Ferill 384. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 918  —  384. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um samgönguáætlun.

Frá meiri hluta samgöngunefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Birgi Jónsson, Jóhann Guðmundsson og Sigurberg Björnsson frá samgönguráðuneyti, Helga Hallgrímsson og Gunnar Gunnarsson frá Vegagerðinni, Hauk Hauksson og Brand Guðmundsson frá Flugmálastjórn, Hilmar B. Baldursson frá flugráði, Hermann Guðjónsson og Helga Jóhannesson frá Siglingastofnun Íslands og Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins.
    Þá bárust nefndinni umsagnir frá Flugfélaginu Jórvík, Siglingastofnun Íslands, Vegagerðinni, Póst- og fjarskiptastofnun, Akraneskaupstað, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Raufarhafnarhreppi, Landsvirkjun, Samtökum atvinnulífsins, Hollustuvernd ríkisins, Vélskóla Íslands, Landhelgisgæslu Íslands, Samtökum ferðaþjónustunnar, Landvernd, Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða, Stýrimannaskólanum í Reykjavík, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Bændasamtökum Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Félagi íslenskra skipstjórnarmanna, Olíudreifingu ehf., Olíufélaginu hf., Akureyrarbæ, Siglufjarðarkaupstað, Sveitarfélaginu Árborg, Sveitarfélaginu Hornafirði, Náttúruvernd ríkisins, Stykkishólmsbæ, Byggðastofnun, Reykjavíkurborg, Bessastaðahreppi, Umferðarráði, Dalvíkurbyggð, Eyþingi – Sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, Hafnasambandi sveitarfélaga, Djúpárhreppi, Kópavogsbæ, Neytendasamtökunum og Ísafjarðarbæ.
    Með frumvarpinu er lagt til að samþykktur verði nýr lagarammi um gerð samgönguáætlana. Frumvarpið mælir fyrir um gerð tvenns konar áætlana, annars vegar samgönguáætlunar til tólf ára, sem skal endurskoða á fjögurra ára fresti, og hins vegar fjögurra ára áætlunar, sem skal endurskoða á tveggja ára fresti.
    Þessar áætlanir taka til samgangna í lofti, á láði og legi. Sjálfstæðar veg-, hafna-, sjóvarna- og flugmálaáætlanir munu því heyra sögunni til verði frumvarpið að lögum.
    Tólf ára samgönguáætlun er ætlað að verða mun víðtækari en fyrri áætlanir á sviði samgöngumála. Auk framkvæmdaáætlunar og stefnumótunar er ætlunin að skilgreina í henni það grunnkerfi sem ætlað er að bera meginþunga samgangna í landinu. Þá er ætlunin að hún taki jafnframt til öryggismála, umhverfismála, almenningssamgangna, fjármögnunar samgöngukerfisins o.fl.
    Fjögurra ára áætlun á hins vegar að geyma nákvæma rekstraráætlun fyrir hvert ár fyrir sig. Fjögurra ára áætlun skiptist í þrjá meginkafla, flugmálaáætlun, siglingamálaáætlun og vegáætlun, og verður uppbygging þeirra og form með svipuðum hætti og gildandi áætlanir á þessum sviðum.


Prentað upp.

    Samkvæmt frumvarpinu mun svokallað samgönguráð hafa yfirumsjón með gerð beggja áætlananna en gert er ráð fyrir að grunnvinnan við gerð þeirra fari fram í stofnunum samgöngumála svo sem verið hefur með núverandi áætlanir.
    Til að tryggja þátttöku hagsmunaaðila í þessari vinnu er samgönguráði gert að standa fyrir samgönguþingi við gerð hverrar samgönguáætlunar þar sem hagsmunaaðilum gefst kostur á að koma áhersluatriðum og hagsmunamálum sínum á framfæri og skiptast á skoðunum. Meiri hlutinn lítur svo á að með hagsmunaaðilum sé í frumvarpstextanum átt við alla sem telja sig hafa hagsmuni af gerð og mótun samgönguáætlana. Því telur meiri hlutinn að þeir sem óska eftir að sækja samgönguþing eigi þess kost. Með þessu ætti að vera tryggt að öll sjónarmið komi fram.
    Meiri hlutinn telur að sú skipan mála sem frumvarpið mælir fyrir um sé til mikilla bóta. Með samræmdri samgönguáætlun fæst betri og heildstæðari sýn á samgöngumál í landinu og gefur hún færi á stefnumótun í samgöngumálum þar sem allir þættir samgangna eru tvinnaðir saman og metnir á grundvelli hagkvæmni, byggðasjónarmiða, umhverfisþátta o.fl.
    Þá telur meiri hlutinn nauðsynlegt að litið sé til umferðaröryggismála við gerð samgönguáætlana og haft samráð við yfirvöld lögreglumála hvað það varðar.
    Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið sem fram hafa komið um að umfang framkvæmda í samgöngumálum eigi að taka mið af efnahagsástandi í landinu hverju sinni og vill nefndin geta þess að framkvæmdum hefur verið frestað á grundvelli efnahagslegra sjónarmiða og svo mun vafalaust verða áfram. Samgönguáætlun ein og sér bindur ekki stjórnvöld til framtíðar hvað þetta varðar. Stjórnvöld hafa, með fulltingi Alþingis, ávallt möguleika á að bregðast við aðstæðum í efnahagsmálum með því að draga úr eða auka framkvæmdir eftir atvikum.
    Meiri hlutinn leggur til breytingu á ákvæði til bráðabirgða með frumvarpinu. Lagt er til að samgönguráðherra skuli í fyrsta sinn leggja fram tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun 2003–2014 á 128. löggjafarþingi í stað 127. löggjafarþings eins og frumvarpið gerir ráð fyrir.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldri

    BREYTINGU:

    Í stað orðanna „127. löggjafarþingi“ í ákvæði til bráðabirgða komi: 128. löggjafarþingi.

Alþingi, 6. mars 2002.



Guðmundur Hallvarðsson,


form., frsm.


Hjálmar Árnason.


Sigríður Ingvarsdóttir.



Arnbjörg Sveinsdóttir.


Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


Jónas Hallgrímsson.



Kristján L. Möller,


með fyrirvara.