Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 662. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1235  —  662. mál.




Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur, Helga Hjörvar og Valdimars L. Friðrikssonar um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvernig hefur landbúnaðarráðuneytið hrundið í framkvæmd aðgerðum til að ná fram jafnrétti kynjanna, sbr. 8. tölul. III. kafla þingsályktunar um framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna sem samþykkt var á Alþingi 28. maí 1998? Óskað er eftir að gerð verði grein fyrir hverju verkefni fyrir sig og hve miklu fé hefur verið varið til aðgerðanna.

1. Félagsleg og efnahagsleg réttindi kvenna í bændastétt.
    Könnuð verða ýmis ákvæði um eignaraðild í landbúnaði og búrekstri og réttindi og skyldur henni samfara. Gerðar verði tillögur til úrbóta þar sem þess gerist þörf með það að markmiði að jafna hlut kvenna og karla.
     Eitt af verkefnum í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar er könnun á eignarhaldi í landbúnaði og búrekstri og réttindum og skyldum því samfara. Undirbúningur þessa verkefnis er hafinn og unnið er í samráði við jafnréttisnefnd Bændasamtaka Íslands sem skipuð var í árslok 2001 og í eiga sæti þrír fulltrúar úr bændastétt ásamt jafnréttisfulltrúa landbúnaðarráðuneytisins. Stofnuð hefur verið grasrótarhreyfingin Lifandi landbúnaður – Gullið heima sem hefur það markmið að jafna hlut kvenna og karla. Jafnrétti er ávallt haft að leiðarljósi í þeirri vinnu sem fram fer á vegum ráðuneytisins.

2. Fræðsla fyrir konur og karla í bændastétt.
    Í samvinnu við jafnréttisnefnd Bændasamtakanna verður unnið upplýsinga- og fræðsluefni um réttindi og skyldur kvenna og karla í bændastétt. Þar verður gerð grein fyrir félagskerfi landbúnaðarins, starfi hagsmunasamtaka bænda og félagslegum réttindum sem varða konur og karla í bændastétt, ásamt upplýsingum um jafnrétti kvenna og karla almennt.
     Þetta mál hefur verið forgangsverkefni eins og 1. liður og hefur verið lögð mikil undirbúningsvinna í þetta gegnum verkefnið Lifandi landbúnaður og mun herferð um landið hefjast um næstu áramót.

3. Atvinnumál kvenna á landsbyggðinni.
    Landbúnaðarráðuneytið mun beita sér fyrir því að fullt tillit verði tekið til stöðu kvenna sem búa í dreifbýli og kvenna í bændastétt í öllum þeim sértæku verkefnum sem unnin verða samkvæmt þessari framkvæmdaáætlun og varða stöðu kvenna á vinnumarkaðinum og möguleika þeirra til eigin atvinnurekstrar og endurmenntunar.
     Þessi liður er einnig forgangsverkefni Lifandi landbúnaðar eins og með fræðsluna því haldin verða námskeið fyrir konur í bændastétt með það að markmiði að styðja þær konur sem hafa hug á því að koma á framfæri nýjum hugmyndum til eflingar atvinnu í sveitum. Jafnrétti kynjanna er ávallt haft til hliðsjónar við samningu lagafrumvarpa og stjórnvaldsfyrirmæla á vegum ráðuneytisins.

4. Jafn hlutur kynjanna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins.
    Konur eru 14% fulltrúa í nefndum og ráðum á vegum landbúnaðarráðuneytisins. Þegar skipað er í ráð og nefndir á vegum ráðuneytisins skal taka mið af jafnréttissjónarmiðum. Þegar um er að ræða tilnefningar þriðja aðila skal eftir því sem kostur er óska eftir tveimur tilnefningum, konu og karli, í stað aðal- og varamanns. Stefnt skal að því að í lok áætlunarinnar verði hlutur kvenna orðinn a.m.k. 40% í nefndum og ráðum. Þá verður lögð áhersla á að gæta í hvívetna jafnræðis karla og kvenna í starfsmannahaldi ráðuneytisins og hugað sérstaklega að jafnri kynjaskiptingu við val á yfirmönnum.
     Hlutfall kvenna í nefndum á vegum ráðuneytisins er 12% sem er heldur lægra en árið 2000, en þá var hlutfallið 12,5% og var hæst 14% 2001. Í ráðuneytinu eru 20 stöðugildi, þar af 9 karlar og 11 konur. Aukningin er eitt og hálft stöðugildi. Nýtt skipurit ráðuneytisins tók gildi 1. janúar 2003. Þá voru þrír karlmenn skipaðir skrifstofustjórar, en höfðu áður verið deildarstjórar í ráðuneytinu.

5. Jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins.
    Jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins er skipaður skv. 11. gr. jafnréttislaga, nr. 96/2000. Hlutverk hans er að fjalla um og hafa eftirlit með jafnréttisstarfi á vegum ráðuneytisins og stofnana þess. Jafnréttisfulltrúi er tengiliður ráðuneytisins við Jafnréttisstofu og skal hann m.a. fylgja þessari framkvæmdaáætlun eftir. Fulltrúinn skal standa fyrir könnun á stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og stofnunum þess og gera aðgerðaáætlun um hvernig rétta skuli hlut kynjanna. Sérstök áhersla verði einnig lögð á markvissa jafnréttisfræðslu stjórnenda og annarra starfsmanna.
     Fræðsla til starfsmanna er stöðug og leitast er við að benda forstöðumönnum stofnana á að hafa að leiðarljósi jafnréttissjónarmið við ráðningu forstöðumanns, yfirmanns deildar eða í stjórn, nefndir og ráð. Þá tók jafnréttisfulltrúi þátt í framkvæmd könnunar um jafnréttismál meðal starfsmanna stjórnarráðsins.

     Engu fé var í sjálfu sér varið til þessara aðgerða þar sem öll vinna við framsetninguna var unnin í vinnutíma landbúnaðarráðuneytisins.