Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 350. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 387  —  350. mál.




Frumvarp til laga



um breytingar á ákvæðum laga um hlutafélög, einkahlutafélög, samvinnufélög og sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur er varða skráningu þessara félaga og stofnana.


(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)

I. KAFLI
Skráning hlutafélaga.
Breyting á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, sbr. lög nr. 41/1997.
1. gr.

    Í stað orðanna „ráðherra Hagstofu Íslands“ í 2. og 3. málsl. 1. mgr. 1. gr. laganna kemur: fjármálaráðherra.


2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 147. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „Hagstofa Íslands“ í 1. mgr. kemur: Ríkisskattstjóri.
     b.      Í stað orðanna „Ráðherra Hagstofu Íslands“ í 2. mgr. kemur: Fjármálaráðherra.

II. KAFLI
Skráning einkahlutafélaga.
Breyting á lögum um einkahlutafélög, nr. 138/1994, sbr. lög nr. 43/1997.
3. gr.

    Í stað orðanna „ráðherra Hagstofu Íslands“ í 2. og 3. málsl. 1. mgr. 1. gr. laganna kemur: fjármálaráðherra.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 121. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „Hagstofa Íslands“ í 1. mgr. kemur: Ríkisskattstjóri.
     b.      Í stað orðanna „Ráðherra Hagstofu Íslands“ í 2. mgr. kemur: Fjármálaráðherra.

III. KAFLI
Skráning samvinnufélaga.
Breyting á lögum um samvinnufélög, nr. 22/1991, sbr. lög nr. 44/1997.
5. gr.

    Í stað orðanna „ráðherra Hagstofu Íslands“ í 2. mgr. 1. gr. laganna kemur: fjármálaráðherra.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „Hagstofa Íslands“ í 1. mgr. kemur: Ríkisskattstjóri.
     b.      Í stað orðanna „Ráðherra Hagstofu Íslands“ í 2. mgr. 10. gr. laganna kemur: Fjármálaráðherra.

7. gr.

    Í stað orðanna „Ráðherra Hagstofu Íslands“ í 1. mgr. 14. gr. laganna kemur: Fjármálaráðherra.

IV. KAFLI
Skráning sjálfseignarstofnana sem stunda atvinnurekstur.
Breyting á lögum um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur, nr. 33/1999.
8. gr.

    Í stað orðanna „ráðherra Hagstofu Íslands“ í 2. mgr. 1. gr. laganna kemur: fjármálaráðherra.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 37. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „Hagstofa Íslands“ í 1. mgr. kemur: Ríkisskattstjóri.
     b.      Í stað orðanna „Ráðherra Hagstofu Íslands“ í 2. mgr. kemur: Fjármálaráðherra.

V. KAFLI
Gildistaka.
10. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. apríl 2003.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er flutt í þeim tilgangi að færa skráningu hlutafélaga, einkahlutafélaga, samvinnufélaga og sjálfseignarstofnana sem stunda atvinnurekstur frá Hagstofu Íslands til embættis ríkisskattstjóra. Er frumvarpið flutt samhliða frumvarpi til laga um fyrirtækjaskrá en þar er lagt til að ríkisskattstjóri annist framvegis færslu fyrirtækjaskrár og útgáfu kennitalna til fyrirtækja, stofnana og annarra aðila samkvæmt nánari ákvæðum þar að lútandi.
    Þær breytingar sem felast í þessum frumvörpum eru framhald þeirra breytinga á verkaskiptingu efnahagsstofnana ríkisins sem urðu á miðju ári 2002 með niðurlagningu Þjóðhagsstofnunar, flutningi hagskýrsluverkefna hennar til Hagstofunnar og þjóhagsspárverkefna til efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytis og Seðabanka Íslands. Var þá ákveðið að stefna að frekari breytingum á starfsemi Hagstofunnar í þeim tilgangi að efla hagskýrsluhlutverk hennar og ná aukinni hagræðingu í rekstri. Í athugasemdum við frumvarp um afnám laga um Þjóðhagsstofnun var greint frá því að áformað væri að ná þessum markmiðum með því að endurskipuleggja Hagstofuna og flytja frá henni þau verkefni sem ekki tilheyra beinlínis hagskýrslugerðinni lengur. Hér er átt við þjóðskrá og almannaskráningu og skráningu fyrirtækja.
    Frumvörp þau sem nú eru flutt taka til fyrirtækjaskrár og félagaskráa Hagstofunnar en athugunum og undirbúningi að flutningi þjóðskrár er ekki lokið.
    Fyrirtækjaskrá Hagstofunnar var stofnuð árið 1969. Á árinu 1997 tók Hagstofan við rekstri hlutafélagaskrár og skyldra skráa. Við það varð félagaskráning markvissari en verið hafði og veruleg samlegðaráhrif fólust í samhæfingu skránna og færslu þeirra á sama stað. Loks var Hagstofunni á árinu 1999 falin skráning sjálfseignarstofnana sem stunda atvinnurekstur. Þessar skrár mynda nú þegar eitt gagnasafn og er mikið hagræði fólgið í því að stjórnvöld og opinber kerfi geti unnið með eina samhæfða skrá, sem er opinber og aðgengileg til eftirlits. Um það efni og frekari rökstuðning fyrir færslu þessa gagnasfns og opinberrar skráningar fyrirtækja og félaga vísast til ítarlegrar greinargerðar með frumvarpi til laga um fyrirtækjaskrá.
    Frumvarp þetta snýst um breytingu á verkaskiptingu tveggja ráðuneyta og fjallar einvörðungu um það efni. Ákvæði hlutaðeigandi laga er varða hver skuli annast skráningu félaga og stofnana eru algerlega hliðstæð og orðuð á sama hátt. Frumvarpið fjallar því um þessi ákvæði í öllum lögunum og er lagt til að þeim verði breytt á sama hátt í öllum tilvikum. Lögin um samvinnufélög hafa í einni grein að geyma sérstakt ákvæði um setningu reglugerðar um efni opinberrar tilkynningar um skráningu. Er því gerð sérstök tillaga um breytingu þess sem ekki á við um önnur þau lög sem hér um ræðir.
    Samkvæmt gildandi lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, samvinnufélög og sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur, fer ráðherra Hagstofu Íslands með mál er varða skráningu þessara félaga og stofnana en viðskiptaráðherra fer með málefni þeirra að öðru leyti. Í þessu frumvarpi er lagt til að hlutaðeigandi lagaákvæðum verði breytt á þann hátt að fjármálaráðherra fari framvegis með mál er varða þessa skráningu í stað ráðherra Hagstofu Íslands. Þessi ákvæði eru aðeins í einni málsgrein hverra þessara laga, í 1. og 2. mgr. 1. gr. þeirra og eru öll eins. Hér er því lagt til í 1., 3., 5. og 8. gr. þessa frumvarps að í stað orðanna „Ráðherra Hagstofu Íslands“ komi „Fjármálaráðherra“.
    Ákvæði um að Hagstofa Íslands annist skráningu fyrrgreindra félaga og stofnana koma sömuleiðis aðeins fram í einni málsgrein hverra þeirra laga sem hér um ræðir, þ.e. í 1. mgr. 147. gr. laga um hlutafélög, 1. mgr. 121. gr. laga um einkahlutafélög, 1. mgr. 10. gr. laga um samvinnufélög og 1. mgr. 37. gr. laga um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur. Í þessu frumvarpi er lagt til að þessum ákvæðum verði breytt á sama hátt þannig að í stað „Hagstofu Íslands“ komi „Ríkisskattstjóri“. Þessar breytingar felast í tillögum a-liðar 2., 4., 6. og 9. gr. frumvarpsins.
    Þriðja atriðið, sem frumvarp þetta kveður á um og er breytt á sama hátt í öllum lögunum sem um ræðir, varðar heimildir ráðherra til að setja með reglugerð nánari ákvæði um skráningu hlutaðeigandi félaga og stofnana, rekstur viðkomandi skráa, aðgang að þeim og gjaldtöku. Þessi ákvæði er nú að finna í 2. mgr. 147. gr. laga um hlutafélög, 2. mgr. 121. gr. laga um einkahlutafélög, 2. mgr. 10. gr. laga um samvinnufélög og 2. mgr. 37. gr. laga um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur. Reglugerðarheimildin er nú hjá ráðherra Hagstofu Íslands en verður samkvæmt þessu frumvarpi hjá fjármálaráðherra í samræmi við flutning þessara verkefna. Þessar tillögur eru allar eins og koma fram í b-liðum 2., 4., 6. og 9. gr. frumvarpsins.
    Í lögum um samvinnufélög er í 1. mgr. 14. gr. kveðið á um að ráðherra Hagstofu Íslands setji nánari reglur um efni tilkynningar til Lögbirtingablaðs um skrásetningu samvinnufélags. Í frumvarpi þessu er til samræmis við annað efni þess lagt til að fjármálaráðherra setji þess háttar reglur framvegis.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á ákvæðum laga um hlutafélög,
einkahlutafélög, samvinnufélög og sjálfseignarstofnanir sem stunda
atvinnurekstur er varða skráningu þessara félaga og stofnana.

    Frumvarp þetta er flutt samhliða frumvarpi til laga um fyrirtækjaskrá og tilgangur þess er að færa skráningu hlutafélaga, einkahlutafélaga, samvinnufélaga og sjálfseignarstofnana sem stunda atvinnurekstur frá Hagstofu Íslands til embættis ríkisskattstjóra.
    Ekki er gert ráð fyrir að lögfesting frumvarpsins hafi áhrif á kostnað ríkissjóðs en í umsögn um frumvarp til laga um fyrirtækjaskrá er mat á kostnaði við flutning starfseminnar.