Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 666. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1127  —  666. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur, Helga Hjörvars og Valdimars L. Friðrikssonar um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvernig hefur umhverfisráðuneytið hrundið í framkvæmd aðgerðum til að ná fram jafnrétti kynjanna, sbr. 12. tölul. III. kafla þingsályktunar um framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna sem samþykkt var á Alþingi 28. maí 1998? Óskað er eftir að gerð verði grein fyrir hverju verkefni fyrir sig og hve miklu fé hefur verið varið til aðgerðanna.

    Varðandi svar við þessari fyrirspurn er vísað til skýrslu félagsmálaráðherra um stöðu framkvæmdaáætlunar ríkisstjórnarinnar til að ná fram jafnrétti kynjanna sem lögð var fyrir Alþingi á þskj. 1290 í 732. máli á 127. löggjafarþingi 2001–2002 en þar er gerð grein fyrir framkvæmd verkefna sem tilgreind voru í þingsályktun um framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna sem samþykkt var á Alþingi 28. maí 1998 en þar segir:
12.     Umhverfisráðuneyti.
12.1.     Jafnréttisnefnd umhverfisráðuneytisins og stofnana þess.
    Umhverfisráðuneytið mun skipa nefnd um jafnréttismál með fulltrúum stofnana ráðuneytisins fyrir árslok 1997. Hlutverk nefndarinnar verður að
          sjá til þess að gerðar verði starfsmannaáætlanir fyrir stofnanir ráðuneytisins sem miða að því að jafna stöðu kvenna og karla,
          að halda uppi umræðum og fræðslu um jafnréttismál,
          að safna upplýsingum um stöðu jafnréttismála í stofnunum,
          að koma á framfæri hugmyndum sem stuðla að auknu jafnrétti.
         
12.2.     Fjölgun kvenna í stjórnum, nefndum og ráðum sem varða umhverfismál.
    Sérstakt átak verður gert til að fjölga konum í stjórnum, nefndum og ráðum þar sem stefnumótun varðandi framtíð umhverfismála á sér stað og ákvarðanir eru teknar.
    Jafnréttisnefnd ráðuneytisins hefur starfað frá árinu 1999. Nefndin vann jafnréttisáætlun sem var staðfest af ráðherra í nóvember 1999. Jafnréttisstefnan var kynnt fyrir forstöðumönnum stofnana ráðuneytisins á fundi í nóvember 1999 þar sem þeir voru hvattir til þess að setja stofnunum sínum stefnu í jafnréttismálum.....
    Jafnréttisnefndin vinnur nú að endurskoðun áætlunarinnar og ákveðið hefur verið að halda námskeið um gerð jafnréttisáætlana fyrir forstöðumenn stofnana og námskeið um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í ákvarðanatöku um umhverfismál fyrir stjórnendur í ráðuneytinu og stofnunum þess.
    Ráðherra staðfesti árið 2001 fjölskyldustefnu sem jafnréttisnefndin vann í samráði við yfirstjórn ráðuneytisins. Markmið fjölskyldustefnunnar er að skapa mannúðlegt og hvetjandi starfsumhverfi þar sem tekið er tillit til þess að fólk þarf að sinna skyldum við fjölskyldu og rækta hana alla starfsævina.
    Hlutfall kvenna í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum ráðuneytisins hækkaði úr 16% árið 1996 upp í 25% í árslok 2001. Ráðuneytið heldur áfram að leggja ríka áherslu á að fjölga konum í nefndum og stjórnum til þess að tryggja virka þátttöku kvenna í ákvörðunum um umhverfismál.
    Unnið var að fyrrgreindum verkefnum af starfsmönnum ráðuneytisins og var ekki þeim ekki greitt sértaklega fyrir þau og því er ekki hægt að tilgreina kostnað eins og óskað er eftir í fyrirspurninni.
    Sé óskað ítarlegri skýringa við hvert verkefni er vakin athygli á fyrrnefndri skýrslu félagsmálaráðherra um stöðu framkvæmdaáætlunar ríkisstjórnarinnar til að ná fram jafnrétti kynjanna. Þá er einnig vakin athygli á því að á nú á vordögum mun félagsmálaráðherra leggja fram nýja framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum og með henni mun fylgja skýrsla um stöðu verkefna úr endurskoðaðri áætlun fyrir árin 2002–2004.