Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 843. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1545  —  843. mál.




Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um meðferð á barnaníðingum.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Er ráðherra sammála því viðhorfi forstjóra Barnaverndarstofu að heimildir verði settar í hegningarlög til að hægt sé að dæma barnaníðinga til meðferðar?
     2.      Er ráðherra reiðubúinn að beita sér fyrir slíkri lagabreytingu?


    Í fyrirspurninni mun vera vísað til viðtals við Braga Guðbrandsson, forstjóra Barnaverndarstofu, í Fréttablaðinu 31. mars sl. Í fyrirsögn viðtalsins segir að 15–20% þeirra sem fremja kynferðisbrot gegn börnum séu með ólæknandi barnagirnd. Bragi telur það vera til bóta að unnt væri að dæma kynferðisbrotamenn sem brjóta gegn börnum til meðferðar og bendir m.a. á lagaheimild til að dæma drykkjusjúka afbrotamenn í meðferð því til stuðnings.
    Ekkert almennt ákvæði er í almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, sem heimilar að dæma sakborning til meðferðar. Þau ákvæði almennra hegningarlaga þar sem kveðið er á um meðferð eru öll háð tilteknum skilyrðum.
    Í 16. gr. laganna eru ákvæði um að hafi sá sem verk vann verið andlega miður sín, svo sem vegna vanþroska, hrörnunar, kynferðislegs misþroska eða annarrar truflunar, og ástand hans sé ekki á eins háu stigi og í 15. gr. getur, skuli honum refsað fyrir brotið ef læknir telur að refsing geti borið árangur.
    Í 57. gr. hegningarlaganna er m.a. fjallað um sérstök skilyrði skilorðs og meðal þeirra sérstöku skilyrða er að aðili neyti ekki áfengis eða deyfilyfja á skilorðstíma og að aðili gangist undir dvöl á hæli ákveðinn tíma til að venja hann af notkun áfengis eða deyfilyfja
    Þá er meðferð skv. 65. gr. laganna háð því að brot sé framið undir áhrifum áfengis. Ákvæðið er í VII. kafla laganna, sem m.a. fjallar um öryggisráðstafanir, en mönnum hefur verið gert að sæta öryggisgæslu ef þeir eru sýknaðir samkvæmt ákvæðum 15. gr. eða læknir telur refsingu ekki geta borið árangur samkvæmt ákvæðum 16. gr.
    Ekki hefur reynt mikið á ákvæði 65. gr. hegningarlaganna í dómaframkvæmd. Þó ber þess að geta að dómar þar sem 65. gr. laganna hefur komið til álita eru ekki allir á einn veg. Er þannig ekki ljóst af dómaframkvæmd hvort ákvæði 65. gr. eigi við um þá sem dæmdir eru sýknir saka vegna 15. gr. laganna eða hvort ákvæði 16. gr. eigi við og viðkomandi verði gert að sæta öryggisgæslu eða hvort ákvæðið er sjálfstætt og óháð ákvæðum 15. og 16. gr. og geti átt almennt við um brot sem framin eru undir áhrifum áfengis.
    Álitaefnið hvort til greina komi að dæma brotamenn í einum brotaflokki til meðferðar kallar á sömu sjónarmið varðandi aðra brotaflokka, svo sem manndráp, líkamsárásir, rán, frelsissviptingu, brennubrot, fíkniefnabrot, þjófnaði, fjársvik o.s.frv. og athugun á því hvort meðferð brotamanna almennt geti fækkað brotum. Enn fremur hvort meðferð almennt eigi að vera einstaklingsbundin eða mismunandi eftir brotaflokkum. Þá má velta upp því sjónarmiði hvaða áhrif það hefði að brotamaður sem dæmdur hefði verið til meðferðar og sætt slíkri meðferð, gerist sekur um ítekuð brot eftir viðkomandi dóm og meðferð og hvort rétt sé að dæma mann til meðferðar á ný ef meðferð samkvæmt fyrri dómi bar ekki árangur. Einnig verður að liggja fyrir hvort meta þurfi í hverju tilviki fyrir sig hvort viðkomandi sakborningur sé hæfur til að gangast undir meðferð og hvaða áhrif slík álitsgerð hafi á framgang máls hverju sinni. Almennt er reynt að hraða rannsókn og málsmeðferð kynferðisbrotamála eins og kunnugt er. Álitsgerð sálfræðinga eða geðlækna um ástand og meðferðarhorfur gerenda kynferðisbrota getur mögulega haft áhrif á rannsóknarferli málsins.
    Eins og áður segir er því haldið fram að talsverður hluti gerenda sé ólæknandi; að meðferð mundi ekki skila árangri. Slík atriði hljóta að koma til skoðunar. Varla er rétt að dæma mann til meðferðar nema hún sé talin geta borið árangur.
    Í skýrslu dómsmálaráðherra um gerendur í kynferðisbrotamálum og meðferðarrúrræði þeim til handa, sem gerð var samkvæmt beiðni Guðrúnar Ögmundsdóttur og fleiri þingmanna og lögð var fyrir Alþingi á þessu löggjafarþingi á þskj. 1058, kemur fram að dæmdum kynferðisbrotamönnum er boðið upp á einstaklingsbundna meðferð hjá sálfræðingi á meðan afplánun fer fram. Meðferðin byggist á hugrænni atferlismeðferð og er sniðin að þörfum hvers og eins. Markmiðið með meðferðinni er annars vegar að beina kynferðislegum áhuga einstaklings á nýjar brautir og hins vegar að koma í veg fyrir ítrekun brota. Engar tölulegar upplýsingar liggja fyrir um hversu margir hafa gengist undir slíka meðferð, né heldur hefur árangur slíkrar meðferðar verið metinn með skipulegum hætti.
    Enn fremur kemur fram í skýrslunni að sakhæfir gerendur innan 18 ára aldurs fá meðferð á vegum barnaverndaryfirvalda. Barnaverndarstofa býður upp á langtímameðferðarúrræði í þessu skyni.
    Þar sem árangur sálfræðimeðferðar kynferðisbrotamanna hefur ekki verið metinn með skipulegum hætti, en slík athugun yrði tæpast gerð nema á löngum tíma, og með hliðsjón af því að talið er að töluvert hlutfall gerenda sé haldið því sem nefnt er ólæknandi barnagirnd, hefur ekki verð talin ástæða til að breyta hegningarlögum á þann hátt að tekið yrði að dæma slíka brotamenn til meðferðar. Þar að auki er vandmeðfarið að veita slíkar heimildir vegna eins brotaflokks en ekki annarra.
    Dómsmálaráðuneytið mun leita eftir viðræðum við Barnaverndarstofu og aðra sérfróða aðila um frekari athugun á þessum málum.