Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 334. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 391  —  334. mál.




Fyrirspurn



til forsætisráðherra um bifreiðamál ráðherra.

Frá Jóhönnu Sigurðardóttur.



     1.      Hvaða ráðherrar hafa haft til umráða bifreið í eigu og rekstri ríkisins við embættisstörf sín frá 1. janúar 1998 til 15. nóvember 2003, sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 580/1991, um bifreiðamál ríkisins, og hvaða ráðherrar sem nýta eigin bifreiðar til embættisstarfans hafa á sama tímabili nýtt sér ákvæði 11. gr. reglugerðarinnar?
     2.      Hver hafa útgjöld verið árlega á fyrrgreindu tímabili hjá hverju ráðuneyti fyrir sig hjá þeim ráðherrum sem hafa til umráða ráðherrabifreið í eigu ríkisins annars vegar og hins vegar hjá þeim ráðherrum sem nýta eigin bifreið vegna embættisstarfans, þ.e.
                  a.      bílakaup (tegund og verð bíls á föstu verðlagi),
                  b.      fyrningarfé fyrir eigin bifreið, sbr. 11. gr. reglugerðarinnar,
                  c.      rekstrarkostnaður og viðhald, sbr. 10. og 11. gr. reglugerðarinnar?
     3.      Hvaða reglur gilda um skattgreiðslu bifreiðahlunninda og fyrningarfé til ráðherra sem nýta eigin bifreiðar?
     4.      Hver hefur kostnaður ráðuneyta verið á sama tímabili vegna starfskjara bílstjóra ráðherra, sundurliðað eftir tegundum greiðslna, og hver tekur ákvörðun um launakjör þeirra?
     5.      Hefur á fyrrgreindu tímabili ávallt farið fram útboð á bifreiðakaupum ráðherra og hvaða reglur gilda um kaup og sölu á ráðherrabifreiðum? Ef ekki hafa farið fram útboð er óskað skýringa á því.
     6.      Telur ráðherra að hægt sé með hagkvæmari hætti en nú er að standa að bifreiðamálum ráðherra og kostnaði þeim tengdum? Ef svo er, hvaða leiðir telur ráðherra rétt að skoða í því efni?


Skriflegt svar óskast.