Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 405. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 500  —  405. mál.




Frumvarp til laga



um breytingar á ýmsum lögum vegna verkefna Umhverfisstofnunar.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



I. KAFLI
Breytingar á lögum um brunavarnir, nr. 75/2000.
1. gr.

    Í stað orðanna „Hollustuvernd ríkisins“ í 3. mgr. 11. gr. laganna kemur: Umhverfisstofnun.

II. KAFLI
Breytingar á lögum um dýravernd, nr. 15/1994, með síðari breytingum.
2. gr.

    Í stað orðsins „dýraverndarráðs“ í 4. gr. laganna kemur: Umhverfisstofnunar.

3. gr.

    1. mgr. 12. gr. laganna orðast svo:
    Leyfi Umhverfisstofnunar þarf til hvers konar ræktunar, verslunar, þjálfunar, tamningar, geymslu og leigu dýra í atvinnuskyni sem ekki fellur undir búfjárhald. Einnig þarf leyfi Umhverfisstofnunar til að setja á stofn dýragarða, halda dýrasýningar og efna til dýrahappdrættis. Heimilt er Umhverfisstofnun að taka gjald fyrir útgáfu leyfisins. Gjaldið má ekki vera hærra en sem nemur kostnaði við útgáfu leyfisins. Ráðherra setur að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar gjaldskrá um útgáfu leyfa samkvæmt ákvæði þessu.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. laganna:
     a.      2.–3. mgr. orðast svo:
             Umhverfisstofnun hefur eftirlit með framkvæmd laga þessara og er ráðherra til ráðgjafar. Umhverfisstofnun er heimilt að fela heilbrigðisnefnd eftirlit og framkvæmd þvingunarúrræða samkvæmt lögum þessum í umboði stofnunarinnar. Umhverfisstofnun gerir tillögur til ráðherra um setningu reglugerða og annarra stjórnvaldsfyrirmæla á grundvelli laganna.
             Um stefnumótandi mál, svo sem setningu reglugerða, skal leita umsagnar Búnaðarfélags Íslands, Dýralæknafélags Íslands og áhuga- og hagsmunasamtaka á sviði dýraverndar.
     b.      4. mgr. fellur brott.

5. gr.

    18. gr. laganna orðast svo:
    Leiki grunur á að meðferð á dýrum brjóti gegn lögum ber þeim sem verða þess varir að tilkynna það Umhverfisstofnun, héraðsdýralækni eða lögreglu í viðkomandi umdæmi.
    Fulltrúum Umhverfisstofnunar og héraðsdýralækni er heimilt að fara á hvern þann stað þar sem dýr eru höfð og kanna aðstæður þeirra og aðbúnað. Eigi er þó heimilt að fara í þessum tilgangi inn í íbúðarhús, útihús eða aðra þvílíka staði án samþykkis eiganda eða umráðamanns húsnæðisins nema að fengnum dómsúrskurði, sbr. þó 4. mgr. Lögregla skal aðstoða fulltrúa Umhverfisstofnunar og héraðsdýralækni ef með þarf.
    Sé um minni háttar brot að ræða skal Umhverfisstofnun leggja fyrir eiganda eða umsjónarmann dýranna að bæta úr innan tiltekins tíma. Láti eigandi eða umsjónarmaður ekki skipast við tilmæli Umhverfisstofnunar getur stofnunin látið vinna úrbætur á hans kostnað.
    Leiki grunur á að um sé að ræða alvarlegt brot gegn lögum þessum eða reglugerðum, sem settar eru með stoð í þeim, getur lögregla fyrirvaralaust tekið dýr úr vörslu eiganda eða umsjónarmanns. Í þessu skyni er lögreglu rétt að fara inn í íbúðarhús, útihús eða aðra þvílíka staði án dómsúrskurðar ef brýn hætta er á að bið eftir úrskurði valdi dýrunum heilsutjóni. Lögreglu ber að tilkynna Umhverfisstofnun þessar aðgerðir þegar í stað. Lögreglustjóri ákveður í framhaldi af því, að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar og héraðsdýralæknis, hvort dýrin skuli vera áfram í vörslu lögreglu þar til úrbætur hafa verið gerðar eða dómur fallið, sbr. 6. mgr. Á meðan dýrin eru í vörslu lögreglu er sveitarstjórn skylt að útvega geymslustað, fóður og umhirðu fyrir dýrin á kostnað eiganda eða umsjónarmanns. Sé sveitarstjórn það af einhverjum ástæðum ókleift og telji nauðsynlegt að láta bjóða dýrin upp, selja þau til lífs eða slátrunar eða láta aflífa þau að öðrum kosti skal eiganda eða umsjónarmanni dýranna þegar tilkynnt um þau áform og honum gefinn kostur á, sé það mögulegt, að setja viðhlítandi tryggingu fyrir greiðslu á kostnaði við geymslu, fóður og umhirðu fyrir dýrin uns dómur fellur, sbr. 6. mgr.
    Telji Umhverfisstofnun nauðsynlegt til að stöðva eða fyrirbyggja illa meðferð á dýrum getur Umhverfisstofnun fyrirvaralaust og til bráðabirgða svipt eiganda eða umsjónarmann heimild til þess að hafa eða sjá um dýr þar til úrbætur hafa verið gerðar eða dómur fallið, sbr. 6. mgr.
    Nú vill eigandi eða umsjónarmaður dýra ekki hlíta þeim aðgerðum eða ákvörðunum sem fyrir er mælt í 4. og 5. mgr. og getur hann þá borið ágreiningsefnið undir dómara, hvort sem er sérstaklega eða í opinberu máli sem höfðað kann að vera á hendur honum. Slíkt frestar þó ekki aðgerðum eða framkvæmd ákvarðana skv. 4. og 5. mgr.
    Umhverfisstofnun er heimilt að ákveða að eigandi eða umsjónarmaður dýra skuli bera kostnað af aðgerðum skv. 2. og 4. mgr. Ákvörðun um greiðslu kostnaðar er aðfararhæf.

III. KAFLI
Breytingar á lögum um eiturefni og hættuleg efni, nr. 52/1988.
6. gr.

    Í stað orðanna „eiturefnaeftirlits Hollustuverndar ríkisins“ í 1. og 2. mgr. 1. gr. laganna, orðsins „eiturefnaeftirlitsins“ í 2. mgr. 2. gr., orðsins „Eftirlitið“ í 3. mgr. 2. gr., orðanna „Hollustuvernd ríkisins“ í 6. mgr. 23. gr. og sömu orða hvarvetna annars staðar í lögunum kemur (í viðeigandi beygingarfalli): Umhverfisstofnun.

7. gr.

    Orðin „að höfðu samráði við eiturefnaeftirlit Hollustuverndar ríkisins og“ í 3. mgr. 12. gr. laganna falla brott.

8. gr.

    Orðin „og Náttúruverndar ríkisins“ í 2. mgr. 22. gr. laganna falla brott.

IV. KAFLI
Breytingar á lögum um erfðabreyttar lífverur, nr. 18/1996, með síðari breytingum.
9. gr.

    Í stað orðanna „Hollustuvernd ríkisins“ í 2. mgr. 5. gr. laganna, orðsins „Hollustuvernd“ í 3. mgr. 8. gr. og sömu orða hvarvetna annars staðar í lögunum kemur (í viðeigandi beygingarfalli): Umhverfisstofnun.

10. gr.

    4. mgr. 13. gr. laganna fellur brott.

V. KAFLI
Breytingar á lögum um framkvæmd samnings um bann við þróun, framleiðslu, söfnun og notkun efnavopna og um eyðingu þeirra, nr. 17/2000.
11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Við bætist ný málsgrein sem verður 1. mgr. og orðast svo:
             Umhverfisráðherra fer með framkvæmd mála samkvæmt lögum þessum í samstarfi við dómsmálaráðherra og utanríkisráðherra.
     b.      1. mgr., sem verður 2. mgr., orðast svo:
             Umhverfisstofnun fer með eftirlit með framkvæmd laganna og samningsins um bann við þróun, framleiðslu, söfnun og notkun efnavopna og um eyðingu þeirra. Ríkislögreglustjóri annast framkvæmd samningsins að því er varðar viðbúnað fyrir almenning.
     c.      Í stað orðsins „Hollustuvernd“ í 2., 3. og 4. mgr., sem verða 3., 4. og 5. mgr., kemur: Umhverfisstofnun.

12. gr.

    Í stað orðanna „Hollustuverndar ríkisins“ í 1. mgr. 4. gr. laganna kemur: Umhverfisstofnunar.

VI. KAFLI
Breytingar á lögum um heimild fyrir ríkisstjórnina til að staðfesta fyrir Íslands hönd þrjá alþjóðasamninga um varnir gegn mengun sjávar af völdum olíu,
nr. 14/1979, með síðari breytingum.

13. gr.

    Í stað orðanna „Hollustuvernd ríkisins“ í 4. gr. laganna kemur: Umhverfisstofnun.

VII. KAFLI
Breytingar á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.
14. gr.

    Í stað orðanna „Hollustuverndar ríkisins“ í 1. mgr. 4. gr. a laganna og sömu orða hvarvetna annars staðar í lögunum kemur (í viðeigandi beygingarfalli): Umhverfisstofnun.

15. gr.

    1. mgr. 18. gr. laganna orðast svo:
    Umhverfisstofnun annast eftirlit með framkvæmd laga þessara og er stjórnvöldum til ráðuneytis um málefni er undir lögin falla.

VIII. KAFLI
Breytingar á lögum um innflutning dýra, nr. 54/1990, með síðari breytingum.
16. gr.

    Við 1. mgr. 2. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu gilda lög um framkvæmd samnings um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu.

17. gr.

    Í stað orðanna „Náttúruverndar ríkisins“ í 5. gr. laganna kemur: Umhverfisstofnunar.

IX. KAFLI
Breytingar á lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum.
18. gr.

    Í stað orðanna „Hollustuvernd ríkisins“ í 2. mgr. 1. gr. laganna kemur: Umhverfisstofnun.

X. KAFLI
Breytingar á lögum um matvæli, nr. 93/1995, með síðari breytingum.
19. gr.

    Í stað orðanna „Hollustuvernd ríkisins“ í 5. gr. laganna og sömu orða hvarvetna annars staðar í lögunum kemur (í viðeigandi beygingarfalli): Umhverfisstofnun.

XI. KAFLI
Breytingar á lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur,
nr. 60/1992, með síðari breytingum.

20. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      Orðin „í samvinnu við embætti veiðistjóra“ í f-lið 2. mgr. falla brott.
     b.      Í stað orðanna „Hollustuvernd ríkisins“ í i-lið 2. mgr. kemur: Umhverfisstofnun.

21. gr.

    Í stað orðanna „Náttúruvernd ríkisins“ í e-lið 1. mgr. 11. gr. laganna kemur: Umhverfisstofnun.

XII. KAFLI
Breytingar á lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999, með síðari breytingum.
22. gr.

    Í stað orðanna „Náttúruverndar ríkisins“ í 6. gr. laganna og sömu orða hvarvetna annars staðar í lögunum kemur (í viðeigandi beygingarfalli): Umhverfisstofnun.

23. gr.

    Við 6. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 1. mgr. og orðast svo:
    Umhverfisstofnun hefur eftirlit með framkvæmd laga þessara og er ráðherra til ráðgjafar.

XIII. KAFLI
Breytingar á lögum um sinubrennur og meðferð elds á víðavangi,
nr. 61/1992, með síðari breytingum.

24. gr.

    Í stað orðanna „Náttúruverndar ríkisins“ í 4. gr. laganna kemur: Umhverfisstofnunar.

XIV. KAFLI
Breytingar á lögum um skipulag ferðamála, nr. 117/1994, með síðari breytingum.
25. gr.

    Í stað orðanna „Náttúruvernd ríkisins“ í 10. tölul. 7. gr. laganna og orðanna „Náttúruverndar ríkisins“ í 2. mgr. 36. gr. kemur (í viðeigandi beygingarfalli): Umhverfisstofnun.

XV. KAFLI
Breytingar á sóttvarnalögum, nr. 19/1997.
26. gr.

    Í stað orðanna „Hollustuverndar ríkisins“ í 2. mgr. 6. gr. laganna og orðanna „Hollustuvernd ríkisins“ í 2. mgr. 11. gr. kemur (í viðeigandi beygingarfalli): Umhverfisstofnun.

XVI. KAFLI
Breytingar á lögum um spilliefnagjald, nr. 56/1996.
27. gr.

    Í stað orðanna „Hollustuverndar ríkisins“ í 2. mgr. 4. gr. laganna kemur: Umhverfisstofnunar.

XVII. KAFLI
Breytingar á lögum um tóbaksvarnir, nr. 6/2002.
28. gr.

    Í stað orðanna „Hollustuvernd ríkisins“ í 1. tölul. 2. mgr. og 5. mgr. 5. gr. laganna og orðanna „Hollustuverndar ríkisins“ í 1. mgr. 17. gr. kemur (í viðeigandi beygingarfalli): Umhverfisstofnun.

XVIII. KAFLI
Breytingar á lögum um varnir gegn mengun sjávar,
nr. 32/1986, með síðari breytingum.

29. gr.

    Í stað orðanna „Hollustuverndar ríkisins“ í 4. mgr. 5. gr. laganna og sömu orða hvarvetna annars staðar í lögunum kemur (í viðeigandi beygingarfalli): Umhverfisstofnun.

30. gr.

    Orðin „Náttúruverndar ríkisins“ í 21. gr. laganna falla brott.

XIX. KAFLI
Breytingar á lögum um veitinga- og gististaði, nr. 67/1985, með síðari breytingum.
31. gr.

    Í stað orðanna „Hollustuvernd ríkisins“ í 1. mgr. 14. gr. laganna kemur: Umhverfisstofnun.

XX. KAFLI
Breytingar á lögum um vernd Breiðafjarðar, nr. 54/1995, með síðari breytingum.
32. gr.

    Í stað orðanna „Náttúruvernd ríkisins“ í 3. mgr. 4. gr. laganna kemur: Umhverfisstofnun.

33. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „samþykki Breiðafjarðarnefndar“ í 2. mgr. kemur: leyfi Umhverfisstofnunar.
     b.      Í stað orðanna „dómi Breiðafjarðarnefndar“ í 3. mgr. kemur: mati Umhverfisstofnunar.

XXI. KAFLI
Breytingar á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994, með síðari breytingum.
34. gr.

    Við 1. gr. laganna bætist ný orðskýring sem orðast svo: Ágangssvæði: nánar skilgreint svæði þar sem ágangur hreindýra er svipaður á öllu svæðinu.

35. gr.

    Í stað 2. og 3. mgr. 3. gr. laganna koma fjórar nýjar málsgreinar sem orðast svo:
    Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands skulu vera umhverfisráðherra til ráðgjafar og gera tillögur varðandi vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum eftir því sem tilefni er til.
    Umhverfisstofnun hefur umsjón með og stjórn á þeim aðgerðum af opinberri hálfu sem ætlað er að hafa áhrif á stofnstærð og útbreiðslu villtra dýra eða tjón af þeirra völdum, sbr. VI. kafla.
    Um stefnumótandi mál um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum skal haft samráð við Bændasamtök Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, hreindýraráð að því er varðar hreindýr, Skotveiðifélag Íslands sem og áhuga- og hagsmunasamtök um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.
    Umhverfisstofnun leiðbeinir þeim sem stunda veiðar og aðrar aðgerðir til þess að koma í veg fyrir tjón af völdum villtra dýra.
         

36. gr.

    4. gr. laganna orðast svo:
    Náttúrufræðistofnun Íslands stundar rannsóknir á villtum stofnum spendýra og fugla og metur ástand þeirra, sbr. lög um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur.
    Náttúrufræðistofnun Íslands hefur ein heimild til að láta merkja villta fugla á Íslandi og getur stofnunin veitt einstaklingum leyfi til merkinga samkvæmt reglum sem hún setur og samþykktar eru af umhverfisráðherra. Reglur þessar skulu birtar í Stjórnartíðindum.
    Hverjum þeim sem finnur eða handsamar merktan fugl ber að senda merkið, hvort sem það er íslenskt eða útlent, til Náttúrufræðistofnunar Íslands ásamt nánari upplýsingum um fundinn.

37. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „ráðgjafarnefndar um villt dýr“ í 2. mgr. kemur: Umhverfisstofnunar.
     b.      3. mgr. orðast svo:
             Þar sem talið er að villt dýr valdi tjóni einhvern tiltekinn tíma árs eða á svæðum þar sem viðkomandi tegundir eru friðaðar samkvæmt lögum þessum eða reglugerðum byggðum á þeim getur umhverfisráðherra að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands, eða hreindýraráðs að því er varðar hreindýr, veitt tímabundið leyfi til veiða í því skyni að koma í veg fyrir tjón. Í reglugerð skal kveðið á um hvaða tegundir skuli ávallt undanskildar þessu ákvæði. Erindi samkvæmt þessu ákvæði skal svara eigi síðar en viku eftir að það berst ráðuneytinu.
     c.      Í stað orðsins „ráðgjafarnefndarinnar“ í 5. og 7. mgr. kemur: Náttúrufræðistofnunar Íslands.
     d.      3. málsl. 6. mgr. fellur brott.

38. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „ráðgjafarnefndar um villt dýr“ í 7. tölul. 1. mgr. kemur: Umhverfisstofnunar.
     b.      2. mgr. orðast svo:
             Umhverfisstofnun getur veitt tímabundna undanþágu til að nota þær veiðiaðferðir sem taldar eru upp í 1. mgr. í vísindaskyni eða ef villt dýr valda umtalsverðu tjóni og aðrar aðferðir eru ekki taldar henta.

39. gr.

    1. mgr. 10. gr. laganna orðast svo:
    Veiðar skulu óheimilar á svæðum sem eru friðlýst vegna dýralífs. Umhverfisráðherra getur aflétt tímabundið eða rift þeirri friðun að fullu eða gagnvart tiltekinni tegund að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands.

40. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Veiðistjóri“ í 1. og 4. mgr. kemur (í viðeigandi beygingarfalli): Umhverfisstofnun.
     b.      3. mgr. orðast svo:
             Gjald fyrir veiðikort skal vera 2.200 kr. á ári. Gjaldið skal notað til rannsókna, vöktunar og stýringar á stofnum villtra dýra, auk þess að kosta útgáfu kortanna. Ráðherra úthlutar fé til rannsókna af tekjum af sölu veiðikorta að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar.

41. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „veiðistjóraembættinu“ í 1. mgr., orðsins „veiðistjóraembætti“ í 2. málsl. 2. mgr., orðsins „veiðistjóraembættis“ í 4. mgr. og orðsins „veiðistjóra“ í 4. mgr. kemur (í viðeigandi beygingarfalli): Umhverfisstofnun.
     b.      1. málsl. 2. mgr. orðast svo: Þar sem umhverfisráðherra ákveður, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands, að nauðsynlegt sé að láta veiða refi til þess að koma í veg fyrir tjón af þeirra völdum, sbr. 7. gr., er sveitarstjórn skylt að ráða kunnáttumann til grenjavinnslu og skal hann hafa með sér aðstoðarmann.

42. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      1. og 2. mgr. orðast svo:
             Minkar njóta ekki friðunar samkvæmt lögum þessum. Þó er umhverfisráðherra heimilt, að fenginni umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands, að friða minka í rannsóknarskyni á takmörkuðu svæði í skamman tíma.
             Þar sem umhverfisráðherra ákveður, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands, að minkaveiðar séu nauðsynlegar til þess að koma í veg fyrir tjón af völdum minka er sveitarstjórn skylt að ráða kunnáttumann til minkaveiða.
     b.      Í stað orðsins „veiðistjóraembættis“ í 3. mgr. kemur: Umhverfisstofnunar.

43. gr.

    14. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Hreindýr.

    Umhverfisráðherra getur heimilað veiðar úr hreindýrastofninum, enda telji Umhverfisstofnun að stofninn þoli veiði og að æskilegt sé að veiða úr honum.
    Ráðherra ákveður árlega fjölda þeirra dýra sem fella má, eftir aldri, kyni og veiðisvæðum, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar og birtir auglýsingu þar að lútandi í Lögbirtingablaði. Eignarréttur á landi þar sem hreindýr halda sig veitir ekki rétt til veiða á hreindýrum.
    Veiðar á hreindýrum eru heimilar öllum er til þess hafa leyfi samkvæmt lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim. Af hverju felldu hreindýri skal greiða til Umhverfisstofnunar sérstakt leyfisgjald sem ráðherra ákveður árlega að fengnum tillögum stofnunarinnar. Við ákvörðun gjaldsins skal taka mið af kostnaði við vöktun hreindýrastofnsins og eftirlit og stjórn hreindýraveiða. Gjaldið skal þó ekki vera hærra en sem nemur þeim kostnaði.
    Umhverfisstofnun annast sölu veiðileyfa og eftirlit með hreindýraveiðum og ræður til þess eftirlitsmenn. Umhverfisstofnun skiptir arði af sölu veiðileyfa og afurða felldra dýra að fengnum tillögum hreindýraráðs. Umhverfisstofnun gerir tillögu til ráðherra um árlegan veiðikvóta og skiptingu hans milli veiðisvæða að fengnum tillögum hreindýraráðs þar að lútandi.
    Umhverfisráðherra skipar fimm menn í hreindýraráð. Ráðherra skipar formann nefndarinnar án tilnefningar. Búnaðarsamband Austurlands og Búnaðarsamband Austur-Skaftafellssýslu skulu tilnefna einn fulltrúa hvort, sveitarfélög á veiðisvæði hreindýra einn fulltrúa og Skotveiðifélag Íslands einn fulltrúa. Hlutverk ráðsins er að vera Umhverfisstofnun og umhverfisráðherra til ráðgjafar um vernd, veiðar og nýtingu hreindýrastofnsins. Fulltrúum Náttúrustofu Austurlands og Náttúrufræðistofnunar Íslands er heimilt að sitja fundi hreindýraráðs og hafa þar málfrelsi og tillögurétt. Ráðið skal ár hvert gera tillögu til Umhverfisstofnunar um skilgreiningu ágangssvæða hreindýra, árlegan veiðikvóta og skiptingu hans milli veiðisvæða.
    Um vanhæfi þeirra sem sitja í hreindýraráði og annast eftirlit með hreindýraveiðum gilda vanhæfisreglur sveitarstjórnarlaga. Verði Umhverfisstofnun eða eftirlitsmenn á vegum stofnunarinnar varir við að brotið sé gegn ákvæðum laganna og reglugerðum um hreindýraveiðar er heimilt að svipta viðkomandi veiðileyfi og leita aðstoðar lögreglu ef með þarf.
    Ráðherra setur að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar nánari reglur um framkvæmdina, m.a. um veiðieftirlitsmenn og skiptingu arðs af hreindýraveiðum.
    Náttúrustofa Austurlands annast vöktun og rannsóknir á hreindýrastofninum samkvæmt samningi við Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands. Náttúrufræðistofnun Austurlands gerir Náttúrufræðistofnun Íslands grein fyrir niðurstöðu, sbr. lög um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur. Af hverju felldu dýri skal greiða sérstakt gjald til þess að standa undir vöktun stofnsins og ákveður ráðherra upphæð gjaldsins, sbr. 3. mgr.

44. gr.

    2. mgr. 16. gr. laganna orðast svo:
    Gangi hvítabjörn á land þar sem fólki eða búfénaði er ekki talin stafa bráð hætta af er Umhverfisstofnun heimilt að láta fanga björninn og flytja hann á stað þar sem ekki stafar hætta af honum.

45. gr.

    Í stað orðanna „ráðgjafarnefndar um villt dýr“ í 1. mgr. 17. gr. laganna kemur: Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands.

XXII. KAFLI
Breytingar á lögum um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu,
nr. 36/1974, með síðari breytingum.

46. gr.

    Í stað orðanna „Náttúruverndar ríkisins“ í 1.–4. mgr. 3. gr., 1. mgr. 4. gr. og 6. gr. laganna kemur (í viðeigandi beygingarfalli): Umhverfisstofnun.

47. gr.

    Í stað orðanna „Hollustuverndar ríkisins og Náttúruverndar ríkisins“ í 5. gr. laganna kemur: Umhverfisstofnunar.

XXIII. KAFLI
Breytingar á jarðalögum, nr. 65/1976, með síðari breytingum.
48. gr.

    Í stað orðanna „Náttúruverndar ríkisins“ í 2. mgr. 38. gr. laganna kemur: Umhverfisstofnunar.

XXIV. KAFLI
Breytingar á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970, með síðari breytingum.
49. gr.

    Í stað orðanna „að fenginni umsögn viðkomandi veiðifélags, Veiðimálastofnunar og Náttúruverndar ríkisins og með samþykki Hollustuverndar ríkisins“ í 25. gr. laganna kemur: að fenginni umsögn viðkomandi veiðifélags og Veiðimálastofnunar og með samþykki Umhverfisstofnunar.

XXV. KAFLI
50. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2003.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með lögum um Umhverfisstofnun, nr. 90/2002, er kveðið á um starfrækslu Umhverfisstofnunar sem tekur til starfa 1. janúar næstkomandi. Stofnunin tekur yfir verkefni Hollustuverndar ríkisins, Náttúruverndar ríkisins og veiðistjóraembættisins og enn fremur stjórnsýsluhlutverk hreindýraráðs. Stofnuninni er enn fremur falið að annast starfsemi dýraverndarráðs og framkvæmd laga um dýravernd en sá þáttur hefur ekki verið falinn sérstakri stofnun á vegum ríkisins til þessa. Skv. 2. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í áðurnefndum lögum skipaði umhverfisráðherra starfshóp til að undirbúa málið sem í eiga sæti Ingimar Sigurðsson, skrifstofustjóri í umhverfisráðuneytinu, formaður, Þórður H. Ólafsson, skrifstofustjóri í umhverfisráðuneytinu, Halldór Þorgeirsson, skrifstofustjóri í umhverfisráðuneytinu, Sigrún Ágústsdóttir, lögfræðingur í umhverfisráðuneytinu, og forstöðumenn áðurnefndra þriggja stofnana, þeir Davíð Egilson, forstjóri Hollustuverndar ríkisins, Árni Bragason, forstjóri Náttúruverndar ríkisins, og Áki Ármann Jónsson, veiðistjóri. Starfshópnum var m.a. falið að kanna hvort þörf væri á að gera frekari lagabreytingar en þegar höfðu verið gerðar varðandi þá starfsemi sem undir lögin falla. Starfshópurinn hefur skilað tillögum að lagabreytingum að höfðu samráði við starfsmenn áðurnefndra stofnana og ráða, dýravarndarráð varðandi II. kafla frumvarpsins, Breiðafjarðarnefnd varðandi XX. kafla frumvarpsins, forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands, ráðgjafarnefnd um villt dýr varðandi XXI. kafla frumvarpsins, dóms- og kirkjumálaráðuneyti varðandi II. og V. kafla frumvarpsins og utanríkisráðuneytið varðandi V. kafla frumvarpsins.
    Starfshópurinn hefur lagt til að gerðar verði breytingar á ýmsum lögum þar sem gert er ráð fyrir starfsemi áðurnefndra stofnana og ráða með það fyrir augum að verkefnin verði færð til Umhverfisstofnunar og að nokkru leyti til Náttúrufræðistofnunar Íslands. Skilið er á milli stjórnsýsluverkefna annars vegar og rannsóknarverkefna hins vegar. Starfshópurinn telur rétt að einfalda stjórnsýslu á þessu sviði eins og unnt er og gera hana skilvirkari. Starfshópurinn telur ekki í samræmi við þau sjónarmið að fjölskipuðum nefndum sé falið stjórnsýsluvald. Aðgengi borgarans að slíkum nefndum sé takmarkað þar sem fulltrúar í þeim sinna almennt öðrum störfum og nefndarmenn þurfa að sækja umboð sitt með fundarsetu. Hins vegar geti í ýmsum tilvikum verið æskilegt að starfandi séu ráðgjafarnefndir fyrir stofnanir og ráðuneyti, svo sem um staðbundin mál. Lagt er til að ráðgjafarnefnd um villt dýr verði lögð niður og verkefni hennar falin Umhverfisstofnun að svo miklu leyti sem um stjórnsýslu er að ræða og til Náttúrufræðistofnunar Íslands hvað varðar önnur verkefni. Enn fremur leggur starfshópurinn til að stjórnsýsla á vegum Breiðafjarðarnefndar sem starfar samkvæmt lögum um vernd Breiðafjarðar, nr. 54/1995, verði færð undir Umhverfisstofnun þannig að öll stjórnsýsla innan málaflokksins verði í höndum stofnunarinnar. Tillögur starfshópsins um skýra verkaskiptingu milli stjórnsýslu og rannsókna og um niðurlagningu ráðgjafarnefndar um villt dýr byggist á því að einfalda stjórnsýsluna og að lögð verði áhersla á uppbyggingu þessara þátta á vegum nýrrar stofnunar. Með lögum um Umhverfisstofnun, nr. 90/2002, var dýraverndarráð sem starfaði samkvæmt lögum um dýravernd, nr. 15/1994, lagt niður og telur starfshópurinn ekki ástæðu til að starfandi verði sérstök nefnd Umhverfisstofnun til ráðgjafar hvað þann þátt varðar. Hins vegar leggur starfshópurinn til að skylt verði að hafa samráð við hlutaðeigandi aðila, hagsmunaaðila og áhugamannasamtök um stefnumótandi mál. Hreindýraráð sem starfar samkvæmt lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994, var lagt niður með lögum um Umhverfisstofnun, nr. 90/2002, en starfshópurinn leggur til að ráðið starfi áfram að sömu verkefnum og áður að stjórnsýslu undanskilinni sem færist yfir til Umhverfisstofnunar. Byggist þessi tillaga á því að nauðsynlegt sé að á Austurlandi komi að þessum málum þeir aðilar sem hafa hagsmuna að gæta með sama hætti og áður án þess að þeir sinni stjórnsýslu innan málaflokksins. Einnig er litið til álits meiri hluta umhverfisnefndar Alþingis við umfjöllun um frumvarp til laga um Umhverfisstofnun þar sem fram kom það álit nefndarmanna að vegna eðlis hreindýramála væri eðlilegt að ráðið starfaði áfram í einhverri mynd og það yrði fyrst og fremst ráðgefandi fyrir Umhverfisstofnun.
    Í lögum um framkvæmd samnings um bann við þróun, framleiðslu, söfnun og notkun efnavopna og um eyðingu þeirra, nr. 17/2000, er kveðið á um að Hollustuvernd ríkisins fari með eftirlit með framkvæmd laganna og samningsins. Ekki er hins vegar kveðið á um hvaða ráðuneyti fari með framkvæmd mála samkvæmt samningnum og hvergi er kveðið á um framkvæmd hans hvað varðar viðbúnað fyrir almenning. Að höfðu samráði við utanríkisráðuneyti og dóms- og kirkjumálaráðuneyti er lagt til að Umhverfisstofnun fari með eftirlit með framkvæmd laganna og samningsins enda er innan hennar þekking á málefninu að því er varðar eiturefni og jafnframt, þar sem Umhverfisstofnun heyrir undir umhverfisráðuneyti, að umhverfisráðherra fari með yfirstjórn á framkvæmd hans í samstarfi við dómsmálaráðherra og utanríkisráðherra. Enn fremur er gerð tillaga að höfðu samráði við áðurnefnda aðila um að ríkislögreglustjóri annist framkvæmd samningsins að því er varðar viðbúnað fyrir almenning.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa

Um 2. gr.


    Í greinininni er kveðið á um að Umhverfisstofnun annist gerð þeirra tillagna sem ákvæðið fjallar um í stað dýraverndarráðs.

Um 3. gr.


    Með greininni er lagt til að Umhverfisstofnun veiti leyfi til dýrahalds í atvinnuskyni sem ekki fellur undir búfjárhald, leyfi til að setja á stofn dýragarða, halda dýrasýningar og efna til dýrahappdrættis. Er það gert í samræmi við þau sjónarmið sem getið er í almennum athugasemdum að fela Umhverfisstofnun umsjón með þessum málaflokki. Lagt er til að dregið verði úr afskiptum lögreglu af dýraverndarmálum og Umhverfisstofnun sjái um framkvæmd þeirra mála þar sem afskipti lögreglu eru ekki nauðsynleg.

Um 4. gr.


    Í greininni er hlutverk Umhverfisstofnunar skilgreint í samræmi við það sem segir í almennum athugasemdum og athugasemdum við 3. gr. Áfram er þó gert ráð fyrir aðstoð lögreglu ef grípa þarf til aðgerða, svo sem að svipta eiganda dýrs umráðum yfir því. Gert er ráð fyrir því að Umhverfisstofnun geti framselt heilbrigðisnefnd eftirlit og framkvæmd þvingunarúrræða í umboði stofnunarinnar.
    Í síðari málsgrein a-liðar er kveðið á um samráð við félagasamtök sem láta dýravernd til sín taka. Talið er gagnlegt og mikilvægt að hafa samráð við áhuga- og hagsmunasamtök á þessu sviði, einkum um stefnumótandi mál. Snýr þessi skylda bæði að ráðuneytinu og Umhverfisstofnun.

Um 5. gr.


    Um athugasemdir við greinina vísast til almennra athugasemda og athugasemda við 3. og 4. gr. Gert er ráð fyrir að meginreglan verði sú að tilkynnt sé til Umhverfisstofnunar leiki grunur á að meðferð dýra brjóti gegn lögum. Að öðru leyti er ekki um breytingu að ræða á 1. mgr. 18. gr. Aðilar geta því einnig haft samband við héraðsdýralækni eða lögreglu. Samkvæmt upplýsingum dýraverndarráðs koma flest dýraverndarmál upp á höfuðborgarsvæðinu.
    Samkvæmt 2. mgr. er fulltrúum Umhverfisstofnunar og héraðsdýralækni heimilt að fara á hvern þann stað þar sem dýr eru höfð og kanna aðstæður þeirra og aðbúnað. Þessi heimild er nú í höndum lögreglu en kveðið er á um að fulltrúi dýraverndarráðs eða héraðsdýralæknis skuli hafður með í för. Ekki þykir þörf á að lögregla sinni þessu hlutverki en aðstoði fulltrúa Umhverfisstofnunar og héraðsdýarlæknis ef húsráðandi veitir ekki samþykki sitt fyrir eftirlitinu.
    Samkvæmt 3. mgr. getur Umhverfisstofnun lagt fyrir eiganda eða umsjónarmann dýranna að bæta úr innan tiltekins tíma. Samkvæmt gildandi lögum er þetta hlutverk lögreglustjóra.
    Samkvæmt 4. mgr. er lagt til að lögregla hafi óbreytt hlutverk að því er varðar fyrirvaralausa vörslusviptingu á dýrum þegar grunur leikur á að um sé að ræða alvarleg brot gegn dýraverndarlögum eða reglum settum samkvæmt þeim en ákvæði þetta á einkum við þegar aðgerðir þola enga bið.
    5.–7. mgr. greinarinnar eru óbreyttar nema að lagt er til að Umhverfisstofnun verði falið það hlutverk sem nú er í höndum lögreglu samkvæmt ákvæðunum.

Um 6.–9. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um 10. gr.


    Samkvæmt 1. gr. laga um Umhverfisstofnun, nr. 90/2002, mun Umhverfisstofnun annast verkefni sem Hollustuvernd ríkisins og Náttúruvernd ríkisins eru falin. Með vísan til þess og rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, þykir ákvæði þetta óþarft.

Um 11. gr.


    Í a-lið er kveðið á um að umhverfisráðherra fari með framkvæmd mála samkvæmt lögum þessum í samstarfi við dómsmálaráðherra og utanríkisráðherra. Ekki er nú kveðið á um hvaða ráðherra fari með framkvæmd laganna. Aðeins segir að Hollustuvernd ríkisins fari með eftirlit með framkvæmd laganna. Ekki er þó litið svo á að um efnisbreytingu sé að ræða. Í b-lið er kveðið á um að Umhverfisstofnun fari með eftirlit með framkvæmd laganna og samningsins um bann við þróun, framleiðslu, söfnun og notkun efnavopna og um eyðingu þeirra. Í samningnum eru ákvæði um viðbúnað og varnir fyrir almenning. Eftirlit með þeim þáttum þykir ekki samræmast hlutverki Umhverfisstofnunar. Að höfðu samráði við dómsmálaráðuneytið þykir rétt að leggja til að ríkislögreglustjóri annist framkvæmd samningsins að því er varðar viðbúnað fyrir almenning.

Um 12.–16. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um 17. gr.


    Í greininni er lagt til að vísað verði til laga um framkvæmd samnings um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu, nr. 85/2000, til áréttingar. Umhverfis- og sjávarútvegsráðuneyti annast framkvæmd þeirra laga.

Um 18. og 19. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um 20. gr.


    Í a-lið er kveðið á um að orðin „í samvinnu við embætti veiðstjóra“ falli brott þar sem gert er ráð fyrir að heimild veiðistjóra til að stunda hagnýtar rannsóknir falli niður, sbr. athugasemdir við 31. gr.

Um 21. og 22. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um 23. gr.


    Í greininni er kveðið á um að Umhverfisstofnun annist eftirlit með framkvæmd laganna og sé ráðherra til ráðgjafar. Í 6. gr. laganna er nú kveðið nánar á um hlutverk Náttúruverndar ríkisins og er gert ráð fyrir því að hlutverk Umhverfisstofnunar verði hið sama og Náttúruverndar ríkisins að því er varðar náttúruvernd.

Um 24.–32. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um 33. gr.


    Með greininni er lagt til að Umhverfisstofnun verði falin stjórnsýsluverkefni Breiðafjarðarnefndar. Með því er átt við þau verkefni þar sem nefndinni er falið að taka stjórnvaldsákvarðanir, sbr. þau sjónarmið sem fjallað er um í almennum athugasemdum með frumvarpi þessu. Höfð er hliðsjón af lögum um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, nr. 36/1974. Að öðru leyti er gert ráð fyrir að verkefni Breiðafjarðarnefndar verði óbreytt.

Um 34. gr.


    Með greininni er lagt til að bætt verði inn í lögin skilgreiningu á ágangssvæðum. Ágangssvæði hafa einkum þýðingu að því er varðar úthlutun á arði af sölu veiðileyfa og afurða felldra dýra.

Um 35. gr.


    Samkvæmt greininni skulu Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands vera umhverfisráðherra til ráðgjafar og gera tillögur varðandi vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Samkvæmt frumvarpi þessu er lagt til að skilið verði á milli stjórnsýsluverkefna annars vegar og rannsóknarverkefna hins vegar. Gert er ráð fyrir að Umhverfisstofnun annist framkvæmdarþáttinn, eftirlit og aðra stjórnsýslu en Náttúrufræðistofnun annist rannsóknir, sbr. lög um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur. Talið er mikilvægt að við ákvörðun um aðgerðir á sviði verndunar, friðunar og veiða á villtum dýrum og villtum spendýrum komi fram sjónarmið bæði frá hendi þess aðila sem annast framkvæmd málaflokksins og hins vegar þess aðila sem stundar rannsóknir.
    Samkvæmt 2. mgr. er lagt til að Umhverfisstofnun hafi umsjón með og stjórn á þeim aðgerðum af opinberri hálfu sem ætlað er að hafa áhrif á stofnstærð og útbreiðslu villtra dýra eða tjón af þeirra völdum. Hér er um að ræða aðgerðir eins og að aflétta friðun einstakra tegunda samkvæmt ákvörðun ráðherra sem veiðistjóri hefur haft umsjón með til þessa.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að um stefnumótandi mál um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum skuli haft samráð við Bændasamtök Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, hreindýraráð að því er varðar hreindýr, Skotveiðifélag Íslands sem og áhuga- og hagsmunasamtök um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Ákvæði þetta er sambærilegt ákvæði sem lagt er til að sett verði inn í dýraverndarlög og er gert ráð fyrir að ákvæðin verði framkvæmd með sambærilegum hætti.
    Í 4. mgr. er lagt til að Umhverfisstofnun leiðbeini þeim sem stunda veiðar og aðrar aðgerðir til þess að koma í veg fyrir tjón af völdum villtra dýra. Ekki er hér um efnisbreytingu að ræða.

Um 36. gr.


    Með greininni er áréttað hlutverk Náttúrufræðistofnunar Íslands að því er varðar rannsóknir á villtum stofnum spendýra og fugla til samræmis við f-lið 4. gr. laga um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992. Er með þessu lagt til að felld verði brott heimild í 4. gr. laganna um að Veiðistjóri stundi hagnýtar rannsóknir á villtum dýrum.
    2. og 3. mgr. eru óbreyttar frá núgildandi 6. og 7. gr. laganna.

Um 37. gr.


    Í b-lið er kveðið á um að Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands taki við hlutverki ráðgjafarnefndar um villt dýr skv. 3. mgr. 7. gr. laganna. Náttúrufræðistofnun Íslands og veiðistjóri hafa átt fulltrúa í ráðgjafarnefndinni. Gert er ráð fyrir að hreindýraráð verði ráðgefandi fyrir Umhverfisstofnun að því er varðar hreindýr, sbr. nánar 43. gr.
    Í c-lið er kveðið á um að Náttúrfræðistofnun Íslands taki við hlutverki ráðgjafarnefndarinnar varðandi umsögn um hvort veita skuli undanþágu til veiða á villtum dýrum sem njóta friðunar eða verndar ef nota á þau við rannsóknir, fyrir söfn og dýragarða eða til ræktunar eða undaneldis. Jafnframt er kveðið á um að Náttúrufræðistofnun Íslands taki við hlutverki nefndarinnar að því er varðar gerð tillagna um að útrýma stofnum eða tegundum dýra sem flust hafa til Íslands af mannavöldum.
    Í d-lið er lagt til að 3. málsl. 6. mgr. 7. gr. laganna falli brott. Ekki hefur reynt á þetta ákvæði í framkvæmd og er það talið óþarft.

Um 38. gr.


    Í greininni er kveðið á um að Umhverfisstofnun geti veitt tímabundna undanþágu til að nota veiðiaðferðir sem eru annars óheimilar skv. 9. gr. laganna. Heimild þessi er nú í höndum ráðherra. Samkvæmt lögum um Umhverfisstofnun, nr. 90/2002, er stofnuninni m.a. ætlað að annast verkefni á sviði náttúruverndar, veiðistjórnar og dýraverndar og framkvæmd laga um eiturefni og hættuleg efni. Starfshópurinn telur stofnunina því vel í stakk búna til að sinna þessu verkefni jafnframt sem um vel afmarkaða undanþáguheimild er að ræða.

Um 39. gr.


    Með greininni er lagt til að Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands veiti umsögn um hvort aflétt skuli eða rift friðun tiltekinna tegunda á friðlýstum svæðum. Í 1. mgr. 10. gr. laganna er nú gert ráð fyrir að samþykkis ráðgjafarnefndarinnar og Náttúruverndar ríkisins sé leitað. Ekki þykir eðlilegt að ákvörðun ráðherra sé háð samþykki undirstofnunar eða nefndar á vegum ráðherra.

Um 40. gr.


    Í greininni er gert ráð fyrir að gjald fyrir veiðikort verði hækkað úr 1.900 kr. í 2.200 kr. í samræmi við verðlagsþróun. Umhverfisstofnun mun annast innheimtu gjaldsins samfara útgáfu veiðikorta jafnframt sem gert er ráð fyrir því að stofnunin geri tillögur til ráðherra um úthlutun til rannsókna af þeim tekjum sem fást með sölu veiðikorta. Ekki munu verðar stundaðar rannsóknir á villtum dýrum og villtum spendýrum á vegum Umhverfisstofnunar en vegna ýmissa framkvæmda og stjórnsýsluþátta kann að vera þörf á tilteknum rannsóknum og því eðlilegt að stofnunin geri tillögur þar um.

Um 41. gr.


    Í greininni er kveðið á um að Umhverfisstofnun og einnig Náttúrufræðistofnun Íslands geri tillögur um veiðar á ref enda hlutverk Náttúrufræðistofnunar Íslands að stunda rannsóknir á þessu sviði. Gert er ráð fyrir að ef tillögur berast frá annarri hvorri stofnuninni sé álits hinnar jafnframt leitað.

Um 42. gr.


    Í 1. mgr. a-liðar er lagt til að Náttúrufræðistofnun Íslands taki við hlutverki ráðgjafarnefndarinnar samkvæmt ákvæði 1. mgr. 13. gr. laganna þar sem ákvæðið fjallar um friðun í rannsóknarskyni. Er það talið samræmast rannsóknarhlutverki stofnunarinnar.
    Í 2. mgr. a-liðar er lagt til að Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands komi að ákvörðun um minkaveiðar þar sem þær kunna að vera nauðsynlegar til að koma í veg fyrir tjón.

Um 43. gr.


    Í greininni er kveðið á um skipulag hreindýramála. Lagt er til að hreindýraráð starfi áfram sem ráðgefandi ráð en fari ekki með stjórnsýsluvald. Hreindýraráð verði ráðgefandi fyrir umhverfisráðherra og Umhverfisstofnun og hafi það hlutverk fyrst og fremst að gera tillögu til Umhverfisstofnunar um skilgreiningu ágangssvæða hreindýra, um árlegan veiðkvóta og skiptingu hans milli veiðisvæða. Umhverfisstofnun fari hins vegar með stjórnsýsluvald hvað þessi mál varðar. Lagt er til að í stað fulltrúa veiðistjóra í hreindýraráði komi fulltrúi Skotveiðifélags Íslands sem eru heildarsamtök skotveiðimanna á Íslandi. Að öðru leyti eru ekki lagðar til breyingar á ráðinu.
    Eins og í gildandi lögum er Náttúrustofu Austurlands ætlað að annast áfram vöktun og rannsóknir á hreindýrastofninum. Talið er nauðsynlegt að þær stofnanir sem bera annars vegar ábyrgð á framkvæmd laga um vernd, friðun og veiðar á villtum dýrum og villtum spendýrum og hins vegar rannsóknum á þessu sviði, hvort tveggja á landsvísu, geti haft áhrif á vöktun og rannsóknir á hreindýrum. Gert er ráð fyrir því að Umhverfisstofnun geri tillögur um fjölda dýra sem má veiða og annist eftirlit með veiðunum. Jafnframt er gert ráð fyrir að Náttúrufræðistofnun Íslands annist rannsóknir á villtum dýrastofnun hér á landi skv. 36. gr. þessa frumvarps og laga um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur. Er því lagt til að gerður verði samningur um þetta verkefni við Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands.

Um 44. gr


    Í greininni er lagt til að Umhverfisstofnun verði falið það hlutverk sem umhverfisráðherra fer með samkvæmt ákvæði 2. mgr. 16. gr. laganna. Ekki er talið nauðsynlegt að slík ákvörðun sé tekin af ráðherra.

Um 45.–49. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um 50. gr.


    Þar sem Umhverfisstofnun tekur til starfa 1. janúar 2003 er æskilegt að þær breytingar sem frumvarpið kveður á um öðlist gildi frá og með sama degi.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum
vegna verkefna Umhverfisstofnunar.

    Megintilgangur frumvarpsins er að laga þá löggjöf, sem Umhverfisstofnun er ætlað að annast framkvæmd á, betur að tilvist og starfsemi stofnunarinnar ásamt því að skilja betur á milli stjórnsýsluverkefna og rannsóknarverkefna með það fyrir augum að einfalda og auka skilvirkni stjórnsýslu á starfssviði stofnunarinnar.
    Ekki verður séð að lögfesting frumvarpsins leiði til aukins kostnaðar fyrir ríkissjóð.