Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 457. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 685  —  457. mál.




Frumvarp til laga



um stofnun hlutafélags um Norðurorku.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



1. gr.

    Heimilt er Akureyrarbæ að stofna hlutafélag um rekstur Norðurorku, er nefnist Norðurorka hf.
    Ákvæði 2. mgr. 14. gr., 1. mgr. 20. gr. og 2. tölul. 1. mgr. 107. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, gilda ekki um innborgun hlutafjár og fjölda hluthafa í Norðurorku hf. Ákvæði 6. og 7. gr. laga nr. 2/1995 eiga ekki við um greiðslu hlutafjár.

2. gr.

    Heimili Norðurorku hf. og varnarþing skulu vera á Akureyri, en heimilt skal vera að starfrækja útibú á öðrum stöðum.

3. gr.

    Tilgangur Norðurorku hf. er orkurannsóknir, vinnsla og framleiðsla raforku, varma og vatns og hvers konar annarra auðlinda, dreifing og sala afurða fyrirtækisins ásamt hverri þeirri starfsemi annarri sem nýtt getur rannsóknir, þekkingu eða búnað fyrirtækisins, sem og iðnþróun og nýsköpun af hverju tagi, ásamt annarri viðskipta- og fjármálastarfsemi samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni.
    Norðurorku hf. er heimilt að standa að stofnun og gerast eignaraðili að öðrum félögum og fyrirtækjum.
    Tilgangi félagsins og verkefnum skal nánar lýst í samþykktum þess. Samþykktum félagsins má breyta á hluthafafundum samkvæmt almennum reglum.

4. gr.

    Stjórn Norðurorku hf. skal skipuð fimm aðalmönnum og jafnmörgum til vara. Þeir skulu kosnir á aðalfundi ár hvert.

5. gr.

    Norðurorka hf. tekur við einkarétti Akureyrarbæjar og Norðurorku til starfrækslu hita- og rafveitu og yfirtekur skyldu Akureyrarbæjar til starfrækslu vatnsveitu á Akureyri. Norðurorka yfirtekur þá samninga sem gerðir hafa verið um vatnssölu eða rekstur vatnsveitu í öðrum sveitarfélögum.
    Heimilt er öðrum sveitarfélögum að framselja Norðurorku hf. leyfi og réttindi til reksturs veitna og dreifikerfa sinna ef samningar takast um það.
    Aðrir sem reka orkumannvirki á starfssvæði Norðurorku hf. við gildistöku laga þessara skulu halda þeim rétti sínum.

6. gr.     

    Stjórn Norðurorku hf. setur gjaldskrár um verð á seldri orku og vatni til notenda. Gjaldskrár fyrir sölu á rafmagni og heitu vatni öðlast eigi gildi fyrr en þær hafa verið staðfestar af iðnaðarráðherra og birtar í Stjórnartíðindum. Gætt skal almennra arðsemissjónarmiða við setningu gjaldskrár. Gjaldskrá vatnsveitu skal byggð á lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 81/1991.

7. gr.

    Allir núverandi starfsmenn Norðurorku skulu eiga rétt á störfum hjá hinu nýja fyrirtæki og skulu þeim boðin störf hjá Norðurorku hf., sambærileg þeim er þeir áður gegndu.

8. gr.

    Stofna skal hlutafélagið Norðurorku á stofnfundi sem haldinn skal í desembermánuði 2002. Allur kostnaður af stofnun Norðurorku hf. og yfirtöku þess á rekstri Norðurorku greiðist af hlutafélaginu.

9. gr.

    Norðurorka hf. skal taka til starfa 1. janúar 2003 og yfirtaka allar eignir, réttindi, skuldir og skuldbindingar Norðurorku. Norðurorka skal lögð niður frá og með þeim degi og fellur þá jafnframt niður umboð stjórnar félagsins.

10. gr.

    Um skyldu Norðurorku hf. til greiðslu opinberra gjalda til ríkis og sveitarsjóða fer á sama hátt sem um skyldu fyrirtækja og stofnana sem sýslu- og sveitarfélög reka og bera ótakmarkaða ábyrgð á og hafa slíkan rekstur með höndum. Norðurorka hf. skal undanþegin stimpilgjöldum.
    Þá verða ekki greiddir skattar og opinber gjöld af eignatilfærslum milli Akureyrarbæjar og Norðurorku hf. við formbreytinguna.

11. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Akureyrarbær ber áfram ábyrgð á lánum sem tekin hafa verið fyrir 31. desember 2002 með ábyrgð bæjarsjóðs vegna Norðurorku, Vatnsveitu Akureyrar, Rafveitu Akureyrar og Hita- og vatnsveitu Akureyrar.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að Akureyrarbæ verði heimilað að stofna hlutafélag um rekstur Norðurorku. Um nokkurt skeið hefur staðið yfir undirbúningur að breytingu á rekstrarformi fyrirtækisins og á fundi bæjarstjórnar Akureyrar 3. desember 2002 var tekin ákvörðun um að stofna hlutafélag um rekstur þess. Fór Akureyrarbær þess á leit við iðnaðarráðherra að lagt yrði fyrir Alþingi frumvarp til laga þessa efnis.
    Almennt er ekki þörf sérstakrar lagaheimildar þegar breytingar verða á rekstrarformi orkufyrirtækja í eigu sveitarfélaga. Skv. 1. mgr. 5. gr. frumvarpsins er hins vegar gert ráð fyrir að hlutafélagið taki við einkarétti Akureyrarbæjar til starfrækslu raf- og hitaveitu og skyldu Akureyrarbæjar til starfrækslu vatnsveitu. Nauðsynlegt er að kveða á um þennan rétt í sérlögum þar sem hann samræmist ekki að fullu eftirfarandi lagaákvæðum:
     *      Samkvæmt IV. orkulaga, nr. 58/1967, eiga sveitarfélög almennt forgangsrétt til að reka rafveitu innan marka sveitarfélagsins og hljóta til þess einkarétt. Ef sveitarfélög nýta ekki rétt sinn hefur RARIK forgangsrétt. Lögin gera jafnframt ráð fyrir að hægt sé að veita einstaklingum eða félögum slíkan einkarétt en þá aðeins um tiltekið árabil.
     *      Samkvæmt V. kafla orkulaga, nr. 58/1967, er heimilt að veita sveitarfélögum eða samtökum þeirra einkaleyfi til þess að starfrækja hitaveitur. Lögin gera jafnframt ráð fyrir að hægt sé að framselja einstaklingum eða félögum rétt sveitarfélags að einhverju leyti eða öllu, einkaleyfið um ákveðið tímabil í senn, með samþykki ráðherra.
     *      Samkvæmt 1. gr. laga nr. 81/1991, um vatnsveitur sveitarfélaga, er rekstur vatnsveitu skylduverkefni sveitarfélaga. Í dag annast Norðurorka þetta verkefni.
    Frumvarpið er m.a. byggt á frumvarpi til laga um stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða, frumvarpi til laga um stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja og frumvarpi til laga um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur.

II. Saga veitureksturs á Akureyri.
    Fyrsta vatnsveita á Akureyri var vatnsveita Innbæinga, stofnuð 1902. Oddeyringar hófu um svipað leyti vatnsveituframkvæmdir. Báðar þessar veitur voru einkaveitur. Árið 1904 tók bæjarfélagið við Oddeyrarveitunni og árið 1914 við innbæjarveitunni. Árið 1914 er því talið stofnár Vatnsveitu Akureyrar.
    Árið 1914 voru vatnslindir í landi Hesjuvalla virkjaðar, árið 1956 voru „AKVA“-lindir við Selland á Glerárdal virkjaðar og árið 1972 voru borholur á Vaglaeyrum í Hörgárdal virkjaðar. Vatnsnotkun Akureyringa er mikil, eða um 4,5 millj. tonna á ári. Ekki eru vandamál við að afla þessa vatns. Vatnsveitan varð hluti af Hita- og vatnsveitu Akureyrar 1. janúar 1993.
    Fyrsta verkefni Rafveitu Akureyrar var virkjun Glerár. Glerárvirkjun var byggð í landi Bandagerðis á árunum 1921 og 1922. Á þeim tíma voru starfræktar þrjár rafstöðvar í bænum og fengu 36 hús rafmagn frá þeim. Rafmagnsframleiðsla í Glerárvirkjun hófst 30. september 1922 en þá var straumi fyrst hleypt á nýbyggt dreifikerfi rafveitunnar í bænum. Síðar virkjaði rafveitan Laxá í Aðaldal og tók fyrsta virkjunin til starfa árið 1939. Glerárstöð var ekki í stöðugri notkun eftir að Laxárvirkjun tók til starfa en var keyrð þegar á þurfti að halda fram á árið 1960. Nýtt fyrirtæki, Laxárvirkjun, tók til starfa með tilkomu virkjunar 2 í Laxá árið 1954. Síðan hefur meginverkefni Rafveitu Akureyrar verið að kaupa og selja raforku og dreifa henni til viðskiptavina á Akureyri. Raforkunotkun á orkuveitusvæði árið 2001 var 141.272 MWstundir.
    Stofndagur Hitaveitu Akureyrar hefur verið talinn 27. nóvember 1977 þegar fyrsta húsið, Dvalarheimilið Hlíð, var tengt við veituna. Forsaga stofnunar hitaveitunnar er löng. Fyrstu skráðu not jarðhitavatns eru þegar áhugamannahópur úr Ungmennafélagi Akureyrar leiddi heitt vatn úr lind í Glerárgljúfri að sundlaug bæjarins. Heitavatnsnotkun á veitusvæði hitaveitunnar er svipuð og kaldavatnsnotkunin eða um 4,5 millj. tonna. Heitavatnsöflun veitunnar og orkukerfi hennar er flókið. Veitan nýtir vatn úr 10 borholum, rekur varmadælur, dælir niður vatni og nýtir raf- og olíukatla þegar þess er þörf. Hitaveitan varð hluti af Hita- og vatnsveitu Akureyrar 1. janúar 1993.
    1. ágúst 2000 voru Rafveita Akureyrar og Hita- og vatnsveita Akureyrar sameinaðar í eitt orkufyrirtæki, Norðurorku.

III. Breytingar á rekstrarformi.
    Á fundi sínum 18. desember 2001 ákvað stjórn Norðurorku að leggja til við bæjarstjórn Akureyrar að hún tæki afstöðu til þess að Norðurorku yrði breytt í hlutafélag og fól forstjóra að hefja vinnu að væntanlegri breytingu á rekstrarformi fyrirtækisins. Á fundi bæjarstjórnar Akureyrar 15. janúar 2002 fól bæjarstjórn stjórn Norðurorku að kanna kosti og galla þess að breyta fyrirtækinu í hlutafélag. Niðurstöður könnunarinnar yrðu nýttar til að taka ákvörðun um framtíðarrekstrarfyrirkomulag Norðurorku. Í hönd fór vinna sem skilaði því að á fundi stjórnar Norðurorku 10. maí 2002 var ákveðið að stjórn fæli forstjóra að vinna áfram að undirbúningi undir stofnun hlutafélags um allan rekstur Norðurorku. Miða skyldi við að hlutafélagið tæki til starfa 1. janúar 2003. Jafnframt var honum falið að ræða við þá aðila sem sýnt hefðu áhuga á að koma að félaginu. Staðfesting bæjarstjórnar Akureyrar fékkst á fundi bæjarstjórnar 3. desember 2002.
    Að mörgu þarf að hyggja í tengslum við slíka breytingu. Þar má nefna yfirtöku á einkarétti bæjarins til sölu á raforku og framkvæmd laga um vatnsveitur sveitarfélaga og fleira sem snýr að lagalegu starfsumhverfi fyrirtækisins. Bæjarábyrgð hefur verið veitt gagnvart lánum fyrirtækisins. Sú ábyrgð hefur haft jákvæð áhrif á vaxtakjör, en sú ábyrgðarveiting fellur niður gagnvart nýjum lántökum. Bókhald fyrirtækisins hefur verið hluti af samstæðureikningi bæjarsjóðs, en verður nú að færast aðskilið frá bókhaldi bæjarins. Starfsmannahald hefur verið hluti af starfsmannahaldi bæjarins og hafa starfsmenn verið ráðnir á grundvelli kjarasamninga milli launanefndar sveitarfélaga og STAK og annarra stéttarfélaga eftir félagsaðild. Fyrirtækið hefur að öðru leyti lotið lögmálum hins almenna vinnumarkaðar. Reksturinn mótast af viðmiðum við sambærileg fyrirtæki þar sem starfsemin byggist á eigin tekjum og svigrúm til nýframkvæmda og endurbóta í rekstri ræðst af greiðslugetu. Umræður eru um hugsanlegan samruna fleiri orkufyrirtækja, en það kemur ekki í veg fyrir að þessi breyting eigi sér stað. Þvert á móti skapar þessi breyting svigrúm fyrir fyrirtækið til að eflast enn frekar.
    Með framangreint í huga er nauðsynlegt að allir þættir í þessum verkferli geti gengið upp, ekki síst sá þáttur sem að starfsmönnum snýr. Þessi breyting á rekstrarformi hefur hvorki áhrif á starfsöryggi þeirra starfsmanna sem eru fastráðnir í fullu starfi né leiðir sjálfkrafa til breytinga á störfum. Breyting getur þó orðið á verkefnum, en slík breyting gæti eins vel átt sér stað í óbreyttu rekstrarfyrirkomulagi og er sjálfsagður og eðlilegur hlutur í vaxandi fyrirtæki sem leitast við að gera hlutina á sem hagkvæmastan hátt. Starfsmenn hafa tekið þátt í viðamiklum breytingum á undanförnum árum vegna samruna þriggja fyrirtækja. Sú aðlögun hefur tekið á mörgum málum, sem virðast hafa fengið farsæla lausn.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í þessari grein er Akureyrarbæ veitt heimild til að stofna hlutafélag um rekstur Norðurorku (áður Hita- og vatnsveitu Akureyrar og Rafveitu Akureyrar) er nefnist Norðurorka hf. og leggja til þess eignir sem hlutafé.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að lögin veiti undanþágu frá ákvæðum hlutafélagalaga, nr. 2/1995, er varða innborgun hlutafjár skv. 2. mgr. 14. gr., fjölda hluthafa skv. 1. mgr. 20. gr. og 2. tölul. 1. mgr. 107. gr. og greiðslu hlutafjár skv. 6. og 7. gr. laga nr. 2/1995. Í 2. mgr. 14. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög, er kveðið á um innborgun hlutafjár, en þar segir m.a.: „Eigi má skrá félag nema heildarhlutafé það, sem áskrift hefur fengist fyrir, sé í samræmi við það er greinir um hlutafé í samþykktum og þar af skal minnst helmingur vera greiddur.“ Þar sem gert er ráð fyrir að Norðurorka hf. taki yfir rekstur sameignarfélagsins Norðurorku eftir stofnun hlutafélagsins og að greiðsla hlutafjár verði í formi eigna sameignarfélagsins er nauðsynlegt að veita undanþágu frá þessu ákvæði laga um hlutafélög.
    Þar sem gert er ráð fyrir að Akureyrarbær verði eini hluthafi félagsins er gert ráð fyrir að ákvæði 1. mgr. 20. gr. og 2. tölul. 1. mgr. 107. gr. laga um hlutafélög gildi ekki um fjölda hluthafa í Norðurorku hf.
    Í 6. og 7. gr. laga um hlutafélög er kveðið á um hvernig með skuli fara ef hlutafé er greitt með öðrum verðmætum en reiðufé. Hlutafé Norðurorku hf. verður greitt með eignum og réttindum sameignarfélagsins Norðurorku. Við ákvörðun á mati eigna verður miðað við bókfært verð í árslok 2002 samkvæmt endurskoðaðri ársskýrslu. Í ljósi þessa er lagt til að veitt verði undanþága frá fyrrgreindum ákvæðum laga um hlutafélög.

Um 2. gr.

    Greinin fjallar um að heimili Norðurorku hf. og varnarþing verði á Akureyri. Gert er ráð fyrir að heimilt verði að starfrækja útibú á öðrum stöðum, en slíkt getur verið nauðsynlegt fyrir framgang hlutafélagsins. Rétt þykir að lögheimili og varnarþing félagsins sé á athafnasvæði þess, Akureyri. Ástæða þykir til að taka fram að heimilt sé að stofna útibú annars staðar.

Um 3. gr.

    Í greininni er megintilgangur Norðurorku hf. skilgreindur. Samkvæmt greininni er tilgangurinn orkurannsóknir, vinnsla og framleiðsla raforku, varma og vatns og hvers konar annarra auðlinda, dreifing og sala afurða fyrirtækisins ásamt hverri þeirri starfsemi annarri sem nýtt getur rannsóknir, þekkingu eða búnað fyrirtækisins, sem og iðnþróun og nýsköpun af hverju tagi, ásamt annarri viðskipta- og fjármálastarfsemi samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni. Sérstaklega er kveðið á um heimild fyrirtækisins til að gerast eignaraðili í öðrum félögum og fyrirtækjum. Gert er ráð fyrir að tilgangi félagsins og verkefnum skuli nánar lýst í samþykktum þess og að samþykktum félagsins megi breyta á hluthafafundum samkvæmt almennum reglum.

Um 4. gr.

    Gert er ráð fyrir að stjórn fyrirtækisins sé skipuð fimm aðalmönnum og fimm mönnum til vara á aðalfundi ár hvert. Í samþykktum félagsins verður nánar kveðið á um kosningu stjórnar.

Um 5. gr.

    Í 21. gr. orkulaga, nr. 58/1967, er iðnaðarráðherra falið að ákveða orkuveitusvæði hverrar héraðsrafmagnsveitu og jafnframt heimilað að veita einkarétt til að reka héraðsrafmagnsveitu á orkuveitusvæðinu, veita raforku um orkuveitusvæðið og selja hana neytendum innan takmarka þess. Iðnaðarráðherra er með sambærilegum hætti veitt heimild í 30. gr. orkulaga til að veita sveitarfélögum eða samtökum þeirra einkaleyfi til þess að starfrækja hitaveitur sem annist dreifingu eða sölu heits vatns eða gufu til almenningsþarfa á tilteknum veitusvæði. Í 3. gr. reglugerðar nr. 186/1989, um Hitaveitu Akureyrar, er kveðið á um að orkuveitusvæði veitunnar sé lögsagnarumdæmi Akureyrarbæjar og nágrannabyggðar eftir nánara samkomulagi bæjarstjórnar Akureyrar og viðkomandi sveitarstjórna og sem ráðherra samþykkir samkvæmt orkulögum. Enn fremur kemur fram í 2. mgr. 2. gr. reglugerðar fyrir Rafveitu Akureyrar, nr. 458/1979, með síðari breytingum, að veitan hafi einkarétt til sölu raforku til notenda á orkuveitusvæði rafveitunnar sem er lögsagnarumdæmi Akureyrar. Eins og áður hefur komið fram voru Rafveita Akureyrar og Hita- og vatnsveita Akureyrar sameinaðar í sameignarfélagið Norðurorku 1. ágúst 2000. Í frumvarpinu er lagt til að Norðurorka hf. haldi þeim einkarétti til dreifingar og sölu raforku, heits vatns og gufu sem Hitaveita Akureyrar og Rafveita Akureyrar höfðu áður. Einhverjar breytingar kunna að verða á þessum réttindum félagsins þegar nýtt skipulag raforkumála kemur til framkvæmda.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að Norðurorka hf. muni yfirtaka þá samninga sem gerðir hafa verið um vatnssölu eða rekstur vatnsveitu í öðrum sveitarfélögum. Heimilt er öðrum sveitarfélögum að framselja Norðurorku hf. leyfi og réttindi til reksturs veitna og dreifikerfa sinna ef samningar takast um það.
    Til að taka af allan vafa um réttarstöðu þeirra er við gildistöku laganna reka orkumannvirki á starfssvæði Norðurorku hf. er kveðið á um að þeir skuli halda þeim rétti sínum.

Um 6. gr.

    Í greininni er gert ráð fyrir að stjórn Norðurorku hf. setji gjaldskrár um verð á seldri orku og vatni til notenda. Gjaldskrár fyrir sölu á rafmagni og heitu vatni munu ekki öðlast gildi fyrr en þær hafa verið staðfestar af iðnaðarráðherra og birtar í Stjórnartíðindum. Í greininni er lagt til að við gerð gjaldskráa skuli gætt almennra arðsemissjónarmiða. Þetta ákvæði er í samræmi við 28. og 32. gr. orkulaga, nr. 58/1967, með síðari breytingum, og 5. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998. Breytingar kunna að verða á þessu fyrirkomulagi þegar nýtt skipulag raforkumála öðlast gildi. Bæjarstjórn Akureyrar mun ákvarða vatnsgjald fyrir árið 2003, en fyrirtækið mun móta nýja gjaldskrá, sem tekur gildi frá 1. janúar 2004. Gjaldskrá vatnsveitu skal byggð á lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 81/1991.

Um 7. gr.

    Í þessari grein er gert ráð fyrir að allir fastráðnir starfsmenn Norðurorku eigi rétt á starfi hjá hinu nýja fyrirtæki. Ákvæði þessu er ætlað að tryggja starfsmönnum Norðurorku sömu eða sambærileg störf hjá félaginu eftir formlega stofnun þess þannig að formbreytingin hafi ekki áhrif á stöðu þeirra, enda ekki um neina eðlisbreytingu á störfum eða starfsaðstöðu að ræða.
    Norðurorka var stofnuð við sameiningu veitustofnana Akureyrarbæjar 1. ágúst 2000 og hefur starfað og lotið reglum sem gilda um opinber fyrirtæki. Starfsmenn hafa haft réttarstöðu opinberra starfsmanna samkvæmt lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Við breytingu á rekstri bæjarfyrirtækis yfir í hlutafélagaform verður sú eðlisbreyting að starfsemi fyrirtækisins fer úr umhverfi opinbers eðlis í umhverfi einkaréttarlegs eðlis. Starfsmenn verða ekki lengur starfsmenn Akureyrarbæjar heldur starfsmenn hlutafélags. Með sama hætti mun hið nýja félag lúta reglum sem gilda um starfsemi einkafyrirtækja. Þar með verður grundvallarbreyting á samningsaðild Norðurorku og stéttarfélagsaðild starfsmanna, sem verður nú samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938, en var áður samkvæmt lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Nú þegar liggur fyrir að Starfsmannafélag Akureyrarbæjar er tilbúið að taka að sér fyrirsvar fyrir núverandi starfsmenn og væntanlega gera kjarasamning við hið nýja hlutafélag. Til þess að það sé mögulegt þarf að innan STAK að vera deild sem grundvallar samningsaðild sína á lögum nr. 80/1938.
    Fyrirtækið gerist væntanlega aðili að Samtökum atvinnulífsins og munu nýir kjarasamningar miðast við það. Kjarasamningar starfsmanna gilda til ársins 2005. Við breytingu sem þessa er horft til þess að ráðningarsamningar verði endurnýjaðir. Nýr ráðningarsamningur verði við það miðaður að starfsmenn haldi öllum áunnum réttindum sínum sem kveðið er á um í gildandi kjarasamningi og snerta almenn kjör, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, þar sem kveðið er á um að réttindi og skyldur framseljanda yfirfærist til framsalshafa, hér skyldur bæjarfyrirtækisins til hlutafélagsins. Þannig skal hið nýja félag skv. 2. mgr. 3. gr. laganna virða áfram launakjör og starfsskilyrði samkvæmt kjarasamningi með sömu skilyrðum og giltu fyrir, þar til kjarasamningi verður sagt upp, hann rennur út eða þar til nýr öðlast gildi eða kemur til framkvæmda. Við formbreytinguna mun verða gengið frá samkomulagi þar sem Norðurorka hf. skuldbindur sig til að virða þá gildandi kjarasamninga sem Akureyrarbær hefur gert við viðsemjendur sína og varða starfsmenn Norðurorku. Samkomulagið mun þannig skuldbinda Norðurorku hf. þar til hinir opinberu kjarasamningar renna úr gildi.
    Biðlaunaréttur félagsmanna í STAK sem ráðnir voru fyrir 1. mars 1997 er væntanlega fyrir hendi ef ekki verður um áframhaldandi ráðningu að ræða. Til þess þarf þó ekki að koma. Þessi túlkun grundvallast á því að þótt um formlega niðurlagningu á stöðu sé að ræða verður engin grundvallarbreyting á stöðu starfsmannanna, svo framarlega sem þeim eru boðin störf sambærileg þeim sem þeir áður gegndu á sambærilegum kjörum.
    Hvað varðar lífeyrissjóðsaðild og réttindi eru starfsmenn Norðurorku í nokkrum lífeyrissjóðum. Þar af eru 23 í Lífeyrissjóði starfsmanna Akureyrarbæjar, fjórir starfsmenn eiga aðild að Lífeyrissjóði Norðurlands, fimm eru í Lífeyrissjóði starfsmanna sveitarfélaga, tveir starfsmenn greiða til Lífeyrissjóðs arkitekta og tæknifræðinga, þrír til Sameinaða lífeyrissjóðsins, átta til Lífeyrissjóðs rafiðnaðarmanna og einn starfsmaður á aðild að Lífeyrissjóði verkfræðinga. Framlög til sjóðanna eru nokkuð mismunandi og einnig samningar um þátttöku atvinnurekanda í viðbótarlífeyrissparnaði. Þá eru reglur um eftirlauna- og örorkubætur og bætur til maka einnig mismunandi. Svo virðist sem ekki þurfi að huga að málum annarra en STAK-félaga í tengslum við breytingar á lífeyrismálum. Greiðslur til Lífeyrissjóðs Norðurlands eru með öðrum hætti en gerist á hinum almenna markaði og meira í takt við það sem gerist hjá STAK-félögum. Greiðslur samkvæmt gildandi kjarasamningi miðuðust í upphafi við 5% framlag launþega af heildarlaunum og 10,5% mótframlag vinnuveitanda. Þetta breyttist 1. desember 2001 í 6% og 8%. Árið 2004 hækkar framlag launagreiðanda í 9%, en framlag starfsmanns helst óbreytt. 1. janúar 2005 lækkar framlag launþega í 5% en framlag launagreiðanda í 10,5%. Þessi ákvæði kjarasamnings ber að virða við aðilabreytingu.
    Eins og fyrr segir þarf að huga að réttindum STAK-félaga við rekstrarformsbreytinguna þar sem þeir uppfylla ekki lengur skilyrði til að greiða til Lífeyrissjóðs starfsmanna Akureyrarbæjar og njóta því ekki aðildar að sjóðnum þar sem þeir eru ekki lengur starfsmenn bæjarins og fá ekki greidd laun samkvæmt lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Þetta hefur þó ekki skipt meginmáli þar sem flestir stærri lífeyrissjóðir opinberra starfsmanna eins og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóður starfsmanna Reykjavíkurborgar hafa haft í samþykktum sínum reglu sambærilega við 4. mgr. 19. gr. samþykkta Lífeyrissjóðs starfsmanna Akureyrarbæjar, sem er svohljóðandi: „Sé staða eða starf sjóðfélaga lagt niður á hann rétt á að vera áfram í sjóðnum og greiða iðgjöld sem miðuð séu við laun í þeim launaflokki er staða hans var í er hún var niðurlögð. Nýtur hann þá sömu réttinda úr sjóðnum sem hann hefði gegnt starfi sínu áfram.“ Við slíkar aðstæður öðlast sjóðfélagar persónubundinn rétt til áframhaldandi aðildar að sjóðnum, en miða skal þann rétt við þau laun í þeim launaflokki er staða hans var í þegar hún var lögð niður. Viðmið lífeyris tekur því einungis breytingum í samræmi við almennar kjarasamningsbundnar hækkanir, en miðast ekki við þau laun sem starfsmaður er með hjá framsalshafa, ef þau laun hafa tekið breytingum til hækkunar.
    Framangreind leið hefur verið valin í þeim tilvikum sem ríkisfyrirtæki hafa verið einkavædd og við formbreytingu á rekstri fyrirtækja sveitarfélaga, hvort sem um er að ræða hlutafélags- eða sameignarfyrirtækjaform, sbr. við stofnun Orkuveitu Reykjavíkur. Með vísan til þessa verður gengið frá sérstökum samningi milli Norðurorku og Lífeyrissjóðs starfsmanna Akureyrarbæjar en tilgangur samningsins er að ákvarða um lífeyrisréttindi starfsmanna Norðurorku sem aðilar eru að Lífeyrissjóði starfsmanna Akureyrarbæjar við breytingu Norðurorku í hlutafélag – Norðurorku hf. Markmið samningsins eru að lífeyrisréttindi téðra starfsmanna skuli vera sambærileg við það sem þau voru fyrir framangreinda formbreytingu fyrirtækisins, bæði hvað tekur til áunninna réttinda og ávinnslu framtíðarréttinda.
    Lífeyrisréttindi þeirra starfsmanna sem greiða í Lífeyrissjóð starfsmanna sveitarfélaga virðast ekki skerðast við formbreytinguna þar sem stjórn lífeyrissjóðsins er heimilt að veita aðild að A-deild sjóðsins þeim sem ekki heyra undir það að vera starfsmenn sveitarfélaga, sbr. 3. gr. samþykkta LSS: „Sjóðfélagar í A-deild geta þeir starfsmenn sveitarfélaga, stofnana þeirra eða fyrirtækja svo og samlaga sveitarfélaga 16–70 ára orðið sem ráðnir eru samkvæmt kjarasamningi milli aðildarfélags BSRB eða Bandalags háskólamanna annars vegar og sveitarfélaga, stofnana þeirra, fyrirtækja eða samlaga sveitarfélaga hins vegar. Framkvæmdastjórar sveitarfélaga og stjórnendur stofnana og fyrirtækja á vegum sveitarfélaga eiga rétt til aðildar að A-deild. Sjóðsstjórn er heimilt að veita aðild að A-deild starfsmanni sem ekki á rétt til aðildar samkvæmt framangreindu. Þær starfsstéttir sem áttu skylduaðild að lífeyrissjóðum sveitarfélaga þann 30. júní 1998 og ekki falla undir skilgreiningu 1. mgr. 3. gr. geta með sama hætti átt skylduaðild að LSS.“
    Aðild að öðrum lífeyrissjóðum en opinberum og lífeyrisréttindi þeirra starfsmanna sem þegar grundvalla réttindi sín á lögum nr. 80/1938 ættu ekki að taka breytingum við rekstrarformsbreytinguna.

Um 8. gr.

    Lögin eru heimildarlög sem heimila Akureyrarbæ að stofna hlutafélag um rekstur Norðurorku. Í greininni er ákvæði þess efnis að stefnt skuli að því að stofna hlutafélagið Norðurorku á stofnfundi í desembermánuði 2002 og að allur kostnaður af stofnun hlutafélagsins og yfirtöku þess á rekstri Norðurorku greiðist af hlutafélaginu.

Um 9. gr.

    Í greininni er kveðið á um að hlutafélaginu sé heimilt að taka til starfa 1. janúar 2003. Við stofnun þess mun hlutafélagið yfirtaka allar eignir, skuldir og skuldbindingar Norðurorku frá sama tíma.

Um 10. gr.

    Í greininni segir í 1. mgr. að um skyldu Norðurorku hf. til greiðslu opinberra gjalda til ríkis og sveitarsjóða fari á sama hátt sem um skyldu fyrirtækja og stofnana sem sýslu- og sveitarfélög reka og bera ótakmarkaða ábyrgð á og hafa slíkan rekstur með höndum. Ákvæðið á sér rót í því að flest fyrirtæki landsins sem annast dreifingu og sölu á heitu vatni, rafmagni og vatni eru í eigu ríkis og/eða sveitarfélaga og bera eigendur ótakmarkaða ábyrgð á rekstri þeirra. Í 4. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eru fyrirtæki í eigu ríkis og sveitarfélaga sem ríkissjóður eða sveitarfélög reka og bera ótakmarkaða ábyrgð á undanþegin skattskyldu. Í frumvarpsgreininni er lagt til að skattalega staða Norðurorku hf. haldist óbreytt þrátt fyrir breytt rekstrarform. Með þessu er tryggt að fyrirtækið njóti sömu skattalegu stöðu og önnur raforkufyrirtæki. Þetta ákvæði frumvarpsins byggist á 80. gr. orkulaga, nr. 58/1967, með síðari breytingum.
    Á næstunni munu verða breytingar á skipulagi raforkumála. Í tengslum við þær breytingar verður skattaleg staða raforkufyrirtækja tekin til skoðunar. Hugsanlegt er að þessi skoðun leiði til breytinga á því skattalega fyrirkomulagi sem nú er. Ákvæðinu er ætlað að standa þar til þessi skoðun hefur farið fram.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að við nauðsynlegar eignatilfærslur á milli Akureyrarbæjar og Norðurorku við formbreytinguna verða þær eignatilfærslur ekki andlag skatttöku.

Um 11. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.




Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um stofnun hlutafélags um Norðurorku.

    Tilgangur með frumvarpinu er að heimila Akureyrabæ að stofna hlutafélaga um rekstur Norðurorku. Allur kostnaður af stofnun hlutafélagsins og yfirtaka þess á rekstri Norðurorku greiðist af félaginu.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki séð að það hafi kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.