Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 80. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 411  —  80. mál.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um fæðingarorlof.

     1.      Hve oft hafa foreldrar í fæðingarorlofi, flokkað eftir hjúskaparstétt og stöðu, orðið af umönnunargreiðslum eða sjúkradagpeningum vegna ákvæða 2. mgr. 33. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof?
     Sjúkradagpeningar og fæðingarorlof.
    Ekki reyndist unnt að afla upplýsinga um það hversu oft foreldrar í fæðingarorlofi hafa orðið af sjúkradagpeningum vegna ákvæðis 2. mgr. 33. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof. Tölvukerfi sjúkradagpeninga nýtist takmarkað til upplýsingagjafar sem þessarar þar sem engin sérstök skráning af þessu tagi hefur átt sér stað. Rétt er að vekja athygli á því að foreldrar geta frestað töku fæðingarorlofs á meðan réttur til sjúkradagpeninga er fyrir hendi, þó ekki lengur en til 18 mánaða aldurs barns.
    
     Umönnunargreiðslur og fæðingarorlof.
    Samkvæmt upplýsingum frá læknasviði TR hafa 112 börn, fædd á árunum 2001 og 2002, fengið umönnunarmat. Telja má nokkuð ljóst að í tilvikum 36 barna, sem fæddust 2001 og 10 barna sem hafa fæðst á þessu ári, hefðu umönnunarbætur verið greiddar frá fæðingu ef bætur þessar mættu greiðast saman. Í langflestum þessara 46 tilvika voru greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði framlengdar skv. 9. eða 10. gr. reglugerðar nr. 909/2000. Erfiðara er að fullyrða um hin 66 börnin án þess að skoða hvert mál fyrir sig, en mun minni líkur eru á að foreldrar þeirra hafi orðið af greiðslum vegna ákvæða 2. mgr. 33. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof.
    Misjafnt er hversu háum fjárhæðum foreldrar verða af, enda eru mismiklar bætur greiddar. Þegar börnin eru metin í umönnunarflokk 5 verða foreldrar ekki af beinum greiðslum, þar sem slíkt mat veitir aðeins rétt á svokölluðu umönnunarkorti. Lengd fæðingarorlofs og framlengingar greiðslna í fæðingarorlofi hafa hér einnig áhrif.
    Upplýsingar um stétt og stöðu viðkomandi foreldra er ekki hægt að kalla fram með einfaldri aðgerð í tölvukerfi Tryggingastofnunar ríkisins.

     2.      Hve mikil getur skerðing lífeyrisgreiðslna til öryrkja orðið og í hve langan tíma eftir töku fæðingarorlofs eða greiðslu fæðingarstyrks?
     Fæðingarorlof.
    Samkvæmt hljóðan 2. málsl. 2. mgr. 33. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof falla ellilífeyrir, ellilífeyrir sjómanna, örorkulífeyrir og afleiddar bætur niður þegar greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefjast. Sama gildir um barnalífeyri fyrir öll börn lífeyrisþegans. Greiðslur hefjast aftur í byrjun næsta mánaðar eftir að fæðingarorlofi lýkur.
    Heimilt er að taka fæðingarorlof í einu lagi eða skipta því á fleiri tímabil. Einnig er heimilt að dreifa því á lengri tíma, en þá með lækkuðu starfshlutfalli.
    Réttur til fæðingarorlofs stofnast við fæðingu og fellur niður þegar barn nær 18 mánaða aldri. Því verður að líta svo á að skerðing lífeyris geti mögulega náð yfir allt það tímabil, kjósi foreldri að taka orlofið samhliða lækkuðu starfshlutfalli. Starfsfólk Tryggingastofnunar bendir öryrkjum sem sækja um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði þó ávallt á að fjárhagslega sé hagstæðast að taka orlofið á sem skemmstum tíma.
    Greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði skerða ekki örorkustyrk, enda er einungis lífeyrir tilgreindur í lagaákvæðinu sem hér um ræðir.

     Fæðingarstyrkur.
    Fæðingarstyrkur greiðist samhliða greiðslu lífeyris samkvæmt almannatryggingalögum. Styrkurinn getur þó skert fjárhæð lífeyrisgreiðslna og tengdra bóta, þar sem litið er á hann sem tekjur. Áhrifin geta verið mismikil. Í fyrsta lagi greiðist fæðingarstyrkur í allt frá einum upp í sex mánuði. Í öðru lagi er um tvær fjárhæðir að ræða, til foreldra utan vinnumarkaðar 38.015 kr. á mánuði, til námsmanna 85.798 kr. Í þriðja lagi veltur það á öðrum tekjum lífeyrisþega hversu mikil áhrif fæðingarstyrkur hefur á bæturnar.
    Hefði lífeyrisþegi t.d. 20.000 kr. í tekjur á mánuði og fengi fæðingarstyrk, mundi styrkurinn ekki skerða grunnlífeyri hans en aftur á móti mundi tekjutrygging skerðast. Hefði lífeyrisþegi engar tekjur aðrar en lægri fæðingarstyrk skertist hvorki grunnlífeyrir né tekjutrygging, en fengi hann hærri fæðingarstyrk mundi tekjutrygging skerðast sem næmi 45% af greiðslum umfram 38.917 kr. (miðað við einhleyping eða hjón sem bæði eru á lífeyri). Því hærri sem tekjur lífeyrisþegans eru, því meiri eru skerðingaráhrif fæðingarstyrkjarins.
    Þegar lög nr. 74/2002 koma til framkvæmda verða bætur reiknaðar á ársgrundvelli. Þá hefur skerðingin áhrif á heildargreiðslur ársins en jafnast á fleiri mánuði.

     3.      Telur ráðherra rétt að fella niður skerðingarákvæði 2. málsl. 2. mgr. 33. gr. laganna?

    Svarið er nei. Með tilliti til jafnræðisreglu og eðli þeirra bóta sem hér um ræðir er ekki réttlætanlegt að fella niður ákvæði 2. málsl. 2. mgr. 33. gr. laganna.
    Greiðslur í fæðingarorlofi eru í eðli sínu tekjur til að fría foreldra frá vinnumarkaði til að annast um barn sitt. Fólk missir almennt launa sinna með því að þiggja greiðslur úr fæðingarorlofssjóði. Greiðslur í fæðingarorlofi eru því ígildi launatekna. Ein af forsendunum fyrir greiðslu sjúkradagpeninga er hins vegar að launatekjur falli niður og því er rökrétt að álykta að greiðslur í fæðingarorlofi og sjúkradagpeningar fari ekki saman.
    Í 3. mgr. 43. gr. almannatryggingalaga segir að ef maður eigi rétt á fleiri bótum en einum, sem ekki geta farið saman, megi hann taka hærri eða hæstu bæturnar. Með tilliti til þess er eðlilegt að annaðhvort falli lífeyrisgreiðslur niður þegar fæðingarorlofsgreiðslur eru hærri, eða þær síðarnefndu skerði lífeyri eins og aðrar tekjur.
    Önnur meðhöndlun þessara bóta en um getur í 2. málsl. 2. mgr. 33. laga um fæðingarorlof væri mismunun gagnvart öðrum bótaþegum.