Ferill 607. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 954  —  607. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 28/1998, um verslunaratvinnu, með síðari breytingum .

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)


1. gr.

    1. málsl. 4. mgr. 1. gr. laganna orðast svo: Verði ágreiningur um hvort um verslun fari samkvæmt lögum þessum sker skráningaraðili samkvæmt lögunum úr honum innan þrjátíu daga.

2. gr.

    2. gr. laganna orðast svo:
    Til að stunda verslun á Íslandi eða í íslenskri landhelgi skal uppfylla skilyrði laga þessara og atvinnustarfsemin skal skráð í samræmi við löggjöf um skráningu firma, hlutafélaga og einkahlutafélaga, samvinnufélaga og sjálfseignarstofnana, eftir því sem við á.

3. gr.

    1. mgr. 4. gr. laganna orðast svo:
    Skylt er að skrásetja verslun, sem stunduð er skv. 1. gr. laga þessara, í firmaskrá, hlutafélagaskrá, samvinnufélagaskrá eða skrá á grundvelli löggjafar um sjálfseignarstofnanir, eftir því sem við á.

4. gr.

    6. gr. laganna orðast svo:
    Skráningaraðili samkvæmt lögum þessum lætur í té staðfestingu á því að verslun hafi verið skráð samkvæmt lögum þessum.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Hver sá sem vill reka verslun eða umboðssölu með notuð ökutæki skal hafa til þess sérstakt leyfi lögreglustjóra í umdæmi þar sem föst starfsstöð bifreiðasala er.
     b.      2. og 3. mgr. falla brott.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „sem fullnægja eftirtöldum skilyrðum“ í 1. mgr. kemur: sbr. 2. gr.
     b.      Í stað orðanna „Meiri hluti stjórnarmanna“ í 2. mgr. kemur: Allir stjórnarmenn.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 19. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Lögreglustjórum, sbr. 1. mgr., ber að halda skrá yfir þá sem leyfi hafa til starfsemi samkvæmt þessum kafla í umdæmi þeirra.
     b.      2. mgr., er verður 3. mgr., orðast svo:
                  Nú fylgir bifreiðasali ekki lögum og reglum sem um starfsemi þessa gilda þrátt fyrir tilmæli lögreglustjóra eða fullnægir ekki skilyrðum laganna og skal lögreglustjóri þá að undangenginni aðvörun svipta viðkomandi starfsleyfi. Ákvörðun um sviptingu starfsleyfis er unnt að skjóta til viðskiptaráðherra. Enn fremur má leita úrskurðar dómstóla.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 23. gr. laganna:
     a.      5. mgr. orðast svo:
                  Þegar sérstaklega stendur á getur lögreglustjóri veitt þeim sem hefur skráð verslunarrekstur samkvæmt lögunum leyfi til að halda lokað uppboð í umdæmi sínu í því skyni að styrkja viðurkennt líknarstarf og kirkjustarf, menntir, vísindi og menningu. Sé um lokað uppboð á listmunum að ræða skal vekja sérstaka athygli á ákvæðum V. kafla laga þessara varðandi frjáls uppboð og reglugerð menntamálaráðherra um fylgiréttargjald en jafnframt skal innheimtuaðila, Myndhöfundasjóði Íslands – Myndstefi, tilkynnt um veitingu leyfisins.
     b.      3. málsl. 6. mgr. orðast svo: Menntamálaráðherra getur sett nánari reglur um fylgiréttargjald að höfðu samráði við Myndhöfundasjóð Íslands – Myndstef og kveðið þar á um viðurlög við brotum á reglunum, sbr. 24. gr.
     c.      Á eftir 6. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Uppboðsstjórar skulu ársfjórðungslega senda skilagreinar um sölu listmuna á næstliðnu tímabili, staðfestar af löggiltum endurskoðanda, til innheimtuaðila skv. 6. mgr. Skylt er þeim uppboðsstjórum, sem stunda uppboð á listmunum, að senda einnig skilagrein fyrir þau tímabil þegar engin sala fer fram hjá uppboðsstjóra nema þeir hafi sannanlega tilkynnt innheimtuaðila, Myndhöfundasjóði Íslands – Myndstefi, að þeir hafi hætt slíkum uppboðum.

9. gr.

    24. gr. laganna orðast svo:
    Með brot á lögum þessum skal farið að hætti opinberra mála.
    Sá sem vanrækir tilkynningar til firmaskrár, hlutafélagaskrár, samvinnufélagaskrár eða skrár á grundvelli löggjafar um sjálfseignarstofnanir, eftir því sem við á, eða skilar ekki skilagreinum um sölu listmuna skv. 7. mgr. 23. gr. skal sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári. Sama refsing á við um brot gegn IV. kafla. Heimilt er að krefjast þess í refsimáli að verslun verði afmáð úr einhverri framangreindra skráa, eftir því sem við á, hafi verslun framið ítrekað eða alvarlegt brot gegn ákvæðum laga er um starfsemina gilda. Í refsimáli gegn aðila, sem hefur leyfi til sölu notaðra ökutækja skv. IV. kafla laga þessara, er auk þess eða einvörðungu heimilt að krefjast sviptingar þess leyfis í samræmi við ákvæði 68. gr. almennra hegningarlaga.
    Brot á samþykktum sveitarstjórna, sem settar verða samkvæmt lögum þessum, varða sektum.
    Nú hefur sá sem ábyrgð ber á verslun verið dæmdur til greiðslu sektar vegna brots í starfi sínu og ber lögaðilinn þá ábyrgð á greiðslu sektar ef innheimta hefur orðið árangurslaus hjá sökunaut sjálfum. Ef ekki er ákvæði í refsidómi um ábyrgð lögaðila verður sektin því aðeins innheimt með aðför hjá honum að dæmt sé um skyldu hans í sérstöku opinberu máli.

10. gr.

    Í stað orðanna „firma- eða hlutafélagaskrá“ í ákvæði til bráðabirgða kemur: skráningaraðila.

11. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. desember 2002.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í viðskiptaráðuneytinu. Aðalmarkmiðið með því var upphaflega að stuðla að betri skilum á fylgiréttargjaldi skv. 6. mgr. 23. gr. laganna vegna sölu á listmunauppboðum en síðan var ákveðið að nota tækifærið til að gera aðrar breytingar á lögunum. Þær breytingar fela fyrst og fremst í sér að lögreglustjórar skuli veita leyfi til að reka verslun eða umboðssölu með notuð ökutæki í umdæmi sínu, svo sem áður var, í stað viðskiptaráðherra og haldi skrá yfir leyfishafa í umdæmum sínum. Jafnframt geti leyfisveitendur, þ.e. lögreglustjórarnir, svipt leyfishafa starfsleyfi sínu. Ákvörðun um sviptingu starfsleyfis má skjóta til viðskiptaráðuneytis eða dómstóla. Þá er kveðið á um að í refsimáli megi krefjast sviptingar heimildar til að starfa sem bílasali í samræmi við 68. gr. almennra hegningarlaga. Jafnframt eru gerðar breytingar á hugtakanotkun varðandi skráningaraðila.
    Fylgiréttargjald er einnig lagt á endursölu listmuna í atvinnuskyni. Í 25. gr. b í höfundalögum, nr. 73/1972, eins og henni hefur verið breytt með 5. og 11. gr. laga nr. 60/2000, hafa verið sett ákvæði um skilagreinar og refsingu ef skilagreinar vegna fylgiréttargjaldsins eru ekki sendar. Nauðsynlegt hefur verið talið að kveða á um skilagreinar og refsingu þar eð misbrestur hefur orðið á því að fylgiréttargjaldi sé skilað. Rétt þykir að gæta samræmis í lögum um verslunaratvinnu að því er varðar skilagreinar og refsingar vegna sölu listmuna á listmunauppboðum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í greininni er kveðið á um úrskurðaraðila ef ágreiningur er um það hvort um verslun fari samkvæmt lögunum um verslunaratvinnu. Í staðinn fyrir firmaskrárritara, sem er of þröngt hugtak, er notað hugtakið „skráningaraðili samkvæmt lögunum“.

Um 2. gr.

    Grein þessi snertir skilyrði laga um skráningu verslunar. Breytt er tilvísun í viðkomandi löggjöf og vísað í löggjöf um skráningu firma, hlutafélaga og einkahlutafélaga, samvinnufélaga og sjálfseignarstofnana. Hér er með öðrum orðum um að ræða tilvísun í lög nr. 42/1903, um verslanaskrár, firma- og prókúruumboð, lög nr. 2/1995, um hlutafélög, lög nr. 138/1994, um einkahlutafélög, lög nr. 22/1991, um samvinnufélög, lög nr. 33/1999, um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur, og lög nr. 19/1988, um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, svo og síðari breytingar á þessum lögum. Þessi tilvísun er nákvæmari.

Um 3. gr.

    Í greininni er nákvæmari upptalning á skrám þeim sem skylt er að skrá verslun í. Taldar eru upp firmaskrár sem eru hjá sýslumönnum, hlutafélagaskrá, sem skráir hlutafélög og einkahlutafélög, samvinnufélagaskrá og skrá á grundvelli löggjafar um sjálfseignarstofnanir, þ.e. annars vegar sjálfseignarstofnanaskrá á grundvelli laga nr. 33/1999, um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur, eða skrá dóms- og kirkjumálaráðuneytisins á grundvelli laga nr. 19/1988, um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Ólíklegt er að verslunarstarfsemi sé skráð í síðastnefndu skránni.

Um 4. gr.

    Í greininni er breytt hugtakanotkun. „Skráningaraðili samkvæmt lögum þessum“ kemur í stað firmaskrárritara.

Um 5. gr.

    Samkvæmt gildandi lögum er eftirlit með starfsemi bifreiðasala í höndum lögreglustjóra í því umdæmi þar sem starfsstöð bifreiðasala er, sbr. 1. mgr. 19. gr. laganna. Óski aðili eftir leyfi til þess að mega stunda sölu með notuð ökutæki þarf hann samkvæmt ákvæðum núgildandi laga að sækja um slíkt leyfi til viðskiptaráðherra. Að undangenginni könnun ráðuneytisins á því hvort öll skilyrði laganna séu fyrir hendi er leyfið veitt og tilkynnir ráðuneytið það umsækjanda, svo og hlutaðeigandi lögreglustjóra í því umdæmi þar sem starfsstöð skal rekin. Jafnframt er tekið fram að leyfið sé háð því að umsækjandi (leyfishafi) fullnægi ávallt og á hverjum tíma þeim skilyrðum sem leyfið byggist á, t.d. um starfsábyrgðartryggingu og starfsstöð. Í reynd verða oft breytingar á ýmsum atriðum sem leyfisveitingin er háð í upphafi. T.d. getur fyrirsvarsmaður sölunnar, sem lokið hefur prófi til réttinda bílasala, látið af störfum og annar komið í hans stað. Einnig kann aðili að vilja skipta um vátryggingarfélag sem veitir starfsábyrgðartryggingu og er tryggingu þá sagt upp og önnur trygging lögð fram í hennar stað. Öll framangreind atriði eru hluti af varanlegu, lögbundnu eftirliti með starfsemi bifreiðasala sem lögreglustjórar annast hver í sínu umdæmi. Af þessari ástæðu og að fenginni reynslu af framkvæmd ákvæðisins eins og það er nú þykir rétt að fella brott ákvæði 2. og 3. mgr. 12. gr. laganna. Samhliða er þó lagt til að framvegis verði öll þjónusta varðandi leyfisveitingar skv. IV. kafla laganna í heimahéraði umsækjanda þar sem hin fasta starfsstöð bifreiðasölunnar er. Hér er því lagt til að framvegis verði útgáfa leyfis til sölu notaðra ökutækja hjá lögreglustjórum í því umdæmi þar sem hin fasta starfsstöð er. Það tryggir betri þjónustu við umsækjendur um leyfi og leiðir til markvissara efirlits og yfirsýnar hjá eftirlitsaðilum með þessari starfsemi, sbr. 19. gr. laganna.
    Þess má geta að í 3. mgr. 12. gr. núgildandi laga, sem hér er lagt til að falli brott, segir að heimilt sé að leggja inn áður útgefið leyfi. Skv. 13. gr. laganna er gildistími leyfanna hins vegar fimm ár í senn en þau skulu að þeim tíma liðnum endurnýjuð. Framangreint innlagnarákvæði hafði meiri þýðingu þegar gjaldtaka fyrir leyfi var meiri. Frá því að slík breyting var gerð á gjaldtöku fyrir leyfin er ekki lengur eftirspurn eftir því frá leyfishöfum að fá að leggja leyfi sín inn. Af reynslu undanfarinna ára sést einnig að þeir sem fá útgefin leyfi og verða af einhverjum ástæðum að hætta starfsemi sinni áður en fimm árin eru liðin kjósa ekki að leggja leyfin inn heldur hætta alfarið rekstri bílasölu. Loks má nefna að slíkri tilhögun fylgir og talsverð umsýsla fyrir alla hlutaðeigandi aðila, þ.e. leyfishafa, svo og skjalasafn þess er veitir leyfið. Ekki er því talin ástæða til þess að lögin bjóði framvegis upp á slíka innlögn leyfisins. Í 3. mgr. 12. gr. laganna er einnig að finna það skilyrði fyrir uppsögn starfsábyrgðartryggingar að leyfisveitandi hafi staðfest uppsögina. Í framkvæmd hefur þetta skilyrði þótt íþyngjandi og lítt raunhæft enda verður t.d. oft að beita uppsögn af hálfu vátryggjanda ef iðgjöld eru ekki greidd o.s.frv. Er að öllu framansögðu athuguðu talið að ákvæði 3. mgr. hafi ekki lengur raunhæfa þýðingu og er því lagt til að það verði fellt brott.

Um 6. gr.

    Í a-lið er gerð smávægileg orðalagsbreyting sem m.a. stafar af því að með ákvæði 2. gr. laga nr. 28/1998, um verslunaratvinnu, er það gert að skilyrði til að mega stunda starfsemi samkvæmt lögunum að starfsemin sé skráð í einhverja tiltekinna skráa, sbr. t.d. ákvæði 4. gr. laganna. Þegar lög nr. 69/1994, um sölu notaðra ökutækja, voru felld inn í meginmál laganna um verslunaratvinnu var ekki sérstaklega hugað að slípun orðalags að þessu leyti og miðar breytingin í a-lið að því gera lagfæringu á orðalagi þessa ákvæðis sem einnig taki mið af öðrum ákvæðum laganna.
    Í b-lið er lagt til að eldra orðalagi, sem var í lögum nr. 69/1994, um sölu notaðra ökutækja, verði breytt til samræmis við ákvæði í 1. mgr. 66. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, og sambærilegt ákvæði í 1. mgr. 42. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki skýringa.

Um 7. gr.

     A-liður: Í athugasemdum við 2. gr. frumvarpsins hefur verið gerð grein fyrir ástæðum þess að nauðsynlegt er talið að lögreglustjórar hafi varanlegt og heildstætt eftirlit með starfsemi bifeiðasala sem rekin er í umdæmi þeirra. Eftir að leyfi hefur verið gefið út og starfsemi hafin er það á valdi og verksviði lögreglunnar að hafa eftirlit með því að starfsemin fullnægi ávallt þeim skilyrðum sem lögin setja um hana, sbr. 19. gr. laganna. Eðlilegt er því að hvert embætti fylgist með og haldi skrá yfir þá leyfishafa sem starfa á hverjum tíma í umdæmi þeirra. Hluti af eftirlitsskyldu er síðan að hafa eftirlit með því að ekki sé opnuð bifreiðasala á nýrri starfsstöð í umdæminu án þess að slík breyting hafi verið tilkynnt og hún færð í skrána. Sama á við um önnur þau skilyrði sem starfsemin er háð lögum samkvæmt hverju sinni. Öll embætti lögreglustjóra í landinu hafa nú opnað heimasíður sem aðgengilegar eru á netinu. Eðlilegt er því að embættin hafi skrána aðgengilega á heimasíðum sínum en á undanförnum árum hafa slíkar upplýsingar verið birtar á netinu um þá aðila sem hafa gild starfsleyfi til sölu notaðra ökutækja.
    B-liður: Í samræmi við breytingar, sem lagðar eru til í a-lið, eru gerðar nauðsynlegar breytingar á núverandi 2. mgr. sem verður 3. mgr. Skjóta má úrskurði um sviptingu starfsleyfis til viðskiptaráðherra eða leita til dómstóla. Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki skýringar.

Um 8. gr.

    Í a-lið er kveðið skýrt á um að lögreglustjóri geti veitt leyfi til að halda lokað uppboð í umdæmi sínu í því skyni að styrkja viðurkennt líknarstarf og kirkjustarf, menntir, vísindi og menningu. Sé um lokað uppboð á listmunum að ræða er því bætt við að vekja skuli sérstaka athygli á ákvæðum V. kafla laganna um verslunaratvinnu varðandi frjáls uppboð og reglugerð menntamálaráðherra um fylgiréttargjald, nú reglugerð nr. 486/2001, en jafnframt skuli innheimtuaðila, þ.e. Myndhöfundasjóði Íslands – Myndstefi, tilkynnt um veitingu leyfisins þannig að m.a. megi betur fylgjast með skilum á fylgiréttargjaldi.
    Í b-lið er fjallað um það að menntamálaráðherra geti sett nánari reglur um fylgiréttargjald. Tilgreindur er sá aðili sem nú skal hafa samráð við um reglurnar, þ.e. Myndhöfundasjóður Íslands – Myndstef. Þá er bætt við að í reglunum megi kveða á um viðurlög við brotum á þeim, sbr. 24. gr. laganna.
    Hér er það nýmæli til samræmis við höfundalögin að uppboðsstjórar skuli ársfjórðungslega senda skilagreinar um sölu listmuna á næstliðnu tímabili, staðfestar af löggiltum endurskoðanda, til innheimtuaðila, þ.e. til Myndhöfundasjóðs Íslands – Myndstefs. Hér er einnig kveðið á um að uppboðsstjórum, sem stunda uppboð á listmunum, sé skylt að senda einnig skilagrein fyrir þau tímabil þegar engin sala fer fram hjá þeim, þó ekki ef þeir hafa sannanlega tilkynnt innheimtuaðila að þeir hafi hætt slíkum uppboðum. Þetta ákvæði nær ekki til þeirra sem halda lokað listmunauppboð samkvæmt leyfi frá lögreglustjóra enda nægir að þeir sendi skilagreinar í framhaldi af leyfisveitingu hverju sinni.
    Taka má fram að við upptöku 10% fylgiréttargjalds á sínum tíma var felldur niður 24,5% söluskattur en síðar 22% virðisaukaskattur vegna sölu á listmunauppboðum. Hefur verð til kaupandans þannig lækkað til muna þótt til fylgiréttargjaldsins hafi komið.

Um 9. gr.

    Með þessari grein er 24. gr. laganna umskrifuð. Ákvæði 1. mgr. um opinbera málsmeðferð eru óbreytt en aðalbreytingin snertir 2. mgr. Ákvæði um refsingu fyrir vanrækslu á tilkynningu eru færð til samræmis við löggjöf um hlutafélög, einkahlutafélög og samvinnufélög og breytingar á réttarfarsákvæðum vegna niðurfellingar varðhalds og tilgreint nákvæmar hvers konar skrár um er að ræða. Í stað varðhalds kemur eins árs fangelsi. Sama refsing á við um brot gegn IV. kafla um sölu notaðra ökutækja, þ.e. sektir eða fangelsi allt að einu ári. Er það nýmæli. Þykir rétt að vanræksla á tilkynningum til lögreglustjóra, sem nauðsynlegar eru vegna starfsemi við sölu notaðra ökutækja, geti varðað sömu viðurlögum og almenn vanræksla á tilkynningum til skráningaraðila verslunar. Þá er kveðið svo á að kröfu um að verslun verði afmáð úr skrá sé gerð í refsimáli en slíkt kemur ekki fram í lagagreininni nú. Þá er ekki einungis kveðið á um að fremja þurfi ítrekað brot heldur einnig alvarlegt brot. Í 2. mgr. er jafnframt það nýmæli að kveðið er á um að í refsimáli gegn aðila, sem hefur leyfi til sölu notaðra ökutækja samkvæmt IV. kafla laganna, sé heimilt að krefjast sviptingar leyfis til sölunnar í samræmi við ákvæði 68. gr. almennra hegningarlaga. Í því sambandi skal bent á að leyfi til sölu notaðra ökutækja kemur til viðbótar heimild til að reka verslun á grundvelli skráningar. Svipting getur á grundvelli greinarinnar bæði snúið að verslun og leyfi til sölu notaðra ökutækja eða öðru hvoru. Á undanförnum árum hafa dómar fallið í nokkrum sakamálum á hendur einstaklingum sem hafa verið í fyrirsvari fyrir sölu notaðra ökutækja. Að fenginni ábendingu frá embætti ríkissaksóknara telur ráðuneytið eðlilegt að í lögum sé að finna heimild til þess að unnt sé í refsimáli að svipta aðila leyfi til lengri eða skemmri tíma í samræmi við 68. gr. hegningarlaga sem ætla má að taki bæði til ítrekaðra og stórfelldra brota.
    Ákvæði 3. mgr. um sektir vegna brota á samþykktum sveitarstjórna eru óbreytt.
    Í 4. mgr. er kveðið á um ábyrgð lögaðila á greiðslu sektar starfsmanns. Kemur orðið „lögaðili“ í stað firma.

Um 10. gr.

    Í greininni eru lagðar til orðalagsbreytingar varðandi skráningaraðila.

Um 11. gr.

    Gert er ráð fyrir nokkrum aðlögunartíma áður en lögin öðlast gildi.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 28/1988,
um verslunaratvinnu, með síðari breytingum.

    Frumvarpið er lagt fram í þeim tilgangi að stuðla að betri skilum á fylgiréttargjaldi skv. 23. gr. laganna, vegna sölu á listmunauppboðum. Einnig er lögreglustjórum gert að veita, svipta og halda skrá yfir leyfi með verslun eða umboðssölu fyrir notuð ökutæki í umdæmum sínum, en áður hélt viðskiptaráðherra skár yfir leyfishafa.
Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki séð að það hafi áhrif á kostnað ríkissjóðs.