga stefnu hjá ríkisstjórninni að létta sköttum af fjármagni og flytja þá yfir á vinnuafl og þar með mannauð.
    Fulltrúar Samfylkingarinnar í efnahags- og viðskiptanefnd geta því ekki mælt með að skatthlutfall fyrirtækja verði lækkað um 12%, úr 30% í 18%. Kostnaði við lækkunina á að verulegu leyti að mæta með hækkun tryggingagjalds sem bitnar á fyrirtækjum með mikla launaveltu en lítinn hagnað, eins og fyrirtækja á landsbyggðinni og sprotafyrirtækja sem ekkert eiga nema mannauð. Áhrif hækkunar tryggingagjalds eru rakin síðar í nefndarálitinu. Sú mikla lækkun á tekjusköttum fyrirtækja sem ríkisstjórnin leggur til stóreykur jafnframt líkur á skattasniðgöngu, eins og rökstutt er síðar. Samfylkingin telur nægilegt að lækka skatthlutfall fyrirtækja úr 30% í 25%, þar sem sú lækkun dugar til að halda alþjóðlegu skattaforskoti íslenskra fyrirtækja, þar sem eftir þá breytingu yrði Ísland með lægsta skatthlutfall innan OECD-ríkjanna. Gildir einu þó Írland sé tekið inn í þann samanburð.

Írland og skattarnir.
    Í umsögn ASÍ kemur fram að í rökstuðningi ríkisstjórnarinnar hafi verið sett jafnaðarmerki á milli þess að skattar séu lágir á Írlandi og að hagvöxtur þar hefur verið mjög mikill á síðustu árum. Staðreyndin er hins vegar sú, segir í umsögninni, að Írland hefur á undanförnum árum fengið milljarða í beina styrki frá Evrópusambandinu til niðurgreiðslu á stofnkostnaði nýrra fyrirtækja vegna mikils atvinnuleysis. Slíkt hafi einfaldlega miklu meiri áhrif á staðsetningu nýrra iðn- og tæknifyrirtækja heldur en tekjuskatturinn.
    Í svari ríkisskattstjóra við fyrirspurn fulltrúa Samfylkingarinnar í nefndinni er einmitt vakin athygli á því að heildarskattar á tekjur í atvinnurekstri á Írlandi séu mun meiri en á Íslandi. Hér á eftir fer umsögn ríkisskattstjóra um málið: „Skattur á félög á Írlandi er nú (2001) með þeim hætti að tekjur af rekstri (framleiðslu og sölu) eru skattlagðar með 20% skatti (12,5% ef tekjur eru undir 200.000 pundum). Frá 2003 verða þessar tekjur allar skattlagðar með 12,5%. Aðrar tekjur (fjármagnstekjur o.fl.) eru skattlagðar með 25% og verður engin breyting þar á 2003. Skattur á tekjur einstaklinga er í tveimur þrepum. Hið lægra er 20% og hið hærra er 42%. Söluhagnaður er skattlagður með 20% en aðrar fjármagnstekjur eru lagðar við almennar tekjur og því eftir atvikum skattlagðar með 20% eða 42% hjá einstaklingum.
    Eftirfarandi tafla sýnir skattlagningu á tekjum frá atvinnurekstri á Írlandi og á Íslandi miðað við 2001 og 2003 samkvæmt frumvarpinu.

    Heildarskattar



Hlutafélag
Hluthafi
lægri %*
Hluthafi
hærri %*
Hluthafi
lægri %*
Hluthafi
hærri %*
2001
Írland
Rekstrartekjur 20,0% 20,0% 42,0% 36,0% 53,6%
Fjármagnstekjur 25,5% 20,0% 42,0% 40,0% 56,5%
Ísland 30% 10,0% 10,0% 37,0% 37,0%
2003
Írland
Rekstrartekjur 12,5% 20,0% 42,0% 30,0% 49,3%
Fjármagnstekjur 25,0% 20,0% 42,0% 40,0% 56,5%
Ísland 18% 10,0% 10,0% 26,2% 26,2%

*Skatthlutfall einstaklinga á Írlandi er 20% ef tekjur einhleypings eru lægri en tæp 15 þús. pund og hjóna undir tæplega 30 þúsund pund en 42% ef tekjur eru hærri.“

    Af töflunni og skýringu ríkisskattstjóra er ljóst að það er ýkt og villandi framsetning þegar því er haldið fram að Írland skeri sig úr öðrum löndum fyrir lága skattheimtu á fyrirtæki. Hinn lági skattur þar er eingöngu á þær tekjur félaga sem stafa af sölu á vöru og þjónustu. Allar aðrar tekjur, svo sem tekjur af fjármagni, þóknanir o.s.frv., eru skattlagðar með 25% skatti. Þar að auki er skilyrði fyrir lága skattinum að hagnaðurinn sé borgaður út og skattleggst útborgunin þá með 20% til 40% skatti hjá hluthafanum. Benda má líka á að skattar á lögaðila á Norðurlöndum eru 25–28% í Noregi og Svíþjóð og Finnlandi, en hærri í Danmörku.
    Það markmið sem Samfylkingin vill ná, að skattaumhverfi á Íslandi laði hingað erlenda fjárfesta og styrki starfs- og samkeppnisskilyrði íslenskra fyrirtækja, næst því fyllilega með 25% skatthlutfalli á fyrirtæki. Í því sambandi er líka rétt að vekja athygli á því sem fram kemur í umsögn ASÍ að með lækkun tekjuskatts fyrirtækja verður tekjuskattshlutfall íslenskra fyrirtækja langt undir því sem gerist innan OECD og vekur ASÍ athygli á því að slíkt sé afar umdeilt á alþjóðavettvangi. Sérstök athygli er vakin á að undir það er tekið í umsögn Þjóðhagsstofnunar.

Tekjutap ríkissjóðs.
    Nái tillögur stjórnarflokkanna fram að ganga um lækkun á tekjuskatti úr 30% í 18% þýðir það verulegt tekjutap fyrir ríkissjóð. Athyglisvert er að skoða þær upplýsingar sem embætti ríkisskattstjóra hefur birt efnahags- og viðskiptanefnd um hvernig álagning á lögaðila eftir skatttegundum hefði breyst hefðu skattatillögur ríkisstjórnarinnar verið komnar til framkvæmda við síðustu álagningu. Samkvæmt ríkisskattstjóra hefði tekjuskattur lögaðila orðið 3,7 milljörðum kr. lægri, en fjármálaráðuneytið hefur haldið því fram að tekjuskattur lögaðila lækki um 2,7 milljarða kr. við lækkun á tekjuskatti úr 30% í 18%.
    Í útreikningum fjármálaráðuneytisins og ríkisskattstjóra er ekki reiknað með tekjutapi ef stóriðjufyrirtæki eins og Norðurál eða ÍSAL, sem eru með sérstaka skattasamninga, óska eftir að ganga inn í breytt skattaumhverfi með lægri tekjuskatti. Samkvæmt upplýsingum frá ÍSAL, sbr. Mbl. 1. júní 2001, var hagnaður félagsins fyrir skatta um 4,5 milljarðar kr. og skattgreiðslur þess um 1,4 milljarðar kr. Sé miðað við þetta og að lækkun tekjuskatta á félög samkvæmt frumvarpinu er 40% (30% skattur í 18% skatt) má ætla að sambærileg lækkun skatta hjá ÍSAL hefði orðið 560 millj. kr. Hér er því um að ræða tekjutap hjá ríkissjóði upp á 560 millj. kr. til viðbótar því tekjutapi sem fjármálaráðuneytið hefur áætlað vegna skattabreytinganna.

    Eftirfarandi tafla sýnir helstu niðurstöður varðandi lögaðila skipt eftir skattumdæmum miðað við að skattalækkun vegna ÍSALs verði tekin með í tekjuáhrifin:

    Skattbreytingar (millj.kr.)

Rekstrarform Fjöldi
félaga
Eignar-
skattar
Tekju-
skattur
Trygginga-
gjald
Heildarbreyting
skatta
Reykjavík 11.502 -861 -2.504 1.728 -1.637
Reykjanes 4.540 -259 -1.266 493 -1.032
Vesturland 1.360 -59 -62 118 -4
Vestfirðir 816 -21 -54 64 -12
Norðurland vestra 725 -37 -44 78 -2
Norðurland eystra 1.733 -55 -139 201 6
Austurland 985 -17 -40 89 33
Suðurland 1.827 -74 -131 92 -114
Vestmannaeyjar 314 -12 -11 43 19
Lögaðilar samtals 23.802 -1.396 -4.253 2.907 -2.742

    Breytingin kemur fyrst og fremst fram á Reykjanesi, en þar eykst skattatapið um 539 millj. kr. frá því sem gert er ráð fyrir í útreikningum fjármálaráðherra.

Aukin umsvif ofmetin – þensluhvetjandi skattkerfisbreyting.
    Í greinargerð með frumvarpinu er því haldið fram að skattalækkanirnar á fyrirtækin muni leiða til aukinna efnahagsumsvifa sem metin eru á 3,5 milljarða kr. M.a. er vísað til þess að lækkun skatthlutfalls úr 45% í 30% á síðasta áratug hafi átt verulegan þátt í efnahagsuppsveiflu liðinna ára.
    Í því ljósi er vakin athygli á að í umsögn sinni bendir ASÍ á að ólíku sé saman að jafna nú og þá. Íslenska hagkerfið hafi þá verið að sigla inn í skeið mikils hagvaxtar, þegar þær skattalækkanir áttu sér stað. Honum hafi fylgt mikil aukning á hagnaði fyrirtækja. Varhugavert sé að gefa sér að svo verði á næstu árum, þar sem líklegra er að næstu ár verði hér lítill hagvöxtur.
    ASÍ gagnrýnir líka í sinni umsögn að þessar aðgerðir muni leiða til samdráttar í stað eflingar atvinnulífsins. Ástæðan sé einföld. Skattur á launaútgjöld fyrirtækja hafi nákvæmlega sömu áhrif og launahækkunin sjálf, þ.e. kostnaður fyrirtækja hækki. Rík tilhneiging sé hjá stjórnendum að velta slíkum skattahækkunum beint út í verðlagið og leiði það til þess að kaupmáttur almennings minnkar. Lækkun tekjuskatts fyrirtækja hjálpi hér lítið, því minnkandi tekjur fyrirtækjanna hafa miklu umfangsmeiri áhrif á fjárfestingarákvarðanir heldur en tekjuskattur af væntum afrakstri.
    Ríkisskattstjóri benti einnig á að skattalækkunin á tíunda áratugnum átti ekki að leiða til skattalækkana því samhliða var skattstofninn breikkaður. Jafnframt benti ríkisskattstjóri á að hæpið sé að heimfæra tekjusveiflu og uppgang í efnahagslífi til skattalækkana. Engar óumdeildar kenningar séu til um að samasemmerki sé milli aukinna umsvifa og skattalækkana.
    Þjóðhagsstofnun bendir á í sinni umsögn að tekjuauki af auknum efnahagsumsvifum sé óviss og fyrir vikið sé hyggilegt að áætla hann varlega. Stofnunin bendir á að þótt gert sé ráð fyrir auknum umsvifum í efnahagslífinu fylgi því á hinn bóginn hærri viðskiptahalli, aukinn þrýstingur á laun og meiri verðbólga. Þetta leiði aftur til meiri ríkisútgjalda og auki halla á rekstri ríkisins. Í ljósi efnahagsþróunar að undanförnu og með hliðsjón af reynslu annarra þjóða bendir Þjóðhagsstofnun á að óbeinu áhrifin gætu orðið minni þar sem heimili og fyrirtæki eru mörg hver skuldsett og því líkur á því að skattalækkanir skiluðu sér ekki í meiri umsvifum heldur yrðu notaðar til að greiða niður skuldir.
    Þjóðhagsstofnun bendir á að það geti verið hagstætt að lækka skatta þegar niðursveifla er í efnahagslífinu, svo framarlega sem staða ríkissjóðs sé viðunandi og álagið á peningastefnuna ekki of mikið.
    Seðlabankinn segir í umsögn sinni að það sé hugsanlegt að jákvæð tekjuáhrif verði minni hér á landi en í flestum öðrum þróuðum ríkjum vegna þess að skattar á fyrirtæki séu þegar tiltölulega lágir. Ljóst er líka að skattalækkanir setja meiri kvaðir á stjórn peningamála og gætu minnkað svigrúm til vaxtalækkana. Í því sambandi er rétt að benda á að í svari Þjóðhagsstofnunar við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur kemur fram að meðalvextir á lán þyrfti að lækka um u.þ.b. 0,4 prósentustig til að skila fyrirtækjum og heimilum 8 milljarða kr. ávinningi á tveggja ára tímabili í formi lægri vaxtakostnaðar.

Áhrif á erlendar fjárfestingar.
    Embætti ríkisskattstjóra var beðið að leggja mat á áhrif þessara breytinga á erlendar fjárfestingar. Fram kemur í umsögn embættisins að áhrif skatta á erlendar fjárfestingar ráðast ekki eingöngu af íslensku lögunum heldur einnig af þeim ákvæðum sem við eiga í heimaríki fjárfestisins og reglum í alþjóðaskattlagningu, svo sem tvísköttunarsamningum. Orðrétt segir síðan: „Flest ríki á Vesturlöndum hafa sömu grunnreglu varðandi skattskyldu, þ.e. að þegnarnir eru skattlagðir á grundvelli allra tekna þeirra hvar svo sem þeirra er aflað. Enn fremur áskilja þau sér rétt til að skattleggja allar tekjur sem uppruna eiga í landinu óháð því hver er eigandi þeirra. Þetta þýðir að tekjur sem erlendir aðilar afla hér á landi eru skattskyldar í heimalandi fjárfestisins. Flest ríki taka í löggjöf sinni eða á grundvelli samninga tillit til skatta sem viðkomandi skattaðili greiddi í því landi sem tekjurnar eru upprunnar í. Áhrifin á arðsemi fjárfestingarinnar ræðst m.a. af því hvernig það er gert. Í sumum tilvikum, t.d. USA og Írland, er það gert með því að veita skattfrádrátt sem svarar til þess skatts sem greiddur var í upprunalandinu. Í þeim tilvikum hefur skattlækkun í upprunalandinu engin áhrif á fjárfestinn. Í öðrum tilvikum eru arðgreiðslur til móðurfélags undanþegnar skatti og áhrifin ráðast þá af þeim skatthlutföllum, sem í löndunum gilda. Lækkun skatta á lögaðila hefur því þegar um er að ræða erlendan eiganda tvíþætt áhrif. Hluti lækkunarinnar skilar sér í auknum skatttekjum hjá heimalandi fjárfestisins og hluti hjá fjárfestinum sjálfum.“
    Athyglisvert er einnig í þessu sambandi að Bandaríkin undanþiggja ekki tekjur erlendra dótturfélaga skattlagningu heima fyrir en veita frádrátt frá greiddum skatti sem nemur þeim skatti sem dótturfélagið greiddi í upprunalandi teknanna. Orðrétt segir ríkisskattstjóri í umsögn sinni: „Lækkun skatta á félög í upprunalandinu hefur því engin áhrif á heildarskattgreiðslur félaganna (móður- og dótturfélags) en færa skatttekjurnar frá upprunaríkinu til þess ríkis þar sem eigandinn hefur heimilisfesti og hefur það því ekki tilefni til gagnráðstafana.“ Í öðru lagi kemur fram í umsögn ríkisskattstjóra að ríki, sem hafa svokallaða CFC-löggjöf, geta skattlagt hagnað dótturfélaga, sem starfa á lágskattasvæðum, með tekjum móðurfélagsins heima fyrir. Slíkum reglum er fyrst og fremst beint gagnvart fjármálafélögum, sem ekki eru með neina raunverulega starfsemi í því ríki sem þau eru skráð í. Þó skattabreytingarnar hér á landi kunni að örva erlendar fjárfestingar hér á landi í einhverjum mæli er vafasamt að þær leiði til þess að erlendir fjárfestar muni hópast hingað af þeim sökum.


Skattar á einstaklinga lækki.

    Á síðasta áratug hefur tekjuskattur einstaklinga sem hlutfall af landsframleiðslu vaxið úr rúmlega 8% í tæplega 13%. Hjá öðrum ríkjum OECD-ríkjum í Evrópu er hann nú um 10%.
Ríkisskattstjóri hefur að ósk fulltrúa Samfylkingarinnar skilað til nefndarinnar áliti sínu á hver sé líkleg þróun í tekjusköttum einstaklinga vegna þessa og næsta árs.
    Þar kemur fram að við álagningu á þessu ári var almennur tekjuskattur og útsvar samtals um 95,5 milljarðar kr. og skattstofninn tæpir 394 milljarðar kr. Meðalskatthlutfallið var því um 24,2%. Samkvæmt staðgreiðsluskilum má ætla að launatekjur og skattstofn vegna tekjuársins 2001 verði um 430 milljarðar kr. eða 10% hærri en hann var á síðasta ári þegar hann var um 394 milljarðar kr.
    Ef gert er ráð fyrir að persónuafsláttur hækki eins og nú er gert ráð fyrir í lögum má reikna með að tekjuskattur og útsvar hækki um 13% að óbreyttum skatthlutföllum og verði þá 108 milljarðar króna. Lækkun skatthlutfallsins nú um 0,33% er talin svara til um 1,3 milljarða kr. og skatttekjurnar yrðu þá um 106,5 milljarðar kr. Meðaltalskatthlutfallið á næsta ári yrði um 24,8% eða um 0,6% hærra en á þessu ári þrátt fyrir 0,33% lækkun á skatthlutfalli. Auknar tekjur af tekjusköttum einstaklinga yrðu því um 11 milljarðar kr. þrátt fyrir lækkun á almenna skatthlutfallinu í tekjuskatti um 0,33%
    Upplýsingar sem fulltrúar Samfylkingarinnar óskuðu eftir frá Þjóðhagsstofnun sýna að tekjuskattur og útsvar á láglaunafólk og lífeyrisþega með tekjur undir 90 þús. kr. á mánuði er um 1 milljarður kr. á þessu ári. Þetta fólk fær nánast engar skattalækkanir, en verðlagsáhrifin sem verða um 0,3–0,4% vegna hækkunar á tryggingagjaldi munu rýra kjör þeirra.
    Athyglisvert er einnig í svari sem 1. minni hluti óskaði eftir frá fjármálaráðuneytinu að ef skattleysismörk hefðu fylgt launaþróun frá árinu 1995 væru þau nú 89.808 kr. á mánuði, sem sýnir að það er fyrst og fremst láglaunafólk og lífeyrisþegar sem hafa farið illa út úr skattastefnu ríkisstjórnarinnar. Ljóst er líka að frysting á skattleysismörkum hefur staðið undir skattalækkunum til fyrirtækja og tekjuhærri einstaklinga.
    Það er til marks um óréttláta skattstefnu þessarar ríkisstjórnar að lífeyrisþegar sem eingöngu hafa sér til framfærslu lífeyri almannatrygginga greiða nú um 70 þús. kr. í skatt á ári en það samsvarar um eins mánaðar lífeyrisgreiðslum þeirra. Á árinu 1995 þegar þessi ríkisstjórn komst til valda greiddu lífeyrisþegar með lágmarkslífeyri engan skatt. Það er skoðun 1. minni hluta að kanna verði nú þegar hvernig hægt er að draga úr skattlagningu á lágmarkslaun og lífeyri. Um það á að vera hægt að ná sátt í þjóðfélaginu að hafa sérstakan frádrátt á móti tekjum eða endurgreiðslu við álagningu eins og sums staðar þekkist.
    Samfylkingin mun því með ákvæði til bráðabirgða leggja til að nefnd verði skipuð með aðild aðila vinnumarkaðarins til að skoða leiðir til að minnka skatt af lágmarkslaunum og lífeyri. Jafnframt þarf að skoða kosti fjölþrepa skattkerfis með verulega lægra skattþrepi á tekjur undir 100–150 þús. kr.
    Samfylkingin hefur jafnframt efasemdir um að rétt sé, miðað við aðstæður í efnahagslífi og ríkisfjármálum, að hækka frítekjumörk í hátekjuskatti þegar á næsta ári vegna tekna þessa árs. Með því er verið að lækka skatta á einstaklinga með hærri tekjur um 600 millj. kr. Í svari ríkisskattstjóra við fyrirspurn 1. minni hluta kemur fram að þessi breyting leiði til þess að þeir sem eru með 2 millj. kr. í tekjur fá 6.600 kr. skattalækkun eða meðallækkun á skatthlutfalli um 0,3% . Á sama tíma fá þeir sem eru með 8 millj. kr. í tekjur skattalækkun sem nemur 104 þús. kr. eða meðallækkun á skatthlutfalli um 1,2% (fylgiskjal XIV). 1. minni hluti telur réttara að stíga skref til að lækka almennan tekjuskatt meira á árinu 2003.

    ASÍ gerir í sinni umsögn athugasemdir við hækkun frítekjumarks í hátekjuskatti. Þar segir: „Því hefur verið haldið fram að hátekjuskatturinn sé í raun bara skattur á meðaltekjur. Það er tvennt sem villir mönnum sýn hvað þetta varðar. Annars vegar virðast margir ekki átta sig á því að þegar hátekjuskattur er reiknaður fyrir fólk í sambúð, þá eru tekjur beggja aðila lagðar saman og það sem er yfir tvöföldum hátekjumörkum 2 x 280 þúsund á mánuði (tekjur ársins 2000) er skattlagt með hátekjuskattsprósentunni 7% aukalega.“ ASÍ heldur því fram og vísar þar til kjararannsóknarnefndar að þeir hópar sem ná upp að og yfir hátekjuskattsmörkin í launum séu ekki fjölmennir. Í töflu sem fylgir umsögn þeirra (fylgiskjal V) kemur fram að á árinu 2000 voru meðalatvinnutekjur hjóna og sambýlisfólks samtals 379.417 kr. á mánuði og meðalatvinnutekjur einstæðra foreldra 136.083 kr. á mánuði. Ef eingöngu er horft á meðaltekjur allra sem greiða tekjuskatt nettó eftir að bætur hafa verið dregnar frá tekjuskatti eru þær aðeins 193 þús. kr. á mánuði.
    Samfylkingin hefur rutt brautina fyrir því að þeir sem nýta takmarkaðar auðlindir í sameign þjóðarinnar greiði fyrir það sérstakt gjald. Stefna flokksins er að svigrúminu sem það skapar verði varið til að lækka tekjuskatta einstaklinga. Í samræmi við það leggur 1. minni hluti til að á árinu 2003 verði stiginn frekari áfangi í lækkun á almennum tekjusköttum einstaklinga og hann verði fjármagnaður með gjaldi sem tekið verði fyrir nýtingu fiskstofna. Í þeirri niðursveiflu sem nú er hafin í efnahagslífinu og samdrætti í hagkerfinu ætti það að hafa jákvæð áhrif á atvinnulífið og eftirspurn í hagkerfinu. Þetta er til dæmis í samræmi við þá leið sem hægri stjórnin í Danmörku hyggst fara. Hún ætlar að lækka nokkuð tekjuskatta á einstaklinga til að svara lægð í efnahagslífinu og hafa samtök atvinnulífs þar í landi lýst stuðningi við þá stefnu.

23% munur á skatthlutfalli launafólks og fyrirtækja.
    Eitt af því sem erfitt er að sætta sig við í skattatillögum ríkisstjórnarinnar er að þar er verið að færa skattbyrði í auknum mæli af fjármagni og eignum yfir á vinnuafl og launatekjur. Mesti munur á skatthlutfalli einstaklinga og lögaðila, nái skattatillögur ríkisstjórnarinnar fram að ganga, verður tæplega 23%. Þjóðhagsstofnun segir í umsögn sinni að það sé umhugsunarefni hversu mikið misræmi verði á milli skattlagningar einstaklinga og fyrirtækja með þessum breytingum.
    Sífellt stærri hluti heildarskattheimtu hefur verið fluttur yfir á tekjuskatt einstaklinga og hann er orðinn langtum stærri hluti af þjóðarframleiðslu en hann var fyrir nokkrum árum. Vegna meiri skattheimtu af einstaklingum eru skattleysismörkin nú lægri og meðalskatthlutföllin hærri en áður. Innan tekjuskattskerfisins hefur skattbyrði launatekna og lífeyris verið þyngd en skattur á tekjur og hagnað fjármagnseigenda og fyrirtækja hefur verið lækkaður verulega. Fyrirliggjandi skattalækkunartillögur ríkisstjórnarinnar staðfesta þessa þróun.
    Fyrsti minni hluti óskaði eftir umsögn ríkisskattstjóra um hvort 22–23% munur á skattlagningu einstaklinga og félaga þekktist annars staðar og hver væri algengur munur. Fram kom í svarinu að yfirleitt er munur á skattlagningu launatekna og heildarskattlagningu tekna af atvinnurekstri öfugt við það sem stefnt er að í frumvarpinu, þ.e. skattur á hagnað af rekstri er hærri en skattur á launatekjur. Í flestum löndum eru sameignarfélög ekki sjálfstæðir skattaðilar en hagnaður þeirra skattlagður með öðrum tekjum viðkomandi einstaklinga. Arður og söluhagnaður er í flestum löndum skattlagður eins og launatekjur eða sérskattaður með 20–25% til viðbótar við 25–35% skatt á félagið, þannig að heildarskattlagningin er 40–50%, sem er svipað eða hærra en hæsta skattþrep einstaklinga í flestum löndum.

    Embætti ríkisskattstjóra var beðið um álit á skattframkvæmd með tilliti til mismunandi skattlagningar á tekjum eftir uppruna þeirra. Hér fer á eftir svar ríkisskattstjóra:
    „Vandamálið við skattframkvæmd er að mismunandi skattlagning eftir tegundum tekna kallar á tilfærslu tekna í þau form, sem hafa hagstæðari skattlagningu. Miðað við ákvæði frumvarpsins verða:
     *      launatekjur ofan skattleysismarka skattlagðar með 38% til 45% skatti og mynda stofn til tryggingagjalds og skerðingar á barnabótum og vaxtabótum,
     *      hagnaður af sjálfstæðri starfsemi einstaklinga verður skattlagður með sama hætti en er ekki stofn til tryggingagjalds en er stofn til skerðingar á barnabótum og vaxtabótum,
     *      hagnaður af rekstri sameignarfélaga verður skattlagður með 26% en myndar hvorki stofn til tryggingagjalds né skerðingar á bótum,
     *      hagnaður af rekstri hlutafélaga verður skattlagður með rúmlega 26% en myndar hvorki stofn til tryggingagjalds né skerðingar á bótum.
    Ekki getur farið hjá því að tilhneiging til að færa tekjur sem hagnað félags mun stóraukast enda getur munur í skattlagningu orðið um 20% auk hærri bóta.“
    Um áhrifin sagði ríkisskattstjóri:
    „Bein tekjuáhrif af því að færa tekjur sem hagnað félaga eru þau helst:
     *      Tekjuskattar ríkisins lækka að því marki sem einstaklingsrekstur er færður í félagsform um 12–19% af rekstrarhagnaðinum og 15–22% af reiknuðu endurgjaldi að því leyti sem það kemur ekki fram sem laun hjá félaginu.
     *      Útsvar sveitarfélaga lækkar um u.þ.b. 12% (útsvarshlutfallið) af rekstrarhagnaðinum og reiknuðu endurgjaldi að því leyti sem það kemur ekki fram sem laun hjá félaginu.
     *      Vaxtabætur og barnabætur hækka sem svarar skerðingaráhrifum af rekstrarhagnaði og reiknuðu endurgjaldi að því leyti sem það kemur ekki fram sem laun hjá félaginu.
    Auk þessara beinu áhrifa á tekjur ríkis og sveitarfélaga má gera ráð fyrir öðrum ráðstöfunum sem auka kunna á tekjutapið og valda örðugleikum í framkvæmd. Má þar m.a. nefna:
     *      Aukin gerviverktaka og þá einnig í formi sameignarfélaga og einkahlutafélaga.
     *      Aukin gjaldfærsla einkaneyslu hjá félögum og erfiðari viðbrögð skattyfirvalda.“
    Um mögulegar úrbætur sagði ríkisskattstjóri:
    „Eina raunhæfa úrbótin til lengri tíma litið er að afnema mismun á skattlagningu einstaklinga eftir því hvernig tekjur þeirra eru til komnar. Það má t.d. gera með því að hafa skattlagningu á einstaklinga og sameignarfélög hina sömu og stilla skattlagningu hlutafélaga og fjármagnstekjuskatt þannig af að heildarskattlagning slíkra tekna sé hin sama og almennra tekna. Meðal ráðstafana, sem að auki gætu dregið úr mismuninum og tilhneigingu til að flytja til tekjur má nefna:
     *      Að allar tekjur, þ.m.t. fjármagnstekjur séu gerðar að andlagi sérstaka tekjuskattsins.
     *      Að rekstrarhagnaður sameignarfélaga sé gerður að andlagi sérstaka tekjuskattsins og látinn skerða bætur eins og aðrar tekjur.“
    Þetta álit ríkisskattstjóra staðfestir ótvírætt að stjórnarflokkarnir eru á rangri braut með skattastefnu sinni, sem stuðlar að ósanngirni og ójafnræði í skattlagningu bæði milli atvinnugreina og milli einstaklinga og lögaðila.


Varað við yfirfærslu á einkarekstri yfir í einkahlutafélög.

    Í 27. gr. frumvarpsins er verið að auðvelda yfirfærslu á einkarekstri yfir í einkahlutafélög með því að heimila breytinguna án þess að sú yfirfærsla hafi í för með sér skattskyldar tekjur fyrir einstaklinginn eða hlutafélagið.
    Mikil lækkun á tekjuskatti lögaðila eins og nú er fyrirhuguð mun hvetja einstaklinga í rekstri til að breyta rekstrinum í hlutafélag og færa með því hluta launa yfir á hagnað og arð og greiða þannig lægri skatta. Skattalegt hagræði og möguleikar til skattasniðgöngu eru svo miklir með þessum breytingum að leiða má að því líkur að einstaklingsrekstur leggist af með flutningi hans yfir í einkahlutafélög.
    Þetta er alvarleg þróun sem m.a. embætti ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóri, skattstjórar, Þjóðhagsstofnun, Seðlabanki og ASÍ vara öll við í umsögnum sínum. Skattstjóri Vesturlandsumdæmis orðar það svo í umsögn sinni að þessi breyting muni kalla á stórfelldan flutning atvinnurekstrar frá einstaklingsformi til félagaforms. Skattstjórinn í Reykjanesumdæmi segir í umsögn sinni að oft sé megintilgangurinn með stofnun einkahlutafélags sá að takmarka ábyrgð og skapa betri skilyrði til að komast hjá réttum skattgreiðslum; koma einkaútgjöldum til frádráttar og skapa skattahagræði með ýmiss konar fjármálagerningum við hlutafélagið.
    Þjóðhagsstofnun segir í sinni umsögn að þetta leiði óhjákvæmilega til tilhneigingar til að stofna fyrirtæki og notkunar fastafjármuna í stað vinnuafls umfram það sem hagkvæmt þætti við jafnari skattlagningu, auk þess að valda vandkvæðum við framkvæmd skattlagningar.
    Ríkisskattstjóri telur að aukinn munur í skattlagningu tekna muni leiða til aukinna vandamála við skattframkvæmd, sem erfitt og tafsamt verði að bregðast við. Líkleg afleiðing af þessum aukna mismun sé enn frekari flutningur á einstaklingsrekstri í félagsform og meiri tilhneiging en áður til að dulbúa launatekjur sem tekjur af atvinnurekstri. Ljóst er einnig að þessi breyting mun ýta undir gerviverktöku og auka skattasniðgöngu. Það kom m.a. fram hjá skattstjóra Reykjanesumdæmis. Jafnframt taldi hann að þótt herða ætti á reglum um reiknað endurgjald mundi það ekki miklu breyta um afleiðingar þessara breytinga.
    ASÍ lýsir sig algjörlega mótfallið þessum breytingum. Það telur nauðsynlegt að herða og skýra öll ákvæði sem snúa að einstaklingshlutafélögum og reiknuðu endurgjaldi almennt og sérstaklega ef lögfesta á þessa breytingu. Í umsögn ASÍ kemur fram að búast megi við mjög mikilli aukningu á fjölda einkahlutafélaga og sömuleiðis vandamála sem snerta launagreiðslur til eigenda. Erfitt sé að eiga við þessi vandamál þar sem skattyfirvöld verði þá að fara út í þá vinnu að véfengja vinnumagn eigenda í ljósi umfangs og eðlis starfseminnar, fjölda annarra starfsmanna o.s.frv. Megi ætla að við þetta mat halli verulega á skattyfirvöld varðandi sönnunarbyrði. Öll rannsókn og úrvinnsla mála verði mun flóknari í einstaklingshlutafélagi. Fleiri aðilar munu þurfa að koma að málum sem áður voru tiltölulega einföld.
    Áhrifanna af þessari breytingu gætir víða. Tryggingastofnun ríkisins bendir þannig á í umsögn sinni að þegar um einkahlutafélag er að ræða skipti máli hvernig afraksturinn skiptist á milli reiknaðs endurgjalds og arðgreiðslna. Ástæðan sé sú, að einungis 50% arðstekna koma til útreiknings þeirra tekna sem skerða tekjutengda bótaflokka. Skerðing bóta vegna tekna verður því minni hjá aðila sem fær endurgjald frá rekstri í formi arðgreiðslu frá einkahlutafélagi en hjá þeim sem fær endurgjald í formi hagnaðar frá einstaklingsrekstri.
    Ljóst er að yfirfærsla úr einkarekstri yfir í einkahlutafélag leiðir ekki einungis til verulegra skattalækkana, heldur hefur það áhrif á bótagreiðslur í almannatryggingakerfinu og skattkerfinu, eins og greiðslur vaxta- og barnabóta. Með því að taka verulegan hluta tekna út í formi arðs og söluhagnaðar skapast því einnig möguleikar til ýmissa tekjutengdra bótagreiðslna.
    Skattstjórinn í Reykjanesumdæmi vekur einnig athygli á hvernig menn leika sér með tilfærslur milli reiknaðs endurgjalds (tekjur sem ríkisskattstjóri áætlar á sjálfstæða atvinnurekendur) og hagnaðar á skattframtölum, en skattaleg meðferð þessara tekna ræður verulegu um það hvernig framteljendur haga skiptingu þeirra.
    Orðrétt segir skattstjórinn: „Við álagningu 1985–87 var hreinn hagnaður sem hlutfall af reiknuðu endurgjaldi um 16%. Þessi ár var almennt ávinningur af því að reiknaða endurgjaldið væri sem hæst á kostnað hagnaðarins vegna 10% frádráttarreglu launa. Við álagningu 1988 vegna „skattlausa“ ársins jókst ávinningurinn af því að hafa sem minnstan hagnað á kostnað reiknaða endurgjaldsins og datt hann þá niður í 10,68% af endurgjaldinu. Við álagningu 1989 er 10% frádráttarreglan ekki lengur í gildi og vegna tryggingagjaldsins, sem leggst á reiknað endurgjald en ekki hagnað, er gjaldendum nú hagstæðara að auka hagnaðinn á kostnað endurgjaldsins. Það sagði strax til sín við fyrstu framtalsgerð þar sem hlutfall hagnaðar af reiknuðu endurgjaldi fór í 28,77% og við álagningu 1990 í 33,16%. Við síðustu álagningu var þetta hlutfall svo komið í 58,47%.“
    Athyglisverð tafla fylgir með umsögn skattstjórans sem sýnir þessa þróun (fylgiskjal VI), en þar kemur m.a. fram að reiknað endurgjald við eigin atvinnurekstur var tæplega 3,3 milljarðar kr. árið 1985 en rúmlega 17 milljarðar kr. á árinu 2001. Hreinn hagnaður af tekjum af eigin rekstri var aftur á móti rúmlega 518 millj. kr. 1985 en rúmlega 10 milljarðar kr. árið 2001. Hreinn hagnaður sem hlutfall af reiknuðu endurgjaldi var þannig 15,74% árið 1985 en 58,47% árið 2001.
    Ríkisskattstjóri var beðinn um álit á breyttum reglum um reiknað endurgjald, en í breytingartillögum meiri hlutans er gert ráð fyrir hertum reglum þar að lútandi.
    Hér fer svar ríkisskattstjóra: „Reglur um reiknað endurgjald eru tilraun til að draga úr tilfærslum úr launum í rekstrarhagnað. Bættar reglur um þær eru mikils virði en munu aldrei leysa úr vandamálinu. Eðli máls samkvæmt verða slíkar matsreglur ætíð lágmark þannig að einhver hluti launa mun færast yfir í rekstrarhagnað. Auk þess eru slíkar reglur erfiðar í framkvæmd og munu kosta mikið. Fjöldi einstaklinga í rekstri er yfir 25.000 og einkahlutafélög og sameignarfélög eru yfir 10.000. Búast má við að álag á skattstofur og yfirskattanefnd aukist stórlega og verður óhjákvæmilegt að gera ráð fyrir því í fjárveitingum þegar á næsta ári.
    Hluti af þeim fyrirsjáanlega tekjutilflutningi sem bent hefur verið á er þess eðlis að reglur um reiknað endurgjald eða aðrar aðgerðir skattyfirvalda hafa ekkert að segja. Breyting á einkarekstri í sameignarfélag eða einkahlutafélag er eingöngu háð ákvörðun viðkomandi aðila og hafa skattyfirvöld ekkert um slíka formbreytingu að segja. Tilfærsla á tekjum úr hagnaði af einkarekstri í hagnað félags er því alveg óháð reglum um reiknað endurgjald og þær því engin vörn gagnvart tekjutapi sveitarfélaga og ríkis af þeim ástæðum.“
    Ljóst er af framangreindu að vandamálið stendur að stærstum hluta eftir þótt reynt sé að herða að reglum um reiknað endurgjald, auk þess sem það skapar mikil vandamál í allri framkvæmd í skattkerfinu, enda reglurnar mjög matskenndar. Bent hefur verið á að þetta mun kalla á aukinn mannafla í skattkerfinu, ef hægt á að vera að hafa eftirlit með framkvæmdinni.
    Meira jafnræði í skattlagningu milli lögaðila og einstaklinga og milli tekna af fjármagni og launa mundi girða fyrir óeðlilega yfirfærslu úr einstaklingsrekstri yfir í einkahlutafélög með tilheyrandi skattasniðgöngu.
    Fyrsti minni hluti leitaði eftir útreikningum hjá embætti ríkisskattstjóra á áhrifum þess að einkarekstri væri breytt í einkahlutafélög. Þar kemur fram að ef allir þeir sem við álagningu þessa árs hefðu haft skattalegt hagræði af því, og höfðu tekjur yfir skattleysismörkum, hefðu breytt einkarekstri í einkahlutafélag hefði það þýtt rúmlega 1 milljarðs kr. tekjutap fyrir sveitarfélög og 500 millj. kr. tap fyrir ríkissjóð.
    Fyrsti minni hluti varar alvarlega við afleiðingum þessara breytinga. Hann telur þær tillögur sem meiri hlutinn leggur til varðandi hertar reglur um reiknað endurgjald litlu breyta um óæskileg áhrif þessarar skattaaðgerðar ríkisstjórnarinnar. Hún mun í senn auka ójafnræði í skattlagningu og stuðla að skattasniðgöngu með tilheyrandi tapi fyrir ríki og sveitarfélög.

Gróði kvótaeigenda vegna skattalækkana.
    Ljóst er að sá hvati sem nú er fyrir hendi til að breyta einkarekstri í einkahlutafélög getur haft veruleg áhrif til skattalækkunar fyrir marga hópa, ekki síst kvótaeigendur. Samkvæmt útreikningum sem Þjóðhagsstofnun gerði fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur kemur fram að Þjóðhagsstofnun metur að hreinn söluhagnaður, ef allar aflaheimildir yrðu nú seldar á markaðsverði, væri á bilinu 165–215 milljarðar kr. Lækkun skatta vegna kvóta í eigu hlutafélaga verður 11% samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar, vegna kvóta í eigu sameignarfélaga um 12% og í eigu einstaklinga sem breyta rekstrarformi sínu í einstaklingsrekstur um 12–19%, eftir því hvort viðkomandi greiddi áður hátekjuskatt.
    Samkvæmt þessu er skattalækkun á söluhagnað vegna kvóta að lágmarki 11–12% eða jafnvel meira. Það færir kvótaeigendum 18–26 milljarða kr. í skattalækkun miðað við markaðsvirði aflaheimilda í dag, yrðu þær allar seldar. Allt söluverð aflaheimilda, keyptra sem úthlutaðra, að frádregnu bókfærðu verði keyptra aflaheimilda, myndar skattskyldan söluhagnað sem rekstrartekjur. Um leið og Alþingi samþykkir þessa skattalækkun hefur kvótaeigendum verið færð á silfurfati skattalækkun upp á 18–26 milljarða kr., hvort sem þeir svo kjósa að eiga kvótann lengur eða skemur eða hvort þeir leysa strax til sín skattalækkunina með því að selja kvótann.
    Söluhagnaði af kvóta er eingöngu hægt að fresta með kaupum á öðrum kvóta og kemur hann því ekki til skattlagningar fyrr en viðkomandi einstaklingur eða lögaðili hættir rekstri. Söluhagnaður og skattgreiðslur af honum dreifist því oft á lengri tíma. Hins vegar má gera ráð fyrir að söluhagnaðurinn komi að einhverju leyti fram við sölu hlutabréfa í sjávarútvegsfyrirtækjum. Þar sem skattkvöðin sem á kvótanum hvílir lækkar mun þessi breyting leiða til þess að verð mun hækka jafnt á kvóta sem hlutabréfum í fyrirtækjum sem eiga kvóta. Þar með mun söluhagnaður eigendanna hækka.
    Ekki er ólíklegt að eigendur fyrirtækja nýti sér þessa miklu skattalækkun og selji úr þeim eignir sem hafa verið afskrifaðar og fela því í sér óskattlagðan hagnað frá fyrri árum. Sama á við um kvótann. Vel má því vera að kvótaeigendur nýti þá hagstæðu stöðu sem skapast með skattalækkuninni og innleysi fyrr en seinna til sín gróðann af þessari rausnarlegu gjöf sem ríkisstjórnin er að færa þeim.

Andstaða við hækkun tryggingagjalds.
    Samfylkingin telur að varhugavert sé við núverandi aðstæður að hækka tryggingagjald. 1. minni hluti óskaði því eftir útreikningum frá embætti ríkisskattstjóra á áhrifum hækkunar tryggingagjalds. Spurt var um hver álagður tekjuskattur og tryggingagjald á lögaðila hefði orðið, skipt milli skattumdæma, ef skattabreytingar ríkisstjórnarinnar hefðu verið komnar til framkvæmda við síðustu álagningu. Þetta er niðurstaðan:

Breyting á sköttum og tryggingagjaldi eftir umdæmum.



Skattumdæmi
Lækkun skatta

Hækkun
tryggingagjalds


Mismunur
Reykjavík 3.365 1.728 - 1.637
Reykjanes 966 493 - 473
Vesturland 121 118 - 3
Vestfirðir 75 64 - 11
Norðurland vestra 81 78 - 3
Norðurland eystra 194 201 7
Austurland 57 89 32
Suðurland 205 92 - 113
Vestmannaeyjar 23 43 20

    Þetta sýnir ljóslega að það eru fyrst og fremst fyrirtæki sem skila verulegum hagnaði á höfuðborgarsvæðinu sem hafa ávinning af breytingunni. Norðurland eystra, Austurland og Vestmannaeyjar tapa á henni. Hér er því greinilega á ferðinni sérstakur landsbyggðarskattur. Hann staðfestir betur en allt annað að það er engin innstæða á bak við tal stjórnarliða um að nauðsynlegt sé að rétta hlut landsbyggðarinnar.
    Í því sambandi er vert að benda á að meginniðurstaða í könnun Þjóðhagsstofnunar á hvernig tekjur, laun og hagnaður skiptast eftir landshlutum var sú að fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu fái rúmlega 85% af ávinningi vegna skattalækkana en greiði 65% af hækkun tryggingagjaldsins. Fyrirtæki á landsbyggðinni fái aftur á móti tæplega 15% af ávinningi skattalækkana en greiði um 35% af hækkun tryggingagjaldsins.
    Í fylgiskjali XV kemur fram athyglisverð tafla sem sýnir áhrifin af hækkun tryggingagjalds á einstök sveitarfélög.
    Útreikningar embættis ríkisskattstjóra sýna líka að hækkun á tryggingagjaldi verður afar þungbær fyrir fyrirtæki, sennilega flest lítil og meðalstór, sem eru með mikla launaveltu og greiða þar af leiðandi hátt tryggingagjald. Sömuleiðis á einyrkja og þá sem taka laun samkvæmt verktakagreiðslum. Hækkun tryggingagjalds á þessa aðila stendur í verulegum mæli undir tekjuskattslækkun stórra fyrirtækja sem skila miklum hagnaði. Það eru því fyrst og fremst lítil og meðalstór fyrirtæki sem borga brúsann af tekjuskattslækkun stórfyrirtækja sem skila hagnaði, en þau hagnast fyrst og fremst á þessum skattabreytingum ríkisstjórnarinnar.
    Fyrsti minni hluti varar mjög við því að fyrirtæki í nýsköpun og þekkingariðnaði fara sérstaklega illa út úr fyrirhugaðri hækkun á tryggingagjaldinu. Það er röng skattastefna og gengur gegn því sem Samfylkingin vill leggja áherslu á. Framtíðarmöguleikar þjóðarinnar og bætt lífskjör liggja fyrst og fremst í því að hlúa að mannauð og menntun þjóðarinnar.
    ASÍ gagnrýnir hækkun tryggingagjaldsins í umsögn sinni og telur að með því sé verið að hækka launakostnað fyrirtækja án þess að það skili sér í bættum kjörum launafólks. Með þessu sé ríkissjóður líka að þrengja að því svigrúmi sem aðilar vinnumarkaðarins hafa til að semja um bætt kjör launafólks. ASÍ bendir á að áhrif hækkunar tryggingagjalds á vísitölu neysluverðs séu þau sömu og ef um launahækkun til launafólks væri að ræða. Með þessari breytingu yrði því kaupmáttur launafólks skertur. Alþýðusamband Íslands leggst eindregið gegn því að þessi breyting verði að lögum. Orðrétt segir í umsögn ASÍ: „Um slíka breytingu hlýtur að verða grundvallarágreiningur og er hún lítt til þess fallin að stuðla að sátt á vinnumarkaði.“

    Þjóðhagsstofnun bendir sérstaklega á það í sinni umsögn að skattbyrði fyrirtækja með mikinn launakostnað þyngist að jafnaði, svo sem þekkingarfyrirtækja og þjónustufyrirtækja. Fram kemur í umsögn stofnunarinnar að búast megi við að breytingin komi verst við þau fyrirtæki er byggja starfsemi sína upp á mannauði, þ.e. hafa hlutfallslega mikinn launakostnað. Bendir stofnunin á að þekkingarfyrirtæki sem eru á frumkvöðlastigi í rannsóknum og þróun án þess að hafa tekjur á móti njóta ekki lækkunar tekjuskatts fyrr en eftir langan tíma. Orðrétt segir svo í umsögn Þjóðhagsstofnunar:
    „Einnig er vert að benda á að álagður tekjuskattur hjá lögaðilum mun skerðast verulega á næstu tveimur árum vegna rekstrartapa á þessu og síðasta ári vegna gengisbreytinga. Útlit er fyrir að það verði fyrst og fremst fjármálafyrirtæki, þ.e. lánastofnanir og tryggingafélög sem muni greiða tekjuskatt á næstu tveimur árum. Því mun lækkun tekjuskatts í byrjun nýtast tiltölulega litlum hluta atvinnurekstrar en hækkun tryggingagjalds kemur fram strax.“ Jafnframt bendir stofnunin á að verðlagsáhrif hækkunar tryggingagjalds verði svipuð og um samsvarandi hækkun launa væri að ræða. Þannig gefa útreikningar byggðir á verðbólgulíkani stofnunarinnar þá niðurstöðu að verðlagsáhrifin verði á bilinu 0,3–0,4% á árunum 2003– 2004.
    Samtök atvinnulífsins benda á í umsögn sinni að hækkun tryggingagjaldsins feli í sér verri rekstrarskilyrði hjá mörgum fyrirtækjum, einkum í vinnuaflsfrekri starfsemi þar sem erfitt eða ógerlegt sé að bæta kostnaðarhækkanir upp með verðhækkunum.
    Í umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar kemur fram að hækkun tryggingagjalds valdi a.m.k. 105 millj. kr. kostnaðarauka fyrir atvinnugreinina og samtökin vara við að lagðar séu auknar heildarálögur á fyrirtæki í ferðaþjónustu sem hafa átt við rekstrarerfiðleika að etja.
    Verslunarráð Íslands bendir á að í greinargerð sé hækkun tryggingagjalds rökstudd með þeim hætti að með því sé verið að vega upp á móti minnkandi skatttekjum ríkissjóðs vegna lækkunar tekju- og eignarskatta. Orðrétt segir síðan: „Í því sambandi má hins vegar benda á, að samkvæmt lögum um tryggingagjald skal það renna til ákveðinna skilgreindra verkefna, en ekki til að standa straum af almennum útgjöldum ríkissjóðs. Skýring sú sem fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu stenst því ekki lög.“ Að mati Verslunarráðs er því ríkisstjórnin að ganga gegn lögum landsins með þessari tillögu. Verslunarráðið vekur líka athygli á því að þessi hækkun leiði til verulegs útgjaldaauka fyrir alla atvinnustarfsemi í landi, hvernig sem afkoman er. Lýsir ráðið áhyggjum sínum af þessari hækkun og getur ekki stutt hana.
    Að mati Sambands íslenskra sveitarfélaga mun hækkun tryggingagjalds hafa áhrif á afkomu sveitarfélaga sem nemur a.m.k. 500–550 millj. kr. Þar til viðbótar komi hækkun tryggingagjalds í tengslum við verktakavinnu fyrir sveitarfélögin, bæði er varðar rekstur og fjárfestingar.
    Tekjuauki ríkissjóðs af hækkun tryggingagjalds úr 5,23% í 6% er 3,3–3,5 milljarðar kr. að mati Þjóðhagsstofnunar, en þar sem ríkið er launagreiðandi aukast útgjöld ríkissjóðs vegna hækkunar tryggingagjalds um 600–700 millj. kr., þannig að brúttóáhrif á tekjur ríkissjóðs af hækkun tryggingagjalds verða 2,5 milljarðar kr.
    Samfylkingin beindi fyrirspurn til embættis ríkisskattstjóra um hvor leiðin væri vænlegri almennt fyrir fyrirtækin, hækkun tryggingagjalds eins og ríkisstjórnin áformar eða hækkun á fjármagnstekjuskatti sem skilaði svipuðum tekjum.
    Eftirfarandi er svar ríkisskattstjóra: „Ekki er auðvelt að bera saman áhrifin af þessum sköttum á fyrirtæki þar sem þeir eru svo ólíkir. Tryggingagjald er skattur sem leggst á launaútgjöld fyrirtækja og hefur áhrif á hagkvæmni rekstrarins og rekstrarafkomu fyrirtækjanna. Til lengri tíma litið ráðast áhrifin af því að hve miklu leyti hækkuninni er velt yfir á launþegana með því að laun lækki eða hækki minna en ella sem hækkun gjaldsins nemur. Að því leyti sem skattinum er ekki velt yfir á launþegana breytir skatturinn jafnvægi milli vinnuafls og fjármagns með því að vinnuafl verður dýrara. Fjármagnstekjuskattur er hins vegar ekki skattur á atvinnurekstur og breytir ekki skilyrðum hans.“
    Af framansögðu er morgunljóst að hækkun tryggingagjalds er algjörlega vanhugsuð og mun leiða til erfiðleika og jafnvel uppsagna starfsfólks hjá mörgum fyrirtækjum.
    Samfylkingin er mótfallin hækkun tryggingagjalds við núverandi aðstæður. 1. minni hluti lýsir sig andvíga henni. Hækkun tryggingagjalds mismunar atvinnufyrirtækjum og getur leitt til verulegra rekstrarerfiðleika hjá fjölda fyrirtækja. Átelur 1. minni hluti ríkisstjórnina sömuleiðis fyrir að leggja sérstakan skatt á landsbyggðina með þessum hætti.

Verulegt tekjutap sveitarfélaga.
    Samfylkingin hefur lengi haft á stefnuskrá sinni að afnema skattlagningu á húsaleigubætur. Þingmenn Samfylkingarinnar hafa mörgum sinnum lagt fram frumvarp þess efnis. 1. minni hluti fagnar því að nú er loks stigið það mikilvæga skref að afnema skattlagningu á húsaleigubætur. Þar er hins vegar ekki nógu langt gengið til að afnema skatta á þá sem verst hafa það í samfélaginu. Samfylkingin hefur margsinnis lýst yfir að af hennar hálfu komi ekki til greina að lækka skatta á fyrirtæki, nema einnig verði felld niður skattskylda á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Samfylkingin telur fráleitt að skattleggja fjárhagsaðstoð fátæks fólks sem ekki á fyrir allra brýnustu nauðþurftum. 1. minni hluti telur því að tillaga um að fella niður skatt á félagslegar bætur hefði að sjálfsögðu átt að fylgja tillögum ríkisstjórnarinnar um aðrar skattalækkanir, og leggur því fram sérstaka tillögu um það. Tekjutap fyrir ríkið er lítið eða um 120–135 millj. kr. samkvæmt lauslegu mati Þjóðhagsstofnunar.
    Samband íslenskra sveitarfélaga metur að afnám skattlagningar á húsaleigubætur feli í sér 80–90 millj. kr. tekjutap fyrir sveitarfélögin. Sambandið metur tekjutap vegna hækkunar tryggingagjaldsins 500–550 millj. kr. Því til viðbótar komi hækkun tryggingagjalds í tengslum við verktakavinnu fyrir sveitarfélögin bæði er varðar rekstur og fjárfestingar. Samband íslenskra sveitarfélaga og Þjóðhagsstofnun benda á að skattalagabreytingarnar muni rýra tekjur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, en sjóðurinn hefur m.a. tekjur af framlagi ríkissjóðs sem nemur 1,4% af tekjum ríkissjóðs af beinum og óbeinum sköttum.
    Af útreikningum ríkisskattstjóra má síðan ráða að tekjutap sveitarfélaga af yfirfærslu einstaklingsrekstrar yfir í einkahlutafélög geti orðið mjög mikið. Útreikningar ríkisskattstjóra sýna að hefðu skattabreytingarnar verið komnar til framkvæmda vegna álagningar á þessu ári, og allir í einstaklingsrekstri sem voru með tekjur yfir skattleysismörkum breytt rekstri sínum í einkahlutafélög, þar sem þeir hefðu haft af því skattalegt hagræði, væri tekjutap sveitarfélaga um 1.053 millj. kr. (fylgiskjal VII). Jafnframt kemur fram, sundurliðað eftir skattumdæmum, tekjutap sveitarfélaga miðað við þrjár mismunandi forsendur um yfirfærslu yfir í einkahlutafélög.
    Í umsögn frá Reykjavíkurborg kemur fram að líkleg afleiðing af því að einkarekstur verði færður í einkahlutafélög sé að einstaklingum með rekstur fækki verulega og jafnvel að það rekstrarform leggist af. Áætlar Reykjavíkurborg að tekjutap sveitarfélaganna verði 1.318 millj. kr. ef allir einstaklingar með rekstur stofna um hann einkahlutafélag. Tekjutap Reykjavíkurborgar einnar er áætlað 520 millj. kr.
    Ekki er óeðlilegt að ætla að þegar öllu er til haga haldið verði tekjutap sveitarfélaga af þessum skattabreytingum á bilinu 1,5–1,8 milljarðar kr. 1. minni hluti gagnrýnir að ekki hafi verið haft samráð við sveitarfélögin um svo veigamiklar skattabreytingar sem rýra verulega tekjur sveitarfélaga. Verður ekki annað séð en að hér sé um skýlaust brot að ræða á fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga og reglum sem þessir aðilar hafa sett sér þar að lútandi.

Lækkun eignarskatta — hækkun fjármagnstekjuskatts.
    Veigamiklar breytingar eru lagðar til á lækkun eignarskatta. Í fyrsta lagi er eðlileg og sjálfsögð breyting gerð á hækkun fríeignamarka í eignarskatti um 20% vegna eigna í árslok 2001 til að koma í veg fyrir hækkun eignarskatta vegna sérstakrar hækkunar á fasteignamati. 1. minni hluti minnir á loforð fjármálaráðherra í því sambandi um að hækkun á fasteignamati mundi ekki leiða til skattahækkana.
    Þar þurfa fleiri atriði að koma til skoðunar því hækkun á fasteignamati hefur áhrif á vaxtabætur, erfðafjárskatt og stimpilgjöld. Samkvæmt mati fjármálaráðuneytisins gætu áhrifin orðið þau að vaxtabætur lækkuðu um 170 millj. kr. verði ekkert að gert. 1. minni hluti telur að forsenda fyrir lokaafgreiðslu frumvarpsins sé að fyrir liggi hvernig bregðast eigi við skattalegum áhrifum hækkunar fasteignamatsins í heild sinni.
    Lækkun á almenna eignarskattinum á lögaðila og einstaklinga um helming eða úr 1,2% í 0,6% í árslok 2002 hefur í för með sér 3,1 milljarðs kr. tekjutap fyrir ríkissjóð. Afnám sérstaka eignarskattsins á einstaklinga og lögaðila leiðir síðan til 800 millj. kr. tekjutaps ríkissjóðs. Tafla frá fjármálaráðuneytinu (fylgiskjal IX) sýnir greiðendur eignarskatta við álagningu 2001 ásamt tekjudreifingu.
    Það er skoðun Samfylkingarinnar að skynsamlegra sé að fara hægar í lækkun eignarskatts á lögaðila en stíga fremur skref í að afnema stimpilgjöld sem nýtast mun bæði einstaklingum og atvinnurekstri, ekki síst minni fyrirtækjum eins og vikið er að síðar. 1. minni hluti mun því leggja til að eignarskattur fyrirtækja lækki úr 1,2% í 0,9% en ekki í 0,6% eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Í stað þess er lagt til að þriðjungur stimpilgjalds verði afnuminn 1. janúar 2003.
    Í umsögn ASÍ er það gagnrýnt að dregið sé úr skattlagningu á eignum og fjármagni án þess að endurskoðun sé gerð á skattlagningu fjármagnstekna. Rök ASÍ eru þau að skoða þurfi skattlagningu eigna og fjármagnstekna út frá því markmiði að það sé afrakstur eignanna sem verði skattlagður, hvort sem það er leiga, vextir eða arður, en ekki eignin sem slík. Í umsögn ASÍ kemur fram að hefði áætluðu tekjutapi verið mætt að hluta til eða að öllu leyti með hækkun fjármagnstekjuskatts hefði yfirbragð þessara aðgerða verið allt annað og betra. Slík skattkerfisbreyting hefði stuðlað að því að jafna samkeppnisstöðu mismunandi eignarforma á fjármálamarkaði, og einkennst af innbyrðis jafnvægi á milli kosta og galla.
    Það er skoðun 1. minni hluta líkt og ASÍ að skoða eigi mikla lækkun eignarskatta í samhengi við fjármagnstekjuskatt. Fjármagnstekjuskattur er hvergi lægri en á Íslandi í ríkjum OECD. Þetta kemur glöggt fram í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um skattlagningu fyrirtækja og einstaklinga. Þar er sýnd tafla um skattlagningu hagnaðar í helstu aðildarríkjum OECD (fylgiskjal X). Í ríkjum OECD er algeng 25–40% skattlagning á arð og raunar allt upp í 48%, en á móti er í flestum þessara landa lágt skatthlutfall eignarskatta.
    Fyrsti minni hluti telur að fremur en að hækka tryggingagjald eigi að fara þá leið til að afla tekna vegna þessara skattkerfisbreytinga að hækka fjármagnstekjuskatt lítillega á móti verulegri lækkun á eignarskatti. Það nær mun betur markmiði jafnræðis og sanngirni í skattkerfinu. Það dregur líka úr óeðlilegum hvata til yfirfærslu úr einstaklingsrekstri yfir í einkahlutafélög í þeim tilgangi að komast hjá eðlilegri skattlagningu launatekna. Slíkar skattabreytingar stuðla líka að því að bilið milli skattlagningar á laun og fjármagn verði ekki óeðlilega mikið eins og margir hafa varað við. En því meira sem bilið er því meiri er hvatinn til að nota slíka yfirfærslu fyrst og fremst til skattasniðgöngu. Loks felst í slíkri skattkerfisbreytingu meira jafnræði í skattlagningu milli atvinnugreina. Hækkun tryggingagjalds gengur þvert á slík markmið.
    Fyrsti minni hluti leggur því til að í stað hækkunar á tryggingagjaldi verði fjármagnstekjuskattur hækkaður úr 10% í 16% sem gefur brúttó um 2,4 milljarða kr. í tekjur. Er það miðað við endurskoðaða tekjuáætlun fjárlaga fyrir næsta ár þar sem gert er ráð fyrir að fjármagnstekjuskattur gefi 1 milljarði kr. meiri í tekjur á ári en áætlað var. Á móti komi sérstakt frítekjumark í fjármagnstekjuskatti. Þannig greiði einstaklingar með fjármagnstekjur að 100 þús. kr. og hjón með fjármagnstekjur að 200 þús. kr. ekki fjármagnstekjuskatt. Með þessari leið væri verið að létta fjármagnstekjuskatti af hóflegum sparnaði, en fá samt í viðbótartekjur tæplega 1,7 milljarða kr.
    Þessar tillögur mundu leiða til þess að fjármagnstekjuskattur mundi fyrst og fremst aukast hjá þeim sem hafa miklar fjármagnstekjur. Í töflu (sjá fylgiskjal XI) kemur fram að af 24,5 milljarða kr. fjármagnstekjuskattsstofni eiga 10% framteljenda 16 milljarða kr. af stofninum. 8 milljarðar kr. skiptast því á þau 90% framteljenda sem eftir eru. Einnig má benda á að verið væri að lækka verulega eignarskatt og afnema sérstakan eignarskatt og má ætla að að verulegu leyti sé um sama fólk að ræða sem á miklar eignir í fjármagni og föstum eignum.
    Þannig er ljóst að í heildina tekið væri ekki verið að auka skattbyrðina, þrátt fyrir lítillega hækkun á fjármagnstekjuskatti sem skila mundi nettó um 1,7 milljörðum kr. eftir að tillit hefur verið tekið til frítekjugólfs. Á móti lækkuðu eignarskattar um 3,4–3,5 milljarða kr. samkvæmt þeim tillögum sem 1. minni hluti setur fram.
    Samkvæmt útreikningum frá embætti ríkisskattstjóra eru greiðendur fjármagnstekjuskattsins 78.566 en þeir greiða samtals 3.290 millj. kr. Ef fjármagnstekjuskattur færi í 16% og frítekjumark yrði 100 þús. kr. hjá einstaklingum og 200 þús. kr. hjá hjónum, eins og fulltrúar Samfylkingarinnar leggja til, fækkaði þeim sem greiða fjármagnstekjuskatt um 55.841 og yrðu 22.725 (fylgiskjal XII). Hér er því um að ræða tillögu sem fækkar verulega í hópi þeirra sem greiða fjármagnstekjuskatt. Í fylgiskjali XII hefur ekki verið gert ráð fyrir þeim tekjuauka sem reikna má með vegna endurskoðaðar tekjuáætlunar fjárlaga næsta árs sem sýnir auknar tekjur um 1 milljarð kr. af fjármagnstekjuskattti. Að teknu tilliti til þeirra áhrifa verða nettóahrif af tillögum 1. minni hlutans í fjármagnstekjuskatti um 1,7 milljarðar kr.

Fjármagnstekjuskattur og fjárflótti.
    Fyrsti minni hluti óskaði eftir að fá svör frá embætti ríkisskattstjóra um hvort hætta væri á að hækkun fjármagnstekjuskatts mundi leiða til fjárflótta úr landi og tekjutaps af þeim sökum.
    Spurningar til ríkisskattstjóra voru þessar:
    Því er haldið fram að hækkun fjármagnstekjuskatts muni leiða til fjárflótta úr landi og tekjutaps af þeim sökum. Hver eru rökin fyrir slíkum fullyrðingum? Sérstaklega var spurt um:
     *      Eru skattar á fjármagnstekjur annars staðar lægri?
     *      Losna menn eða félög undan skattlagningu hér ef þeir geyma fé sitt annars staðar?

    Svör ríkisskattstjóra fara hér á eftir:
    „Varðandi hættu á því að breyting á fjármagnstekjuskatti muni hafa í för með sér fjárflótta úr landi af skattalegum ástæðum skal bent á eftirfarandi:
    Fjármagnstekjur íslenskra skattborgara eru skattskyldar hér á landi með sama hætti hvort sem þær eru upprunnar hér eða erlendis. Til að koma þeim undan skatti nægir því ekki að flytja féð úr landi heldur þarf einnig að leyna því og tekjum af því fyrir skattyfirvöldum hér og skattyfirvöldum viðkomandi lands sem oft eru skuldbundin til að veita íslenskum skattyfirvöldum upplýsingar. Tilfærsla á fé er því ekki nægileg heldur þarf skattsvik til viðbótar.
    Skattar á fjármagnstekjur eru í flestum löndum verulega hærri en hér á landi. Það hefur í þeim löndum ekki leitt til fjárflótta úr þeim í þeim mæli að það hafi verið talið tilefni til að lækka þá skatta. Það þýðir enn fremur að flutningur á fé til þessara landa án áframhaldandi skattskyldu hér hefði ekki skattalegt hagræði í för með sér.
    Til að meta líkurnar á fjárflutningum úr landi þarf að hafa í huga hvernig fjármagnstekjur hér eru samsettar og hversu líklegt er að þær verði fluttar. Um 40% fjármagnstekna eru vaxtatekjur af innistæðum í íslenskum bönkum, önnur 40% eru söluhagnaður af hlutabréfum í íslenskum félögum og um 20% eru arður af hlutabréfum í íslenskum félögum.“

Afnám verðbreytingarfærslu.
    Lagt er til í frumvarpinu að hverfa frá verðleiðréttum reikningsskilum. Rökin eru þau að verðbólguleiðrétting í lágri verðbólgu hafi ekki sömu þýðingu og þegar mikil verðbólga ríkir. Veigamikil rök eru líka að með þessari breytingu verða íslensk reikningsskil og erlend samanburðarhæf, en ekkert annað OECD-ríkjanna en Ísland leiðréttir reikningsskil fyrir áhrifum verðbólgu þrátt fyrir að nokkur verðbólga sé í þeim ríkjum.
    Með því að falla frá verðleiðréttum skattskilum er farið að skattleggja nafnverðsafkomu í stað raunverðsafkomu, en verðbólgureikningsskil hafa líka þá kosti að sýna afkomu og efnahag fyrirtækja á raunverðlagi. Áhrif verðbólgu sem ekki eru leiðrétt í reikningsskilum geta skekkt þann grundvöll sem stjórnendur fyrirtækja nota til að taka ýmsar ákvarðanir sínar um reksturinn.
    Án verðleiðréttinga í skattskilum verður afkoman smátt og smátt sýnd betri eða verri en hún er í raun og veru og skattálögur verða aðrar. Niðurstaða nefndar á vegum fjármálaráðuneytisins var sú að við afnám verðbólguleiðréttinga þurfi ekki að búast við verulegum breytingum á skattbyrði atvinnurekstrar vegna afnáms verðbólguleiðréttinga við núverandi aðstæður þegar á heildina er litið. Þó sé nauðsynlegt að huga að stöðu einstakra atvinnugreina.
    Í umsögn Þjóðhagsstofnunar koma fram ákveðnar efasemdir um afnám verðbreytingarfærslu. Stofnunin bendir á að hækkun verðbólgunnar hér á landi að undanförnu hafi á ný aukið muninn á verðlagshækkunum hérlendis í samanburði við helstu viðskiptalönd okkar. Því ætti jafnvel að vera enn brýnna en undanfarin ár að leitast við að laga verstu agnúana sem verðbólgan veldur við mat á afkomu fyrirtækja.
    Orðrétt segir síðan í umsögn Þjóðhagsstofnunar:
    „Miðað við að verðbólgan komist niður á sama stig og í nágrannalöndunum á næstu missirum vaknar sú spurning hvort vegi þyngra verðbólguleiðrétt uppgjör sem flestir eru sammála um að gefi réttari mynd af afkomunni á hverjum tíma eða uppgjörsaðferðir sambærilegar þeim sem í gildi eru í nágrannalöndunum. Í ljósi aukinna erlendra samskipta og aukins fjármagnsflæðis milli landa virðist sem viðskiptaheimurinn leggi mun meiri áherslu á uppgjörsaðferðir sem eru sambærilegar milli landa fremur en þær aðferðir sem gefi réttari mynd af rekstrinum. Að ýmsu leyti er þetta sjónarmið skiljanlegt og með hliðsjón af því að verðbólgureikningsskil hafa hvergi náð fótfestu í nálægum löndum þá treystir Þjóðhagsstofnun sér ekki til að leggjast gegn afnámi verðbólgureikningsskila.“
    Í umsögn Seðlabanka kemur fram að bankinn hafi á árinu 1997 mælt gegn því að hverfa frá verðbólgureikningsskilum. Þar var bent á að þrátt fyrir litla verðbólgu muni reikningsskil sem ekki eru leiðrétt fyrir verðbólgu smám saman gefa villandi mynd af efnahag fyrirtækja. Þessi rök eigi enn við og því fremur sem verðbólga hefur aukist tímabundið að undanförnu.
    Orðrétt segir síðan: „Verðbólguleiðrétt reikningsskil gefa betri mynd af raunverulegri verðmætasköpun og eiginfjárstöðu fyrirtækja en nafnvirðisreikningsskil. Þau rök að bókhald verði einfaldara með afnámi verðbólguleiðréttinga eru ekki einhlít. Fyrirtæki og eigendur fyrirtækja kunna að sjá sér hag í að halda verðbólguleiðrétt bókhald samhliða opinberu nafnvirðisbókhaldi til að fylgjast með raunverulegum efnahag og tengja hann rekstrarstærðum.“ Seðlabankinn telur þó ekki rétt að gera athugasemdir við fyrirhugaðar breytingar, þar sem ótvíræðir kostir séu því samfara að íslenskar bókhaldsreglur séu sem líkastar alþjóðlegum reikningsskilavenjum.
    ASÍ segir í umsögn sinni að afnám verðbólgureikningsskila muni eflaust stuðla að því að auðveldara verði að útskýra fyrir erlendum fjárfestum stöðu á rekstri fyrirtækja. Þetta á aðallega við um fjármálafyrirtækin sem almennt lækka afkomu sína með gjaldfærslu verðbreytinga. Gagnvart framleiðslufyrirtækjum á þetta síður við, en erlendir fjárfestar kunna vel að meta gildi þess að afskriftastofn fjárfestinga í framleiðslutækjum sé verðtryggður og dragi þannig úr skattbyrði iðnfyrirtækja.
    Þetta hafi hins vegar verið þyngstu rökin fyrir þessari breytingu sem sett eru fram í þessu sambandi í skýrslu nefndar sem fjármálaráðherra skipaði 1998 og skilaði af sér í júní í ár. ASÍ segir að það sé spurning hvort þessi rök vegi nægilega þungt til að réttlæta þessa breytingu nú. ASÍ segir síðan í umsögninni að eins og staðan hefur verið undanfarin missiri, og eins og hún er nú, sé verðbólga veruleg og því megi ætla að afnám verðbólgureikningsskila hafi í för með sér verulegan tekjuauka fyrir ríkissjóð.
    Breytingarnar hafi bein áhrif á tekjuskattsstofn fyrirtækja þar sem þær hafi bókhaldsleg áhrif á afkomu þeirra. Ljóst er að áhrif breytinganna á skattgreiðslur verða mismunandi eftir fyrirtækjum að mati ASÍ. Einnig segir það að breytingarnar gætu haft áhrif á hegðun fyrirtækja, t.d. varðandi fjárfestingar þeirra. Sambandið bendir á að enn verður hægt að gjaldfæra gengistap í einu lagi en ekki lengur hægt að beita verðbólguleiðréttingu á innlend lán. Með því sé verið að setja erlend lán í forgang fram yfir innlent lánsfé segir ASÍ í umsögn sinni.
    BSRB segir í umsögn sinni að vegna afnáms verðbólgureikningsskila muni eignarskattsstofn fyrirtækja lækka, því varanlegir rekstrarfjármunir verða ekki færðir upp samkvæmt verðbólgu og síðan skattlagðir. Tekjur ríkissjóðs munu því rýrna vegna þessa. Af sömu ástæðum megi þó ætla að vegna minnkandi afskrifta muni tekjuskattsstofn vaxa umfram það sem ella hefði gerst. Skattbyrði fyrirtækja muni því ráðast af verðbólgu að þessu leyti, sem er staða sem launafólk þekkir, enda af svipuðum toga og þegar persónuafsláttur hefur ekki verið látinn hækka í samræmi við verðlagsþróun.
    Skattstjórinn í Reykjanesumdæmi bendir á að verðhækkun eigna launamanna skattleggst við sölu þó að sú hækkun endurspegli einungis hækkun vísitölu neysluverðs. Skattstjórinn nefnir sem dæmi að ef sumarbústaður væri keyptur á næsta ári á 5 millj. kr. og seldur 20 árum síðar á tæpar 7,5 millj. kr. kæmi allur mismunurinn til skattlagningar miðað við 2% verðbólgu að jafnaði á ári. Ef verðbólgan væri hins vegar 4% og sumarbústaðurinn seldur 20 árum síðar á tæpar 11 millj. kr. kæmu tæpar 6 millj. kr. til skattlagningar þó að enginn raunhagnaður hefði orðið. Landssamband sumarhúsaeigenda hefur mótmælt þessu með sömu rökum og sett eru fram í áliti skattstjórans.
    Ljóst er að bæði kostir og gallar fylgja afnámi verðbólgureikningsskila og aðvaranir og ábendingar sem hér hafa verið settar fram af Þjóðhagsstofnun, Seðlabanka, skattstjórum og ASÍ eiga fyllilega rétt á sér. Samfylkingin getur því ekki mælt með því miðað við núverandi aðstæður að afnema verðbólgureikningsskil.

Stimpilgjald.
    Samfylkingin er þeirrar skoðunar að stimpilgjöld séu í eðli sínu ranglát og leggist þyngra á fólk í fjárhagsþröng en aðra í samfélaginu, og þyngra á lítil fyrirtæki en stór. 1. minni hluti leggur því áherslu á að þegar á næsta ári verði stiginn áfangi í að afnema stimpilgjöld og telur rétt að fyrsti áfangi verði að afnema um þriðjung stimpilgjalda 1. janúar 2003. Margrét Frímannsdóttir hefur flutt frumvarp um afnám stimpilgjalda í áföngum sem nú liggur fyrir Alþingi. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að skattheimta á borð við innheimtu stimpilgjalda hefur verið á hröðu undanhaldi í OECD-ríkjunum síðustu áratugi. Slík skattheimta hefur í för með sér neikvæð áhrif, svo sem að mismuna aðilum innan lands og veikja samkeppnisstöðu fyrirtækja gagnvart erlendum fyrirtækjum. Eins og íslenskt viðskiptaumhverfi hefur þróast er óhætt að halda því fram að stimpilgjöldin séu bein samkeppnishindrun fyrir íslensk fjármálafyrirtæki, sem og íslenska útgefendur verðbréfa sem hyggjast skrá þau á erlendum mörkuðum. Stimpilgjöld eru líka mjög ósanngjarn skattur gagnvart einstaklingum, einkum þeim sem eru að koma sér upp húsnæði. Með innheimtu stimpilgjalds af lánum einstaklinga til húsnæðiskaupa eða annarra nauðsynja er í raun og veru verið að innheimta nokkurs konar „fátækraskatt“ en þessi lán eru oftast veitt þeim sem ekki hafa efni á að fjármagna húsnæðiskaup eða aðrar nauðsynjar af eigin fé. Óeðlilegt er að við skuldbreytingar á lánum sem fjölskyldur hafa tekið sé stimpilgjald innheimt æ ofan í æ. Þar er á ferðinni gjaldtaka sem er langt umfram það sem þjónustan kostar í raun. Afnám stimpilgjalda sem hér er lagt til, kæmi sér sérstaklega vel bæði fyrir fyrirtæki og heimili. Ljóst er að afnám stimpilgjalda mundi sérstaklega gagnast litlum og meðalstórum fyrirtækjum, sem geta síður en stærri fyrirtæki leitað eftir lánsfé erlendis.
    Tekjur af stimpilgjaldi eru áætlaðar 3,3 milljarðar kr. á næsta ári. Samkvæmt lauslega áætluðu mati greiða einstaklingar 35–40% af stimpilgjaldinu eða 1,2–1,3 milljarða kr. en fyrirtæki 60–65% eða um 2–2,1 milljarð kr.

Niðurstaða.
    Eins og hér hefur verið rakið ítarlega, og með vísan í fjölda álita og umsagna sem nefndinni bárust, eru skattalagabreytingar ríkisstjórnarinnar að verulegu leyti vanhugsaðar, þær byggjast á þröngri hugmyndafræði og á þeim eru stórir gallar. Þær virðast fyrst og fremst henta stórfyrirtækjum í þéttbýlinu en hvorki sprotafyrirtækjum, smáum fyrirtækjum né landsbyggðinni. Hætta er líka á að áhrifin af landsbyggðarskattinum í formi tryggingagjalds geti leitt til uppsagna og aukið atvinnuleysi auk þess sem verðlagsáhrifin eru verðbólguhvetjandi. Skattalagabreytingarnar fela einnig í sér stórfellt tekjutap fyrir sveitarfélögin.
    Fyrsti minni hluti leggur því fram viðamiklar breytingartillögur á frumvarpinu, sem ná því markmiði að mismuna ekki atvinnugreinum, tryggja meira jafnræði, auka sanngirni í allri skattlagningu, en ná jafnframt því markmiði að viðhalda alþjóðlegu skattaforskoti íslenskra fyrirtækja.

Afstaða Samfylkingarinnar til skattalagabreytinganna er þessi:
     1.      Samfylkingin vill lækka tekjuskatt á fyrirtæki úr 30% í 25%. Það kostar 1,1 milljarð kr. í stað 2,7 milljarða kr. tekjuskattslækkunar á fyrirtækin í tillögum stjórnarflokkanna. Sparnaður yrði 1,6–1,9 milljarðar kr. á fjárlagaárinu 2003 að teknu tilliti til þess að stóriðjufyrirtækin gengju inn í þessa skattabreytingu.
     2.      Samfylkingin leggst gegn hækkun tryggingagjalds um 0,77% (2,5 milljarða kr. tekjuauki í tillögum ríkisstjórnarinnar).
     3.      Samfylkingin vill að hækkun frítekjumarka í hátekjuskatti verði frestað um tvö ár. 600 millj. kr. sparnaður yrði á næsta ári.
     4.      Samfylkingin styður hækkun fríeignamarka eignarskatts og sérstaks eignarskatts um 20% vegna eigna í árslok 2001 til að koma í veg fyrir hækkun eignarskatta vegna sérstakrar hækkunar á fasteignamati.
     5.      Samfylkingin styður afnám sérstaks eignarskatts á lögaðila og einstaklinga og lækkun á almennum eignarskatti á einstaklinga úr 1,2% í 0,6% í árslok 2002, en leggur til að almennur eignarskattur á lögaðila lækki eingungis úr 1,2% í 0,9%. Á móti er lögð til hækkun á fjármagnstekjuskatti úr 10% í 16% með sérstöku frítekjumarki, þannig að fjármagnstekjur einstaklinga að 100 þús. kr. og hjóna eða sambýlisfólks að 200 þús. kr. verði ekki skattlagðar. Miðað við álagningu þessa árs fækkar þeim sem greiða fjármagnstekjuskatt úr 78.566 í 22.725 eða um 55.841 með þessari breytingu. Hækkun fjármagnstekjuskatts með frítekjumarkinu gefur tæplega 1,7 milljarða kr. í auknar tekjur miðað við endurskoðaða tekjuáætlun fyrir næsta ár.
     6.      Samfylking styður lækkun á tekjuskatti einstaklinga um 0,33%, sem samið var um í tengslum við kjarasamninga og taka á gildi um nk. áramót. Jafnframt er lagt til í samræmi við stefnu Samfylkingarinnar að stiginn verði frekari áfangi í lækkun á almennum tekjusköttum sem fjármögnuð verði með hækkun kostnaðargjalda í sjávarútvegi. Þannig verði á árinu 2003 lækkaður almennur tekjuskattur einstaklinga um 0,25% til viðbótar 0,33% um næstu áramót.
     7.      Samfylkingin styður afnám skattskyldu húsaleigubóta.
     8.      Samfylkingin vill afnema skattlagningu á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga en með því er tekjutap ríkissjóðs 120–135 millj. kr.
     9.      Samfylkingin vill að tekinn verði fyrsti áfangi í afnámi stimpilgjalds 1. janúar 2003 þannig að felldur verði niður þriðjungur af þeim.
     10.      Samfylkingin leggur til að skipuð verði nefnd með aðild fulltrúa allra stjórnarmálaflokka, aðila vinnumarkaðarins og samtaka öryrkja og aldraðra sem hafi það verkefni að kanna hvaða leiðir eru færar til að afnema eða lækka verulega skatta á launafólk og lífeyrisþega með tekjur undir lágmarkslaunum.
    Sjá má kostnaðaráhrif af tillögum 1. minni hluta á fylgiskjali XIII.
    Fyrsti minni hluti leggur áherslu á að framangreindar breytingar nái fram að ganga, en þessar skattabreytingar mundu tryggja mun betur jafnræði og sanngirni í skattlagningu og tryggja vel starfsskilyrði og samkeppnishæfni atvinnuveganna, án þess að hafa í för með sér verðbólguáhrif sem rýra kjör almennings og þrengja að atvinnuvegunum.

Alþingi, 5. des. 2001.



Jóhanna Sigurðardóttir,


frsm.


Össur Skarphéðinsson.


Fylgiskjal I.


Tekjuskattshlutfall fyrirtækja í nokkrum OECD-löndum.


(Úr svari fjármálaráðherra á þskj. 319, 129. mál.)



1989, % 2001, %
Kanada 43 42
Japan 59 42
Ítalía 46 40
Belgía 43 40
Bandaríkin 34 40
Þýskaland 56 39
Lúxemborg 34 38
Frakkland 39 35
Portúgal 40 35
Holland 40 35
Spánn 35 35
Ástralía 39 34
Austurríki 30 34
Nýja Sjáland 33 33
Danmörk 50 30
Ísland 50 30
Bretland 35 30
Svíþjóð 52 28
Noregur 51 28
Finnland 50 28
Sviss 10 25
Írland 43 20



Fylgiskjal II.


Ríkisskattstjóri:

Tekjuskattar sem hlutfall af þjóðarframleiðslu.



Tekjuskattar Einstaklingar Félög
Ár 1990 1999 1990 1999
Land
Danmörk 24,8 25,5 1,5 3,0
Finnland 17,2 14,8 2,1 4,2
Þýskaland 9,0 9,4 1,6 1,8
Ísland 8,2 12,7 0,9 1,5
Írland 10,7 9,7 1,7 3,9
Lúxemborg 9,5 7,8 6,4 7,3
Noregur 10,9 11,7 3,8 3,2
Svíþjóð 20,6 18,6 1,7 3,2
Bretland 10,0 10,5 4,2 3,8
OECD-ríki í Evrópu 10,6 10,0 2,5 3,2



Fylgiskjal III.


Skipting á skattgreiðslum milli fyrirtækja og einstaklinga 1999–2001.


(Úr svari fjármálaráðherra á þskj. 319, 129. mál.)



1999 2000 2001
Skattgreiðslur einstaklinga sem % af skatttekjum 83,0 82,6 83,0
Skattgreiðslur fyrirtækja sem % af skatttekjum 17,0 17,4 17,0
Skattgreiðslur einstaklinga sem % af VLF 25,0 24,6 23,7
Skattgreiðslur fyrirtækja sem % af VLF 5,1 5,2 4,9


Fylgiskjal IV.


Tekjuskattur lögaðila 1999–2001.


(Úr svari fjármálaráðherra á þskj. 319, 129. mál.)



Skattumdæmi
Miðað við framtalsár Reykja-
vík
Reykja-
nes
Vestur-
land
Vest-
firðir
Norður-
land
vestra
Norður-
land
eystra
Austur-
land
Suður-
land
Vest-
manna-
eyjar
Landið
allt
1999
Tekjuskattur, millj. kr. 6.778 1.828 151 109 74 400 105 203 61 9.709
Fjöldi tekjuskattsgreiðenda 3.235 1.321 207 196 129 450 156 238 72 6.004
Fjöldi skattskyldra lögaðila 7.167 2.950 626 513 395 1.082 578 671 204 14.186
2000
Tekjuskattur, millj. kr. 7.417 1.757 148 101 102 387 115 256 35 10.318
Fjöldi tekjuskattsgreiðenda 3.867 1.523 217 225 135 513 139 332 80 7.031
Fjöldi skattskyldra lögaðila 7.961 3.347 673 549 428 1.146 748 623 214 15.689
2001
Tekjuskattur, millj. kr. 6.225 1.730 153 133 108 343 99 322 28 9.140
Fjöldi tekjuskattsgreiðenda 4.015 1.691 266 216 156 581 169 363 79 7.536
Fjöldi skattskyldra lögaðila 8.582 3.830 732 594 471 1.227 647 816 234 17.133
Heimild: RSK.



Fylgiskjal V.


Meðalatvinnutekjur eftir kyni og hjúskaparstétt framteljenda 2000.
(Úr umsögn Alþýðusambands Íslands.)


Þeir sem hafa atvinnutekjur bæði árin.

Á ári Á mánuði
Konur 1.475 122.917
Karlar 2.647 220.583
Giftar konur 1.577 131.417
Kvæntir karlar 3.381 281.750
Hjón / sambýlisfólk saman 4.553 379.417
Einhleypir 1.566 130.500
Einstæðir foreldrar 1.633 136.083
Barnlausir 1.559 129.917
Allir 2.055 171.250
Fjöldi 116.199 116.199
Heimild: Þjóðhagsstofnun, frétt nr. 12/2001 bls. 4
Fylgiskjal VI.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Fylgiskjal VII.


Tekjuskattar og útsvar, áætlaðar breytingar við tilfærslu
úr einstaklingsrekstri í hlutafélag.

(Úr svari ríkisskattstjóra við spurningum efnahags- og viðskiptanefndar
vegna máls 114, nóvember 2001.)


Skattareglur 2000, m.kr.

a)     reiknað endurgjald kemur fram sem launagreiðslur hlutafélaga
b)     reiknað endurgjald kemur ekki fram sem launagreiðslur hlutafélaga

Tilfærsla 10% 10% 25% 25% 50% 50%
Skattumdæmi: a) b) a) b) a) b)
Reykjavík -6 -14 -14 -35 -28 -71
Reykjanes -4 -11 -11 -27 -22 -54
Vesturland 0 -2 -2 -5 -3 -10
Vestfirðir 0 -1 -1 -4 -3 -6
Norðurl. vestra -1 -1 -1 -4 -3 -7
Norðurl. eystra -1 -3 -3 -8 -5 -16
Austurland 0 -2 -1 -4 -2 -8
Suðurland -1 -3 -2 -7 -4 -14
Vestmannaeyjar 0 0 0 -1 0 -2
Samtals -14 -38 -34 -94 -69 -188


Skattareglur samkvæmt frumvarpi, m.kr.


Tilfærsla 10% 10% 25% 25% 50% 50%
Skattumdæmi: a) b) a) b) a) b)
Reykjavík -50 -126 -123 -315 -246 -631
Reykjanes -39 -96 -98 -240 -197 -479
Vesturland -6 -17 -17 -45 -32 -89
Vestfirðir -4 -11 -11 -28 -23 -56
Norðurl. vestra -4 -12 -9 -32 -20 -62
Norðurl. eystra -9 -27 -24 -70 -48 -139
Austurland -3 -14 -9 -35 -18 -70
Suðurland -8 -24 -20 -62 -39 -123
Vestmannaeyjar -1 -3 -2 -8 -4 -17
Samtals -125 -334 -312 -834 -626 -1.668

Skattar einstaklinga með rekstur.



Áætlaðir skattar
2001
Möguleg
breyting nú
Möguleg breyting
samkvæmt
frumvarpi
Sveitarfélög, útsvar 8.879 - 1.054 - 1.053
Ríkið 10.217 765 - 483
þar af:
- almennur tekjuskattur 9.299 - 2.330 - 2.538
- sérstakur tekjuskattur 381 - 170 - 255
- fjármagnstekjuskattur 537 618 723
- tekjuskattar félaga 2.647 1.587
Ríki og sveitarfélög 19.096 - 289 - 1.563


Fylgiskjal VIII.


Hlutfallsleg skipting skatttekna hins opinbera í OECD-löndum 1998.


(Úr svari fjármálaráðherra á þskj. 319, 129. mál.)



Tekjuskattur
einstaklinga
Tekjuskattur
lögaðila
Tryggingagjald
og aðrir
launaskattar
Eignar-
skattar
Skattar á
vöru og
þjónustu
Austurríki 22,5 4,8 40,3 1,3 27,9
Ástralía 43,3 15,2 6,6 9,5 25,5
Bandaríkin 40,5 9,0 23,7 10,6 16,2
Belgía 30,7 8,5 31,5 3,2 24,9
Bretland 27,5 11,0 17,6 10,7 32,6
Danmörk 51,6 5,6 3,9 3,6 33,2
Finnland 32,3 9,0 25,2 2,4 30,7
Frakkland 17,4 59,0 39,5 7,3 26,6
Grikkland 13,2 6,4 32,3 3,8 41,0
Holland 15,2 10,6 39,9 4,9 27,7
Írland 30,9 10,7 13,8 5,2 38,7
Ísland 35,2 3,4 8,3 7,1 45,9
Ítalía 25,0 7,0 29,5 4,8 27,4
Japan 18,8 13,3 38,4 10,5 18,8
Kanada 38,5 10,0 15,8 10,4 24,7
Kórea 20,1 12,2 11,4 11,4 40,5
Lúxemborg 18,8 19,7 25,6 8,4 26,1
Mexíkó 29,5 18,0 51,3
Noregur 27,3 9,7 23,3 2,4 37,2
Nýja Sjáland 41,8 10,9 0,9 5,7 36,0
Portúgal 17,1 11,6 25,5 2,9 41,3
Pólland 22,0 7,5 33,1 3,0 34,4
Spánn 20,8 7,3 35,2 6,0 29,4
Sviss 31,8 6,0 35,7 8,3 18,2
Svíþjóð 35,0 5,7 33,5 3,7 21,6
Tékkland 13,6 9,7 44,1 1,5 31,0
Tyrkland 27,0 5,8 14,3 2,8 35,7
Ungverjaland 16,8 5,6 36,2 1,6 39,0
Þýskaland 25,0 4,4 40,4 2,4 27,4
OECD í heild 27,1 8,9 25,6 5,4 31,3
ESB 25,6 8,7 28,9 4,7 30,2
Fylgiskjal IX.


Fjármálaráðuneyti:

Greiðendur eignarskatts við álagningu 2001. 1


Tekjudreifing.



Ógiftir framteljendur.
Eignarsk.stofn Fjöldi framteljenda Fjöldi greiðenda
eignarskatts

Hlutfall, %
- 1.000 72.954 0 0,0
- 2.000 6.028 0 0,0
- 3.000 4.083 0 0,0
- 4.000 3.408 206 6,0
- 5.000 3.032 2.733 90,1
- 6.000 2.610 2.354 90,2
- 7.000 2.224 2.012 90,5
- 8.000 1.872 1.662 88,8
- 9.000 1.543 1.476 95,7
- 10.000 1.181 1.150 97,4
10.000> 4.353 4.219 96,9
Samtals 103.288 15.812 15,3

Hjón og sambýlisfólk.
Eignarsk.stofn Fjöldi framteljenda Fjöldi greiðenda
eignarskatts

Hlutfall, %
- 2.000 17.465 0 0,0
- 4.000 6.022 0 0,0
- 6.000 5.746 0 0,0
- 8.000 5.646 357 6,3
- 10.000 5.340 5.131 96,1
- 12.000 4.454 4.310 96,8
- 14.000 3.402 3.325 97,7
- 16.000 2.642 2.580 97,7
- 18.000 2.017 1.989 98,6
- 20.000 1.547 1.522 98,4
20.000 > 4.831 4.765 98,6
Samtals 59.112 23.979 40,6
Fylgiskjal X.


Skattlagning hagnaðar í helstu aðildarríkjum OECD.


(Úr svari fjármálaráðherra á þskj. 319, 129. mál.)



Tekjuskattur lögaðila, % Skattlagning arðgreiðslna, %
Austurríki 34 25
Ástralía 34 36
Bandaríkin 40 40
Belgía 40 15
Bretland 30 33
Danmörk 30 25
Finnland 28 29
Frakkland 35 33
Holland 35 25
Írland 20 24
Ísland 30 10
Ítalía 40 13
Japan 42 35
Kanada 42 22
Lúxemborg 38 25
Noregur 28 28
Nýja Sjáland 33 33
Portúgal 35 25
Spánn 35 29
Sviss 25 35
Svíþjóð 28 20
Þýskaland 39 48
Heimild: OECD og KPMG.


Fylgiskjal XI.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Fylgiskjal XII.


Ríkisskattstjóri:

Breyting fjármagnstekjuskatts.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Fylgiskjal XIII.


Tillögur Samfylkingarinnar.

Áætluð áhrif skattbreytinganna
á tekjur ríkissjóðs.


2002 2003 2004 Samtals
Tekjuskattur fyrirtækja lækki úr 30% í 25% 1. janúar 2002 * - 1.100 - 1.100
Sérstakur eignarskattur fyrirtækja falli niður m.v. árslok 2002 - 400 - 400
Eignarskattur fyrirtækja lækki úr 1,2% í 0,9% m.v. árslok 2002 - 550 - 550
Frítekjumörk í sérstökum tekjuskatti einstaklinga hækki ekki um 15% vegna tekna á árinu 2001 - 600 - 600
Fríeignamörk í eignarskatti einstaklinga 20% í árslok 2001 vegna hækkunar fasteignamats, tekjuáhrif milli áranna 2001–2002 eru engin 0 0
Sérstakur eignarskattur einstaklinga falli niður m.v. árslok 2002 - 400 - 400
Eignarskattur einstaklinga lækki úr 1,2% í 0,6% m.v. árslok 2002 - 2.000 - 2.000
Tekjuskattur einstaklinga lækki um 0,33% 1. janúar 2002 – 0,25% 1. janúar 2003 - 1.250 -900 -2.150
Skattlagning húsaleigubóta afnumin frá og með árinu 2002 - 150 - 150
Skattlagning á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga afnumin - 125 - 125
Hækkun á fjármagnstekjuskatti úr 10% í 16% með frítekjugólfi +1.700 + 1.700
Hækkun kostnaðargjalda í sjávarútvegi + 900 + 900
Fyrsti áfangi í afnámi stimpilgjalda 1. janúar 2003 (þriðjungur) - 1.100 - 1.100
Brúttóáhrif - 1.525 - 3.850 - 600 - 5.975

Fylgiskjal XIV.


Ríkisskattstjóri:

Áhrif af lækkun skatthlutfalls um 0,33 prósentustig og
hækkun viðmiðunarmarka fyrir sérstakan tekjuskatt um 15%.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Fylgiskjal XV.


Ríkisskattstjóri:


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    1 Eignarskattur og sérstakur eignarskattur.