Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 428  —  1. mál.




Nefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2004.

Frá 2. minni hluta fjárlaganefndar.



    Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2004 og breytingartillögum hennar og meiri hluta fjárlaganefndar kemur skýrt fram stefna ríkisstjórnarinnar í þeim málaflokkum sem ríkisvaldið ber ábyrgð á. Fram kemur hvernig ríkisstjórnin ætlar að afla tekna og tillögur hennar um það hvernig þeim skuli ráðstafað á einstaka málaflokka og verkefni. Þegar fjárlagafrumvarpið er skoðað í heild sinni kemur greinilega fram sá munur sem er á áherslum núverandi meiri hluta annars vegar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hins vegar.
    Íslenskt samfélag á að einkennast af jöfnuði, frelsi, fjölbreytni og ríkri samkennd. Framtíðarsýn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er sú að allir fái notið sín á eigin forsendum í samfélagi þar sem samhjálp, virðing og velferð ríkir. Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks stefnir þjóðinni í auðhyggjusamfélag þar sem skammtímaarður og peningalegur mælikvarði er lagður á allt og alla.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á velferð og jöfnun lífskjara. Skattakerfinu á að beita til að afla hinu opinbera nægjanlegra tekna til að standa undir samneyslu þjóðfélagsins og öflugu velferðarkerfi. Skattastefnan á að fela í sér tekjujöfnun og að byrðum sé dreift með sanngjörnum hætti.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafnar fákeppni og alþjóðavæðingu á forsendum hinna ríku. Hún hafnar því að náttúrunni sé fórnað fyrir skyndigróða. Jafnt tillit verður að taka til félagslegra, efnahagslegra, lífrænna og menningarlegra þátta. Í slíku samfélagi blómgast bæði sveit og borg á eigin forsendum.

Fjárlagagerðin.
    Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2004 er lagt til að útgjöld ríkissjóðs verði á næsta ári rúmir 273 milljarðar kr. Enn fremur er lagt til í tillögum frá ríkisstjórn og meiri hluta fjárlaganefndar að útgjöld verði aukin um rúma 2,2 milljarða kr. Eins og frumvarpið liggur nú fyrir er því gert ráð fyrir að heildarútgjöld ríkissjóðs verði alls um 275,3 milljarðar kr. á árinu 2004. Til samanburðar er gert ráð fyrir því í fjárlögum 2003 og fjáraukalögum sem nú liggja fyrir Alþingi að útgjöld ríkisins verði um 277 milljarðar kr. á árinu 2003. Útgjöld ríkissjóðs eiga því að minnka um 1,7 milljarða kr. milli ára.
    Samkvæmt 42. gr. stjórnarskrárinnar skal þegar Alþingi er saman komið leggja fram frumvarp til fjárlaga fyrir það fjárhagsár sem í hönd fer. Fjármálaráðherra leggur frumvarpið fram fyrir hönd framkvæmdarvaldsins á fyrsta degi þingsins að hausti. Eftir það er frumvarpið á ábyrgð þingsins og fer til fjárlaganefndar sem vinnur frumvarpið áfram til 2. og 3. umræðu. Nefndin hefur því aðeins tæpa tvo mánuði til að fara yfir frumvarpið, forsendur tekna og gjalda og gera á því breytingar sem fjárlaganefnd og Alþingi telja nauðsynlegar. Þegar tekið er mið af því hvernig samþykkt fjárlög hafa staðist á undanförnum árum og þeim breytingum sem gerðar hafa verið með fjáraukalögum er ljóst að eitthvað meiri háttar er að við fjárlagagerðina. Í fjárlögum ársins 2002 voru tekjur áætlaðar 257.900 millj. kr. og gjöldin 239.370 millj. kr. sem þýddi að gert var ráð fyrir 18,5 milljarða kr. rekstrarafgangi. Samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings fyrir árið 2002 reyndust tekjur ársins vera 259.210 millj. kr. og gjöldin 267.332 millj. kr. Rekstrarafgangur varð því ekki 18,5 milljarðar kr. heldur varð halli upp á 8,1 milljarð kr. Tekjur höfðu breyst um tæpa tvo milljarða kr. en gjöldin um 28 milljarða kr.
    Allmargar beiðnir um upplýsingar varðandi fjárlagavinnuna liggja óafgreiddar hjá ráðuneytum og nefndin á eftir að kalla fulltrúa nokkurra stofnana á sinn fund til að gefa skýringar áður en hægt er að ljúka fjárlagagerðinni.
    Flutningsmaður hefur ítrekað lagt til breytt vinnulag við gerð fjárlaga og sýnist það aldrei brýnna en nú.
    Sú breyting að leggja fram niðurstöðutölur á tekjuhlið frumvarpsins við 2. umræðu er nýlunda og breyting til batnaðar en áður var það gert við 3. umræðu. Liggja þá áætlaðar tekjur fyrir áður en gjaldahliðinni er lokað.

Efnahagsskrifstofa Alþingis.
    Fjárlagafrumvarpið er lagt fram og unnið á efnahagsforsendum fjármálaráðuneytisins og er beinn hluti af stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum og mótast af væntingum hennar og brellum. Fjárlaganefnd hefur litla möguleika til að leita annarra viðhorfa eða meta öryggi efnahagsforsendna fjármálaráðuneytis.
    Aðstæður fjárlaganefndar til að meta á sjálfstæðan hátt forsendur útgjalda og tekjuhlið frumvarpsins hafa versnað stórum á undanförnum árum. Æ erfiðara hefur reynst að fá nauðsynlegar upplýsingar úr ráðuneytum um stöðu stofnana og verkefna og forsendur að baki einstökum tillögum í frumvarpinu. Þó tók nú steininn úr þegar fulltrúum stofnana var bannað að koma til fundar við nefndina eða gefa henni upplýsingar, sbr. bréf sem birt er sem fylgiskjal. Hafði fjárlaganefnd þó sent út auglýsingu þar sem þeim var boðið að sækja um viðtal. Valdhroki framkvæmdarvaldsins gekk svo langt að sjálfri yfirstjórn Alþingis var sent bréf þar sem þetta bann var áréttað. Í ljósi þessara atburða og þess hve erfitt hefur reynst að fá upplýsingar er brýnna nú en nokkru sinni fyrr að styrkja stöðu þingsins og nefnda þess. Það er hægt að gera með stofnun sérstakrar efnahagsskrifstofu þingsins sem gæti lagt sjálfstætt mat á stöðu og þróun efnahagsmála og fjármála ríkisins.

Sparnaður.
    Í fyrri hluta frumvarps til fjárlaga, ,,Stefna og horfur“, kemur fram að útgjaldahlið fjárlagafrumvarpsins markist af sérstökum ráðstöfunum sem eiga að skila samtals 3,7 milljarða kr. útgjaldasparnaði. Vafalaust er hægt að spara og hagræða í ýmsum þáttum ríkisrekstursins og það ber að gera, en ekki er sama hvernig það er gert. Hér skilur fullkomlega á milli Vinstri grænna og ríkisstjórnarinnar. Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn velja að ná fram sparnaði með því að minnka útgjöld til sjúkratrygginga, einkum sérfræðikostnað, lyfjakostnað og kostnað vegna hjálpartækja, lækka vaxtabætur og skerða rétt til atvinnuleysisbóta. Þá verður gildandi samgönguáætlun skorin niður um milljarð króna til framkvæmda.

Sjúkratryggingar.
    Lækniskostnaður: Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að lækniskostnaður verði um 3.100 millj. kr. Hér er um að ræða lækkun upp á rúmar 80 millj. kr. frá áætlun um útgjöld vegna lækniskostnaðar á árinu 2003. Þessari lækkun á m.a. að ná fram með því að hækka komugjöld sjúklinga til sérfræðilækna. Slík ráðstöfun mun bitna mest á þeim sem síst skyldi, þ.e. sjúklingum. Afleiðingarnar verða þær að þeir tekjulægstu, öryrkjar og þeir sem ekki hafa atvinnu munu í minna mæli leita til sérfræðinga þegar þeir þurfa á því að halda. Vinstri hreyfingin – grænt framboð mótmælir því að þegar stefnir í mikið hagvaxtarskeið skuli sjúklingar eiga að borga brúsann til að viðhalda stöðugleikanum.
    Lyfjakostnaður: Í frumvarpinu og breytingartillögum frá ríkisstjórn og meiri hluta nefndarinnar er gert ráð fyrir að lyfjakostnaður sjúkratrygginga verði um 6.160 millj. kr. að teknu tilliti til 450 millj. kr. hagræðingarkröfu eins og forsendur frumvarpsins gera ráð fyrir. Í frumvarpinu var hins vegar gert ráð fyrir að lyfjakostnaður mundi hækka um 800 millj. kr. frá fyrra ári en á hinn bóginn er lögð til 450 millj. kr. lækkun á framlagi til lyfja miðað við áætlaðan lyfjakostnað á árinu 2004. Til að ná fram lækkun á lyfjakostnaði á m.a. að endurskoða reglur um greiðsluþátttöku notenda í lyfjakostnaði. Það þýðir að sjúklingar eiga að borga meira. Þetta mun koma verst niður á þeim sem lægstar hafa tekjurnar, öryrkjum og atvinnulausum.

Vaxtabætur.
    Gert er ráð fyrir að lækka vaxtabætur um 600 millj. kr. þar sem lagt er til að hámark vaxtagjalda til útreiknings vaxtabóta miðist við 5,5% í stað 7% af skuldum vegna íbúðarkaupa. Þessi tillaga mun koma harðast niður á ungum fjölskyldum sem eru að koma þaki yfir höfuðið og skulda eðli málsins samkvæmt mest í upphafi. Enn og aftur á að sækja sparnað í vasa þeirra sem minnst hafa. Deilt er um lögmæti þessara aðgerða.

Atvinnuleysisbætur.
    Gert er ráð fyrir að minnka útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs um 170 millj. kr., m.a. með því að greiða ekki bætur fyrir fyrstu þrjá dagana í stað þess að bætur reiknist frá fyrsta skráningardegi. Hér er um mikla afturför að ræða ef samþykkt verður. Hér eins og annars staðar í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sparnaði skuli náð hjá þeim sem síst skyldi. Þessum áformum hefur verið mótmælt harðlega, m.a. af Alþýðusambandi Íslands og BSRB.
    Hér að framan voru einungis nefnd nokkur dæmi um hvernig ríkisstjórnin ætlar að ná fram útgjaldasparnaði á næsta ári. Miðað við þessar tillögur er ljóst á hverjum þetta mun bitna mest: sjúklingum, öryrkjum og atvinnulausum. Fjöldi félagasamtaka hefur mótmælt þessari grímulausu aðför frjálshyggjunnar að velferðarkerfinu. Félög framsóknarmanna úti á landi, sem geðjast ekki að stefnu forystunnar, hafa einnig mótmælt harðlega. Afstaða verkalýðsfélaganna speglast vel í samþykkt Alþýðusambands Íslands, sem birt er sem fylgiskjal.

Heilsugæsla.
    Samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar ,,Endurskoðun ríkisreiknings 2002“ kemur fram að halli Heilsugæslunnar í Reykjavík hafi verið 182,6 millj. kr. í árslok 2002. Í yfirliti fjármálaráðuneytis um útgjöld ríkissjóðs og ríkisstofnana fyrstu átta mánuði ársins kemur fram að gjöld stöðva sem heyra undir Heilsugæsluna í Reykjavík hafi verið 250 millj. kr. umfram heimildir. Í fjárlagafrumvarpinu er ekki tekið á þessum rekstrarvanda.
    Ljóst er að fjárþörf Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri er stórlega vanmetin og heilsugæslustöðvar og sjúkrahús utan Reykjavíkur líða fyrir fjárskort. Mikil þörf er á að fjölga hjúkrunarrýmum við öldrunarstofnanir um allt land en með hærri aldri og bættri heimahjúkrun eykst sú þörf hlutfallslega. Eftir er að ganga endanlega frá fjárveitingum til þessa málaflokks og skiptingu fjár á einstakar stofnanir. Verður það væntanlega gert við 3. umræðu. Mikilvægt er að heilsugæslustöðvar og sjúkrahús á landsbyggðinni haldi hlut sínum og veiti fjölbreytta staðbundna þjónustu og létti á rýmisþörf stóru hátæknisjúkrahúsanna.

Landspítali – háskólasjúkrahús.
    Í frumvarpinu og breytingum frá ríkisstjórn og meiri hluta nefndarinnar er gert ráð fyrir að útgjöld Landspítala – háskólasjúkrahúss umfram sértekjur verði 24.755 millj. kr. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar „Endurskoðun ríkisreiknings 2002“ kemur fram að rekstrarhalli spítalans hafi numið um 798 millj. kr. í lok ársins 2002. Samkvæmt fjárlögum 2003 og frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2003 sem nú liggur fyrir Alþingi eru heildarútgjöld spítalans umfram sértekjur um 25.451 millj. kr. á árinu 2003. Ef hallinn í lok ársins 2002 er dreginn frá er ljóst að útgjöld spítalans umfram sértekjur á árinu 2003 nema um 24.653 millj. kr. Miðað við þetta er gert ráð fyrir að útgjöld spítalans aukist um 0,5% milli ára.
    Forstjóri Landspítala – háskólasjúkrahúss kom á fund fjárlaganefndar eftir 1. umræðu um frumvarpið. Hann telur að spítalinn þurfi 1.400 millj. kr. til viðbótar við þá fjárheimild sem frumvarpið gerir ráð fyrir miðað við óbreytta starfsemi á árinu 2004. Enn fremur kom fram hjá forstjóra spítalans að áætlun spítalans annars vegar og fjármálaráðuneytis hins vegar um verðlagsforsendur fari ekki saman. Launa- og lyfjakostnaður spítalans hafi t.d. á undanförnum árum hækkað mun meira en verðlagsforsendur fjárlaga gerðu ráð fyrir. Áætlun spítalans um verðlagsforsendur fyrir næsta ár gerir einnig ráð fyrir meiri hækkun á þessum liðum en gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu.
    Ljóst er að fjárlaganefnd mun þurfa að fara yfir fjárveitingar til spítalans milli 2. og 3. umræðu og skoða áðurnefnda þætti.

Framhaldsskólar.
    Í skýrslu Ríkisendurskoðunar ,,Endurskoðun ríkisreiknings 2002“ kemur fram að 13 framhaldsskólar fóru meira en 4% fram úr fjárheimildum á því ári en þeir voru 11 árið á undan. Útgjöld framhaldsskólanna umfram fjárheimildir voru samtals 661 millj. kr. á árinu 2002. Á móti vegur að safnliðurinn ,,Framhaldsskólar, almennt“ var með jákvæða stöðu að fjárhæð 206 millj. kr. Í frumvarpi til fjáraukalaga sem nú liggur fyrir Alþingi er gert ráð fyrir 180 millj. kr. til að mæta rekstrarhalla framhaldsskólanna. Í fjárlagafrumvarpinu er ekki gert ráð fyrir frekari framlögum til að mæta rekstrarhalla undanfarinna ára.
    Ástæður þess að margir framhaldsskólar fara fram úr fjárheimildum má m.a. finna í minnisblaði sem skólameistari Fjölbrautaskólans í Garðabæ lagði fyrir fjárlaganefnd þegar hann kom á fund hennar. Þar kemur m.a. fram að fjöldi ársnemenda skólans hafi verið rangur í forsendum fjárlaga 2002 og 2003 og einnig í fjárlagafrumvarpi fyrir 2004. Því ber þó að fagna að við 2. umræðu hefur verið gerð leiðrétting á fjölda ársnemenda og er nú miðað við 17.000 nemendur eins og spáð er.
    Enn fremur kemur fram í minnisblaði frá skólameistara Kvennaskólans í Reykjavík að það stefni í a.m.k 10 millj. kr. halla á rekstri skólans á árinu 2003 til viðbótar við 6,9 millj. kr. halla sem var í árslok 2002. Skólameistarinn bendir m.a. á að uppreiknaðar verðlagsbætur eru ekki og hafa ekki verið í takt við raunveruleikann síðustu ár. Enn fremur nefnir skólameistarinn eignakaup sem dæmi um að vanáætlað sé. Í reiknilíkaninu er miðað við 4% afskriftir sem þýðir að tölvur og húsbúnaður þarf að endast í yfir 20 ár.
    Ljóst er að fara verður yfir fjárveitingar til skólanna milli 2. og 3. umræðu.

Réttarbætur til ungra öryrkja.
    Í mars 2003 undirrituðu Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og Garðar Sverrisson, formaður Öryrkjabandalagsins, samkomulag um hækkun grunnlífeyris öryrkja frá 1. janúar 2004. Samkomulag þetta var samþykkt í ríkisstjórninni. Í fréttatilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu er gert ráð fyrir að þessar viðbótargreiðslur nemi rúmum 1 milljarði kr., sjá fylgiskjal. Með samkomulaginu er komið sérstaklega til móts við þá sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni, en fram til þessa hefur eitt og sama almannatryggingakerfið gilt fyrir öryrkja og ellilífeyrisþega. Var þar náð tímamótaáfanga í baráttu fyrir viðurkenningu á sérstöðu ungra öryrkja. Samkvæmt samkomulaginu hefur starfshópur unnið að tillögum að lagabreytingum og nánari útfærslu á framkvæmdinni þannig að hægt verði að standa að greiðslum samkvæmt þessari ákvörðun frá 1. janúar 2004. Á aðalfundi Öryrkjabandalagsins í október sl. kom fram í máli formanns bandalagsins, sem jafnframt á sæti í umræddri nefnd, að um 1,5 milljarða króna þurfi á fjárlögum næsta árs til að fullnusta þetta tímamótasamkomulag ríkisstjórnarinnar og Öryrkjabandalagsins. Í fjárlagafrumvarpinu er einungis gert ráð fyrir 1 milljarði kr. Væntanlega verður tekið á þessu máli og það leiðrétt fyrir 3. umræðu.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga.
    Alvarleg staða er komin upp í fjárhag margra sveitarfélaga, m.a. vegna breyttra reglna um greiðslur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Þeim verkefnum hefur fjölgað sem ríkið hefur fært til sveitarfélaganna án þess að nægjanlegir tekjustofnar hafi fylgt með. Enn fremur hafa mörg verkefni sveitarfélaga vaxið mjög á undanförnum árum. Má þar nefna leikskóla, öldrunarþjónustu o.fl. Í framhaldi af sameiningu fyrirtækja í sjávarútvegi og landbúnaði og brottflutningi tekjuhærra fólks úr byggðarlögum hefur enn þrengt mjög að mörgum dreifbýlissveitarfélögum og sjávarbyggðum. Óhagstæð gengisskráning hefur lækkað fiskverð og þar með laun sjómanna. Mörg sveitarfélög reyna nú að spara með því að draga úr þjónustu við íbúana en safna samt skuldum. Vandi margra sveitarfélaga heldur því áfram að aukast.
    Hluti tekna sveitarfélaga kemur úr Jöfnunarsjóði. Á árinu 2003 komu til framkvæmda breyttar úthlutunarreglur sjóðsins. Þær komu mjög flatt upp á mörg sveitarfélög. Samkvæmt lögum gera sveitarfélög langtímafjárhagsáætlun annars vegar og fjárhagsáætlun til næsta árs hins vegar. Snöggar breytingar á tekjustofnum þeirra geta því haft afdrifaríkar afleiðingar. Sem dæmi má nefna ákveðið sveitarfélag sem er mjög dreifbýlt en er með einn þéttbýliskjarna. Það fær um helming tekna sinna úr Jöfnunarsjóði, hefur fengið 55–60 millj. kr. úr honum á undanförnum árum en fær nú liðlega 44 millj. kr. Framlagið lækkar því um 20–30% á milli ára en rekstur sveitarfélagsins hefur hins vegar ekkert breyst.
    Þó að nauðsynlegt hafi verið að endurskoða úthlutunarreglur Jöfnunarsjóðs voru ekki forsendur til að breytingarnar skertu tekjur einstakra sveitarfélaga. Breyting á reglunum hafði í för með sér að sum sveitarfélög fengu aukin framlög sem mikil þörf var fyrir, en þessi auknu framlög voru tekin frá öðrum sveitarfélögum sem ekki voru aflögufær. Á undanförnum árum hefur Jöfnunarsjóður fengið auknar fjárveitingar, t.d. 700 millj. kr. fólksfækkunarframlög eða sérstakt aukið ráðstöfunarfé. Þetta fé er ekki fyrir hendi nú og því skerðast fjárveitingar sjóðsins miðað við fyrri ár. Ljóst er að auka verður fjárveitingar til sjóðsins ef ekki á að steypa allnokkrum sveitarfélögum í þrot. Þessi mál verður að skoða betur fyrir 3. umræðu.

Umhverfismál.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill vernda íslenska náttúru og auðlindir lands og sjávar. Náttúruauðlindir eiga að vera sameign landsmanna og þær á að nýta í þágu almannahagsmuna án þess að gengið sé á umhverfið. Með hliðsjón af því er mikilvægt að efla stofnanir á þessu sviði og gera þeim kleift að sinna þýðingarmiklu hlutverki sínu.

Umhverfisstofnun.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að fjárveiting til Umhverfisstofnunar verði 527 millj. kr. og lækki um 4,3 millj. kr. frá því sem gert er ráð fyrir í fjárheimild yfirstandandi árs. Við meðferð fjárlagafrumvarpsins í umhverfisnefnd kom m.a. fram hjá fulltrúum Umhverfisstofnunar að stofnunin hafi sótt um aukið fjármagn til þriggja afmarkaðra þátta: Í fyrsta lagi til þess að geta staðið undir því mikla starfi sem fólgið er í þýðingu og innleiðingu EES- gerða á sviði stofnunarinnar, í öðru lagi vegna væntanlegrar stofnunar Vatnajökulsþjóðgarðs og í þriðja lagi til að standa undir ákvæðum um meðferð dýra og vegna dýraverndunarlaga. Vinstri hreyfingin – grænt framboð telur mikilvægt að styrkja stofnunina og styðja hana með því að veita aukið fé til hennar.

Náttúrufræðistofnun Íslands.
    Við meðferð fjárlagafrumvarpsins í umhverfisnefnd kom fram í máli forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands að stofnunin hafi fengið fjárframlög til að undirbúa gerð náttúrufarskorta en nú sé ekki gert ráð fyrir áframhaldandi framlagi þegar komið sé að hinni eiginlegu vinnu. Með hliðsjón af því að hér er um mikilvægt verk að ræða sem komið er á rekspöl er nauðsynlegt að stofnunin fái fjárframlag til að klára verkefnið. Það skýtur skökku við að stofnun sem hefur það hlutverk að sinna slíkum grundvallaratriðum við rannsóknir og kortlagningu náttúru Íslands skuli þurfa að segja upp starfsfólki. Til að klára flokkun og gerð náttúrufarskorta væri hægt að ljúka kortlagningu landsins á 4–5 árum en þá þyrfti stofnunin 30 millj. kr. á ári í það verkefni.

Náttúrustofur.
    Náttúrustofur starfa samkvæmt lögum nr. 60/1992. Við meðferð fjárlagafrumvarpsins í umhverfisnefnd kom fram hjá gestum nefndarinnar að framlag það sem fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir til stofanna uppfylli ekki skilyrði laganna. Þannig vanti 3,3 millj. kr. upp á framlag til hverrar stofu til þess að standa undir því sem stofunni er ætlað samkvæmt lögunum. Um fjárframlag til stofanna segir í lögunum: ,,Framlag ríkissjóðs til náttúrustofu er ákveðið í fjárlögum hverju sinni og miðast við fjárhæð sem nemur launum forstöðumanns í fullu starfi að viðbættri fjárhæð sem er allt að jafnhá þeirri fjárhæð og rennur hún til reksturs náttúrustofu.“ Nú eru laun líffræðinga í stjórnunarstörfum á borð við forstöðumannsstarfið 5,8 millj. kr. á ári með launatengdum gjöldum. Miðað við það ætti framlag ríkisins að vera um 11,6 millj. kr. á hverja stofu í stað 7,7 millj. kr. eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Í tillögum ríkisstjórnarinnar og meiri hluta nefndarinnar er lagt til að veita hverri stofu um 5 millj. kr. til sérstaklega skilgreindra og tímabundinna verkefna. Ljóst er því að enn vantar fjárframlag til stofanna þannig að það uppfylli skilyrði laganna.

Tekjur.
    Um tekjuhlið frumvarpsins vísast til álits minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar. Þó skal hér vakin athygli á að hlutfallslega er tekjuöflun ríkisins í auknum mæli borin uppi af almennu launafólki og fólki með lægstu tekjurnar. Stöðugt stærri hlutur er sóttur í þjónustugjöld. Félagsleg samhjálp og samábyrgð lætur undan, launabil eykst og misrétti vex. Þetta ástand skerpir andstæður og eykur óréttlæti og óstöðugleika í samfélaginu, enda er yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar að draga hlutfallslega úr samneyslu og auka hlut einkaneyslu. Sú stefna kemur harðast niður á tekjulægsta fólkinu. Allt bendir til þess að innflutningur stóraukist á næstu missirum. Þar kemur til hátt raungengi og aukinn hagvöxtur vegna stóriðjuframkvæmda og innstreymis erlends fjármagns. Viðskiptahalli mun þá snaraukast sem og verðbólguþrýstingur. Seðlabankinn hefur þegar boðað hækkun vaxta sem viðbrögð.
    Hátt raungengi og háir vextir munu lækka útflutningstekjur okkar og skerða samkeppnisstöðu íslensks iðnaðar og frumframleiðslugreina, ferðaþjónustu og annarra útflutningsgreina. Útflutningstekjur og atvinnuástand eru því í óvissu þegar hagvöxturinn verður keyrður áfram af stórauknum viðskiptahalla. Hins vegar munu tekjur ríkissjóðs aukast með auknum innflutn ingi og væntanlega mun meira en fjárlögin gera ráð fyrir.

Lokaorð.
    Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2004 og tillögum sem liggja fyrir frá ríkisstjórninni og meiri hluta nefndarinnar er gert ráð fyrir því að útgjöld ríkissjóðs á næsta ári nemi um 275.250 millj. kr. Samkvæmt því er eins og áður sagði gert ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs dragist saman frá yfirstandandi ári. Þó er ljóst að framlög til fjölmargra málaflokka eru óafgreidd og bíða þau úrvinnslu og afgreiðslu við 3. umræðu. Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill efla samfélagsþjónustu og velferðarkerfið og tryggja að fjárhagsleg staða fólks skerði aldrei möguleika þess til að njóta opinberrar þjónustu og félagslegs öryggis. Það frumvarp sem hér liggur fyrir er atlaga að velferðarkerfinu. Aðhaldsaðgerðir bitna mest á sjúklingum, öryrkjum, atvinnulausum og þeim sem lægstar hafa tekjurnar. Þannig á að skapa svigrúm til lækkunar skatta þeirra sem hæstar hafa tekjur. Fjölmargir málaflokkar fjárlaga bíða afgreiðslu við 3. umræðu. Nánar verður gerð grein fyrir afstöðu þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs til fjárlagafrumvarpsins þegar heildarmynd þess liggur fyrir við 3. umræðu.

Alþingi, 25. nóv. 2003.



Jón Bjarnason.





Fylgiskjal I.


Bréf til sveitarstjórnarmanna


frá fjárlaganefnd Alþingis.


(4. september 2003.)



    Fjárlaganefnd Alþingis ráðgerir að gefa sveitarstjórnarmönnum kost á að eiga fund með nefndinni vegna fjárlagaársins 2004 dagana 25.9., 29.9. og 30.9. nk. frá kl. 8.30–17.00. Upplýsingar og tímapantanir eru í síma 563 0405 frá kl. 9.00–16.00 eigi síðar en 23. september nk.

Virðingarfyllst


f.h. fjárlaganefndar,



Sigurður Rúnar Sigurjónsson.     





Fylgiskjal II.


AUGLÝSING


Viðtalstímar um fjárlagafrumvarp 2004.



    Fjárlaganefnd Alþingis veitir nú eins og undanfarin ár viðtöku erindum frá ríkisstofnunum, félögum, samtökum og einstaklingum er varða fjárlög næsta árs.
    Viðtöl við fulltrúa stofnana fara fram 28. okt. til 4. nóv. nk. en önnur viðtöl verða eftir nánari ákvörðun nefndar.
    Þeim sem vilja er gefinn kostur á því að fylgja erindum sínum eftir á nefndarfundi. Panta ber tíma eigi síðar en 25. okt. nk. í síma 563 0405.






Fylgiskjal III.

Bréf fjármálaráðuneytis


til ráðuneyta.


(23. október 2003.)


    Athygli ráðuneytisins er vakin á samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 21. október 2003 um meðferð breytingartillagna við 2. og 3. umr. fjárlaga 2004 og fjáraukalaga 2003. Var samþykkt að ráðuneyti og stofnanir leiti ekki beint til fjárlaganefndar með erindi um aukin útgjöld heldur skili ráðuneytin tillögum í fjárlagakerfið ef tilefni er til. Verða slík erindi tekin til afgreiðslu í ráðherranefnd um ríkisfjármál og tillögur um nauðsynlegar breytingar sendar fjárlaganefnd í nafni ríkisstjórnarinnar. Sérstök athygli er vakin á því að samkvæmt samþykktinni skal hverri tillögu frá ráðuneyti um aukin útgjöld fylgja tillaga um jafn mikla lækkun útgjalda á öðrum sviðum viðkomandi ráðuneytis. Eftirfarandi eru meginatriði samþykktarinnar:
1.     Ráðuneyti og stofnanir sem undir þau falla fari ekki með erindi um ný og aukin framlög til fjárlaganefndar Alþingis. Ráðuneytin skrái allar tillögur sínar í fjárlagakerfi fjármálaráðuneytisins og samsvarandi tillögu um lækkun útgjalda.
2.     Frávikum í útgjöldum árið 2003 sem ekki er þegar gert ráð fyrir í frumvarpi til fjáraukalaga verði mætt með aðhaldi í útgjöldum á öðrum sviðum, nema þau falli undir ákvæði fjárreiðulaga um ófyrirséða greiðsluskyldu svo sem dómur um uppgjör við öryrkja.
3.     Lagafrumvörpum sem lögð eru fyrir ríkisstjórn og hafa í för með sér kostnaðarauka árið 2003 eða 2004 fylgi áætlun um hvernig þeim kostnaði skuli mætt innan útgjaldaramma viðkomandi ráðuneytis.
    Mælst er til þess að ráðuneytið komi því á framfæri við stofnanir sínar að þær leiti ekki beint til fjárlaganefndar með erindi um aukin útgjöld.



Fylgiskjal IV.


Ályktun aðalfundar Öryrkjabandalags Íslands árið 2003.

    Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands, haldinn fimmtudaginn 9. október 2003, fagnar því samkomulagi sem náðst hefur við ríkisstjórn Íslands um hið nýja kerfi örorkulífeyris sem tekið verður upp frá og með 1. janúar næstkomandi. Með kerfisbreytingu þessari er hin margvíslega sérstaða öryrkja viðurkennd í verki. Fyrir það pólitíska raunsæi eiga íslensk stjórnvöld þakkir skildar.
    Samkomulagið markar ekki aðeins þáttaskil í sögu og þróun almannatrygginga, heldur einnig í samskiptum stjórnvalda við Öryrkjabandalag Íslands. Með beinu og milliliðalausu samkomulagi við bandalagið sýna ráðamenn þjóðarinnar mikilsverðan skilning á nýjum og breyttum viðhorfum til mannréttindabaráttu fatlaðra.
    Öryrkjabandalag Íslands lítur svo á að þau þáttaskil sem hér hafa orðið, ásamt því góða samstarfi sem hafið er í tilefni Evrópuárs fatlaðra, marki upphafið að betri og bjartari framtíð, samfélaginu öllu til hagsbóta. Nútíminn krefst þess að stjórnvöld og samtök fatlaðra haldi áfram að vinna sameiginlega að því brýna verkefni sem þeim hefur verið treyst til að leysa – því verkefni að rjúfa einangrun fatlaðra, leyfa þeim að njóta raunverulegs frelsis og taka fullan þátt í því lýðræðislega samfélagi sem við Íslendingar viljum búa í.

Fylgiskjal V.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið:

Fréttatilkynning nr.: 17/2003.


(25. mars 2003.)



Samkomulag um að bæta hag ungra öryrkja sérstaklega.


Allt að tvöföldun grunnlífeyris.


    Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, og Garðar Sverrisson, formaður Öryrkjabandalags Íslands hafa, fyrir hönd ríkisstjórnar og Öryrkjabandalagsins, gert samkomulag um hækkun grunnlífeyris öryrkja frá 1. janúar 2004. Er með samkomulaginu komið sérstaklega til móts við þá sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni, en gert er ráð fyrir allt að tvöfaldri hækkun grunnlífeyris til þeirra sem yngstir verða öryrkjar.
    Ríkisstjórnin samþykkti samkomulagið á fundi sínum í morgun. Það er gert í framhaldi af formlegum og óformlegum viðræðum heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og forsvarsmanna Öryrkjabandalags Íslands sem staðið hafa frá í febrúar 2002, eða í rúmt ár, og hefur Öryrkjabandlagið lagt sérstaka áherslu á það í viðræðunum að sérstaða þeirra sem yngstir verða öryrkjar verði bætt. Samkomulagið er einnig gert í tilefni Evrópuárs fatlaðra.
    Samkvæmt samkomulaginu er lagt til að skipaður verði starfshópur sem geri endanlegar tillögur að breytingum á lögum um almannatryggingar í samræmi við samkomulagið sem taka gildi 1. janúar 2004, eins og áður sagði, og tillögur sem eiga að auka möguleika öryrkja til atvinnuþátttöku.
    Starfshópurinn skal miða störf sín við framangreint samkomulag sem felur í sér eftirfarandi:
    *    Stigið verði fyrsta skref til viðurkenningar á hinni margvíslegu sérstöðu þeirra sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni.
    *     Þeir sem yngstir verða öryrkjar til lífstíðar fá þannig hækkun á núverandi grunnlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins, sem nemur allt að tvöföldun grunnlífeyrisins.
    *     Þeir sem verða öryrkjar síðar á lífsleiðinni fá hins vegar hækkun á núverandi grunnlífeyri með hliðsjón af aldri, þannig að þeir sem verða öryrkjar 67 ára fá grunnlífeyri sem nemur sömu upphæð og ellilífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins.
    *     Hækkunin kemur til framkvæmda 1. janúar 2004.
    Í samkomulaginu er sömuleiðis gert ráð fyrir að starfsendurhæfing öryrkja verði efld og taki mið af þeim margvíslegu möguleikum sem nú hafa skapast með breyttum atvinnuháttum. Er þetta gert til að ýta undir og opna möguleika öryrkja til að taka þátt í atvinnulífinu á sínum forsendum.
    Samkvæmt útreikningum sérfræðinga heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins verður kostnaðurinn við þessa hækkun grunnlífeyris og kerfisbreytinguna rúmur einn milljarður króna á ársgrundvelli.



Fylgiskjal VI.


Ályktun miðstjórnar ASÍ um fjárlagafrumvarpið.
Misskipting einkennir fjárlagafrumvarpið.
(Morgunblaðið 18. október 2003.)


    „Miðstjórn ASÍ gagnrýnir harðlega það óréttlæti og þá auknu misskiptingu sem einkennir fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2004. Miðstjórn ASÍ telur ástæðu til þess að árétta afstöðu ASÍ um nauðsyn þess að mótuð verði víðtæk sátt um heildstæða og samtvinnaða stefnu í efnahags-, atvinnu- og félagsmálum.“ Þetta segir m.a. í ályktun miðstjórnar ASÍ um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar.
    Í ályktuninni segir að fjárlagafrumvarpið gangi þvert á þá sátt sem ASÍ vill ná fram í efnahags-, atvinnu- og félagsmálum. Einsýnt sé að ríkisstjórnin telji að byrðarnar af nauðsynlegri aðhaldssamri hagstjórn komandi missera eigi að leggja á atvinnulausa, sjúka, öryrkja og skuldsett heimili. Á sama tíma telji ríkisstjórnin nauðsynlegt að lækka sérstaklega skattbyrði og auka ráðstöfunartekjur þeirra tekjuhærri.
    „Miðstjórn ASÍ telur mikilvægt að árétta að sú samfélagssýn og stefna sem kemur fram í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2004 getur aldrei orðið grundvöllur að sátt á vinnumarkaði.“
    ASÍ vekur athygli á að í fjárlagafrumvarpinu eigi að sporna gegn ofþenslu og óðaverðbólgu af völdum stóriðju- og virkjanaframkvæmda. Spara eigi 3,7 milljarða króna með þessum ráðstöfunum.
    Í þessu sparnaðarátaki séu tilfærslur til heimilanna lækkaðar um 2,2 milljarða króna. Þar af eru vaxtabætur lækkaðar um 600 milljónir, almennur tekjuskattur hækkaður um 600 milljónir með afnámi frádráttar vegna séreignarsparnaðar, atvinnuleysisbætur eru lækkaðar um 170 milljónir, sjúkratryggingar lækkaðar um 740 milljónir með auknum álögum á sjúklinga. „Þessi lækkun tilfærslna til heimilanna hefur sömu áhrif og hækkun skatta og er greinilega ætlað að lækka ráðstöfunartekjur heimilanna og þar með einkaneyslu.“
    Vakin er athygli á því að fjárfestingar og tækjakaup ríkisins séu lækkuð um 1,5 milljarða króna, en ekki hafi verið kynnt hvaða framkvæmdum áætlað sé að fresta. Þá sé lagt til að rekstrarútgjöld ríkissjóðs verði lækkuð um 100 milljónir með hagræðingarkröfu á stjórnsýslustofnanir.



Fylgiskjal VII.


Ályktun frá Samtökum fámennra skóla vegna breytinga
á úthlutun úr Jöfnunarsjóði til skólaaksturs.


    Stjórn Samtaka fámennra skóla harmar þá aðför sem gerð er að fámennum sveitarfélögum í landinu með nýjum starfsreglum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.
    Ljóst er, að þau sveitarfélög sem í dreifbýlinu eru, koma illa út og er menntun grunnskólanema í þeim stefnt í mikla hættu. Aukinn kostnaður hefur m.a. orðið vegna:
          valgreina í eldri bekkjum grunnskóla,
          endurmenntunar starfsfólks,
          mats á skólastarfi,
          breyttra kennsluhátta,
          stóraukins vægis upplýsinga- og tæknimenntar sem kallar á dýra aðstöðu,
          lengingar skólaárs,
          fjölgunar kennslustunda.
    Öllum er ljós sú staða að sveitarfélögin sem minnsta hafa tekjustofnana hafa treyst á fram lag Jöfnunarsjóðsins til að tryggja íbúum sínum lögboðna þjónustu, svo sem leik- og grunnskóla.
    Stjórn samtaka fámennra skóla skorar á ríkisvaldið að taka sérstakt tillit til fámennari og dreifðari byggða, þar sem sameining sveitarfélaga hefur ekki enn farið fram. Stjórn samtakanna bendir einnig á að ekki verður alltaf hagræðing af því að sameina sveitarfélög þar sem vegalengdir verða í sumum tilfellum lengri og því aukinn kostnaður við skólaakstur, sem ekki verður hjá komist. Þá má benda á að til eru þau byggðarlög þar sem sameining hefur farið fram og verður hagræðingu ekki náð með frekari sameiningu þrátt fyrir að byggðarlagið sé fremur fámennt (u.þ.b. 500 íbúar). Fámennu skólarnir eru gullmolar í byggðarlögum lands ins sem eru of dýrmætir til að láta fjúka eða skolast burt í veðurofsa sameiningarlægðarinnar.

Stjórn Samtaka fámennra skóla.




Fylgiskjal VIII.


Framlög úr Jöfnunarsjóði verði yfirfarin.


(Morgunblaðið 11. nóvember 2003.)



    Sveitarstjórn Mýrdalshrepps hefur óskað eftir því að framlög til sveitarfélagsins úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga verði yfirfarin vegna yfirstandandi árs og að borin verði saman framlög sjóðsins til Mýrdalshrepps samkvæmt núgildandi reglugerðum og þeim sem í gildi voru árin 2001 og 2002.
    Í bréfi sveitarfélagsins til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga af þessu tilefni kemur fram að útlit sé fyrir að framlög til sveitarfélagsins verði tæpum 14 milljónum kr. lægri en framlög fyrra árs og tæpum 8 milljónum kr. lægri en framlög ársins 2001. Um sé að ræða 10% rýrnun á tekjum sveitarfélagsins sem komi verulega við afkomu sveitarsjóðs.
    „Svo virðist sem útsvarstekjur ársins ætli einnig að vera mun lægri en áætlað hefur verið og þetta til samans gerir Mýrdalshreppi afar erfitt að halda uppi lögbundinni þjónustu við íbúana eða viðhald fasteigna hvað þá að halda áfram eðlilegri uppbyggingu,“ segir í bréfinu.



Fylgiskjal IX.

Ólafsfirðingar óhressir.
Reglur um úthlutun Jöfnunarsjóðs verði endurskoðaðar.

(Morgunblaðið 9. október 2003.)



    Fulltrúar í bæjarstjórn Ólafsfjarðar hafa samþykkt tillögu þar sem þess er krafist að nýjar reglur sem stuðst er við í útreikningum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verði endurskoðaðar. Fram kemur að ekki hafi orðið neinar breytingar á aðstæðum eða rekstri í Ólafsfirði sem réttlæti allt að 25% niðurskurð á greiðslum úr sjóðnum. „Sveitarfélögum er gert að undirbúa fjárhagsáætlun í lok árs og geta þau ekki miðað við annað en þær reglur sem þá eru í gildi. Það er óþolandi að búa við það óöryggi sem felst í þeirri staðreynd að áhrif breytinga á úthlutunarreglum eru ekki ljós fyrr en langt er liðið á árið,“ segir í tillögu sem samþykkt var samhljóða á fundi bæjarstjórnar Ólafsfjarðar nýlega.
    Á fundinum var fjallað um endurskoðaða fjárhagsáætlun bæjarins fyrir þetta ár og kom fram í bókun Jónu Vilhelmínu Héðinsdóttur að niðurstaða áætlunarinnar væri mikið áhyggjuefni. „Hún sýnir mikinn tekjusamdrátt sem skýrist með lækkun útsvarstekna (5%) og ekki síður stórkostlegum samdrætti (25%) á greiðslum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Samtals lækkar þetta tekjur um 28 milljónir kr.,“ segir í bókun hennar. Fram kemur að í áætluninni væri gert ráð fyrir lífeyrisskuldbindingum, uppsöfnuðu orlofi og verðbótum, samtals um 20 milljónum kr. „Þessi upphæð ásamt samdrætti í tekjum skýrir neikvæða rekstrarniðurstöðu fjárhagsáætlunarinnar upp á 48 milljónir kr. í stað 3 milljóna kr.,“ segir í bókuninni. Jóna segir í bókun sinni að þrátt fyrir þetta áfall sé full ástæða til að fagna þeim árangri sem náðst hefði í rekstrarútgjöldum, bæði hvað varðar laun og rekstur.
    Ásgeir Logi Ásgeirsson, fulltrúi minni hlutans í bæjarstjórn, lagði á fundinum fram bókun þar sem hann segir að stefni í geigvænlegan hallarekstur Ólafsfjarðarbæjar. Árið sé þó ekki liðið og líta beri á tölur sem viðvörun, „vissa vísbendingu sem þarf að taka alvarlega“. Alvarlegast segir hann að meiri hlutinn hafi ofáætlað tekjur miðað við fyrra ár, sem var metár og hæpið að góður vöxtur haldi áfram endalaust. Ásgeir Logi segir eftirlitsnefnd sveitarfélaga vera með fjármál Ólafsfjarðar í gjörgæslu. Þrjár leiðir eru að hans mati færar út úr ógöngunum; auknar lántökur, niðurskurður og minni þjónusta eða að selja eignir.



Fylgiskjal X.



Ályktun ársfundar Alþýðusambands Íslands
gegn skerðingu atvinnuleysisbóta.

(29. október 2003.)


    Ársfundur Alþýðusambands Íslands mótmælir harðlega áformum félagsmálaráðherra um að skerða réttindi launafólks til atvinnuleysisbóta eins og kynnt er í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Skerðing atvinnuleysisbóta í fyrsta mánuði atvinnuleysis og skerðing atvinnuöryggis fiskvinnslufólks er algerlega óviðunandi. ASÍ kynnti tillögur sínar um endurskoðun á lögum um atvinnuleysistryggingar sl. vor. Þar var lögð áhersla á að bæta stöðu og réttindi atvinnulausra. Tillögur félagsmálaráðherra ganga algjörlega gegn þessum hugmyndum.
    Ársfundur ASÍ krefst þess að félagsmálaráðherra dragi þessi skerðingaráform til baka. Verkalýðshreyfingin mun ekki taka þátt í umræðu um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingarsjóð fyrr en það hefur verið gert.



Fylgiskjal XI.



Ályktun 40. þings BSRB
um atvinnuleysisbætur.

(20.–24. október 2003.)

    40. þing BSRB mótmælir harðlega þeim áformum ríkisstjórnarinnar að skerða atvinnuleysisbætur með því að fella burt bótarétt þrjá fyrstu dagana sem einstaklingurinn er atvinnulaus. Með þessu er verið að ráðast að þeim sem síst skyldi. 40. þing BSRB krefst þess að horfið verði frá þessum áformum og að menn einhendi sér þess í stað að því að bæta hag atvinnulausra.



Fylgiskjal XII.



Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2004 (14 Umhverfisráðuneyti).

Frá minni hluta umhverfisnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar málefnasviði, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 8. október sl.
    Á fund nefndarinnar komu Þórður H. Ólafsson frá umhverfisráðuneyti, Ingvar A. Sigurðsson, Menja von Schmalensee og Róbert A. Stefánsson frá Samtökum náttúrustofa, Magnús Jónsson frá Veðurstofu Íslands, Jón Gunnar Ottósson frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Stefán Thors frá Skipulagsstofnun og Elín Guðmundsdóttir og Þórey I. Guðmundsdóttir frá Umhverfisstofnun.
    Fram kom hjá fulltrúum Umhverfisstofnunar að stofnunin leggur sérstaka áherslu á náttúruverndarþáttinn í starfi sínu. Á þessu ári var sett aukið fé í þjóðgarða og starfsmönnum fjölgað um þrjá í þjóðgörðum landsins jafnframt því sem landvarsla var aukin. Þá verður gestastofa opnuð á Hellnum í þjóðgarðinum Snæfellsjökli á næsta ári. Rétt er að fagna því að hlutur náttúruverndar skuli hafi aukist í hinni nýju stofnun frá því sem var meðan Náttúruvernd ríkisins sá um þennan málaflokk, en á sama tíma er það alvarlegt að málefni dýraverndar skuli þurfa að sitja á hakanum. Sérstaklega ber að fagna áformum um gestastofu á Hellnum sem þjóna mun gestum þjóðgarðsins Snæfellsjökuls. Fram kom í máli gesta nefndarinnar að stofnunin hafi sótt um aukið fjármagn til þriggja afmarkaðra þátta: Í fyrsta lagi til þess að geta staðið undir því mikla starfi sem fólgið er í þýðingu og innleiðingu EES-gerða á sviði stofnunarinnar, í öðru lagi vegna væntanlegrar stofnunar Vatnajökulsþjóðgarðs og í þriðja lagi vegna villtra dýra. Minni hlutinn leggur til að fjárlaganefnd sinni þessari beiðni og hækki fjárheimildir til stofnunarinnar.
    Það kom fram í máli forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands að stofnunin hafi fengið fjárframlög til undirbúnings gerðar náttúrufarskorta, en nú væri ekki gert ráð fyrir áframhaldandi framlagi þegar komið væri að hinni eiginlegu vinnu. Í ljósi þess hversu mikilvægt verk er hér komið á rekspöl leggur minni hlutinn til að fjárlaganefnd hugi sérstaklega að þessum þætti við endanlegar ákvarðanir um fjárframlög til stofnunarinnar. Það skýtur skökku við að stofnun sem hefur það hlutverk að sinna slíkum grundvallaratriðum við rannsóknir og kortlagningu náttúru Íslands skuli þurfa að segja upp starfsfólki sem hefur næg aðkallandi verkefni, en eins og kunnugt er þurfti að segja upp sex starfsmönnum í upphafi þessa árs og að óbreyttu stefnir í einhverjar uppsagnir í upphafi næsta árs. Til að klára vistgerðaflokkun og gerð náttúrufarskorta væri hægt að ljúka kortlagningu landsins á 4–5 árum, en þá þyrfti stofnunin 30 millj. kr. á ári í það verkefni.
    Þá ber að nefna þátt náttúrustofanna sem starfa samkvæmt lögum nr. 60/1992. Það kom fram í máli gesta nefndarinnar að framlag það sem fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir til stofanna uppfyllir ekki skilyrði laganna. Þannig vanti 3,3 millj. kr. upp á framlag til hverrar stofu fyrir sig til að framlagið standi undir því sem því er ætlað samkvæmt lögunum. Um fjárframlag ríkisins til stofanna segir eftirfarandi í lögunum: „Framlag ríkissjóðs til náttúrustofu er ákveðið í fjárlögum hverju sinni og miðast við fjárhæð sem nemur launum forstöðumanns í fullu starfi að viðbættri fjárhæð sem er allt að jafnhá þeirri fjárhæð og rennur hún til reksturs náttúrustofu.“ Um þessar mundir eru laun líffræðinga í stjórnunarstörfum á borð við forstöðumannsstarfið 5,8 millj. kr. á ári með launatengdum gjöldum. Þannig ætti framlag ríkisins að vera 11,6 millj. kr. á hverja stofu í stað 7,7 millj. kr. eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Loks skal gerð athugasemd við það að ekki er gert ráð fyrir framlagi til náttúrustofunnar á Húsavík, sem þó er í bígerð. Mun samningur um þá stofu vera tilbúinn til undirskriftar og hlýtur því að þurfa að áætla fyrir framlagi á fjárlögum.
    Varðandi afgreiðslu safnliða vill minni hlutinn leggja áherslu á að náttúruverndarsamtök ber að styrkja með opinberum framlögum og tryggja það að bróðurparturinn fari til almenns rekstrar eða óskilgreindra verkefna. Það er ófært að ráðherra sé ritstjóri þeirra verkefna sem frjáls félagasamtök á sviði náttúruverndar leggja út í. Slík samtök eiga eðli máls samkvæmt að veita stjórnvöldum aðhald og því er mikilvægt að tryggja sjálfstæði þeirra, enda er mikilvægi þess áréttað í Árósasamningnum sem samstarfsyfirlýsing ráðuneytisins og frjálsu félagasamtakanna grundvallast á.

Alþingi, 11. nóv. 2003.

Kolbrún Halldórsdóttir.