Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 77. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 355  —  77. mál.




Svar



félagsmálaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um langtímaatvinnulausa.

     1.      Hvernig skiptast langtímaatvinnulausir eftir kyni, aldri, búsetu og menntun og er vitað hve margir öryrkjar falla í þennan flokk?
    Eftirfarandi upplýsingar um einstaka hópa atvinnulausra byggjast á atvinnuleysistölum er lágu fyrir í lok september sl. Á þeim tíma voru 1.414 einstaklingar á atvinnuleysisskrá sem falla undir þá skilgreiningu að teljast vera langtímaatvinnulausir, þ.e. hafa verið samfellt án atvinnu í lengri tíma en sex mánuði. Langtímaatvinnulausir voru því um 33% allra atvinnulausra á þeim tímapunkti.
    Skiptingin milli kynjanna var nokkuð jöfn enda þótt aðeins hallaði á konurnar en þær voru um 55% af þeim sem voru í hópi langtímaatvinnulausra. Þegar atvinnulausar konur eru skoðaðar sérstaklega kemur í ljós að 32,44% þeirra voru langtímaatvinnulausar. Svipað hlutfall karla, eða 34,2% allra karla sem eru án atvinnu, voru langtímaatvinnulausir.
    Flestir langtímaatvinnulausra hafa búsetu á höfuðborgarsvæðinu eða um 1.189 einstaklingar sem eru um 84% af öllum langtímaatvinnulausum. Atvinnuleysi var einnig hlutfallslega mest á höfuðborgarsvæðinu í september eða um 3,1% af áætluðum mannafla. Atvinnuleysi á landsbyggðinni var 1,9%. Þegar litið er til einstakra svæða á landinu var langtímaatvinnuleysi hlutfallslega minna á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Á höfuðborgarsvæðinu voru langtímaatvinnulausir tæplega 40% allra sem voru þar á atvinnuleysisskrá. Á landsbyggðinni var atvinnuleysið mest 2,8% á Norðurlandi eystra en þar var hlutfall langtímaatvinnulausra einnig mest eða um 23,3%. Hlutfall langtímaatvinnulausra var minnst á Norðurlandi vestra eða um 10%. Atvinnuleysið var jafnframt minnst á því svæði eða 1,1%.
    Aldursskiptingin var sem hér segir:
    148 einstaklingar voru langtímaatvinnulausir í aldurshópnum 16–24 ára;
    337 einstaklingar voru langtímaatvinnulausir í aldurshópnum 25–34 ára;
    291 einstaklingur voru langtímaatvinnulausir í aldurshópnum 35–44 ára;
    269 einstaklingar voru langtímaatvinnulausir í aldurshópnum 45–54 ára;
    369 einstaklingar voru langtímaatvinnulausir í aldurshópnum 55 ára og eldri.
    Fæstir langtímaatvinnulausra voru því á aldrinum 16–24 ára eða um 10% þeirra sem töldust vera langtímaatvinnulausir. Hlutfallslega flestir langtímaatvinnulausra voru hins vegar í hópi 55 ára og eldri eða um 26% langtímaatvinnulausra.
    Stærsti hluti langtímaatvinnulausra var ófaglært starfsfólk eða um 60%. Ellefu prósent þeirra voru með háskólamenntun, 10% með iðnmenntun og 2% höfðu lokið vélstjórnar- og skipstjórnarnámi. Þá höfðu 5% langtímaatvinnulausra lokið verslunarprófi og 9% stúdentsprófi.
    Því miður liggja enn ekki fyrir tölulegar upplýsingar um fjölda öryrkja sem teljast vera langtímaatvinnulausir en Vinnumálastofnun vinnur nú að öflun slíkra upplýsinga.

     2.      Hvernig hyggst ráðherra bregðast við því að hlutfall langtímaatvinnulausra hefur hækkað úr 19% af öllum atvinnulausum árið 2002 í 34% í ágúst sl.?

    Svo virðist sem langtímaatvinnuleysi hafi aukist hér á landi hin síðustu ár. Árið 2003 voru að meðaltali 26,4% atvinnulausra langtímaatvinnulausir en 19% árið 2002.
    Ljóst er að langtímaatvinnuleysi sveiflast milli mánaða. Langtímaatvinnuleysi er til dæmis hlutfallslega mest yfir sumarmánuðina en þá fækkar að jafnaði á atvinnuleysisskrá og þá meira þeim sem verið hafa án atvinnu um skemmri tíma. Ber því að varast samanburð milli ársmeðaltala og talna fyrir einstaka mánuði. Í því sambandi má benda á að hlutfall langtímaatvinnulausra fór yfir 30% í lok sumars 2003 á sama hátt og gerðist nú í sumar.
    Þegar tölur fyrir ágústmánuði síðastliðinna tveggja ára eru skoðaðar kemur í ljós að langtímaatvinnuleysi í þeim mánuðum virðist hafa verið hlutfallslega hærra en ársmeðaltölin gáfu til kynna. Langtímaatvinnulausir í ágúst árið 2002 voru um 24% allra atvinnulausra en voru um 32,6% allra atvinnulausra í ágúst árið 2003. Í ágúst í ár voru langtímaatvinnulausir um 34% allra atvinnulausra.
    Því er þó ekki að neita að það virðast teikn á lofti um að langtímaatvinnuleysi aukist enn milli ára. Á fyrstu níu mánuðum ársins 2004 þá voru langtímaatvinnulausir 31,5% allra atvinnulausra að meðaltali. Til samanburðar má nefna að langtímaatvinnulausir voru 26,8% allra atvinnulausra að meðaltali á fyrstu níu mánuðum ársins 2003.
    Hafa verður í huga að á meðan atvinnuleysi eykst er streymi inn á skrá mikið og því hlutfallslega margir sem hafa verið atvinnulausir í skemmri tíma. Þar af leiðandi er langtímaatvinnuleysi tiltölulega lítið. Meðan atvinnuástandið er að ná aftur jafnvægi eykst fjöldi langtímaatvinnulausra smám saman. Þá er jafnframt tilhneiging til þess að þegar atvinnuástandið fer aftur batnandi fari þeir sem skemmst hafa verið á skrá aftur út á vinnumarkaðinn. Þeir langtímaatvinnulausu verða þá hlutfallslega meira áberandi í hópi þeirra sem eru án atvinnu. Til marks um þetta má nefna að um mitt árið 2000 þegar atvinnuleysi var mjög lítið, var hlutfall langtímaatvinnulausra um og yfir 35% af heildinni.
    Þessi þróun veldur vissum áhyggjum enda þótt erfitt sé að segja til um hvort langtímaatvinnuleysi sé að festast í sessi. Þetta er tiltölulega nýr vandi sem stjórnvöld og aðrir þeir sem starfa að þessum málum horfast í augu við og er mikilvægt að við honum verði brugðist. Þegar í byrjun þessa árs ákvað stjórn Vinnumálastofnunar að langtímaatvinnulausir yrðu forgangshópur í vinnumarkaðsúrræðum á árinu ásamt ungu fólki á atvinnuleysisskrá. Að því er varðar hóp langtímaatvinnulausra hefur verið lögð áhersla á menntunar- og starfstengd úrræði en þau hafa haft jákvæð áhrif á fólk sem lengi hefur verið án atvinnu. Þá er jafnframt lögð áhersla á starfsráðgjöf en í því efni var lögð áhersla á að efla einstaklingsbundna ráðgjöf.
    Úrræði til handa atvinnulausum eru ætluð til að auka tækifæri þeirra á vinnumarkaðnum. Markmiðið er ætíð að virkja einstaklinginn í atvinnuleit og koma þannig í veg fyrir að fólk verði án atvinnu til lengri tíma. Einstaklingar sem eru án atvinnu eiga kost á ýmsum úrræðum á vegum svæðisvinnumiðlana til að auka færni sína og starfsmöguleika. Helstu úrræðin eru sjálfsstyrkingarnámskeið, tölvunámskeið, menntasmiðjur af ýmsu tagi, starfsþjálfunarverkefni og starfsleitarnámskeið. Lögð er áhersla á að virkja þá sem hafa lengst verið án atvinnu en þeir njóta ákveðins forgangs um þátttöku í vinnumarkaðsúrræðum.
    Stjórnvöld munu áfram beina sjónum sínum að því að finna lausnir sem eru vænlegar til árangurs. Enn fremur má gera ráð fyrir að sú staðreynd að hér á landi sé fyrir hendi langtímaatvinnuleysi muni hafa áhrif á vinnu starfshópsins sem er að fara yfir kerfi atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsúrræða.