Ferill 395. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 819  —  395. mál.




Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um starfslokasamninga hjá Landssímanum.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hver eru þau starfskjör sem samið var um í ráðningarsamningi við fyrrverandi forstjóra Landssímans, sem lét af störfum í desember sl., til hve langs tíma var starfslokasamningurinn og hvernig sundurliðast greiðslur og kjör milli launa og annarra fríðinda? Hvert er mat ráðherra á þessum samningi?
     2.      Eru laun og önnur starfskjör sem samið var um í starfslokasamningnum greidd óháð því hvort forstjórinn fyrrverandi tekur við öðru starfi á gildistíma starfslokasamningsins sem færir honum sambærileg eða hærri laun en starfslokasamningurinn kveður á um?
     3.      Var hafinn undirbúningur að sölu Landssímans þegar framangreindur starfslokasamningur, sbr. 1. tölul., var gerður?
     4.      Var starfslokasamningurinn gerður með vitund og vilja annars vegar ráðherra og hins vegar stjórnar Landssímans og hver ber ábyrgð á gerð þessa samnings?
     5.      Hvað kostar þessi starfslokasamningur og aðrir þeir starfslokasamningar sem í gildi eru og gerðir hafa verið við fyrrverandi forstjóra Landssímans, hve langur var gildistími þeirra samninga og hverjar voru greiðslur og önnur kjör samkvæmt þeim samningum?
     6.      Hafa verið gerðir ráðningarsamningar við aðra yfirmenn eða stjórnendur Landssímans sem fela í sér sérkjör við starfslok umfram hefðbundinn rétt samkvæmt starfsmannalögum á sl. átta árum? Ef svo er, við hverja hafa slíkir samningar verið gerðir og hverjir þeirra hafa þegar komið til framkvæmda?


    Hinn 1. janúar 1997 tók til starfa hlutafélagið Póstur og sími á grundvelli laga nr. 103/1996, um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar. Með stofnun Pósts og síma hf. rofnuðu öll stjórnsýslutengsl milli ráðuneytis og félagsins sem áður voru milli ráðuneytis og Póst- og símamálastofnunar og hefur ráðuneytið nú ekki skipunarvald í málefnum Landssíma Íslands hf. Engu breytir þótt meiri hluti hlutafjár sé í eigu íslenska ríkisins og samgönguráðherra fari með eignaraðild ríkissjóðs í Landssíma Íslands hf.
    Í meginniðurstöðum skýrslu forsætisráðherra um aðgang að upplýsingum um hlutafélög í eigu ríkisins sem lögð var fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98 kemur eftirfarandi fram:
     1.      Réttur einstakra alþingismanna með leyfi Alþingis til að krefja ráðherra upplýsinga skv. 54. gr. stjórnarskrárinnar og 49. gr. þingskapalaga nær aðeins til þeirra málefna sem talist geta opinber. Löggjöfin kveður nánar á um það hvaða málefni eru opinber. Líkur eru fyrir því að málefni sé opinbert þegar stjórnsýsluaðilar taka ákvarðanir í skjóli opinbers valds lögum samkvæmt, sbr. IV. og VI. kafla.
     2.      Ríkishlutafélög teljast aðilar að einkarétti. Um þau gilda sömu eða svipaðar reglur og um hlutafélög almennt. Réttur alþingismanna fyrir tilstilli Alþingis til að krefja ráðherra upplýsinga um eða veita svör við fyrirspurnum um þau er undir því kominn hvort upplýsingarnar eiga að vera opinberar lögum samkvæmt. Það kemur helst til greina samkvæmt ákvæðum ársreikningslaga, sbr. X. kafla.
     3.      Ráðherra getur átt rétt á veigamiklum upplýsingum um hlutafélög sem eru í ríkiseign. Sá réttur er virkastur ef ráðherra fer með hagsmuni ríkissjóðs sem eini hluthafinn eða sem meirihlutaeigandi í viðkomandi hlutafélagi. Rétturinn byggist í því tilviki á almennum hlutafélagalögum og/eða heimildarlögum um viðkomandi hlutafélag. Ráðherra sem fengið hefur upplýsingar með þessum hætti ber hins vegar trúnaðarskyldu gagnvart viðkomandi hlutafélagi sem gengur einkum út á það að hann má ekki veita upplýsingar sem hann hefur fengið með þessum hætti ef þær geta skaðað hagsmuni félagsins. Honum er því óheimilt gagnvart félaginu að gefa alþingismönnum eða öðrum upplýsingar sem slík trúnaðarskylda hvílir á, sbr. nánar IX. kafla.
     4.      Almenna reglan er að allar upplýsingar um hlutafélög sem skráðar eru hjá hlutafélagaskrá eru öllum aðgengilegar.
     5.      Þær upplýsingar sem fram eiga að koma í ársreikningum hlutafélaga teljast opinberar, sbr. nánar X. kafla. Því er almennur aðgangur að þessum upplýsingum. Af því leiðir m.a. að ráðherra væri skylt að svara fyrirspurnum sem lúta að þeim upplýsingum sem fram koma í ársreikningi og gefa skýringar á þeim. Enn fremur verður að telja að þær upplýsingar og skýringar á reikningum ríkishlutafélaga sem fram koma í ríkisreikningi séu opinberar upplýsingar með sama hætti og lýst hefur verið. Skylda ráðherra nær hins vegar ekki lengra en þetta. Honum er því óskylt að gefa upplýsingar um ríkishlutafélag sem ekki kæmu fram í ársreikningi. Hér má t.d. nefna sundurliðaðar fjárhæðir um launakjör eða aðrar greiðslur til einstakra starfsmanna. Ráðherra er einnig óheimilt að gefa slíkar upplýsingar samkvæmt þeim meginreglum sem raktar eru í IX. og X. kafla.
     6.      Stjórnir hlutafélaga sem eru að öllu leyti eða að meiri hluta í eigu ríkisins eða hluthafafundur þeirra (eftir atvikum viðkomandi ráðherra ef ríkið er einn eigandi og ákveðið er í lögum að hann fari með eignaraðild ríkissjóðs) ákveða hvaða málefni það eru sem talist geta viðskiptaleyndarmál og eiga að fara leynt. Ákvörðun um þetta ber að taka með hagsmuni félagsins að leiðarljósi, sbr. 7. tölul. Þetta gildir þó ekki um þær upplýsingar sem fram koma í ársreikningi viðkomandi hlutafélags, sbr. 5. tölul.
     7.      Þeir sem taka ákvarðanir fyrir hönd hlutafélags í ríkiseign eru bundnir trúnaði gagnvart því. Þetta á við um ráðherra hvort sem hann situr í stjórn slíks félags eða tekur ákvarðanir fyrir þess hönd sem eini hluthafi á hluthafafundi eða hluthafi sem fer þar með meiri hluta ef þær yrðu gerðar opinberar. Alþingi á ekki heimtingu á því að ráðherra gefi upplýsingar um slík málefni á grundvelli 54. gr. stjórnarskrárinnar eða annarra lagaákvæða.
     8.      Varðandi málefni Pósts og síma hf. sérstaklega skal tekið fram að Alþingi hefur sjálft falið samgönguráðherra að fara með eignaraðild ríkissjóðs varðandi málefni fyrirtækisins. Samgönguráðherra er því skylt að gæta hagsmuna fyrirtækisins samkvæmt þeim lögum og reglum sem gilda í slíkum tilvikum sem lýst hefur verið. Honum er ekki skylt og honum er jafnframt óheimilt gagnvart félaginu að gefa Alþingi upplýsingar sem hann telur að leynt eigi að fara og ekki geta talist til þeirra upplýsinga sem um er rætt í 2. tölul.
    Með vísan til þessara niðurstaðna og þess að umbeðnar upplýsingar í fyrirspurninni teljast ekki vera upplýsingar sem eiga að vera opinberar lögum samkvæmt er samgönguráðherra hvorki skylt né heimilt gagnvart Landssíma Íslands hf. að svara fyrirspurn á þskj. 652.