Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 817. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1245  —  817. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 137/1997, um Kennaraháskóla Íslands.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



1. gr.

    Við 3. gr. laganna bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Háskólaráð setur nánari reglur um nýráðningar og framgang í starfi þar sem einnig er kveðið á um störf dómnefnda og meðferð umsókna. Háskólaráð getur mælt svo fyrir í reglunum að undanþiggja megi auglýsingu störf sem byggjast á sérstökum tímabundnum styrkjum, störf sem tengjast sérstökum tímabundnum verkefnum, störf sem nemendur stunda við háskólann samhliða rannsóknartengdu framhaldsnámi og störf við háskólann sem tengjast tilteknu starfi utan hans á grundvelli samstarfssamnings.
    Heimilt er að ráða kennara til háskólans tímabundinni ráðningu til allt að fimm ára. Um tilhögun slíkrar ráðningar skal háskólaráð setja reglur. Sama á við um þá sem eingöngu eru ráðnir til vísinda- og fræðistarfa.
    Kennara má ráða í hlutastarf í samræmi við reglur sem háskólaráð setur. Heimilt er að tengja starf kennara tilteknu starfi utan háskólans eða starfi við stofnanir hans samkvæmt reglum sem háskólaráð setur.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á 3. gr. laga nr. 137/1997, um Kennaraháskóla Íslands, sem snerta ráðningar háskólakennara, sérfræðinga og fræðimanna.
    Í fyrstu efnismálsgrein 1. gr. frumvarpsins er lagt til að kveðið verði á um að háskólaráð setji nánari reglur um nýráðningar og framgang í starfi þar sem einnig er kveðið á um störf dómnefnda og meðferð umsókna. Slíkt almennt ákvæði er ekki að finna í gildandi lögum, en er að finna í sérlögum um aðra ríkisháskóla. Þá er lagt til að tekin verði upp heimild til undanþágu frá meginreglu 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sem mælir fyrir um það að auglýsa beri laus störf hjá ríkinu. Að mati Kennaraháskóla Íslands er þörf á heimild til að víkja frá meginreglunni um að auglýsa beri laus störf við skólann og stofnanir hans í nokkrum nánar ákveðnum tilvikum sem öll byggjast á sérstöðu starfa við skólann. Þessi breytingartillaga hefur að geyma heimild sem í framkvæmd yrði beitt þröngt og einungis á grundvelli nánari reglna sem háskólaráð mun setja. Dæmi um störf sem hér gætu átt við eru:
1.      Starf háskólakennara eða sérfræðings sem byggist á rannsóknarstyrkjum.
    Hluti rannsóknastarfsins við Kennaraháskóla Íslands og stofnanir hans er kostaður af styrkjum sem einstakir verkefnastjórar, kennarar eða fastráðnir sérfræðingar, eða rannsóknahópar sækja um til innlendra eða erlendra rannsóknasjóða og nota til að ráða starfsmenn að rannsóknunum. Slíkir styrkir eru ævinlega bundnir við tiltekið verkefni og tímabundnir. Eðlilegt er að viðkomandi verkefnastjóri hafi fullt vald til að ráðstafa styrknum, þar með talið að ráða starfsmann án auglýsingar ef það þykir henta.
2.      Störf nemenda sem eru í rannsóknartengdu framhaldsnámi.
    Við Kennaraháskóla Íslands hefur verið byggt upp öflugt rannsóknartengt framhaldsnám. Nemendur í slíku námi hafa oft annað hvort framfærslu af námsstyrkjum eða þeir eru á launum sem umsjónarkennari fjármagnar með rannsóknarstyrkjum eða rannsóknasamningum. Þegar svo háttar til er val nemanda alfarið á valdi umsjónarkennara og ekki sjálfgefið að slíkt starf sé auglýst þó að við vissar aðstæður geti verið talið tilefni til að efna til samkeppni um slíka námsstöðu.
3.      Starf vísindamanns sem byggist á sérstökum tímabundnum styrk til rannsókna styrkþegans sjálfs.
    Mörg dæmi eru um það að erlendir sem innlendir vísindamenn sæki um og fái styrki til afmarkaðra rannsóknarverkefna sem þeir hyggjast vinna sjálfir. Styrkveitingin er að jafnaði bundin vísindamanninum en hann semur síðan við rannsókna- eða háskólastofnun um þá aðstöðu sem honum er þörf til þess að vinna verkefnið. Í ýmsum tilvikum getur verið hentugt og jafnvel nauðsynlegt að vísindamaðurinn leggi styrkinn inn í heild til viðkomandi stofnunar sem aftur ræður þá vísindamanninn tímabundið til starfa við verkefnið. Við þessar aðstæður er augljóst að forsenda starfsins er sá styrkur sem viðkomandi vísindamaður leggur fram og því verður starfið ekki auglýst.
4.      Samvinnuverkefni háskólamanns og annars aðila um sérstakar tímabundnar rannsóknir.
    Sum þeirra starfa sem verða til í Kennaraháskóla Íslands tengjast verkefnum sem í eðli sínu eru tímabundin og felast í að framkvæma tiltekna rannsóknaáætlun í samvinnu starfandi háskólamanna og utanaðkomandi aðila sem kunna að eignast réttindi yfir verkefninu og koma að því á öllum stigum. Aðkoma slíkra aðila kann að vera best tryggð með ráðningarsamningi, en jafnljóst er að ekki eru forsendur til þess að auglýsa starfið laust til umsóknar.
5.      Sérstök tímabundin kennarastörf sem kostuð eru af utanaðkomandi aðilum.
    Kennaraháskóli Íslands stefnir að því að fjölga þeim kennarastörfum sem kostuð eru af stofnunum eða fyrirtækjum með sérstökum samningum. Slík störf eru að jafnaði veitt til tiltekins tíma, t.d. þriggja eða fimm ára. Í sumum tilvikum eru slík störf bundin tilteknum rannsóknasviðum og jafnvel sett á fót til þess að tilteknir sérfræðingar fái aðstöðu til þess að kenna tiltekin fræði og stunda rannsóknir á því sviði við skólann. Ekki er því sjálfgefið að forsendur séu til að auglýsa starfið.
    Í annarri efnismálsgrein 1. gr. frumvarpsins er lagt til að Kennaraháskólanum verði heimilað að ráða kennara og aðra til vísinda- og fræðistarfa tímabundinni ráðningu til allt að fimm ára í senn samkvæmt nánari reglum sem háskólaráð setur. Sambærilegt ákvæði er í gildandi lögum um Háskóla Íslands. Heimild þessi til tímabundinnar ráðningar er rýmri en heimild 2. mgr. 41. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, að því leyti til að í því lagaákvæði er miðað við tveggja ára ráðningartíma. Sömu sjónarmið liggja hér til grundvallar og voru við setningu gildandi laga um Háskóla Íslands, þ.e. að starf háskólakennara og vísinda- og fræðimanna hafi þá sérstöðu að það réttlæti lengri tímabundinn ráðningartíma, m.a. þegar litið er til þess tíma sem þarf til undirbúnings starfi og þjálfunar í því. Þá er eðlilegt að samræmi sé milli laga um ríkisháskólana í þessu efni.
    Í þriðju efnismálsgrein 1. gr. frumvarpsins er lagt til að heimilað verði að ráða kennara í hlutastarf í samræmi við reglur sem háskólaráð setur. Heimilt verði að tengja starf kennara tilteknu starfi utan háskólans eða starfi við stofnanir hans samkvæmt reglum sem háskólaráð setur.
    Heimildarákvæði þessi er að finna í gildandi lögum um Háskóla Íslands og hafa aðrir ríkisháskólar lagt áherslu á að sömu heimildir verði lögfestar í sérlögum sem um þá gilda. Um ráðningu kennara í hlutastarf í samræmi við reglur sem háskólaráð setur er lögð áhersla á að um heimildarákvæði er að ræða og gera verður ráð fyrir að gætt sé sambærilegra hæfniskrafna og gerðar eru til þeirra sem gegna fullu starfi.
    Heimildin til að tengja starf kennara tilteknu starfi utan háskólans eða starfi við stofnanir hans samkvæmt reglum sem háskólaráð setur er við það miðuð að hún verði ekki bundin við störf hjá opinberum stofnunum eingöngu. Heimild þessi er nauðsynleg til að auka svigrúm háskólans til að tengjast fleiri aðilum utan hans, enda vinnur háskólinn markvisst að því að tengja kennslu- og rannsóknastarfsemi sína atvinnulífi og annarri rannsóknastarfsemi í landinu.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 137/1997,
um Kennaraháskóla Íslands.

    Í frumvarpinu er lagt til að háskólanum verði heimilað að ráða í tiltekin störf án auglýsingar, að ráða fólk í tímabundin kennslu- og vísindastörf til allt að fimm ára og að ráða kennara í hlutastarf og tengja störf kennara tilteknu starfi utan háskólans eða starfi við stofnanir hans, allt eftir reglum sem háskólaráð setur.
    Að mati fjármálaráðuneytisins stuðlar frumvarpið að sveigjanleika í starfsmannahaldi og einföldun á stjórnsýslu háskólans verði það að lögum og þar með minni útgjöldum. Ekki eru þó forsendur til að áætla hversu mikið útgjöld gætu lækkað vegna þessa.