Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 351. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 388  —  351. mál.




Frumvarp til laga



um fyrirtækjaskrá.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



I. KAFLI
Markmið og stjórnsýsla.
1. gr.

    Halda skal skrá, fyrirtækjaskrá, eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum þessum.
    Ríkisskattstjóri starfrækir fyrirtækjaskrá og annast útgáfu á kennitölum til annarra en einstaklinga.
    Fjármálaráðherra fer með mál sem varða fyrirtækjaskrá.

II. KAFLI
Skráning og útgáfa á kennitölu.
2. gr.

    Fyrirtækjaskrá skal geyma upplýsingar um:
     1.      Einstaklinga, félög og aðra aðila sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi.
     2.      Stofnanir og fyrirtæki í eigu ríkisins.
     3.      Stofnanir og fyrirtæki í eigu sveitarfélaga.
     4.      Félög, samtök og aðila, aðra en einstaklinga, sem hafa með höndum eignaumsýslu, eru skattskyldir eða bera aðrar skattalegar skyldur.
     5.      Aðra starfsemi sem ríkisskattstjóri sér ástæðu til að skrá í fyrirtækjaskrá.

3. gr.

    Í fyrirtækjaskrá skal halda aðgreinanlegar skrár yfir hlutafélög, einkahlutafélög, samvinnufélög og sjálfeignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur samkvæmt þeim lögum sem gilda um þessi félög og stofnanir.

4. gr.

    Í fyrirtækjaskrá skal skrá eftirfarandi upplýsingar eftir því sem við á:
     1.      Heiti.
     2.      Kennitölu.
     3.      Heimilisfang.
     4.      Rekstrar- eða félagsform.
     5.      Stofndag.
     6.      Nafn, lögheimili og kennitölu forráðamanna.
     7.      Atvinnugreinarnúmer samkvæmt atvinnugreinaflokkun Hagstofu Íslands.
     8.      Slit félags.
     9.      Önnur þau atriði sem skylt er að skrá um starfsemi félaga og fyrirtækja samkvæmt lögum eða nauðsynlegt eða hagkvæmt þykir að skrá vegna hagsmuna opinberra aðila eða miðlunar upplýsinga til opinberra aðila, fyrirtækja og almennings.

5. gr.

    Þeir aðilar sem falla undir 1.–4. tölul. 2. gr. eða óska skráningar skv. 5. tölul. 2. gr. skulu tilkynna sig til skráningar í fyrirtækjaskrá.
    Tilkynningar skv. 1. mgr. skulu vera á sérstökum eyðublöðum sem ríkisskattstjóri lætur gera. Tilkynningar mega vera á rafrænu formi sem ríkisskattstjóri ákveður.
    Ríkisskattstjóra er heimilt að færa aðila sem falla undir 1.–4. tölul. 2. gr. í fyrirtækjaskrá ef þeir vanrækja tilkynningarskyldu skv. 1. mgr.

6. gr.

    Við skráningu í fyrirtækjaskrá skal hinum skráða gefin kennitala. Með kennitölu er átt við einkvæmt auðkennisnúmer hins skráða.
    Einstaklingar með eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skulu auðkenndir í fyrirtækjaskrá með kennitölu þeirra samkvæmt þjóðskrá.
    Við nýskráningu í fyrirtækjaskrá ásamt útgáfu á kennitölu skal ríkisskattstjóri taka skráningargjald samkvæmt reglugerð sem fjármálaráðherra setur.

7. gr.

    Þeim sem skráðir eru í fyrirtækjaskrá er skylt að tilkynna ríkisskattstjóra allar breytingar er varða skráningu skv. 1.–8. tölul. 4. gr. Opinberir aðilar skulu og láta ríkisskattstjóra í té upplýsingar sem þeir kunna að hafa og þörf er á til skráningar í fyrirtækjaskrá.
    Ríkisskattstjóri uppfærir fyrirtækjaskrá eftir tilkynningum og upplýsingum skv. 1. mgr., svo og eftir öðrum óyggjandi heimildum um starfsemi skráðra fyrirtækja.

III. KAFLI
Aðgangur að upplýsingum úr fyrirtækjaskrá.
8. gr.

    Ríkisskattstjóri skal veita opinberum aðilum, fyrirtækjum og almenningi upplýsingar úr fyrirtækjaskrá.
    Fjármálaráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um aðgang að fyrirtækjaskrá, veitingu upplýsinga úr henni svo og um gjaldtöku fyrir upplýsingar úr skránni, svo sem fyrir útgáfu vottorða og staðfestinga og önnur afnot af upplýsingum skrárinnar.

9. gr.

    Hagstofu Íslands er heimilt að hagnýta gögn úr fyrirtækjaskrá til hagskýrslugerðar og í því skyni tengja hana öðrum skrám ríkisskattstjóra. Ríkisskattstjóri skal láta Hagstofunni í té afrit af skránni eða upplýsingar úr henni eftir því sem hún óskar og án þess að gjald komi fyrir. Hagstofunni er skylt að fara með skrána og önnur gögn tengd henni sem hagskýrslugögn sem um gildir trúnaður.

IV. KAFLI
Ýmis ákvæði.
10. gr.

    Nú vanrækir aðili sem fellur undir 2. gr. tilkynningarskyldu sína samkvæmt lögum þessum og getur ríkisskattstjóri þá skyldað hann til að fullnægja skyldunni að viðlögðum dagsektum allt að 10.000 kr. fyrir hvern dag.
    Dagsektir skulu ákveðnar með úrskurði og falla á fyrir hvern dag sem líður frá uppkvaðningu hans þar til tilkynningarskyldu er sinnt.
    Áfallnar dagsektir falla niður þegar ríkisskattstjóri telur að tilkynningarskylda hafi verið uppfyllt.

11. gr.

    Fjármálaráðherra er heimilt að setja með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

12. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. apríl 2003 og skal fyrirtækjaskrá Hagstofu Íslands þá flytjast til ríkisskattstjóra og vera stofn fyrirtækjaskrár samkvæmt lögum þessum.
    Jafnframt falla úr gildi lög um fyrirtækjaskrá, nr. 62 28. maí 1969.
    Frá sama tíma breytast eftirfarandi lagaákvæði:
     1.      Orðin „Hagstofu Íslands“ í 1. mgr. 9. gr. laga um matvæli, nr. 93 28. júní 1995, falla brott.
     2.      Í stað orðanna „Hagstofu Íslands“ í 1. mgr. 5. gr. áfengislaga, nr. 75 15. júní 1998, kemur: ríkisskattstjóra.
     3.      Í stað orðanna „Hagstofu Íslands“ í 1. mgr. 91. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46 28. maí 1980, kemur: ríkisskattstjóra.
     4.      Við fyrri málslið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 80 18. maí 1993, um aðgerðir gegn peningaþvætti, bætist: eða ríkisskattstjóra.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í tengslum við þá breytingu sem gerð var á verkaskiptingu efnahagsstofnana ríkisins á árinu 2002 með niðurlagningu Þjóðhagsstofnunar og flutningi hagskýrslu- og þjóðhagsspárverkefna til Hagstofu Íslands, efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytis og Seðlabanka Íslands var ákveðið að stefna að fleiri breytingum á starfsemi Hagstofunnar í þeim tilgangi að efla hagskýrsluhlutverk hennar og ná aukinni hagræðingu í rekstri. Í athugasemdum við frumvarp um afnám laga um Þjóðhagsstofnun var greint frá því að áformað væri að ná fram frekari hagræðingu í stjórnsýslunni og styrkja hagskýrslugerðina um leið með því að endurskipuleggja Hagstofuna og flytja frá henni verkefni sem ekki tilheyra hagskýrslugerðinni beinlínis lengur. Hér er átt við þjóðskrá og almannaskráningu og skráningu fyrirtækja.
    Frumvarp þetta er flutt í samræmi við þessa stefnu. Það tekur til fyrirtækjaskrár en athugunum og undirbúningi að flutningi þjóðskrár er ekki lokið. Jafnframt er flutt frumvarp um breytingar á lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, samvinnufélög og sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur. Þar er lagt til að skrár samkvæmt þessum lögum verði færðar frá Hagstofunni til ríkisskattstjóra. Þessar skrár mynda nú þegar eitt gagnasafn.
    Skráning fyrirtækja í fyrirtækjaskrá Hagstofunnar hófst á árinu 1969 samkvæmt lögum nr. 62/1969. Stofnun fyrirtækjaskrár og rekstur var skipulagður í samvinnu við skattyfirvöld en henni var komið á fót til að sinna brýnum þörfum fyrir samræmda skráningu fyrirtækja og útgáfu auðkennisnúmera til fyrirtækja. Á árinu 1997 tók Hagstofan við rekstri hlutafélagaskrár og skyldra skráa. Við það varð félagaskráning markvissari en verið hafði og veruleg samlegðaráhrif fólust í samhæfingu skránna og færslu þeirra á sama stað.
    Rekstur fyrirtækjaskránna hefur falið í sér margháttað hagræði fyrir stjórnvöld og atvinnulíf. Mikið hagræði er fólgið í því að stjórnvöld á ýmsum sviðum geti unnið með eina samhæfða skrá, sem er opinber og aðgengileg til eftirlits. Hagstofan hefur annast skráningu fyrirtækja í samvinnu við skattyfirvöld og sýslumenn. Þegar undan er skilið það hlutverk skránna að vera uppspretta gagna til hagskýrslugerðar má auka hagræðingu í rekstri fyrirtækjaskránna með því að flytja þær frá hagskýrslugerðinni og tengja þær beint þeirri skráningarstarfsemi sem ríkisskattstjóri hefur með höndum vegna þarfa skattkerfisins. Er þá gert ráð fyrir að Hagstofan hafi áfram aðgang að fyrirtækjaskrá til hagskýrslugerðar og hagnýting hennar í því skyni verði engu minni en verið hefur.
    Hagskýrslugerð og rekstur stjórnvaldsskráa í einni stofnun hefur á síðari árum ekki þótt jafnheppileg og var þegar skrárnar voru stofnaðar. Þetta stafar af ekki síst af þeirri þróun sem orðið hefur í viðhorfum og reglum um meðferð persónubundinna gagna. Þessi þróun hefur meðal annars verið fólgin í því að kröfur um gagnaleynd hafa verið skilgreindar ítarlega eftir því í hvaða skyni gögnum er safnað og með þau unnið. Opinber skráning einstaklinga í þjóðskrá og fyrirtækja í fyrirtækjaskrá lýtur þannig öðrum reglum en þær sem verða að gilda um hagskýrslugerð. Á árunum 1992 og 1994 voru á vettvangi Sameinuðu þjóðanna samdar og samþykktar svonefndar grundvallarreglur um opinbera hagskýrslugerð. Ísland hefur staðfest þessar reglur og hefur Hagstofan leitast við að fylgja þeim. Þær mæla meðal annars fyrir um:
          að fullkominn trúnaður skuli ríkja um hagskýrslugögn sem varða tiltekna einstaklinga, fyrirtæki eða aðra aðila,
          að gögn, sem safnað er til hagskýrslugerðar, megi ekki nota í öðrum tilgangi og
          að ekki megi birta niðurstöður á þann hátt að þær verði rekjanlegar til tiltekinna einstaklinga eða aðila.
    Þessar reglur koma ekki í veg fyrir að Hagstofan hagnýti þjóðskrá og fyrirtækjaskrár eða aðrar opinberar skrár, svo sem skattskrár eða launagreiðendaskrá, til hagskýrslugerðar, enda sé einstaklingsbundnum upplýsingum ævinlega haldið leyndum. Hins vegar þykir erfiðara að verja að Hagstofan reki opinberar skrár og fáist með því beinlínis við einstaklingsbundin mál og úrlausn álitamála um skráningu einstaklinga og fyrirtækja, þegar meginstarfsemi hennar byggist á því að heitið sé fyllsta trúnaði um einstaklingsbundin gögn. Þetta getur haft slæm áhrif á stöðu eða ímynd Hagstofunnar sem óvilhallrar hagskýrslustofnunar.
    Skráning fyrirtækja er nátengd verkefnum skattyfirvalda og tengist skattskyldu fyrirtækja með beinum hætti. Álagning skatta og ákvörðun gjalda byggist á því að til staðar sé á hverjum tíma tæmandi og nákvæm skrá yfir alla þá sem skattskyldir eru eða bera aðrar skattalegar skyldur. Halda skattyfirvöld af þessum ástæðum þegar ýmsar skrár sem eru hliðstæðar fyrirtækjaskrá. Fyrst er að nefna skattgrunnskrá lögaðila sem álagning skatta á lögaðila byggist á. Skráin er gerð meðal annars samkvæmt skráningu hlutafélaga, einkahlutafélaga og samvinnufélaga í viðkomandi skrám Hagstofunnar. Þá halda skattyfirvöld launagreiðendaskrá yfir alla launagreiðendur, þ.m.t. einstaklinga með eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, og félög, sjóði og stofnanir sem greiða laun en staðgreiðsla, tryggingargjald og fleiri gjöld eru reiknuð af launum. Enn fremur er haldin virðisaukaskattskrá yfir alla virðisaukaskattsskylda aðila.
    Með því að færa fyrirtækjaskráninguna, þ.e. grunnskráningu allra upplýsinga sem máli skipta um auðkenni og einkenni aðila til ríkisskattstjóra, er verið að sameina á einn stað skráningu allra upplýsinga um fyrirtæki sem ætlaðar eru til opinberra nota og jafnframt birtar almenningi. Með skattgögnum berast upplýsingar um breytingar á ýmsum mikilvægum skráningaratriðum, svo sem á aðsetri og atvinnugrein, yfirleitt fyrr en til fyrirtækjaskrár þar sem ekki hefur verið jafnrík skylda til að tilkynna slík einstök atriði. Þá hefur ríkisskattstjóri annast rekstur ársreikningaskráar frá upphafi og byggt þá skrá um skilaskyldu fyrirtækja á ársreikningum sínum á fyrrnefndum skrám Hagstofunnar og skattgrunnskrá.
    Ljóst má því vera að sameining fyrrgreindra skráa á eina hendi gefur aukið svigrúm til hagræðingar og samræmingar í skráningu auk þess að draga úr umstangi skráningarskyldra aðila við að koma á framfæri til stjórnvalda grunnupplýsingum og leiðréttingum, er varða skráningu á atvinnurekstri eða starfsemi viðkomandi.
    Hvað efnisatriði frumvarpsins varðar þá er ekki um að ræða umfangsmiklar breytingar frá núgildandi lögum um fyrirtækjaskrá. Breytingarnar felast einkum í uppstokkun og framsetningu ákvæða í frumvarpinu, þannig að einstök efnisatriði eru dregin fram með þeim hætti að betri yfirsýn fáist yfir áhersluatriði. Samkvæmt frumvarpinu verður sá háttur á skráningu í fyrirtækjaskrá að þeim aðilum sem falla undir 1.–4. tölul. 2. gr. ber að tilkynna sig og við skráninguna verður gefin út kennitala. Þó með þeirri undantekningu að einstaklingar í atvinnurekstri skulu skráðir undir sinni eigin kennitölu samkvæmt þjóðskrá, sbr. nánari umfjöllun um 6. gr. frumvarpsins. Samkvæmt núgildandi lögum hafa fyrirtæki, félagasamtök o.fl. í raun sótt um kennitölu til fyrirtækjaskrár á sérstöku eyðublaði og því felur þetta breytta fyrirkomulag ekki í sér óhagræði fyrir viðkomandi aðila.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um að halda skuli fyrirtækjaskrá og að það verði verkefni ríkisskattstjóra í stað þess að Hagstofa Íslands annist hana eins og verið hefur frá upphafi skrárinnar. Rökin fyrir þessari breytingu koma fram í almennum athugasemdum hér að framan. Ríkisskattstjóri færir þegar margháttaðar skrár sem varða skattlagningu fyrirtækja. Enn fremur annast hann söfnun ársreikninga fyrirtækja samkvæmt lögum um ársreikninga og veitingu upplýsinga úr þeim. Ný fyrirtæki sem hefja starfsemi eru nú skráð bæði hjá Hagstofunni og hjá ríkisskattstjóra. Færsla fyrirtækjaskrár til ríkisskattstjóra kemur því til með eyða tvíverknaði við skráningu og auka öryggi um skráningaratriði með því að komið er í veg fyrir hættu á misræmi í skráningu eins og sama fyrirtækis.
    Í 3. mgr. er tekið fram til að taka af vafa þar um að fjármálaráðherra skuli fara með mál sem varða fyrirtækjaskrá eftir að hún er komin á hendi ríkisskattstjóra.

Um 2. gr.

    Í 2. gr. er kveðið á um hvaða fyrirtæki og aðila eigi að skrá í fyrirtækjaskrá. Megináherslan er lögð á að grunnupplýsingum sé safnað saman og þeim viðhaldið um þá aðila er stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi ásamt þeim sem hafa með höndum opinbera umsýslu, þannig að upplýsingar þessar séu aðgengilegar fyrir almenning, viðskiptalífið og stjórnvöld. Ákvæði fyrstu þriggja töluliða 2. gr. þarfnast þannig ekki sérstakrar skýringar. Í 4. tölul. eru ákvæði um að fyrirtækjaskrá skuli auk framangreinds taka til ýmissa aðila sem hafa með höndum eignaumsýslu eða starfsemi af einhverjum þeim toga að ástæða þykir til að þeir séu í fyrirtækjaskrá. Dæmi um þess háttar aðila má nefna húsfélög, veiðifélög og önnur lögbundin samtök, ýmiss konar hugsjónafélög og annan formbundinn félagsskap einstaklinga um tiltekna eign eða eignir. Óheppilegt hefur þótt, þar sem t.d. hópur einstaklinga sameinast um formbundið félagsstarf, að skrá slíka starfsemi hjá einstökum félagsmanni eða einkum á kennitölu hans, þar sem notkun henni tengd verður þá illa haldið aðgreindri frá persónulegum umsvifum og fjárreiðum einstaklingsins í eigin þágu. Því er nauðsynlegt að fyrirtækjaskrá hafi talsvert svigrúm til skráningar, þegar svo háttar sem að framan greinir, þótt ekki sé um eiginlegan fyrirtækjarekstur að ræða. Hins vegar hvílir skráningarskylda á aðilum, öðrum en einstaklingum, sem eru skattskyldir eða bera aðrar skattalegar skyldur. Getur það t.d. átt við félagasamtök og aðra sem ekki eru skattskyldir en ber að halda eftir staðgreiðslu og standa skil á launaupplýsingum o.s.frv.
    Í 5. tölul. er sett ákvæði um heimild til að færa í fyrirtækjaskrá starfsemi sem eigi fellur með beinum hætti undir ákvæði fyrstu fjögurra töluliðanna, en ástæða þykir til að hafa á skrá vegna almenns upplýsingagildis fyrir almenning, viðskiptalífið eða opinbera aðila, sbr. og 9. tölul. 4. gr. frumvarpsins.

Um 3. gr.

    Sem fyrr segir hefur Hagstofan haldið fyrirtækjaskrá frá árinu 1969. Árið 1997 voru verkefni hlutafélagaskrár færð til Hagstofunnar og þá sameinuð fyrirtækjaskrárverkum hennar. Hér var um að ræða hlutafélagaskrá, einkahlutafélagaskrá og samvinnufélagaskrá samkvæmt lögum um hlutafélög, einkahlutafélög og samvinnufélög. Voru breytingar þessar ákvarðaðar með breytingum á hlutaðeigandi lögum þannig að skráning þessara fyrirtækja var falin Hagstofunni þótt málefni þeirra væru að öðru leyti áfram á forræði viðskiptaráðherra. Árið 1999 voru síðan sett lög um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur og var Hagstofunni þá jafnframt falin skráning þeirra. Þessar skrár ásamt fyrirtækjaskrá Hagstofunnar mynda því nú eitt gagnasafn um fyrirtæki, félög og stofnanir í landinu. Þetta liggur til grundvallar ákvæði 3. gr. en það kveður einfaldlega á um að skrár yfir hlutafélög, einkahlutafélög, samvinnufélög og sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur, verði aðgreinanlegar sem sjálfstæðar skrár innan heildargagnasafns fyrirtækjaskrár. Þetta er í samræmi við gildandi lög um þessar skrár og þann tilgang sem þeim er hverri fyrir sig ætlað að þjóna lögum samkvæmt.

Um 4. gr.


    Í 1.–8. tölul. eru talin upp þau atriði sem ber að skrá um hvert fyrirtæki og aðila í fyrirtækjaskrá eftir því sem við getur átt. Þetta eru allt sömu atriðin og nú eru skráð. Í 9. tölul. er hins vegar kveðið á um að skrá skuli aðrar upplýsingar en áður eru taldar sé það skylt samkvæmt lögum eða talið nauðsynlegt eða hagkvæmt vegna hagsmuna opinberra aðila eða miðlunar upplýsinga til opinberra aðila, fyrirtækja og almennings. Hér er þá meðal annars um að ræða upplýsingar sem Hagstofan þarfnast til hagskýrslugerðar og upplýsingar um starfsemi fyrirtækja sem rétt þykir að viðskiptalífið og almenningur eigi greiðan aðgang að. Meðal þeirra atriða sem skrá mætti skv. 9. tölul. eru upplýsingar um útibú og starfstöðvar fyrirtækja og um móðurfélög og dótturfélög. Tilgangur þessa væri sá að tengsl fyrirtækja kæmu fram á skýrari hátt en nú er í fyrirtækjaskrá Hagstofunnar. Í gildandi lögum um fyrirtækjaskrá eru talin upp sem skráningaratriði nafn og aðsetur fyrirtækis, auðkennisnúmer þeirra og atvinnugrein en að öðru leyti er Hagstofunni falið að ákveða hvaða atriði önnur varðandi störf og hagi fyrirtækja skuli skrá í fyrirtækjaskrá. Ákvæði í öðrum lögum um skráningu félaga og stofnana sem kveða á um ítarlegri skráningu ganga framar þessu almenna ákvæði í 4. gr.

Um 5. gr.

    Ákvæði 5. gr. byggist á gildandi lögum og framkvæmd að öðru leyti en því að gert er ráð fyrir að skráningartilkynningar geti verið á rafrænu formi. Er þá höfð í huga sú þróun í átt til vaxandi rafrænnar stjórnsýslu sem stjórnvöld stefna að. Á því sviði hefur ríkisskattstjóri og skattkerfið einmitt farið fyrir með rafrænum skattframtölum en það er langstærsta skrefið sem stigið hefur verið á braut rafrænnar stjórnsýslu hér á landi.

Um 6. gr.

    Í 1. mgr. eru ákvæði um útgáfu eða úthlutun kennitölu til nýrra fyrirtækja og aðila í fyrirtækjaskrá. Kennitalan er sem kunnugt er einkvæmt auðkennisnúmer einstaklinga á þjóðskrá og fyrirtækja og annarra aðila í fyrirtækjaskrá. Hagstofan hefur gefið út kennitölu til fyrirtækja við nýskráningu þeirra en það verkefni er óaðskiljanlegur hluti af rekstri fyrirtækjaskrár. Kennitala einstaklinga og fyrirtækja er valin vélrænt. Sex fyrstu stafir í kennitölu einstaklings í þjóðskrá eru myndaðir af fæðingardegi hans, mánuði og ári. Sex fyrstu stafir í kennitölu fyrirtækis myndast hins vegar af skráningardegi þess í fyrirtækjaskrá að viðbættri tölunni 40 í tveimur fyrstu sætum tölunnar. Bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum er raðtala valin af handahófi í 7. og 8. sæti kennitölunnar, 9. stafur er svonefnd vartala, sem er reiknuð á grundvelli fyrstu 8 stafanna, og í 10. sæti kemur loks aldartákn (9 fyrir þá sem fæddir eru eða skráðir 1900–1999, 0 fyrir þá sem fæddir eru eða skráðir 2000–2099). Samkvæmt þessari reglu hefði fyrirtæki með kennitöluna 440100-4220 verið skráð 4. janúar 2000.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að einstaklingar með eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skuli í fyrirtækjaskrá auðkenndir með kennitölu þeirra samkvæmt þjóðskrá. Í framkvæmd hafa þessir einstaklingar ekki fengið sérstaka kennitölu fyrir sinn atvinnurekstur nema þeir hafi skráð firma í firmaskrá sem er hjá sýslumönnum. Hefur þótt skapast veruleg hætta á ruglingi og mistökum þegar einstaklingur hefur fengið útgefna sérstaka auka kennitölu vegna skráðs firma sem rekið er á persónulega ábyrgð viðkomandi. Sami einstaklingur hefur þannig komið fyrir í ólíkum skrám á mismunandi tíma undir ýmsum kennitölum með persónubundinn einkarekstur sinn. Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að slík útgáfa á kennitölum verði lögð af.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að ríkisskattstjóri skuli taka skráningargjald við nýskráningu samkvæmt reglugerð sem fjármálaráðherra setur. Slíkt skráningargjald hefur verið innheimt frá upphafi fyrirtækjaskrár og hafa tekjur af gjaldinu staðið að hluta til undir skráningarstarfseminni. Þetta gjald er nú 5.000 kr. og hefur verið óbreytt frá árinu 1997. Samkvæmt ákvæðinu á gjaldtaka sér einungis stað við nýskráningu enda sé gefin út kennitala samtímis.

Um 7. gr.


    Í 7. gr. er lagt til að fyrirtækjum og öðrum aðilum í fyrirtækjaskrá verði gert að tilkynna til skrárinnar allar breytingar á skráningaratriðum skv. 1.–8. tölul. 4. gr. Samsvarandi ákvæði er ekki í gildandi lögum um fyrirtækjaskrá og hefur það þótt bagalegt að ekki sé skýr lagaskylda um að fyrirtækin greini að eigin frumkvæði frá breytingum á skráningaratriðum. Auk þess er kveðið á um að skráin skuli uppfærð samkvæmt tilkynningum fyrirtækja og þeim upplýsingum öðrum sem ríkisskattstjóri hefur. Þetta er í samræmi við gildandi framkvæmd á Hagstofunni.

Um 8. gr.


    Í 1. mgr. 8. gr. er kveðið á um að veita skuli opinberum aðilum, fyrirtækjum og almenningi upplýsingar úr fyrirtækjaskrá. Með þessu er mörkuð sú regla að fyrirtækjaskrá sé opinber skrá og upplýsingar sem þar eru skráðar séu opinberar. Í 2. mgr. er lagt til að fjármálaráðherra setji með reglugerð nánari ákvæði um þetta. Þá er lagt til að fjármálaráðherra setji með reglugerð nánari ákvæði um aðgang að skránni og miðlun upplýsinga úr henni svo og um gjaldtöku fyrir slíkan aðgang og afnot af skránni og upplýsingum hennar. Þetta ákvæði er hliðstætt ákvæðum í lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, samvinnufélög og sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur. Er gert ráð fyrir að gjaldtöku verði hagað á svipaðan hátt og nú er gert og verið hefur lengst af. Miðað er við að með afnotagjöldum og skráningargjaldi skv. 3. mgr. 6. gr. megi standa undir rekstri fyrirtækjaskrár í meginatriðum.

Um 9. gr.


    Við flutning fyrirtækjaskrár frá Hagstofunni er nauðsynlegt að tryggja að hún hafi áfram fullan aðgang að og afnot af fyrirtækjaskrá til hagskýrslugerðar. Um þetta eru ákvæði í 9. gr. Þar er meðal annars tekið fram að Hagstofunni sé í þessu skyni heimilt að tengja fyrirtækjaskrá skrám ríkisskattstjóra en samkvæmt skattalögum hefur Hagstofan aðgang að þessum upplýsingum nú. Þess má geta að Hagstofan hefur að undanförnu unnið að því að koma á fót sérstakri hagskýrsluskrá um atvinnurekstur (business register), meðal annars eftir fyrirmynd sem samkomulag hefur orðið um milli hagstofa á Evrópska efnahagssvæðinu. Með slíkri hagskýrsluskrá er átt við samhæft gagnasafn yfir fyrirtæki þar sem safnað er saman gögnum um rekstur og efnahag fyrirtækja. Er tilgangurinn sá að hagskýrslur verði byggðar á þessari skrá. Í þessu felst gríðarlegur sparnaður, bæði fyrir hið opinbera við gagnasöfnun og úrvinnslu hagskýrslna og fyrir fyrirtækin þar sem þau þurfa ekki að verja tíma, fé og fyrirhöfn í upplýsingagjöf til hins opinbera. Með gögn og skrár af þessu tagi verður vitaskuld að fara sem trúnaðargögn líkt og gildir um öll gögn sem safnað er beinlínis til hagskýrslugerðar. Með því er átt við að ekki séu látnar í té upplýsingar um einstök fyrirtæki eða aðila (nema með leyfi þeirra í undantekningartilvikum) og að upplýsingar séu einungis birtar á samandregnu formi og verði ekki raktar til einstakra fyrirtækja eða aðila. Um þessi atriði er meðal annars kveðið á um í svonefndum grundvallarreglum Sameinuðu þjóðanna um opinbera hagskýslugerð sem Ísland hefur staðfest eins og vikið er að í almennum athugasemdum hér á undan. Þessar reglur eru birtar á vefsíðum Hagstofunnar og liggja til grundvallar hagskýrslugerð hennar sem og flestra nágrannaríkja.

Um 10. gr.


    Ákvæði um dagsektir er að finna í núgildandi lögum um fyrirtækjaskrá varðandi vanrækslu á skilum á upplýsingum til Hagstofu Íslands. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að álíku úrræði megi beita vegna vanrækslu á tilkynningarskyldu til fyrirtækjaskrár, enda liggja mikilvægir hagsmunir að baki því að þeirri skyldu skv. 5. gr. sé sinnt og að grunnupplýsingum sé stöðugt viðhaldið skv. 7. gr., sbr. 4. gr., þannig að skráin þjóni þeim margþættu markmiðum sem henni er ætlað.
    Í ákvæðinu er mælt fyrir um að hámark dagsekta geti orðið 10.000 kr. fyrir hvern dag sem líður frá uppkvaðningu úrskurðar og þar til tilkynningarskyldu er fullnægt. Mikilvægt er að undirstrika að í ákvæðinu er kveðið á um hvert hámark dagsekta geti orðið. Við ákvörðun á fjárhæð slíkra sekta þarf að gæta meðalhófs og ríkisskattstjóri verður í hverju máli fyrir sig að líta til málsatvika þegar tilkynningarskylda hefur verið vanrækt.

Um 11. gr.


    Nauðsynlegt getur reynst að setja frekari ákvæði um skráningu fyrirtækja, rekstur fyrirtækjaskrár og öflun upplýsinga til hennar. Því er gert ráð fyrir að setja megi nánari ákvæði um framkvæmd laganna með reglugerð.

Um 12. gr.


    1. mgr. fjallar um gildistöku laganna og flutning fyrirtækjaskrár Hagstofunnar til ríkisskattstjóra. Þess má geta að gert er ráð fyrir að starfslið Hagstofunnar, sem nú starfar að skráningu fyrirtækja, flytjist með verkefninu til ríkisskattstjóra.
    Í 2. mgr. eru lagðar til breytingar á nokkrum öðrum lögum til samræmis við flutning fyrirtækjaskrár frá Hagstofu Íslands til ríkisskattstjóra.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um fyrirtækjaskrá.


    Frumvarpinu er ætlað að leysa af hólmi gildandi lög um fyrirtækjaskrá, nr. 62/1969, og er það flutt samhliða frumvarpi til laga um breytingar á ákvæðum laga um hlutafélög, einkahlutafélög, samvinnufélög og sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur er varða skráningu þessara félaga og stofnana. Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að það sé liður í framkvæmd þeirrar stefnu sem lýst var í athugasemdum við frumvarp um afnám laga um Þjóðhagsstofnun og felst í að ná fram frekari hagræðingu í stjórnsýslunni og styrkja um leið hagskýrslugerð með því að endurskipuleggja Hagstofuna og flytja frá henni verkefni sem ekki tilheyra hagskýrslugerðinni beinlínis lengur.
    Samkvæmt frumvarpinu fer fjármálaráðherra með mál sem varða fyrirtækjaskrá og starfrækir ríkisskattstjóri fyrirtækjaskrána í stað Hagstofu Íslands. Að öðru leyti er ekki um að ræða umfangsmiklar breytingar á efnisatriðum frá gildandi lögum um fyrirtækjaskrá, heldur felast þær einkum í uppstokkun og framsetningu ákvæða í frumvarpinu, þannig að einstök efnisatriði séu dregin fram með þeim hætti að betri yfirsýn fáist yfir áhersluatriði, eins og segir í athugasemdum með frumvarpinu.
    Áætlað er að beinn kostnaður við flutning fyrirtækjaskrár frá Hagstofu Íslands til embættis ríkisskattstjóra, þ.m.t. kostnaður við standsetningu húsnæðis, kaup á tækjum og búnaði, aðlögun hugbúnaðar og flutning gagna milli tölvukerfa, geti legið á bilinu 11–15 m.kr. Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi önnur áhrif á kostnað ríkissjóðs og ekki er gert ráð fyrir að biðlaunakostnaður falli á ríkissjóð. Gert er ráð fyrir að tekjur af afnota- og skráningargjöldum standi undir kostnaði við rekstur fyrirtækjaskrárinnar svo sem verið hefur.