Ferill 640. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1245  —  640. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

Frá meiri hluta iðnaðarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Helga Bjarnason og Kristínu Haraldsdóttur frá iðnaðarráðuneyti. Umsagnir bárust frá Byggðastofnun, Orkustofnun, Rafmagnsveitum ríkisins, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Orkuveitu Reykjavíkur, Svavari Garðarssyni, Skagafjarðarveitum, Samorku, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga og Landsvirkjun.
    Frumvarpinu er ætlað að setja lagaramma um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, en þær hafa verið tíðkaðar hér á landi undanfarna tvo áratugi. Frá því að niðurgreiðslur hófust hefur um 10 milljörðum kr. verið ráðstafað til þeirra. Í frumvarpinu er lagt til að sú framkvæmd sem tíðkast hefur á niðurgreiðslum verði lögfest með skýrum hætti. Þó eru lagðar til nokkrar breytingar á framkvæmdinni sem eru þær helstar að mögulegt verður að greiða niður hitun með olíu hjá þeim sem ekki eiga kost á annarri hitun, eigendur smávirkjana eiga kost á niðurgreiðslu á rafhitun, notkun varmadælna til að hita íbúðir verður gjaldgeng til niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar, hitaveitur sem ekki eru opinberar veitur geta fengið styrk til stofnunar nýrrar veitu eða stækkunar eldri veitu, komið verður á opinberu eftirliti með framkvæmd aðgerðanna og settar verða skýrar reglur um það í hvaða tilvikum kyntar hitaveitur skuli njóta niðurgreiðslna.
    Meiri hlutinn leggur til breytingu á frumvarpinu þess efnis að nýjum kafla verði bætt inn um orkusparnað, en nefndin telur vænlegustu leiðina til að draga úr kostnaði ríkissjóðs af jöfnun húshitunarkostnaðar vera þá að stuðla að og hvetja til sparnaðar í orkunotkun. Nefndin bendir á að svigrúm til orkusparnaðar er töluvert, svo sem bætt einangrun húsa og bætt stýring á húshitun til að bæta orkunýtni.
    Meiri hlutinn leggur jafnframt til breytingu á frumvarpinu þess efnis að ef orka frá virkjun fer ekki um kerfi dreifiveitu heldur beint til notanda, sbr. smávirkjanir, skuli sú notkun vera mæld með löggiltum mæli og vinnsluaðili sjá um uppgjör niðurgreiðslu á sama hátt og dreifiveitur gera þegar orkan fer um kerfi þeirra.
    Meiri hlutinn bendir einnig á að samkvæmt frumvarpinu er kostnaður við rafhitun íbúðarhúsnæðis sem ekki er á veitusvæði hitaveitu niðurgreiddur óháð því hvernig raforkan er unnin, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. frumvarpsins. Hvort sem orkan kemur frá vindmyllu eða vatnsorkuveri er nægilegt svigrúm í frumvarpinu til að unnt verði að niðurgreiða raforku sem stafar frá nýrri tækni í vinnslu hennar.
    Loks bendir meiri hlutinn á að mikilvægt er að umsóknarskylda samkvæmt ákvæði til bráðabirgða I verði vel kynnt fyrir þeim aðilum sem nú njóta niðurgreiðslna á orku til húshitunar svo að tryggt verði að niðurgreiðslur falli ekki niður hjá þeim sem rétt eiga á þeim.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er grein fyrir hér að ofan og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Ísólfur Gylfi Pálmason var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 16. apríl 2002.



Hjálmar Árnason,


form., frsm.


Guðjón Guðmundsson.


Bryndís Hlöðversdóttir.



Svanfríður Jónasdóttir.


Helga Guðrún Jónasdóttir.


Árni Steinar Jóhannsson.



Kjartan Ólafsson.