Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 77. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 329  —  77. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um lækkun tekjuskattsstofns skv. 65. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hve margir hafa árlega sl. þrjú ár fengið tekjuskattsstofn lækkaðan skv. 65. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, skipt eftir töluliðum 1. mgr., og um hve háar fjárhæðir er að ræða hjá einstaklingum að meðaltali og fyrir ríkissjóð eftir hverjum tölulið? Óskað er eftir að tilgreind verði helstu skilyrði fyrir lækkun tekjuskattsstofns samkvæmt hverjum tölulið fyrir sig.
     2.      Hvert er mat ráðherra og ríkisskattstjóra á framkvæmd þessa ákvæðis skattalaganna og þykir þeim ástæða til þess í ljósi reynslunnar að rýmka það eða gera aðrar breytingar á verklagsreglum? Óskað er eftir mati þessara aðila á hverjum tölulið fyrir sig, sérstaklega hvort ástæða þyki til að rýmka heimildir til lækkunar tekjuskattsstofns þegar um er að ræða veikindi eða langvinna sjúkdóma og hvort, og þá að hve miklu leyti, tekið er tillit til mikilla útgjalda heimila vegna tannlækninga.
     3.      Er fyllilega gætt samræmis í ákvörðunum skattstjóra við framkvæmd á 65. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt?

    Til að svara fyrsta lið fyrirspurnarinnar skal vísað til meðfylgjandi töflu frá ríkisskattsjóra. Um hana skal eftirfarandi tekið fram:
    a) Sundurliðun eftir einstökum töluliðum lagagreinarinnar er ekki til staðar í kerfum ríkisskattstjóra. Ívilnanirnar eru ákveðnar af skattstjórum á grundvelli umsókna gjaldenda og er tilefnið ekki skráð í tölvukerfin. Tvær undantekningar eru frá því. Annars vegar er gjaldendum gefinn kostur á að sækja á framtali sínu um ívilnun vegna menntunarkostnaðar barna eldri en 16 ára, sbr. 4. tölul. lagagreinarinnar. Eru þær ívilnanir afgreiddar vélrænt eftir þeim reglum sem um þær gilda. Hins vegar veita skattstjórar ívilnun á móti heimilisuppbót til vistmanna á dvalarheimilum aldraðra. Eru þær upplýsingar einnig skráðar sérstaklega. Talnalegar upplýsingar í yfirlitinu eru flokkaðar í þrennt í samræmi við þetta. Frekari flokkun liggur ekki fyrir.
    b) Tekjutap ríkis og sveitarfélag er áætlað og þá við það miðað að tekjur sem ívilnuninni nemur hafi verið ofan skattleysismarka en svo er í flestum tilvikum en ekki öllum. Kann því að vera um eitthvert ofmat að ræða.
    Í meðfylgjandi reglum nr. 212/1996, sem ríkisskattstjóri hefur sett, koma fram helstu skilyrði fyrir ívilnunum.
    Í öðrum lið fyrirspurnarinnar er óskað eftir mati á framkvæmd þessa ákvæðis og hvort ástæða sé til að rýmka fyrirliggjandi heimildir til ívilnunar.
    Að mati fjármálaráðherra liggja engar gildar ástæður til þess að rýmka umræddar reglur, enda mjög erfitt fyrir skattyfirvöld að meta með hlutlægum og sanngjörnum hætti þörfina fyrir ívilnanir af þessu tagi.
    Heimildir þessar eru að stofni til settar þegar skattar voru almennt greiddir eftir á og breyttar aðstæður sem þær miðast við snertu greiðslugetu gjaldenda mun meir en nú er. Nú þegar skattar eru að mestu staðgreiddir er tilefni til ívilnana að öðru óbreyttu minna en áður var. Frá því að fyrirkomulag þetta var tekið upp hefur hvers kyns félagslegri aðstoð fleygt mjög fram og ætti því síður en áður að vera þörf á skattalegum ráðstöfunum af þeim toga sem um ræðir. Vafasamur ávinningur er af því að deila slíkum félagslegum verkefnum á fleiri aðila en nauðsyn krefur.
    Ívilnanir þessar byggjast á mati á félagslegum og heilsufarslegum aðstæðum o.fl. Starfsmenn skattkerfisins hafa ekki sérþekkingu á þessum sviðum og vafasamt hvort heppilegt er að sinna slíkum málum í miklum mæli í skattkerfinu af þeim ástæðum. Ívilnanir af þessum toga eru í andstöðu við meginreglu skattalaganna um skattskyldu allra tekna. Af þeim ástæðum eru heimildir til ívilnana ætíð túlkaðar þröngt og ekki æskilegt að gera þær víðtækari en verið hefur.
    Að öllu samanlögðu er það mat ráðherra að ekki sé æskilegt að rýmka þessar heimildir. Verði ákvæði þetta endurskoðað ætti að laga það að breyttum aðstæðum og eftir atvikum afnema eða breyta núgildandi reglum í hlutlægar skattareglur.
     Sem svar við þriðja lið fyrirspurnarinnar skal bent á að um er að ræða matskenndar ákvarðanir tíu stjórnvaldsaðila, þ.e. skattstjóra, í málum sem eru hvert með sínum hætti. Má því ljóst vera að illmögulegt er að meta hvort ákvarðanirnar séu fyllilega samræmdar. Ívilnanir vegna menntunarkostnaðar og dvalarheimilisuppbótar byggjast á hlutlægum reglum og eru því samræmdar sem slíkar. Aðrar ívilnanir eru metnar og ákveðnar af skattstjórum í hverju tilviki fyrir sig. Af þeirra hálfu er m.a. reynt að tryggja samræmi með því að ákvarðanir þessar eru að jafnaði í höndum sama starfsmanns eða sömu starfsmanna. Í störfum sínum að þessum málum hafa skattstjórar til hliðsjónar reglur nr. 212/1996 sem ríkisskattstjóri hefur sett en þær kveða á um þau skilyrði sem til staðar þurfa að vera við ákvörðun á ívilnun. Þá eru ákvarðanir skattstjóra í þessum efnum kæranlegar til ríkisskattstjóra. Með hliðsjón af þessu verður að ætla að viðunandi samræmi sé á ákvörðunum í þessum efnum og hefur ríkisskattstjóri ekki getað merkt annað en að svo sé.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Reglur nr. 212/1996


um skilyrði fyrir ívilnun samkvæmt 66. og 80. gr. laga
nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.


    Í 1. mgr. 66. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eru ákvæði um hvenær skattstjóri skuli lækka tekjuskattsstofn. Í 2. mgr. 80. gr. sömu laga eru ákvæði um að skattstjóra sé heimilt að lækka eignarskattsstofn manns þegar svo standi á sem fram kemur í 1. tl. 1. mgr. 66. gr.
    Í samræmi við ákvæði 2. mgr. 66. gr. hefur ríkisskattstjóri sett svohljóðandi reglur um skilyrði fyrir ívilnun:

Umsókn um lækkun.
    Hjá skattstjórum skulu liggja frammi umsóknareyðublöð fyrir umsókn um ívilnun samkvæmt 66. gr. og 80. gr. Á þeim skal koma greinilega fram hvaða gögn þurfa að fylgja umsókn. Maður sem sækir um ívilnun þarf að leggja fram fullnægjandi upplýsingar á þar til gerðum eyðublöðum eða á annan hátt. Ákvörðun skattstjóra um ívilnun samkvæmt umsókn með skattframtali er kæranleg til skattstjóra. Kæruúrskurði skattstjóra varðandi ívilnun má áfrýja til ríkisskattstjóra.
    Skattstjóri skal taka umsóknir um lækkun skv. 66. og 80. gr. til umfjöllunar þótt þær berist eftir lok kærufrests.

Lækkun skv. 1. tl.
Ellihrörleiki, veikindi, slys eða mannslát.
    Skilyrði fyrir lækkun samkvæmt þessum tölulið eru að ellihrörleiki, veikindi, slys eða mannslát hafi haft í för með sér skert gjaldþol. Með skertu gjaldþoli er átt við að greiðslugeta manns sé skert vegna þess að hann hafi orðið fyrir verulegum kostnaði umfram bætur og styrki sem hann hefur fengið vegna framangreindra tilvika. Með kostnaði vegna ellihrörleika, veikinda eða slysa í þessu sambandi er átt við dvalarkostnað á stofnunum, lyfja- og lækniskostnað, kostnað vegna ferða, ýmiss konar sérútbúnaðar vegna fötlunar o.s.frv. Sýnt skal fram á að um óhjákvæmilegan kostnað sé að ræða og fyrir þurfa liggja gögn til staðfestingar á honum. Þó skal skattstjóri veita ívilnun án umsóknar fái gjaldþegn dvalarheimilisuppbót frá Tryggingastofnun ríkisins.
    Með kostnaði vegna andláts er átt við útfararkostnað ef hinn látni hefur látið eftir sig maka eða skylduómaga. Með útfararkostnaði er átt við venjulegan kostnað vegna útfarar.

Lækkun skv. 2. tl.
Veikindi eða fötlun barns sem haldið er langvinnum sjúkdómum.
    Skilyrði fyrir lækkun samkvæmt þessum tölulið er að maður hafi veruleg útgjöld umfram venjulegan framfærslukostnað vegna barns sem haldið er langvinnum sjúkdómum eða er fatlað. Með verulegum útgjöldum er átt við þann kostnað sem er umfram fengnar bætur, styrki og lífeyri sem greiddur er vegna kostnaðar sem af þessum tilvikum leiðir. Með kostnaði í þessu sambandi er átt við dvalarkostnað á stofnunum, lyfja- og lækniskostnað, kostnað vegna ferða, ýmiss konar sérútbúnaðar vegna fötlunar o.s.frv. Sýna þarf fram á að um óhjákvæmilegan kostnað sé að ræða og leggja fram gögn til staðfestingar á honum.

Lækkun skv. 3. tl.
Framfærsla foreldra eða annarra vandamanna.
    Skilyrði fyrir lækkun samkvæmt þessum tölulið eru sannanleg útgjöld vegna framfærslu foreldra eða annarra vandamanna. Gera þarf grein fyrir í hverju útgjöldin eru fólgin og jafnframt að sýna fram á að framfærslufé foreldris eða vandamanns, þ.e. tekjur, bætur og styrkir standi ekki undir nauðsynlegum útgjöldum vegna framfærslunnar.
    Skilyrði fyrir lækkun vegna barna eldri en 16 ára sem maður hefur á framfæri sínu eru að barnið sé það tekjulágt vegna atvinnuleysis eða af öðrum ástæðum að því sé ókleift að standa undir eigin framfærslu. Miðað er við fjárhæð barnalífeyris sem hámarksívilnun og hafi barnið tekjur skerðist ívilnunin sem nemur þriðjungi af tekjum þess.

Lækkun skv. 4. tl.
Menntunarkostnaður barna 16 ára og eldri.

    Skilyrði fyrir lækkun samkvæmt þessum tölulið er að barnið sé orðið 16 ára og stundi nám a.m.k. 3 mánuði á árinu. Hér er fyrst og fremst átt við börn á aldrinum 16–21 árs sem stunda nám að loknu grunnskólanámi þ.e. nám í mennta- eða fjölbrautaskólum, iðnnám o.þ.h. Veiti námið rétt til námslána kemur ívilnun ekki til álita. Hámarksívilnun er kr. 142.333 vegna náms sem stundað er hér á landi. Ef sótt er um hærri ívilnun vegna náms sem stundað er erlendis þarf að sýna fram á verulegan kostnað vegna námsins sem telja verður umfram venjulegan námskostnað, svo sem há skólagjöld, fargjöld o.þ.h. Ívilnun getur þó aldrei orðið hærri en tvöföld sú ívilnun sem veitt er vegna náms hér á landi. Hafi námsmaðurinn tekjur skerðist ívilnunin sem nemur þriðjungi af tekjum hans.
    
Lækkun skv. 5. tl.
Verulegt eignatjón sem ekki hefur fengist bætt.

    Skilyrði fyrir lækkun samkvæmt þessum tölulið er að um sé að ræða verulegt eignatjón sem ekki hafi fengist bætt úr hendi annars aðila. Með verulegu eignatjóni er hér átt við að fjárhagslegar afleiðingar tjóns sem verður á eignum manns skerði gjaldþol hans. Ívilnun kemur ekki til álita ef mögulegt er að fá tjónið bætt úr hendi annars aðila.

Lækkun skv. 6. tl.
Töp á útistandandi kröfum sem ekki stafa frá atvinnurekstri.

    Skilyrði fyrir lækkun samkvæmt þessum tölulið er að gjaldþol manns sé verulega skert vegna tapa á útistandandi kröfum sem ekki stafa af atvinnurekstri hans. Með atvinnurekstri í þessu sambandi er átt við atvinnurekstur sem einstaklingur hefur með höndum og eignaraðild í sameignarfélagi eða hlutafélagi. Það telst þó ekki atvinnurekstur ef eignarhluti í hlutafélagi er óverulegur og aðild og tengsl manns við félagið eru þannig að ekki sé ástæða til að líta þannig á að um atvinnurekstur sé að ræða. Sé eignarhluti minni en 20% telst hann óverulegur í þessu sambandi. Skuld telst töpuð þegar sýnt hefur verið fram á á fullnægjandi hátt að hún fáist ekki greidd.