Ferill 282. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 594  —  282. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 73/2001, um fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga á landi.

Frá minni hluta samgöngunefndar.



    Lög nr. 73/2001 voru samþykkt á síðasta þingi og var gjald fyrir almennt rekstrarleyfi til að stunda fólksflutninga þá ákveðið 3.000 kr. Í frumvarpinu er lagt til að hækka gjaldið úr 3.000 kr. í 10.000 kr. af því að um mistök hafi verið að ræða á síðasta þingi. Gjaldið hafi með öðrum orðum átt að verða 10.000 kr. þegar frumvarpið var samþykkt í fyrra.
    Í breytingartillögum meiri hlutans er í fyrsta lagi lagt til að árlegt rekstrarleyfi verði áfram óbreytt en að skoðunargjaldið hækki úr 1.000 kr. í 1.400 kr. Með þessari breytingu verður heildarskatturinn samt sem áður sá sami, um 11 millj. kr. Skattheimtan minnkar ekki heldur er henni breytt. Í öðru lagi er í breytingartillögunum tekið á skólabifreiðamálum og eru þær breytingar til bóta að mati minni hlutans.
    Minni hlutinn vekur athygli á því að innheimtukostnaður af 1.000 kr. árgjaldinu var 200 kr. í hvert skipti eða um 1,2 millj. kr. á ári og hækkar þetta heildarkostnað vegna umsýslu við málaflokkinn úr 11,3 millj. kr. í 12,5 millj. kr. Fram kom í umfjöllun nefndarinnar að innheimtukostnaður yrði hinn sami þótt gjaldið hækkaði.
    Samkvæmt lauslegri áætlun minni hlutans hefur að frumkvæði samgönguráðuneytisins verið lagðir á nýir skattar upp á um 56–60 millj. kr. á ýmiss konar samgöngustarfsemi nú á síðustu missirum, svo sem:
Flugmiðaskattur um 35–45 millj. kr.
Leigubifreiðaskattur um 10 millj. kr.
Fólks- vöru- og sendibifreiðaskattur um 11 millj. kr.
    Mikil gagnrýni kom fram á flugmiðaskattinn á sínum tíma og hefur ríkisstjórnin nú ákveðið að hætta við þá skattheimtu og er frumvarp þess efnis til meðferðar í samgöngunefnd. Í frumvarpi nokkurra þingmanna Samfylkingarinnar á 126. löggjafarþingi var lagt til að fella niður þetta gjald og er það frumvarp endurflutt á yfirstandandi þingi og er þar enn fremur lagt til að flugmiðaskatturinn verði endurgreiddur til þeirra flugrekenda sem hafa greitt hann.
    Minni hlutinn er á móti þessari skattlagningu á tæki til fólksflutninga og önnur samgöngutæki, og telur að atvinnugreinin greiði nú þegar nóg til ríkissjóðs af starfsemi sinni. Af þessum sökum getur minni hlutinn ekki stutt frumvarpið.

Alþingi, 12. des. 2001.



Kristján L. Möller,


frsm.


Lúðvík Bergvinsson.


Jón Bjarnason.



Fylgiskjal.


Áætlun um kostnað Vegagerðarinnar vegna verkefna
við umsjón og eftirlit með fólks- og vöruflutningum.


Áætlaður fjöldi bifreiða
6.000
Áætlaður fjöldi leyfa
Vöruflutningabifreiðar     50
Sendibifreiðar     500
Vörubifreiðar     350
Hópferðabifreiðar     300
Samtals      1.200

    Leyfi gefin út frá einu til fimm ára . um 300 leyfi á ári

Kostnaður: m.kr.
Hálft starf skrifstofumanns      2,3
Hálft starf eftirlitsmanns,     2,8
Hálft starf lögreglumanns     3,0
Akstur eftirlitsbifreiða     2,3
Námskeiðskostnaður     0,3
Stjórnun, umsjón, húsnæði 5%     0,6
Samtals     11,3

Áætlaðar gjaldtökur að teknu tilliti breytingartillögu meiri hlutans um hækkun á gjaldi fyrir hverja bifreið úr 1.000 kr. í 1.400 kr.

Fjöldi
leyfa
Gjald fyrir leyfi á ári
m.kr.
Leyfi fyrir fólksflutningabifreiðar 300 3.000 0,9
Leyfi fyrir sendibifreiðar     500     3.000     1,5
Leyfi fyrir aðrar vöru- og efnisflutningabifreiðar
    400

    3.000

1,2
Sérleyfi og einkaleyfi 20     20.000     0,4
Leyfi fyrir sérbúnar bifreiðar 50     4.000     0,2
Árlegt gjald, 1.400-200=1.200 á hverja bifreið
6.000

1.200

7,2
Samtals     11,4