Ferill 663. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1073  —  663. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 61/1981, um steinullarverksmiðju.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)


1. gr.

    Í stað 1.– 4. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi:
    Iðnaðarráðherra er heimilt að selja eignarhlut íslenska ríkisins í Steinullarverksmiðjunni.
    Helmingur söluandvirðisins skal renna til samgöngubóta eða annarra verkefna í þeim sveitarfélögum sem eiga verulegra hagsmuna að gæta vegna starfsemi steinullarverksmiðjunnar, samkvæmt nánari ákvörðun ríkisstjórnarinnar.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.



1. Inngangur.
    Með lögum nr. 61/1981 var ríkisstjórninni veitt heimild til að taka þátt í stofnun Steinullarverksmiðjunnar hf. á Sauðárkróki. Stofnsamningur fyrir Steinullarverksmiðjuna hf. var undirritaður 2. desember 1982 og lagði íslenska ríkið fram 40% hlutafjár en Steinullarfélagið hf. 60%. Á árinu 1983 ákváðu Kaupfélag Skagfirðinga, Samband íslenskra samvinnufélaga og OY Partek A/B í Finnlandi að gerast hluthafar í félaginu. Steinullarverksmiðjan hóf starfsemi árið 1985. Núverandi eigendur verksmiðjunnar eru eftirtaldir:

    Ríkissjóður          30,11%
    Paroc Group          27,68%
    Bæjarsjóður Sauðárkróks          23,98%
    GLD heildverslun          12,38%
    Kaupfélag Skagfirðinga          4,92%
    Aðrir          0,93%

2. Rekstur Steinullarverksmiðjunnar hf.
    Rekstur Steinullarverksmiðjunnar var erfiður í byrjun. Erfiðleikarnir stöfuðu annars vegar af tæknilegum ástæðum og hins vegar af mikilli skuldsetningu fyrirtækisins í erlendri mynt á tímum óðaverðbólgu. Fljótlega tókst að leysa tæknileg vandamál við framleiðsluna og afurðir fyrirtækisins urðu fyllilega samkeppnishæfar við afurðir frá öðrum framleiðendum. Með tímanum tókst að byggja upp markað í Færeyjum, Bretlandi og víðar, en útflutningur á afurðum fyrirtækisins hefur gert það að verkum að afkastagetan hefur verið að mestu fullnýtt frá því starfsemin hófst.
    Árið 1989 tóku eigendur, lánadrottnar og starfsmenn höndum saman um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækisins. Hlutafé var aukið um 90 millj. kr. og jók finnska fyrirtækið Partek (nú Paroc Group) eignarhlut sinn úr 8% í 27,7%. Jafnframt var samið um nokkra lækkun vaxta og lengingu á endurgreiðslutíma lána. Ástæður þess að svo víðtæk samstaða náðist um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækisins var sú að tekjur fyrirtækisins jukust, fyrirtækið hafði náð góðum tökum á framleiðslunni og afurðir fyrirtækisins reyndust fyllilega standast kröfur markaðarins. Í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækisins var gert sérstakt hluthafasamkomulag á milli stærstu eigenda þess, þ.e. ríkissjóðs, Partek, bæjarsjóðs Sauðárkróks, Sambands íslenskra samvinnufélaga og Kaupfélags Skagfirðinga. Síðar eignuðust Byko og Húsasmiðjan hf. hlut Sambands íslenskra samvinnufélaga og stofnuðu þessir aðilar fyrirtækið GLD heildverslun um eignarhluti sína.
    Þær langtímaáætlanir sem lagðar voru til grundvallar hinni fjárhagslegu endurskipulagningu árið 1989 hafa gengið eftir. Fyrirtækinu hefur tekist að þróa nýjar vörutegundir bæði fyrir innanlandsmarkað og til útflutnings. Í þeim efnum hefur fyrirtækið notið góðs af samstarfi við Partek á sviði tækni- og vöruþróunar. Markaðsstaða fyrirtækisins er traust og mikil umsvif í byggingariðnaði hér á landi á síðustu árum hafa leitt til þess að efnahagur fyrirtækisins er sterkur. Fyrirtækið hefur staðið vel að viðhaldi og endurnýjun framleiðslubúnaðar og síðasta haust var tekinn í notkun nýr og fullkominn pökkunarbúnaður.

3. Viðræður um sölu.
    Í ágúst 2001 samþykkti byggðaráð Skagafjarðar að óska eftir formlegum viðræðum við aðra ráðandi hluthafa í Steinullarverksmiðjunni hf. um sölu á hlutabréfum sveitarsjóðs í félaginu. Hinn 5. október sl. var haldinn fundur fulltrúa stærstu hluthafa Steinullarverksmiðjunnar hf. og var tilefni hans að ræða ósk sveitarfélagsins um sölu á hlut þess. Á fundinum kom fram að sveitarfélagið stefndi að því að selja allan hlut sinn og var af hálfu þess lögð áhersla á að sem best sátt ríkti milli aðila hluthafasamkomulagsins frá 1989 um framkvæmd sölunnar. Var niðurstaða fundarins sú að sveitarfélagið legði fram nánari hugmyndir um sölu bréfanna og tæki í framhaldi af því upp viðræður við einstaka hluthafa.
    Í lok nóvember 2001 gerði sveitarfélagið aðilum hluthafasamkomulagsins skriflegt tilboð um að kaupa hlut þess á genginu 3,05. Byggðist tilboðið á mati sérfræðinga á virði Steinullarverksmiðjunnar hf., en matið var á bilinu 794,6–842,4 millj. kr. Það svarar til gengis á bilinu 2,88–3,05 fyrir hvern hlut. Í bréfinu kom fram að stefna sveitarfélagsins væri að selja bréfin fyrir lok ársins og var þess óskað að svör bærust fyrir 5. desember.
    Af hálfu ríkisins var tilboði um kaup á hlut sveitarfélagsins hafnað. Í síðari hluta desembermánaðar gerðu GLD heildverslun og Kaupfélag Skagfirðinga sameiginlegt tilboð í 52% hlut sveitarfélagsins og Paroc Group í fyrirtækinu. Ef tilboðinu hefði verið tekið hefði hlutur GLD heildverslunar og Kaupfélags Skagfirðinga orðið tæp 70%. Þegar eftir að ríkinu varð kunnugt um að slíkt tilboð hefði komið fram var óskað eftir fundi með aðilum hluthafasamkomulagsins til að ræða breyttar forsendur sem upp væru komnar og framtíðareignarhald á félaginu. Á fundinum lýstu fulltrúar ríkisins því yfir að þar sem fyrir lægi að Paroc hefði breytt um afstöðu og vildi nú selja hlut sinn í fyrirtækinu þá vildi ríkið jafnframt taka til athugunar að selja sinn hlut. Jafnframt var því lýst yfir af hálfu ríkisins að það vildi láta á það reyna hvort hægt væri að ná samstöðu um að bjóða bréf ríkisins, sveitarfélagsins og jafnvel Parocs til sölu með sameiginlegu útboði. Af hálfu sveitarfélagsins og Paroc var þeirri leið hafnað.
    Hinn 18. febrúar sl. barst bárust ríkinu, Paroc Group og sveitarfélaginu Skagafirði kauptilboð í eignarhluti framangreindra aðila í Steinullarverksmiðjunni hf. frá Húsasmiðjunni hf., BYKO hf. og Kaupfélagi Skagfirðinga. Hinn 1. mars sl. náðist samkomulag á grundvelli sameiginlegs gagntilboðs ríkisins, Paroc Group og sveitarfélagsins Skagafjarðar um sölu á hlutum þessara aðila í Steinullarverksmiðjunni hf. til þeirra þriggja fyrirtækja sem stóðu að kauptilboðinu frá 18. febrúar. Samkvæmt samkomulaginu er gengi hlutabréfanna 2,65 og koma 220.124.476 kr. í hlut ríkisins. Í samkomulaginu er einnig kveðið á um að greiddar verði 39.950.000 kr. í arð fyrir árið 2001 sem skiptist í samræmi við núverandi hlutafjáreign. Miðað við þá fjárhæð nemur hlutur ríkisins rúmum 12 millj. kr. Heildarfjárhæðin sem kemur í hlut ríkisins verði af þessum viðskiptum nemur því rúmlega 232 millj. kr. Samkvæmt samkomulaginu verða 65% af kaupverðinu greidd við undirritun samnings, sem gert er ráð fyrir að verði 30. apríl 2002, en eftirstöðvarnar 30. ágúst 2002.
    Í samkomulaginu kemur fram að eftirfarandi skilyrði þurfi að uppfylla áður en gengið verður frá endanlegum samningi um viðskiptin:
     a.      að samkeppnisyfirvöld banni ekki kaupin eða setji um þau efnisleg skilyrði,
     b.      að seljandi heimili lagalega og/eða fjárhagslega áreiðanleikaskoðun af hálfu aðila sem kaupandi tilnefnir og að niðurstaða áreiðanleikaskoðunarinnar verði án efnislegra athugasemda,
     c.      að eftirfarandi samningar verði undirritaðir samhliða:
                  i.      „samstarfs- og leyfissamningur“ til langs tíma milli félagsins og Paroc Group Oy AB, Finnlandi, samkvæmt tillögunni sem merkt er 2001/IV, og
                  ii.      „dreifingarsamningur“ milli félagsins og Paroc Group Oy AB, Finnlandi,
     d.      að Alþingi, sveitarstjórn Skagafjarðar og allar félagsstjórnir sem málið varðar staðfesti og heimili kaupin, tilboðið og kaupsamninginn milli aðilanna (hér eftir nefndur „kaupsamningurinn“),
     e.      að kaupandi gefi skriflega yfirlýsingu um þá ætlun sína að halda áfram rekstri félagsins á Sauðárkróki,
     f.      að sveitarstjórn Skagafjarðar gefi skriflega yfirlýsingu um að halda áfram að veita félaginu þjónustu, t.d. heitt og kalt vatn, hafnaraðstöðu og viðeigandi og samþykkt svæði til úrgangslosunar; gjöld fyrir þessa þjónustu skulu vera á sambærilegum kjörum og gilda fyrir önnur fyrirtæki í sveitarfélaginu,
     g.      að ríkisstjórn Íslands gefi skriflega yfirlýsingu um þá ætlun sína að aðstoða við umsóknarferli og greiða í góðri trú fyrir endurnýjun starfsleyfis félagsins á sanngjörnum kjörum.
    Þá er það hluti af samkomulaginu að minni hluthöfum í Steinullarverksmiðjunni hf., sem eiga samanlagt tæplega 1%, verði gert sambærilegt tilboð um kaup á hlutabréfum þeirra í fyrirtækinu.
    Fulltrúar fyrirtækjanna þriggja sem stóðu að kauptilboðinu hafa lýst því yfir að ef kaupin ná fram að ganga hyggist þau stofna nýtt félag um eignarhaldið á Steinullarverksmiðjunni hf. Er gert ráð fyrir að hvert hinna þriggja fyrirtækja eigi 24,5% hlut í hinu nýja félagi og starfsmenn verksmiðjunnar 15%, auk annarra aðila.
    Í 29. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, segir m.a. að ríkisaðilar í A-hluta skuli hverju sinni afla heimilda í lögum til að selja eignarhluta í félögum. Með vísan til þessa er í frumvarpinu lagt til að iðnaðarráðherra verði veitt heimild til að selja eignarhlut íslenska ríkisins í Steinullarverksmiðjunni hf. Í frumvarpinu er jafnframt lagt til að helmingur af söluandvirðinu renni til samgöngubóta eða annarra verkefna í þeim sveitarfélögum sem eiga verulegra hagsmuna að gæta vegna starfsemi Steinullarverksmiðjunnar hf. á Sauðárkróki, samkvæmt nánari ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Er þetta efnislega hliðstætt ákvæði 1. gr. laga nr. 80/1966, um kísilgúrverksmiðju við Mývatn, þar sem segir að söluandvirðið skuli renna til atvinnuuppbyggingar í þeim sveitarfélögum sem eiga verulegra hagsmuna að gæta vegna starfsemi kísilgúrverksmiðjunnar, samkvæmt nánari ákvörðun ríkisstjórnarinnar.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 61/1981,
um steinullarverksmiðju.

    Tilgangur frumvarpsins er að veita iðnaðarráðherra heimild til að selja eignarhlut íslenska ríkisins í Steinullarverksmiðjunni hf.
    Samkvæmt kaupsamningi er söluverðmæti hluta íslenska ríkisins um 220 m.kr. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að verja 50% af söluandvirðinu eða 110 m.kr. til samgöngubóta og/ eða atvinnuuppbyggingar í þeim sveitarfélögum sem eiga verulegra hagsmuna að gæta vegna starfsemi verksmiðjunnar á Sauðarkróki.
    Verði frumvarpið að lögum aukast því útgjöld tímabundið um 110 m.kr., en á móti koma 220 m.kr. tekjur í ríkissjóð auk 12 m.kr. sem er arðgreiðsla fyrir árið 2001.