Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 574. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 925  —  574. mál.




Fyrirspurn



til félagsmálaráðherra um framkvæmd laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof.

Frá Jóhönnu Sigurðardóttur.



     1.      Hver er skilningur ráðherra á ákvæði 2. mgr. 14. gr. laganna að því er varðar ávinnslu orlofsréttinda, þ.m.t. réttar til orlofslauna við orlofstöku, og hver er skoðun ráðherra á framkvæmdinni?
     2.      Er munur á framkvæmd 2. mgr. 14. gr. laganna eftir því hvort um er að ræða launþega hjá hinu opinbera eða á almennum vinnumarkaði? Sé svo, telur ráðherra það eðlilegt og hvað þarf til að tryggja öllum sambærileg réttindi?
     3.      Hvernig hefur verið brugðist við þeirri kjaraskerðingu sem reikniregla 13. gr. laganna um greiðslur úr fæðingarorlofssjóði getur haft í för með sér samanborið við eldri lög, annars vegar hvað varðar starfsmenn hins opinbera og hins vegar starfsmenn á almenna vinnumarkaðnum?
     4.      Má að öðru leyti finna einhvern mismun á réttindum launþega samkvæmt efni laganna eða framkvæmd þeirra eftir því hvort þeir starfa hjá hinu opinbera eða á almennum vinnumarkaði?
     5.      Sé um einhvern mismun að ræða samkvæmt framangreindu, hversu mikið fé má þá telja að þurfi til að eyða honum, sundurliðað eftir einstökum aðgerðum sem grípa þarf til, og hyggst ráðherra beita sér fyrir því að svo verði gert?
     6.      Hversu margir hafa tekið fæðingarorlof frá því að lögin tóku gildi, skipt eftir kynjum
         og milli opinbera vinnumarkaðarins annars vegar og almenna markaðarins hins vegar?
     7.      Hversu langt fæðingarorlof hafa feður að meðaltali tekið á grundvelli laganna og er einhver munur á lengd fæðingarorlofs eftir því hvort í hlut eiga feður á almennum vinnumarkaði eða starfsmenn hins opinbera?
     8.      Hve margir foreldra utan vinnumarkaðar og í námi hafa fengið fæðingarstyrk árlega
         frá gildistöku laganna?


Skriflegt svar óskast.