Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 376. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 428  —  376. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, nr. 61/1997, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



1. gr.

    Í stað 1. og 2. mgr. 11. gr. laganna koma þrjár málsgreinar, svohljóðandi:
    Auk þeirrar starfsemi sem lýst er í I. kafla skal við Nýsköpunarsjóð starfrækt deild er nefnist tryggingardeild útflutnings.
    Hlutverk tryggingardeildar útflutnings skal vera að veita tryggingar og ábyrgðir til þess að efla íslenskan útflutning vöru og þjónustu, auka íslenskar fjárfestingar erlendis, þátttöku í verklegum framkvæmdum erlendis og þátttöku í stærri verklegum framkvæmdum hérlendis. Hlutverk sitt rækir tryggingardeild útflutnings með því að:
     1.      taka að sér að tryggja útflutningslán sem lánastofnun veitir útflytjanda eða kaupanda, enda hafi lánið verið veitt til fjármögnunar í tengslum við íslenskan útflutning á vöru eða þjónustu,
     2.      taka að sér að ábyrgjast eða tryggja ábyrgðir vegna samnings á milli útflytjanda og kaupanda sem gerður hefur verið vegna íslensks útflutnings á vöru eða þjónustu,
     3.      taka að sér að ábyrgjast eða tryggja ábyrgð fyrir efndum á þjónustu- eða verksamningi sem gerður er vegna íslensks útflutnings á vöru eða þjónustu,
     4.      gefa út verkábyrgðir eða tryggja verkábyrgð innlends aðila vegna framkvæmdar sem fer að umfangi yfir þau viðmiðunarmörk sem gerir opinberar framkvæmdir útboðsskyldar á Evrópska efnahagssvæðinu,
     5.      tryggja fjárfestingar innlends fjárfestis erlendis vegna stjórnmálalegrar áhættu,
     6.      tryggja búnað, sem innlendur aðili flytur á erlenda grundu í tengslum við verkefni þar, vegna stjórnmálalegrar áhættu,
     7.      gefa út annars konar ábyrgð eða tryggingu en að framan greinir, enda falli hún undir hlutverk tryggingardeildar útflutnings.
    Heimildir tryggingardeildar útflutnings til að veita ábyrgð eða tryggingu takmarkast af skuldbindingum Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og skal deildin að jafnaði hvorki veita ábyrgð né tryggingu vegna viðskiptalegrar eða stjórnmálalegrar áhættu til skemmri tíma en tveggja ára í viðskiptum við aðila sem hafa staðfestu í ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins eða öðrum ríkjum sem eru aðilar að Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnuninni (OECD) og tilgreind eru í starfsreglum stjórnarnefndarinnar, sbr. 3. mgr. 13. gr.

2. gr.

    1. mgr. 12. gr. laganna orðast svo:
    Stjórnarnefnd tryggingardeildar útflutnings ákveður iðgjöld og tryggingarhlutföll deildarinnar en þau skulu háð samþykki fjármálaráðherra. Við ákvörðun þeirra skal miðað við að þau standi undir rekstri deildarinnar, greiðslu tjónabóta og myndunar varasjóðs þannig að starfsemin standi undir sér til lengri tíma litið. Starfsemi deildarinnar skal haldið aðgreindri í bókhaldi og reikningum sjóðsins.

3. gr.

    2. mgr. 13. gr. laganna orðast svo:
    Heildarskuldbindingar tryggingardeildar útflutnings vegna trygginga og ábyrgða skv. 11. gr. mega aldrei nema hærri fjárhæð en jafnvirði 130 millj. sérstakra dráttarréttinda (SDR).

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.
    Á síðustu missirum hefur komið í ljós að þær lagareglur sem gilda um tryggingardeild útflutningslána (oft skammstafað TRÚ) eru þröngar. Hefur það leitt til þess að stjórnarnefnd tryggingardeildarinnar hefur séð sig knúna til að synja um veitingu trygginga og ábyrgða, jafnvel þótt ljóst sé að slíkt hefði stuðlað að íslenskum útflutningi á vörum eða þjónustu. Þá hefur komið í ljós að sambærilegar tryggingardeildir á Norðurlöndunum búa við rýmri lagareglur en sú íslenska. Frumvarp þetta miðar að því að útvíkka starfsheimildir núverandi tryggingardeildar útflutningslána, til þess að deildinni verði unnt að stuðla frekar að íslenskum útflutningi vöru og þjónustu og treysta þannig samkeppnisstöðu íslensks útflutnings. Er frumvarpið unnið í samræmi við þær samningsskuldbindingar íslenskra stjórnvalda sem koma fram í leiðbeiningarreglum Eftirlitsstofnunar EFTA um skammtímaútflutningslánatryggingar, sbr. nánari umfjöllun í kafla IV hér á eftir.
    Viðskiptaráðherra skipaði í ágúst síðastliðnum fjögurra manna nefnd til að vinna að tillögum að frumvarpi til laga um breytingar á II. kafla laga um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, nr. 61/1997, að því er varðaði hlutverk tryggingardeildar útflutningslána. Í nefndina voru skipuð Jónína S. Lárusdóttir, lögfræðingur í viðskiptaráðuneytinu, formaður, Ingibjörg H. Þráinsdóttir, sérfræðingur hjá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, Ingvi Már Pálsson, lögfræðingur í fjármálaráðuneyti, og Jón Steindór Valdimarsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. Nefndin lauk störfum 17. október 2002 og afhenti viðskiptaráðherra tillögur sínar að frumvarpi. Byggist frumvarp þetta á tillögum nefndarinnar.

II. Forsaga tryggingardeildar útflutningslána.
    Tryggingardeild útflutningslána var komið á fót með lögum nr. 60/1970, um tryggingardeild útflutningslána við Ríkisábyrgðasjóð. Hlutverk tryggingardeildar útflutningslána skyldi annars vegar vera að tryggja lán er lánastofnanir veittu útflytjendum vöru eða þjónustu til þess að þeir gætu fjármagnað útflutningslán til handa erlendum kaupendum og hins vegar að tryggja kröfu útflytjenda á hendur erlendum kaupendum.
    Ýmsar ástæður urðu þess valdandi að umrætt fyrirkomulag reyndist ekki sem skyldi. Vegna þess að þörfin fyrir tryggingarþjónustu við útflutning var brýnust á sviði iðnaðar var talið eðlilegt að Iðnlánasjóður starfrækti tryggingardeild útflutningslána, þar sem talið var að sjóðurinn hefði fulla burði til þess. Með lögum nr. 52/1986, um breyting á lögum nr. 68/1967, um Iðnlánasjóð, var því tryggingardeild útflutningslána komið á fót í svipaðri mynd og hún er í dag. Lög nr. 68/1967, um Iðnlánasjóð, voru síðan gefin út að nýju sem lög nr. 76/1987, um Iðnlánasjóð. Í 2. mgr. 14. gr. þeirra laga var kveðið á um hlutverk tryggingardeildarinnar með eftirfarandi hætti:
     1.      Að taka að sér að tryggja lán er bankar eða aðrar lánastofnanir veita innlendum framleiðendum vöru eða þjónustu til fjármögnunar á útflutningslánum, sem veitt eru eða útveguð erlendum kaupendum.
     2.      Að tryggja kröfur íslenskra útflytjenda á hendur erlendum kaupendum, enda hafi þær orðið til vegna útflutnings á íslenskum vörum eða þjónustu.
     3.      Að tryggja, þegar sérstaklega stendur á, samkeppnislán til innlendra aðila er kaupa vélar, tæki og aðrar fjárfestingarvörur sem framleiddar eru innan lands.
     4.      Að selja ábyrgðartryggingar fyrir þjónustu sem íslenskir aðilar veita erlendis.
    Hlutverk tryggingardeildarinnar samkvæmt þessu ákvæði var sams konar og mælt var fyrir um í 2. gr. laga nr. 60/1970 þó þannig að útflutningur á þjónustu var gerður jafnrétthár og útflutningur á vöru.
    Með lögum nr. 60/1997, um stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., var Iðnlánasjóður lagður niður ásamt Fiskveiðasjóði Íslands, Útflutningslánasjóði og Iðnþróunarsjóði, sbr. 19. gr. laganna. Skv. 3. gr. laganna runnu allar eignir, skuldir og skuldbindingar framangreindra sjóða inn í bankann sem stofnfé hans, að frátöldum þeim fjármunum sem ráðstafað var til Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, sbr. 7. gr. laga nr. 61/1997, um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins. Var sjóðnum ætlað það hlutverk að stuðla að arðbærri uppbyggingu og vexti íslensks atvinnulífs með því að styðja við þróunar- og kynningarverkefni. Að auki tók Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins við starfsemi tryggingardeildar útflutningslána hjá Iðnlánasjóði og tryggingardeild útflutningslána við Ríkisábyrgðasjóð. Skv. 11. gr. laga nr. 61/1997, um Nýsköpunarsjóð, er hlutverk tryggingardeildarinnar eftirfarandi:
     1.      Að taka að sér að tryggja lán er bankar eða aðrar lánastofnanir veita innlendum framleiðendum vöru eða þjónustu til fjármögnunar á útflutningslánum sem veitt eru eða útveguð erlendum kaupendum.
     2.      Að tryggja kröfur íslenskra útflytjenda á hendur erlendum kaupendum, enda hafi þær orðið til vegna útflutnings á íslenskum vörum og þjónustu.
     3.      Að selja ábyrgðir fyrir þjónustu sem íslenskir aðilar veita erlendis. Einnig að tryggja verkábyrgðir innlendra aðila vegna framkvæmda sem fara að umfangi yfir þau viðmiðunarmörk sem gera opinberar framkvæmdir útboðsskyldar á Evrópska efnahagssvæðinu.
     4.      Að tryggja fjárfestingar innlendra fjárfesta erlendis vegna stjórnmálalegrar áhættu.
     5.      Að tryggja búnað sem innlendir aðilar flytja á erlenda grund í tengslum við verkefni þar vegna stjórnmálalegrar áhættu.
    Í meginatriðum er hlutverk tryggingardeildarinnar það sama og mælt var fyrir um í 2. mgr. 14. gr. laga nr. 76/1987, um Iðnlánasjóð. Þó fólu 4. og 5. tölul. í sér nýmæli frá eldri lögum, auk þess sem felldur var brott 3. tölul. þeirra laga, varðandi tryggingar samkeppnislána til innlendra aðila.
    Tryggingardeildin tók við eignum og skuldbindingum tryggingardeildar útflutningslána við Iðnlánasjóð og er stofnfé deildarinnar ekki hluti af stofnfé sjóðsins. Hún tók hins vegar ekki við eignum og skuldum tryggingardeildar útflutningslána við Ríkisábyrgðasjóð þótt hún tæki við starfsemi hennar. Eignir og skuldbindingar þeirrar deildar féll til Ríkisábyrgðasjóðs við brottfall laga um deildina.

III.    Samstarfsverkefni.
    Á árinu 2000 féll ábyrgð á tryggingardeild útflutningslána, sem varð til þess að varasjóður deildarinnar varð að engu. Í kjölfarið fól ríkisstjórnin stjórnarnefnd tryggingardeildar útflutningslána að gera úttekt á þörf fyrir áframhaldandi starfsemi deildarinnar og gera tillögur um framtíðarhlutverk hennar, fjármögnun og rekstrarform, ef niðurstaðan yrði sú að deildin mundi starfa áfram.
    Stjórnarnefndin skoðaði í kjölfarið ítarlega hvaða kostir væru í stöðunni. Niðurstaðan varð sú að þörf væri fyrir áframhaldandi starfsemi tryggingardeildar útflutningslána og að styrkja þyrfti starfsemi deildarinnar. Ákveðið var að stofna til samstarfsverkefnis vegna tryggingardeildar útflutningslána til þriggja ára. Þátttakendur í því voru iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, vöruþróunar- og markaðsdeild Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins. Samningur um samstarfsverkefnið tók gildi hinn 15. apríl 2002 og mun renna út hinn 15. janúar 2005. Í samstarfsverkefninu felst að ráðist verður í sérstakt kynningarstarf um starfrækslu tryggingardeildar útflutningslána, gerðir verða samningar við utanaðkomandi aðila um greiningu á umsóknum til tryggingardeildar útflutningslána og ráðinn starfsmaður til að sinna málefnum deildarinnar eingöngu. Meðalkostnaður við samstarfsverkefnið er áætlaður 8 millj. kr. á ári. Þátttakendur samþykktu að leggja 2 millj. kr. hver á ári til samstarfsverkefnisins. Stærsti kostnaðarliðurinn er vegna ráðningar starfsmanns. Samstarfsverkefnið miðar að því að fá úr því skorið á næstu þremur árum hvort mögulegt væri að skjóta nægilega traustum stoðum undir starfsemi tryggingardeildar útflutningslána.
    Í samstarfsverkefninu felst einnig að komið var á fót verkefnastjórn sem skipuð er einum fulltrúa frá iðnaðarráðuneytinu, einum frá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins og vöruþróunar- og markaðsdeild Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins sameiginlega og einum frá Samtökum iðnaðarins, auk þess sem starfsmaður tryggingardeildarinnar situr fundi verkefnastjórnar. Verkefnastjórnin gerir tillögur að markaðs- og fjárhagsáætlunum til stjórnarnefndar tryggingardeildar útflutningslána, ásamt tillögum að kynningarfundum um starfsemi tryggingardeildar útflutningslána. Tillögur verkefnisstjórnar eru háðar samþykki stjórnarnefndar tryggingardeildar útflutningslána.

IV.    Leiðbeiningarreglur Eftirlitsstofnunar EFTA um skammtímaútflutningslánatryggingar.
    Í 61. gr. EES-samningsins, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, er kveðið á um þá meginreglu að hvers kyns aðstoð sem aðildarríki ESB eða EFTA veita eða veitt er af ríkisfjármunum og raskar eða sé til þess fallin að raska samkeppni með því að ívilna ákveðnum fyrirtækjum eða framleiðslu ákveðinna vara, sé ósamrýmanleg framkvæmd EES- samningsins. Ákvæði þetta er hliðstætt 87. gr. Rómarsamningsins.
    Eftirlitsstofnun EFTA hefur gefið út leiðbeiningar um útflutningslánatryggingar til skamms tíma, dags. 4. mars 1998, með síðari breytingum. Byggjast þær á sambærilegum leiðbeiningum sem framkvæmdastjórn ESB hefur gefið út. Í þeim er fjallað um hvenær slíkar tryggingar eða ábyrgðir teljast ekki samrýmast 61. gr. EES-samningsins. Kveðið er á um að tryggingar sem teknar eru til að mæta áhættu vegna einkaaðila með staðfestu í tilteknum ríkjum sem eru aðilar að Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnuninni (OECD) sé markaðshæf áhætta, enda sé áhættutímabilið undir tveimur árum. Gengið er út frá því í leiðbeiningarreglunum að unnt sé að kaupa tryggingu vegna slíkrar markaðshæfrar áhættu hjá einkareknum vátryggingafélögum og því teljist það ólögmæt ríkisaðstoð og brot gegn 61. gr. EES- samningsins ef ríkisstofnanir eða ríkisfyrirtæki veiti slíka þjónustu nema um starfsemi þeirra og rekstur gildi sömu reglur og um einkarekin félög.
    Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og þar með tryggingardeild útflutnings telst ríkisstofnun í skilningi 61. gr. EES-samningsins. Um starfsemi tryggingardeildar útflutnings og rekstur gilda ekki sömu reglur og um einkarekin félög m.a. vegna þess að hún er ekki skattskyld, ríkisábyrgð er á skuldbindingum hennar og hún er ekki háð þeim kvöðum sem eru í lögum um vátryggingastarfsemi varðandi myndun varasjóðs. Ef tryggingardeild útflutnings veitir tryggingu gegn markaðshæfri áhættu telst slíkt fyrirkomulag brjóta gegn 61. gr. EES-samningsins.
    Framkvæmdastjórn ESB hefur ákveðið í leiðbeiningum sínum hvaða lönd teljast markaðshæf í þessum skilningi. Framkvæmdastjórnin getur breytt þeim lista þannig að ný lönd geta komið inn og önnur fallið út. Mun leiðbeiningum Eftirlitsstofnunar EFTA í slíkum tilvikum verða breytt með sama hætti. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að stjórnarnefnd tryggingardeildar útflutningslána skuli tilgreina í starfsreglum hvaða ríki teljist markaðshæf í þessum skilningi. Er það gert þar sem mat á markaðshæfi ríkja kann að breytast, eins og fyrr segir.
    Samkvæmt 3. mgr. 1. gr. frumvarps þessa skal tryggingardeild útflutnings að jafnaði ekki veita ábyrgðir eða tryggingar vegna viðskiptalegrar eða stjórnmálalegrar áhættu til skemmri tíma en tveggja ára. Með viðskiptalegri áhættu er átt við:
     1.      Óréttmæta höfnun skuldara á samningi, þ.e. sérhver óréttmæt ákvörðun skuldara um að raska eða binda enda á samning án lögmætra ástæðna.
     2.      Óréttmæta synjun skuldara um að móttaka þær vörur sem falla undir samning án lögmætra ástæðna.
     3.      Gjaldþrot skuldara eða ábyrgðarmanns hans.
     4.      Langvarandi vanskil, af hálfu lánþega eða ábyrgðarmanns skuldar, á greiðslum samkvæmt samningi.
    Með stjórnmálalegri áhættu er m.a. átt við áhættu í tengslum við styrjaldir, óstöðugt stjórnarfar eða náttúruhamfarir.
    Tryggingardeild útflutnings getur gefið út tryggingar og ábyrgðir vegna annarrar áhættu en að framan greinir. Tveggja ára lágmarksáhættutímabil í frumvarpi þessu tekur til framleiðslutímabils að viðbættu lánstímabili með venjulegum upphafstíma og venjulegum lánskjörum.
    Ef þær tryggingar sem kveðið er á um í frumvarpstexta eru tímabundið ófáanlegar er tryggingardeild útflutnings heimilt að veita tryggingar eða ábyrgðir samkvæmt framangreindum leiðbeiningum Eftirlitsstofnunar EFTA, kafla 17A4, lið 8–13. Skilyrði fyrir veitingu slíkra trygginga eða ábyrgða samkvæmt leiðbeiningarreglunum er að iðgjald vegna slíkra trygginga sé sambærilegt við það sem gerist á einkamarkaði. Þá skulu drög að ákvörðun um veitingu slíkra trygginga og ábyrgða tilkynnt Eftirlitsstofnun EFTA þegar í stað. Tilkynningunni skal fylgja markaðsúttekt er sýni að ekki sé hægt að tryggja gegn áhættunni á einkavátryggingamarkaði með því að leggja fram sannanir frá þar að lútandi tveimur þekktum alþjóðlegum einkareknum vátryggingafélögum útflutningslána sem og frá innlendu vátryggingafélagi útflutningslána. Að öðrum kosti má leggja fram markaðsskýrslu frá óháðum ráðgjafa sem eftirlitsstofnunin telur áreiðanlegan og óhlutdrægan. Tilkynningin skal einnig hafa að geyma lýsingu á skilmálum sem tryggingardeild útflutnings hyggst beita vegna slíkra trygginga. Eftirlitsstofnun EFTA skal innan tveggja mánaða eftir að slík tilkynning berst rannsaka hvort veiting slíkra trygginga sé í samræmi við EES-samninginn. Komist eftirlitsstofnunin að þeirri niðurstöðu að svo sé er ákvörðun hennar takmörkuð við tvö ár fram í tímann.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Grein þessi fjallar um hlutverk tryggingardeildar útflutnings. Gert er ráð fyrir útvíkkun á starfsheimildum tryggingardeildarinnar, til þess að deildinni verði unnt að stuðla frekar að íslenskum útflutningi vöru og þjónustu og treysta þannig samkeppnisstöðu íslensks útflutnings. Ætlunin er sú að þjónusta við íslenskan útflutning og íslenska útflutningshagsmuni verði sambærileg við það sem best gerist á Norðurlöndum. Þá er í frumvarpinu gerð tillaga að innleiðingu leiðbeiningarreglna Eftirlitsstofnunar EFTA um lágmarksáhættutímabil, sbr. nánari umfjöllun í kafla IV í almennum athugasemdum. Gert er ráð fyrir að stjórnarnefnd tryggingardeildar útflutnings muni skilgreina nánar þá þjónustu sem tryggingardeildin veitir í starfsreglum sínum.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að deildin skuli vera nefnd tryggingardeild útflutnings. Í gildandi lögum er deildin hins vegar nefnd tryggingardeild útflutningslána. Ástæðan fyrir breytingunni er sú að misvísandi þykir að heiti deildarinnar vísi einungis til útflutningslána þar sem henni er einnig heimilt að veita aðrar ábyrgðir og tryggingar en á útflutningslánum.
    Í 2. mgr. er ákvæði um hlutverk tryggingardeildar útflutnings. Í 1. málsl. er almennt ákvæði um hlutverk deildarinnar. Er það breyting frá gildandi lögum þar sem hlutverk deildarinnar er einungis talið upp í fimm töluliðum. Í ákvæðinu kemur fram að hlutverk deildarinnar sé að efla íslenskan útflutning á vöru og þjónustu, efla fjárfestingar og auka þátttöku í verklegum framkvæmdum innan lands og utan. Með íslenskum útflutningi er átt við að vörurnar sem seldar eru, veitt þjónusta eða hinar verklegu framkvæmdir hafi í för með sér virðisauka fyrir íslenskt þjóðfélag. Þannig er ekki gert ráð fyrir að sá sem fær ábyrgð eða tryggingu þurfi í öllum tilvikum að vera íslenskur til þess að verkefnið falli undir hlutverk tryggingardeildar útflutnings.
    Í 1. tölul. 2. mgr. er kveðið á um að hlutverk tryggingardeildar útflutnings sé að tryggja útflutningslán sem lánastofnun veitir útflytjanda eða kaupanda, enda hafi lánið verið veitt til fjármögnunar í tengslum við íslenskan útflutning á vöru eða þjónustu. Tryggingardeild útflutnings verður því heimilt að veita tryggingar fyrir lánum sem lánastofnun veitir, óháð því hvort lánið er veitt til útflytjanda eða til kaupanda. Ekki er gert að skilyrði að útflytjandinn sé íslenskur, enda sé um að ræða útflutning sem hefur í för með sér virðisauka fyrir íslenskt þjóðfélag, sbr. umfjöllun hér að framan.
    Í 2. tölul. 2. mgr. er kveðið á um að eitt af hlutverkum tryggingardeildar útflutnings sé að taka að sér að ábyrgjast eða tryggja ábyrgðir vegna samnings á milli útflytjanda og kaupanda sem gerður hefur verið vegna íslensks útflutnings á vöru eða þjónustu. Með orðalaginu „taka að sér að ábyrgjast“ er átt við að tryggingardeildin geti gefið út ábyrgð án milligöngu banka eða annars fjármálafyrirtækis. Hins vegar er með orðalaginu: „tryggja ábyrgðir“ átt við að tryggingardeildin geti gefið út svokallaða bakábyrgð, þ. e. gefið út ábyrgðir sem eru í raun tryggingarráðstöfun á aðra ábyrgð sem gefin hefur verið út vegna tiltekins útflutnings. Gert er ráð fyrir að ábyrgð vegna endurgreiðslu á fyrirframgreiðslu kaupanda geti fallið hér undir (e. Refund Guarantee). Einnig er gert ráð fyrir að tryggingardeildinni sé heimilt að veita ábyrgðir á tilboðum samkvæmt þessu ákvæði.
    Í 3. tölul. 2. mgr. er kveðið á um að tryggingardeildinni sé heimilt að taka að sér að ábyrgjast eða tryggja ábyrgð fyrir efndum á þjónustu- eða verksamningi sem gerður er vegna íslensks útflutnings á vöru eða þjónustu. Reynslan hefur sýnt að þörf er á tryggingum og ábyrgðum í tengslum við réttar efndir samninga sem gerðir eru í tengslum við íslenskan útflutning á vöru eða þjónustu. Þannig er þess oft farið á leit að útflytjandi gefi út ábyrgð á réttum efndum, þannig að ljóst sé að hann efni samninginn með réttilegum hætti, eða borgi efndabætur ella (e. Performance Guarantee). Samkvæmt umræddu ákvæði er tryggingardeildinni heimilt að gefa út slíka ábyrgð eða gefa út bakábyrgð vegna slíkrar ábyrgðar sem fjármálafyrirtæki mundi þá í flestum tilvikum gefa út. Einnig falla ábyrgðir eða tryggingar á tilboðum í tengslum við þjónustu- eða verksamninga hér undir.
    Í 4. tölul. 2. mgr. er kveðið á um að tryggingardeildin geti gefið út verkábyrgðir eða tryggt verkábyrgð innlends aðila vegna framkvæmdar sem fer að umfangi yfir þau viðmiðunarmörk sem gerir opinberar framkvæmdir útboðsskyldar á Evrópska efnahagssvæðinu. Ákvæðinu svipar til 2. málsl. 3. tölul. 2. mgr. 11. gr. gildandi laga um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, nr. 61/1997. Það miðar að því að bæta samkeppnisstöðu innlendra bjóðenda gagnvart erlendum vegna verka sem eru útboðsskyld á Evrópska efnahagssvæðinu. Í 1. mgr. 57. gr., sbr. 1. mgr. 56. gr., laga nr. 94/2001, um opinber innkaup, kemur fram að þau verk séu útboðsskyld á Evrópska efnahagssvæðinu sem fara yfir viðmiðunarfjárhæðir sem ráðherra birtir í reglugerð. Í reglugerð nr. 513/2001 kemur fram í 1. gr. að viðmiðunarfjárhæð vegna verkframkvæmda sé 396.680.000 kr. Við framkvæmdir af þessari stærð hefur reynslan sýnt að íslenskum verktökum hefur reynst ómögulegt að afla fullnægjandi trygginga eða ábyrgða. Fullyrða má að þetta fyrirkomulag hefur orðið til þess að gera þátttöku íslenskra fyrirtækja mögulega í mörgum stórverkefnum hérlendis á síðustu árum. Tryggingardeild útflutnings verður því sem fyrr einungis heimilt að tryggja verkábyrgðir innlendra aðila ef framkvæmdirnar fara yfir rúmar 396 millj. kr.
    Í 5. og 6. tölul. 2. mgr. er tryggingardeild útflutnings veitt heimild til að veita tilteknar ábyrgðir í tengslum við stjórnmálalega áhættu. Með stjórnmálalegri áhættu er almennt átt við áhættu í tengslum við styrjaldir, óstöðugt stjórnarfar eða náttúruhamfarir. Ákvæði þessi eru óbreytt frá gildandi lögum.
    Í 7. tölul. 2. mgr. er opnuð leið fyrir tryggingardeild útflutnings að veita aðrar tryggingar og ábyrgðir en nefndar eru sérstaklega í öðrum töluliðum greinarinnar, þar sem ekki er unnt að sjá fyrir með vissu hvaða vöru og þjónustu veita verður til að tryggja samkeppnisstöðu íslensks útflutnings til framtíðar. Hér mundu t.d. falla undir ábyrgðir sem nefndar hafa verið á ensku „Letter of Credit Guarantee“. Slíkar ábyrgðir hafa í för með sér að tryggingardeild útflutnings mundi deila áhættu íslensks banka við að staðfesta það sem á ensku er nefnt „Letter of Credit“.
    Í 3. mgr. eru ákvæði sem til eru komin vegna leiðbeiningarreglna Eftirlitsstofnunar EFTA, sem ítarlega hefur verið fjallað um í kafla IV í almennum athugasemdum. Vísast til þeirrar umfjöllunar vegna nánari skýringa á ákvæðinu.

Um 2. gr.

    Í gildandi lögum um tryggingardeild útflutningslána er gert ráð fyrir að iðgjöld eigi að nægja til að standa undir rekstri deildarinnar, greiðslu tjónabóta og myndunar varasjóðs er nemi a.m.k. 10% af ábyrgðum deildarinnar á hverjum tíma. Ákvæði þetta hefur reynst erfitt í framkvæmd þar sem örðugt er að tryggja að ætíð sé fyrir hendi varasjóður er nemi a.m.k. 10% af ábyrgðum deildarinnar á hverjum tíma. Þá er ákvæði þetta ekki í samræmi við ákvæði um iðgjöld í sambærilegum tryggingardeildum á Norðurlöndum. Því er gerð tillaga að breytingu á ákvæðinu þannig að ekki verði kveðið á um ákveðna prósentutölu í tengslum við varasjóð, en mælt fyrir um að deildin skuli standa undir sér til lengri tíma litið.

Um 3. gr.

    Í ákvæðinu er mælt fyrir um að heildarskuldbindingar tryggingardeildar útflutnings skuli ekki nema hærri fjárhæð en 130 millj. sérstakra dráttarréttinda (SDR). Í gildandi lögum er fjárhæðin 100 millj. sérstakra dráttarréttinda. Eins og nú er hefur tryggingardeild útflutningslána veitt tryggingar og ábyrgðir sem nema 1/ 10af þeirri fjárhæð. Rétt þykir því að hækka þessa fjárhæð þar sem markmið framangreinds samstarfsverkefnis og endurskoðun á lagareglum um tryggingardeild útflutnings miða að auknum tryggingum og ábyrgðum.

Um 4. gr.

    Í ákvæðinu er mælt fyrir um gildistöku laganna og þarfnast það ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, nr. 61/1997, með síðari breytingum.

    Markmiðið með frumvarpinu er að fela Nýsköpunarsjóði að starfrækja tryggingardeild útflutnings sem ábyrgist útflutningslán sem lánastofnun veitir útflytjanda eða kaupanda íslenskrar vöru, ábyrgjast eða tryggja ábyrgðir vegna samnings á milli útflytjanda og kaupanda, ábyrgjast eða tryggja ábyrgðir fyrir efndum á þjónustu- eða verksamningi, gefa út verkábyrgðir eða tryggja verkábyrgð innlends aðila vegna framkvæmda sem fara að umfangi yfir þau viðmiðunarmörk sem gerir opinberar framkvæmdir útboðsskyldar á Evrópska efnahagssvæðinu, tryggja fjárfestingar og annan búnað innlends fjárfestis erlendis vegna stjórnmálalegrar áhættu. Skv. 2. gr. frumvarpsins skal innheimta iðgjald fyrir ábyrgðir og miðað er við að það standi undir rekstri deildarinnar, greiðslu tjónabóta og myndun varasjóðs þannig að starfsemin standi undir sér til lengri tíma litið. Þetta ákvæði breytir 12. gr. núgildandi laga sem kveður á um að varasjóður skuli nema a.m.k. 10% af ábyrgðum deildarinnar hverju sinni. Gert er því ráð fyrir að stjórn sjóðsins ákveði iðgjöld miðað við áhættu hverju sinni og leggi fyrir nægilega upphæð í varasjóð. Skv. 3. gr. frumvarpsins hækka leyfilegar heildarskuldbindingar sjóðsins um 30% úr 11,6 milljörðum króna í 15,1 milljarð króna. Þess skal getið að heildarskuldbindingar hafa aðeins náð einum milljarði hingað til. Það sem gæti haft mikil áhrif á heildarskuldbindingar tryggingardeildarinnar er ef stjórn deildarinnar gefur ábyrgð á grundvelli 4. tölul. 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins sem gæti náð yfir virkjana- og stóriðjuframkvæmdir. Samkvæmt núgildandi lögum skal greiða ábyrgðir úr Ríkisábyrgðasjóði nægi fé deildarinnar ekki til greiðslu. Hugsanlegt er að um 400 m.kr. ábyrgð vegna verkefnis í Rússlandi falli á Ríkisábyrgðasjóð á næsta ári þar sem ekki er næg innistæða í sjóðum tryggingardeildarinnar fyrir ábyrgðum sem koma til greiðslu í ár og á næsta ári. Þess má geta að skipuð hefur verið nefnd af hálfu rússneskra og íslenskra stjórnvalda til að finna lausn á því máli. Vonast er til að með víðtækari heimildum fyrir ábyrgðarveitingum og þar með víðtækari nýtingu þjónustunnar af hálfu íslenskra útflytjenda náist betri áhættudreifing. Með ábyrgri áhættustjórnun og innheimtu gjalds í varasjóð er stefnt að því að sjóðir í vörslu tryggingardeildar útflutningsins standi undir ófyrirséðum áföllum í framtíðinni.
    Taflan hér að neðan sýnir eignir alls, tekjur og gjöld tryggingardeildar útflutnings samkvæmt ársreikningum 1998–2001. Mismunur á eignum alls og eigin fé skýrist af kröfum sjóðsins á aðra t.d. kröfur í þrotabú sem bókfærast sem eignir.

Ár 1998 1999 2000 2001
Eignir alls 24.871.217 41.998.856 23.691.323 9.360.952
Eigið fé 24.871.217 41.862.884 19.323.909 0
Tekjur 8.944.982 20.957.212 871.840 343.843
Gjöld 2.592.829 3.643.482 8.071.288 4.240.266
Hagnaður 6.352.153 17.313.730 (7.199.886) (3.896.423)