Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 305. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1717  —  305. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 78/2002, um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

Frá iðnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Helga Bjarnason og Pétur Örn Sverrisson frá iðnaðarráðuneyti. Þá hafa umsagnir borist frá Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Norðurorku hf., Svalbarðsstrandarhreppi, Orkuveitu Húsavíkur, Landsvirkjun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Skagafjarðarveitum ehf., Samorku, samtökum raforku-, hita- og vatnsveitna, Byggðastofnun, Eyþingi – Sambandi sveitarfélaga í Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslum, Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Orkustofnun og Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum.
    Með frumvarpinu er ætlunin að hækka hámark stofnstyrkja til hitaveitna í átta ár en samkvæmt gildandi lögum er miðað við fimm ára niðurgreiðslur að hámarki. Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að styrkir til niðurgreiðslu nái einnig til olíuhitunar eins og hitunar með rafmagni en það er breyting frá gildandi lögum. Loks er ráðherra fengin heimild til að verja til sérstaks jarðhitaleitarátaks á köldum svæðum allt að 5% af árlegri fjárveitingu til niðurgreiðslna á húshitunarkostnaði og til nýrra hitaveitna.
    Með setningu laga um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar voru lögfestar vinnureglur sem giltu í framkvæmd niðurgreiðslna húshitunarkostnaðar. Í framsöguræðu við framlagningu frumvarpsins tók iðnaðarráðherra skýrt fram að ekki væri ætlunin að gera breytingar á þeirri framkvæmd sem verið hefði. Á fundum nefndarinnar hefur hins vegar komið fram að með lögfestingu reglnanna hafi orðið nokkrar breytingarnar á framkvæmdinni. Greiðslurnar miðast samkvæmt lögunum eingöngu við lögheimili og hafa því fallið niður niðurgreiðslur til þeirra sem reka heimili á fleiri en einum stað á landinu vegna atvinnu eða skólagöngu. Þá hafa einnig fallið niður greiðslur til þeirra sem eiga eignir þar sem ekki er heimilt að búa nema hluta ársins, t.d. vegna snjóflóðahættu. Nefndin telur því nauðsynlegt að leggja til breytingar á frumvarpinu með það að markmiði að heimila niðurgreiðslur til þeirra að nýju. Greiðslurnar miðast þó við að búseta sé á viðkomandi stað í nokkra mánuði en ekki eingöngu sumardvöl eða fáar vikur á ári.
    Upplýst var fyrir nefndinni að það hefði reynst erfitt að framfylgja kröfunni um að eigendur íbúða þyrftu að sækja um niðurgreiðslurnar, enda hagsmunir þeirra ekki alltaf í húfi. Telur nefndin því rétt að rýmka heimildina þannig að umráðamaður íbúðar geti sótt um niðurgreiðslur á húshitunarkostnaði, t.d. leigjandi.
    Leggur nefndin til rýmkun á ákvæði um niðurgreiðslur til kirkna og bænahúsa þannig að þær nái einnig til safna, félagsheimila og húsnæðis björgunarsveita.
    Þá leggur nefndin til að beiðnir um styrki vegna jarðhitaleitarátaks á köldum svæðum séu ekki bundnar við það að greinargerð um fyrirhugaða jarðhitaleit frá Orkustofnun þurfi að fylgja þar sem faglega ráðgjöf er unnt að fá hjá ýmsum aðilum og því eðlilegra að binda það ekki við Orkustofnun.
    Þá leggur nefndin til að bætt verði nýju ákvæði við frumvarpið um að fyrir 1. október ár hvert skuli leggja fram skýrslu um ráðstöfun fjár samkvæmt lögunum vegna næstliðins árs og endurskoðaða áætlun greiðslna yfirstandandi árs og áætlun fyrir næstkomandi ár. Greina skal sundurliðað hve miklu fjármagni er varið til niðurgreiðslu húshitunar, stofnstyrkja hitaveitna og orkusparnaðaraðgerða. Með því munu liggja fyrir upplýsingar um heildarniðurgreiðslur og skiptingu þeirra á hverju ári sem auðvelda eftirfylgni og eftirlit með greiðslunum.
    Loks leggur nefndin áherslu á að styrkveitingar til jarðhitaleitarátaks og til nýrra hitaveitna leiði ekki til lækkunar á raungildi niðurgreiðslna á húshitunarkostnaði.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrgreindum breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Kristján L. Möller, Einar Karl Haraldsson, Sigurjón Þórðarson, Guðlaugur Þór Þórðarson og Björgvin G. Sigurðsson skrifa undir álitið með fyrirvara.
    Steingrímur J. Sigfússon sat fundinn sem áheyrnarfulltrúi og er með fyrirvara við álitið.

Alþingi, 12. maí 2004.



Kristinn H. Gunnarsson,


form., frsm.


Einar Oddur Kristjánsson.


Kjartan Ólafsson.



Kristján L. Möller,


með fyrirvara.


Einar Karl Haraldsson,


með fyrirvara.


Sigurjón Þórðarson,


með fyrirvara.



Guðlaugur Þór Þórðarson,


með fyrirvara.


Guðmundur Hallvarðsson.


Björgvin G. Sigurðsson,


með fyrirvara.