Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 75. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 281  —  75. mál.




Svar



félagsmálaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um búsetumál fatlaðra.

     1.      Hve margir fatlaðir eru nú á biðlistum eftir sambýlum, skipt eftir svæðisskrifstofum?
    Í apríl sl. óskaði ráðuneytið eftir upplýsingum frá rekstraraðilum þjónustu við fatlaða, þ.e. svæðisskrifstofum og sveitarfélögum, um fjölda fatlaðra í búsetu, aldur þeirra og þörf fyrir þjónustu og fjölda fatlaða á biðlistum, aldur þeirra og þörf fyrir þjónustu. Tafla 1 sýnir fjölda á biðlistum eftir sambýlum, skipt eftir svæðum.

Tafla 1. Fjöldi einstaklinga á biðlista eftir sambýlum í apríl 2003, skipt eftir svæðum.
    Miðað er við sömu forsendur og í skýrslu félagsmálaráðuneytisins frá nóvember 2000.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     2.      Hve margir hafa bæst í hóp þeirra sem bíða eftir sambýlum (nýliðun), skipt eftir svæðisskrifstofum, frá því að starfshópur á vegum félagsmálaráðuneytisins skilaði niðurstöðu um biðlista eftir þjónustu í nóvember árið 2000?
    Ráðuneytið óskaði sérstaklega eftir þessum upplýsingum frá svæðisskrifstofum og rekstraraðilum þjónustu við fatlaða. Tafla 2 sýnir fjölda umsókna eftir sambýlum er hafa borist svæðisskrifstofum frá nóvember árið 2000 fram til október 2003.

Tafla 2. Fjöldi umsókna um sambýli er hafa borist svæðisskrifstofum, frá nóvember 2000 fram til október 2003, skipt eftir svæðum.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Hér eru þeir taldir sem eiga nýjar umsóknir um þjónustu hjá svæðisskrifstofum. Tekið skal fram að einhver hluti þessa fólks býr þegar á sambýlum.

     3.      Hvað er áætlað að opna þurfi mörg ný heimili á árunum 2004 og 2005, skipt eftir svæðisskrifstofum, til að tillögur biðlistanefndar frá nóvember 2000 komist til framkvæmda og hver er áætluð staða biðlista í árslok 2005 að viðbættri nýliðun frá árinu 2000 og áætlaðri nýliðun fram til ársloka 2005?

    Auk Reykjaness og Reykjavíkur þarf að huga að nýjum sambýlum á Suðurlandi og Norðurlandi vestra. Í tillögum biðlistanefndar var gert ráð fyrir að rýmum á sambýlum yrði fjölgað um alls 110 á árunum 2001 til 2005. Þar af var gert ráð fyrir 80 nýjum rýmum til að stytta biðlista og 30 vegna nýliðunar á tímabilinu. Á árunum 2000 til 2003 hafa verið tekin í notkun 68 ný rými, sbr. töflu 3. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2004 er heimild fyrir 22 nýjum rýmum. Í árslok 2004 er áætlað að til hafi orðið 90 ný rými í samræmi við tillögur biðlistanefndarinnar. Árið 2005 þurfa að verða til 20 ný rými svo því markmiði sem sett var fram í nóvember 2000 verði náð.

Tafla 3. Áætlun biðlistanefndar um ný rými á sambýlum og framkvæmd.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Áætluð staða biðlista eftir sambýlum í árslok 2005.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     4.      Hve mikið fé þarf til að koma á fót nýjum sambýlum á árunum 2004 og 2005 í samræmi við niðurstöðu biðlistanefndar frá árinu 2000 annars vegar og hins vegar að viðbættri nýliðun fram til ársloka 2005?
    Eins og fram kemur í svari við 3. tölul. fyrirspurnarinnar er fjárheimild í fjárlagafrumvarpi ársins 2004 fyrir 22 nýjum rýmum á sambýlum. Frumvarpið gerir ráð fyrir að þau verði til frá miðju ári og að rekstur þeirra kosti 60 millj. kr. Viðbótarfjárþörf árið 2005 til heilsársreksturs þeirra er 60 millj. kr. Um 120 millj. kr. þarf árið 2005 fyrir 20 nýjum rýmum svo að markmiðinu um 110 ný rými verði náð.
    Ráðuneytið gerir ráð fyrir að árið 2004 kaupi Framkvæmdasjóður fatlaðra þrjú hús fyrir sambýli og að leitað verði eftir leiguhúsnæði fyrir tvö. Stofnkostnaður þessara sambýla er áætlaður 140–160 millj. kr. Gera má ráð fyrir að sambærilegar fjárhæðir þurfi úr Framkvæmdasjóði fatlaðra fyrir nýjum sambýlum árið 2005.

     5.      Hve mikið af þeirri fjölgun sem orðið hefur á nýjum rýmum á sambýlum á árunum 2001–2003 að viðbættum áformum fyrir árið 2004 stafar af rýmum sem nýtt eru til að skapa betri aðstæður fyrir þá sem fyrir eru og hve mörg eru vegna einstaklinga sem ekki hafa verið áður á sambýlum?

    Ráðuneytið óskaði eftir upplýsingum frá svæðisskrifstofum og rekstraraðilum um ný rými á sambýlum árin 2001–2003 og hvernig þau hafa verið nýtt. Tafla 4 sýnir breytingar á rýmum árin 2001–2003, ný rými 2004, fjölda nýrra íbúa á sambýlum, fjölda rýma sem nýtt hafa verið til að bæta aðstöðu og fjölda rýma er nýtt hafa verið fyrir annars konar þjónustu.
Tafla 4. Ný rými á sambýlum árin 2001–2004, nýliðar og þjónustuþegar er fengu bætta aðstöðu eða voru fluttir í aðra þjónustu.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Skýringar.
1)    Í fjárlögum ársins 2003 er fjárheimild fyrir 20 nýjum rýmum á sambýlum í Reykjavík og á Reykjanesi. Unnið er að framkvæmdum við þessi sambýli og mun starfsemi þeirra hefjast á næstu mánuðum.
2)    Með bættri aðstöðu og útskriftum er átt við rými sem nýtt hafa verið til að skapa betri aðstæður fyrir þá sem voru fyrir í búsetu. Að mestu leyti skýrist nýting þessara rýma af flutningi íbúa af Kópavogshæli og Tjaldanesi.
3)    Fluttir í aðra þjónustu. Um er að ræða rými á sambýlum sem breytt hefur verið í sjálfstæða búsetu.

     6.      Hversu mikið hefur rýmum fyrir skammtímavistun fjölgað árlega frá árinu 2000 og hver er þörfin, skipt eftir svæðisskrifstofum?

    Ráðuneytið óskaði eftir upplýsingum frá rekstraraðilum og svæðisskrifstofum um fjölgun rýma fyrir skammtímavistun árlega frá árinu 2000 og um núverandi þörf fyrir slík rými. Tafla 5 sýnir breytingar á fjölda rýma árin 2001–2003 og hve mörg rými þarf til að bæta úr þörfinni samkvæmt biðlista í október 2003.

Tafla 5. Fjölgun skammtímavistunar árin 2001, 2002 og 2003 og þörf fyrir skammtímavistun í október 2003, skipt eftir svæðum.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Tekið skal fram að með fjölgun sambýlisplássa á undanförnum árum hefur svigrúm skammtímavistana til að bjóða nýjum einstaklingum þjónustu aukist verulega. Algengt er að áður en til búsetudvalar kemur, hafi einstaklingar nýtt sér þjónustu skammtímavistunar í verulegum mæli. Þessir einstaklingar hafa oft notið hámarksþjónustu skammtímavistana, eða um 14 sólarhringa á mánuði. Þetta á sérstaklega við á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. í Reykjavík og á Reykjanesi.
    Samkvæmt töflunni hér að framan hefur skammtímavistunarrýmum í Reykjavík fækkað um þrjú á árinu 2003. Skýringin á því er sú að heimili sem áður var skammtímavistun var breytt í heimili fyrir börn.

     7.      Hve margir þeirra sem búa sjálfstætt eru með frekari liðveislu, hver hefur aukningin orðið frá árinu 2000 og hve margir bíða nú eftir frekari liðveislu?
    Í apríl 2003 óskaði félagsmálaráðuneytið eftir upplýsingum frá rekstraraðilum þjónustu við fatlaða, þ.e. svæðisskrifstofum og sveitarfélögum, um fjölda fatlaða með frekari liðveislu og fjölda á biðlista, aldur þeirra og þörf fyrir þjónustu. Tafla 6 sýnir fjölda fatlaðra með frekari liðveislu árið 2000 og 2003, aukningu milli áranna og fjölda á biðlista eftir frekari liðveislu árið 2003, eftir svæðum.

Tafla 6. Fjöldi fatlaðra með frekari liðveislu árið 2000 og 2003, breytingar á fjölda þeirra á milli ára og fjöldi á biðlista eftir frekari liðveislu, skipt eftir svæðum.
    Miðað er við sömu forsendur og í skýrslu félagsmálaráðuneytisins frá nóvember 2000.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Almennt um biðlista eftir búsetu.
    Félagsmálaráðuneytið vinnur nú að heildarendurskoðun á málaflokki fatlaðra. Markmiðið er að marka skýra framtíðarsýn og gera á grundvelli hennar áætlanir um þjónustu við fatlaða. Búsetumál fatlaðra skipa veigamikinn sess í þessari framtíðarsýn. Ráðuneytið hyggst á næstunni ráðast í að flokka umsóknir um þjónustu eftir búsetu með enn samræmdari hætti ern nú. Við athugun ráðuneytisins á biðlista eftir búsetu kemur í ljós að þörf fyrir búsetuþjónustu er mismunandi brýn. Hluti umsækjanda hefur t.d. brýna þörf fyrir búsetu á næstu 12 mánuðum. Annar hluti þeirra hefur þörf fyrir búsetuúrræði á næstu 12 til 36 mánuðum, enn aðrir sem eiga umsóknir hafa jafnvel fengið tilboð um búsetuþjónustu og ekki þegið en vilja engu að síður vera áfram á biðlista eftir búsetuþjónustu. Með verklagi af þessu tagi, auk þess að meira samræmi yrði í yfirferð umsókna á landsvísu en nú, er gert ráð fyrir markvissari þjónustu við þá sem taldir eru hafa brýnustu þörfina hverju sinni.