Ferill 641. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1036  —  641. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 8/1996, um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)


1. gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „tilskipunar 85/384/EBE“ í 1. tölul. kemur: með síðari breytingum.
     b.      Á eftir orðunum „tilskipunar 89/48/EBE“ í 2. tölul. kemur: með síðari breytingum.
     c.      Við bætist ný málsgrein sem orðast svo:
                  Við framkvæmd 1. tölul. 1. mgr. skal þess gætt að synjun um leyfi sé rökstudd. Bera má málið undir dómstóla, svo og ef ákvörðun er eigi tekin innan þriggja mánaða frá því að umsækjandi leggur inn umsókn sína ásamt fylgiskjölum.

2. gr.


    Við 9. gr. laganna bætist: svo og í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi EB.

3. gr.


    Lög þessi, sem byggjast á tilskipun 2001/19/EB, öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Vegna upptöku tilskipunar 2001/19/EB frá 14. maí 2001, sem snertir viðurkenningu á starfsréttindum ýmissa stétta á grundvelli almennra tilskipana og tilskipana um einstakar stéttir, í íslenskan rétt þarf að gera breytingar á lögum nr. 8/1996, um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum, með síðari breytingum. Hefur því frumvarp þetta verið samið í iðnaðarráðuneytinu. Nánar tiltekið þarf að vísa í breytingar á tilskipun 85/384/EBE og tilskipun 89/48/EBE, svo og taka af tvímæli um skyldu til rökstuðnings fyrir synjun á leyfi til að bera starfsheitið arkitekt og um rétt til að leita til dómstóla vegna synjunar og ef ákvörðun er ekki tekin innan tilsetts frests.
    Með 11. gr. tilskipunarinnar eru gerðar breytingar á tilskipun 85/384/EBE sem varðar starfsréttindi arkitekta, sbr. 1. tölul. 4. gr. framangreindra laga. Er þar m.a. kveðið á um athugun ríkja á skírteinum arkitekta um hæfni, svo og ákvarðanatöku um leyfi til að bera starfsheitið arkitekt þar innan þriggja mánaða eftir að umsókn hefur verið lögð fram með fullnægjandi gögnum. Í 6. gr. a í tilskipuninni er kveðið á um að rökstyðja þurfi synjun og jafnframt að viðkomandi umsækjandi geti leitað til dómstóla samkvæmt landslögum ef umsókn er synjað eða henni ekki svarað innan tilsetts frests, sbr. 6. gr. tilskipunarinnar eins og henni hefur verið breytt.
    Í tilskipuninni er einnig m.a. kveðið á um breytingu á tilskipun 89/48/EBE sem gildir skv. 2. tölul. 4. gr. laganna um starfsheiti annarra stétta í tækni- og hönnunargreinum en arkitekta, þ.e. um starfsheiti verkfræðinga, tæknifræðinga, byggingafræðinga, húsgagna- og innanhússarkitekta, iðnfræðinga, landslagsarkitekta (landslagshönnuða) og skipulagsfræðinga, sbr. upptalningu í 1. gr. laganna. Menntamálaráðuneytið mun gera sérstaka grein fyrir breytingum á tilskipun 89/48/EBE, sem snertir viðurkenningu á menntun og prófskírteinum almennt, í lagafrumvarpi því sem það stendur að.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 8/1996,
um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og
hönnunargreinum, með síðari breytingum.

    Tilgangur frumvarpsins er að kveða nánar um viðurkenningar á menntun og prófskírteinum til samræmis við tilskipun 2001/19/EB.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum mun það ekki hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs.