Ferill 455. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 726  —  455. mál.




Fyrirspurn



til forsætisráðherra um mótvægisaðgerðir vegna efnahagslegra áhrifa Noral-verkefnisins.

Frá Jóhönnu Sigurðardóttur.



     1.      Hvaða áhrif hefur Noral-verkefnið á möguleika Seðlabanka Íslands til að ná yfirlýstu verðbólgumarkmiði sínu meðan á framkvæmdum stendur?
     2.      Telur Seðlabankinn koma til greina að hækka verðbólgumarkmið um tíma og/eða víkka þolmörk peningamálastefnunnar meðan á framkvæmdum stendur? Hvaða áhrif má ætla að slík ráðstöfun hafi á langtímaþróun vaxta, kaupmáttar og hagvaxtar að mati ráðherra og Seðlabankans?
     3.      Hvaða áhrif telur Seðlabankinn að Noral-verkefnið muni hafa á innlenda vexti, skulda- og hlutabréfamarkað og gengisþróun krónunnar ef ekki verður gripið til mótvægisaðgerða? Hvert er mat ráðherra á þessu?
     4.      Ef tekið er mið af verðbólgumarkmiði Seðlabankans og þeirri forsendu að kaupmáttur launa skerðist ekki á framkvæmdatímanum, hversu umfangsmiklar þurfa mótvægisaðgerðir ríkisvaldsins og Seðlabanka að vera? Með umfangi er átt við:
                  a.      aðhald í opinberum rekstri og framkvæmdum sem hlutfall af VLF,
                  b.      vaxtastig, þ.e. vexti skuldabréfa umfram grunndæmi (stuttra og langra verðtryggðra ríkisskuldabréfa).
     5.      Hvaða þýðingu hefur það fyrir aðrar innlendar fjárfestingar á tímabilinu að lánsfé til virkjanaframkvæmda er með ábyrgð ríkis, Reykjavíkur og Akureyrarbæjar og að fjármagnskostnaður er því minni en ella?
     6.      Hver er mismunur á framkvæmdakostnaði með og án ábyrgðar ríkis og kemur til greina að veita slíkar ábyrgðir til fleiri áhættuframkvæmda, t.d. byggingar iðnaðarhúsnæðis í eigu einstaklinga?
     7.      Er ríkisstjórnin reiðubúin að beita sér fyrir mótvægisaðgerðum sem Seðlabankinn telur nauðsynlegar til að tryggt verði að framkvæmdir við Noral-verkefnið auki ekki á verðbólguna, umsaminn kaupmáttur verði tryggður og vextir lækki?
    Óskað er eftir að svörin miði við mismikla þátttöku innlendra aðila og fjármögnun Reyðaráls, en að fé til virkjunarinnar komi að mestu erlendis frá. Miðað verði við að lífeyrissjóðir/innlendir aðilar fjármagni 10%, 25% og 45% af Reyðarálsverkefninu, annaðhvort í formi hlutafjár eða skuldabréfakaupa.


Skriflegt svar óskast.