Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 76. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 375  —  76. mál.




Nefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2004.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.



    Nefndin hefur haft frumvarpið til athugunar og í því skyni leitað skýringa hjá fjármálaráðuneyti og fagráðuneytum varðandi beiðnir um auknar fjárheimildir.
    Meiri hluti fjárlaganefndar gerir breytingartillögur við sundurliðun 1, tekjur A-hluta, en endurskoðuð tekjuáætlun gerir ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs aukist um 1.056,3 m.kr. frá áætlun fjáraukalaga. Þá gerir meiri hlutinn 38 breytingartillögur við frumvarpið sem samtals nema 2.967,6 m.kr. til hækkunar á fjárveitingum. Loks eru lagðar til breytingar á 3. gr. frumvarpsins. Einstakar tillögur eru skýrðar í álitinu auk þess sem fjallað verður nánar um þær í framsögu.

SKÝRINGAR VIÐ EINSTAKAR BREYTINGARTILLÖGUR

00 Æðsta stjórn ríkisins

        Lagt er til að fjárheimild æðstu stjórnar ríkisins verði aukin um 48,7 m.kr.
201     Alþingi.
        1.01
Alþingiskostnaður. Gerð er tillaga um 13 m.kr. fjárveitingu þar sem áætluð útgjöld vegna varaþingmanna eru hærri en gert var ráð fyrir í fjárlögum fyrir árið 2004. Stafar það einkum af veikindum, barnsburðarleyfum og fjölda varaþingmanna í lok maí. Útgjöldin eru nú áætluð 26 m.kr. en fjárveiting nam 13 m.kr.
             Jafnframt er gerð tillaga um 4,7 m.kr. fjárveitingu þar sem verðbætur á þingfararkaup voru vanreiknaðar við gerð fjárlagatillagna 2004.
        5.20
Fasteignir. Gerð er tillaga um 16 m.kr. aukafjárveitingu til að mæta kostnaði við framkvæmdir við Alþingishús. Nú liggur fyrir endurskoðuð áætlun frá Framkvæmdasýslu ríkisins um kostnaðinn sem nemur samkvæmt henni 135 m.kr. Í september áætlaði Framkvæmdasýsla hins vegar að kostnaðurinn gæti numið 119 m.kr. og var við það miðað í frumvarpinu.
620     Ríkisendurskoðun.
        1.01
Ríkisendurskoðun. Gerð er tillaga um 15 m.kr. aukafjárveitingu sem er vegna óbættra launakrafna að fjárhæð 3,4 m.kr. og aukinna stjórnsýsluverkefna og kostnaðar vegna dómsmála að fjárhæð 11,6 m.kr. sem leiddu til halla stofnunarinnar árið 2003.

01 Forsætisráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild forsætisráðuneytis verði lækkuð um 3,7 m.kr.
190     Ýmis verkefni.
        1.90
Ýmis verkefni. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 10,5 m.kr. fjárveitingu til forsætisráðuneytis vegna fjölmiðlanefndar og fjölmiðlalaga. Hér er lagt til að hún lækki um 3,7 m.kr. og verði 6,8 m.kr. og að lækkunin gangi til menntamálaráðuneytis vegna kostnaðar sem þar féll til vegna fjölmiðlanefndar.

02 Menntamálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild menntamálaráðuneytis verði aukin um 270,7 m.kr.
101     Menntamálaráðuneyti, aðalskrifstofa.
        1.01
Yfirstjórn. Lagt er til að veitt verði 3,7 m.kr. framlag til að mæta kostnaði við starf fjölmiðlanefndar menntamálaráðherra. Um er að ræða nefndarlaun og annan kostnað af starfi nefndarinnar, þ.m.t. upplýsingaöflun og samningu greinargerðar um eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi.
319     Framhaldsskólar, almennt.
        1.90
Framhaldsskólar, óskipt. Gerð er tillaga um 200 m.kr. framlag til þess að mæta auknum útgjöldum framhaldsskóla sem stafa að mestu af fjölgun nemenda og kemur það til viðbótar 250 m.kr. framlagi í frumvarpinu. Verður rekstur framhaldsskóla í jafnvægi árið 2004 miðað við þau framlög.
973     Þjóðleikhúsið.
        1.01
Þjóðleikhúsið. Gerð er tillaga um 57 m.kr. framlag til þess að mæta kröfum eftirlitsstofnana um brunavarnir og rafmagnsöryggi í Þjóðleikhúsinu. Á undanförnum árum hefur verið unnið að endurbótum samkvæmt áætlun sem gerð var í samráði við eldvarnaeftirlitið. Áætlunin hefur riðlast og kostnaður reynst mun meiri en gert var ráð fyrir. Í ljósi nýlegs bruna og úttekta á rafkerfi hússins er lagt til að þegar verði ráðist í brýnar úrbætur.
988     Æskulýðsmál.
        1.12
Ungmennafélag Íslands. Gerð er tillaga um 10 m.kr. aukafjárveitingu vegna þriggja stórra og kostnaðarsamra verkefna hjá Ungmennafélagi Íslands. Verkefnin þrjú eru samstarf við Hrókinn um útbreiðslu á skák, sem hefur verið umfangsmeira en áætlað var og farið fram úr kostnaðaráætlun, verkefnið Blátt áfram, sem er forvarnaverkefni gegn kynferðislegu ofbeldi á börnum, og loks almenningsverkefnið Göngum um Ísland sem er unnið í samvinnu við Ferðamálaráð Íslands og Landmælingar Íslands en kostað af UMFÍ.

03 Utanríkisráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild utanríkisráðuneytis verði aukin um 77,0 m.kr.
201     Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli.
        1.10
Tollgæsla á Keflavíkurflugvelli og 1.20 Löggæsla á Keflavíkurflugvelli. Þau mistök voru gerð í frumvarpinu að setja auknar sértekjur á tvö viðfangsefni, 17 m.kr. á viðfangsefnið 1.10 Tollgæsla á Keflavíkurflugvelli og 60 m.kr. á viðfangsefnið 1.20 Löggæsla á Keflavíkurflugvelli. Hér er lagt til að þessar auknu sértekjur, 77 m.kr., verði sameinaðar á einu viðfangsefni, 1.30 Öryggisverkefni . Öryggisverkefni eru fjármögnuð með auknum tekjum sem fylgja nýjum loftferðalögum og samningi sýslumannsins við Flugmálastjórn í Keflavík.
        1.30 Öryggisverkefni.
Lagt er til að heiti viðfangsefnisins 03-201-1.30 Fíkniefnaeftirlit verði breytt í Öryggisverkefni. Á þetta viðfangsefni er nú færð velta vegna útseldrar þjónustu embættisins við öryggismál til Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli. Lagt er til að millifærðar verði 77 m.kr. sértekjur af viðfangsefnum 201-1.10 og 201-1.20 eins og að framan greinir.
             Þá er lagt er til að útgjaldaheimild til öryggisverkefna embættisins hækki um 77 m.kr. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir hækkun sértekna um 77 m.kr. en þar láðist að gera ráð fyrir hækkun útgjalda á móti og lækkuðu því framlög úr ríkissjóði sem því nemur. Með breytingum á loftferðalögum sem gerðar voru á sl. vorþingi voru lögð á hærri gjöld til að standa straum af öryggismálum og fleiri þáttum í starfsemi Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Flugmálastjórn verji hluta af þessum mörkuðu skatttekjum sínum, eða 77 m.kr., til að kaupa öryggisþjónustu af embætti sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli samkvæmt sérstökum samningi og kemur sú fjárhæð fram sem auknar sértekjur embættisins. Verkefnin sem um er að ræða eru sprengjuleit í farangri auk kostnaðar við aðgangseftirlit og aðgangsstýringu að flugvallarsvæði.

04 Landbúnaðarráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild landbúnaðarráðuneytis verði aukin um 17,0 m.kr.
233     Yfirdýralæknir.
        1.01
Yfirdýralæknir. Gerð er tillaga um 2 m.kr. fjárveitingu vegna stöðu eftirlitsdýralæknis í Svalbarðs- og Þórshafnarhreppi.
311     Landgræðsla ríkisins.
        1.90
Fyrirhleðslur. Gerð er tillaga um 15 m.kr. framlag til fyrirhleðslna við Kotá í Öræfum. Mikil hætta er á skemmdum á mannvirkjum og landi vegna vatnavaxta. Vatnsmagn árinnar hefur aukist vegna hnignunar jökulsins og því stafar hætta af landbroti.

05 Sjávarútvegsráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild sjávarútvegsráðuneytis verði aukin um 15,1 m.kr.
190     Ýmis verkefni.
        1.90
Ýmislegt. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 8,5 m.kr. framlagi til að greiða fyrir hluta taps á vísindaveiðum á hrefnu árið 2003 undir fjárlagalið Hafrannsóknastofnunarinnar. Kostnaður við verkefnið árið 2003 var hins vegar gjaldfærður á viðfangið 05-190-1.90 Ýmislegt og er því lagt til að fjárheimildin verði flutt á þann lið.
202     Hafrannsóknastofnunin.
        1.01
Almenn starfsemi. Gerð er tillaga um 15,1 m.kr. framlag til Hafrannsóknastofnunarinnar vegna taps á vísindaveiðum á hrefnu sem fram fóru í júní og júlí 2004. Kostnaður stofnunarinnar af veiðunum á árinu 2004 umfram tekjur af sölu hvalkjöts nam alls 15,1 m.kr. og er færður til gjalda hjá stofnuninni.
             Þá er 8,5 m.kr. framlag til að greiða fyrir hluta taps á vísindaveiðum á hrefnu árið 2003 millifært á viðfangið 05-190-1.90 Ýmislegt þar sem kostnaður árið 2003 var gjaldfærður þar. Framlög til stofnunarinnar hækka þannig alls um 6,6 m.kr.

06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild dóms- og kirkjumálaráðuneytis verði aukin um 26,8 m.kr.
303     Ríkislögreglustjóri.
        1.01
Ríkislögreglustjóri. Gerð er tillaga um að liðurinn hækki alls um 83 m.kr. Í fyrsta lagi er lagt til að millifærðar verði 67,5 m.kr. frá lögreglunni í Reykjavík til embættis ríkislögreglustjóra vegna breytinga á fyrirkomulagi rekstrar sérsveitar lögreglunnar samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Sérsveitin verður stoðdeild undir forsjá ríkislögreglustjóra.
             Þá er lagt til að veittar verði 24,5 m.kr. til vinnslu og endurskoðunar viðbragðsáætlana vegna hugsanlegs goss í Mýrdals- eða Eyjafjallajökli. Rannsóknir síðustu mánaða, sem byggjast á sérstakri fjárveitingu frá sumrinu 2003, leiða í ljós að óhjákvæmilegt er að endurskoða hættumat og marka nýtt hættusvæði. Ekki eru taldar miklar líkur á að flóð vegna eldgoss í Kötlu fari niður Markarfljót og til sjávar, en þó eru möguleikar á því samkvæmt rannsóknunum. Viðbragðsáætlanir vegna slíkra flóða eru ekki til og er talið brýnt að bæta þar úr. Heildarkostnaður við gerð viðbragðs- og rýmingaráætlana, kynningu, þjálfun o.fl. er áætlaður 44 m.kr. og þar af falla til 24,5 m.kr. á þessu ári.
             Loks er lagt til að millifærðar verði 9 m.kr. frá embætti ríkislögreglustjóra til lögreglustjórans í Reykjavík vegna flutnings tæknirannsókna milli embættanna. Um er að ræða eitt og hálft stöðugildi lögreglufulltrúa.
311     Lögreglustjórinn í Reykjavík.
        1.01
Lögreglustjórinn í Reykjavík. Lagt er til að millifærðar verði 9 m.kr. til embættisins frá embætti ríkislögreglustjóra vegna flutnings tæknirannsókna milli embættanna. Um er að ræða eitt og hálft stöðugildi lögreglufulltrúa.
             Þá er lagt til að millifærðar verði 67,5 m.kr. frá lögreglunni í Reykjavík til embættis ríkislögreglustjóra vegna breytinga á fyrirkomulagi rekstrar sérsveitar lögreglunnar samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Sérsveitin verður stoðdeild undir forsjá ríkislögreglustjóra. Fjárheimild lækkar þannig um 58,5 m.kr.
325     Neyðarsímsvörun.
        1.10
Neyðarsímsvörun. Lagt er til að veittar verði 2,3 m.kr. til Neyðarlínunnar vegna endurnýjunar samnings um þjónustu þyrlulækna o.fl. Landspítali – háskólasjúkrahús sagði upp samkomulagi við dómsmálaráðuneytið um umsjón og stjórn þyrluvaktar lækna, símaráðgjöf fyrir sjófarendur og læknisfræðilega forsjá Neyðarlínu í upphafi þessa árs. Í kjölfarið var ráðist í endurskoðun á skipulagi og þjónustu á þessu sviði.
424     Sýslumaðurinn á Akureyri.
        1.20
Löggæsla. Lagt er til að 10 m.kr. fjárheimild verði millifærð af fjárlagaliðnum 06- 491-6.14 Húsnæði sýslumanns í Stykkishólmi á fjárlagaliðinn 06-424-1.20 Sýslumaðurinn á Akureyri. Byggingu nýrrar lögreglustöðvar í Ólafsvík er nú lokið og fyrirséð að afgangur verður á liðnum. Lagt er til að það fjármagn verði nýtt til að standa undir kostnaði við uppsetningu á varastöð fyrir almannavarnir og fjarskiptamiðstöð lögreglunnar í húsnæði sýslumannsins á Akureyri. Lokið er breytingum á húsnæðinu á kostnað Fasteigna ríkissjóðs en nauðsynlegt er að endurnýja bæði húsbúnað og sérhæfð tæki.
491     Húsnæði og búnaður sýslumanna.
        6.14
Húsnæði sýslumanns í Stykkishólmi. Lagt er til að 10 m.kr. fjárheimild verði millifærð til sýslumannsins á Akureyri á lið 06-424-1.20 eins og að framan greinir.

07 Félagsmálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild félagsmálaráðuneytis verði aukin um 1.529,0 m.kr.
801     Jöfnunarsjóður sveitarfélaga.
        1.10
Jöfnunarsjóður sveitarfélaga. Gert er ráð fyrir 487 m.kr. hækkun á liðnum. Í fyrsta lagi er gerð tillaga um 400 m.kr. framlag í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga til að koma til móts við sveitarfélög í sérstökum fjárhagsvanda, t.d. vegna fækkunar íbúa og erfiðra ytri aðstæðna. Félagsmálaráðherra ákveður úthlutun fjárins í samráði við ráðgjafarnefnd sjóðsins og að fengnum tillögum tekjustofnanefndar.
             Þá er gert ráð fyrir að fjárheimild hækki um 63 m.kr. í samræmi við endurskoðaða áætlun um lögboðin framlög í sjóðinn árið 2004, en framlögin taka mið af skatttekjum ríkissjóðs og útsvarsstofni. Áætlunin miðast við að skatttekjur ríkissjóðs verði 257.654 m.kr. á þessu ári.
             Loks er lögð til 24 m.kr. fjárveiting til greiðslu á lögbundum framlögum ríkissjóðs í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga í árslok 2003. Er það endanlegt uppgjör á framlögum í sjóðinn í samræmi við niðurstöðu ríkisreiknings 2003.
982     Ábyrgðasjóður launa.
        1.01
Ábyrgðasjóður launa vegna gjaldþrota. Lögð er til 150 m.kr. lækkun á fjárveitingu til Ábyrgðasjóðs launa frá því sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Síðustu mánuði hefur dregið úr fjölda þeirra mála sem borist hafa sjóðnum. Áætlar félagsmálaráðuneytið og Vinnumálastofnun að útgjöld sjóðsins á árinu verði um 700 m.kr. en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir að þau yrðu um 850 m.kr.
984     Atvinnuleysistryggingasjóður.
        1.11
Atvinnuleysisbætur. Gerð er tillaga um 250 m.kr. til viðbótar við þær 948 m.kr. sem þegar er gert ráð fyrir í frumvarpinu. Fyrri áætlun byggðist á spá um 3% atvinnuleysi á árinu en nú er gert ráð fyrir að það verði 0,2% meira.
        1.25 Styrkir til fiskvinnslustöðva. Gerð er tillaga um 25 m.kr. viðbótarfjárheimild. Í fjárlögum fyrir árið 2004 var gert ráð fyrir að ná fram sparnaði með breyttum viðmiðum um greiðsluskyldu Atvinnuleysistryggingasjóðs til fiskvinnslufyrirtækja við vinnslustöðvun. Þetta markmið hefur að mestu leyti náð fram að ganga. Á hinn bóginn hvíldu skuldbindingar á Atvinnuleysistryggingasjóði vegna síðustu mánaða ársins 2003 sem komu til greiðslu á fyrstu mánuðum ársins 2004 og er hér lögð til viðbótarfjárheimild vegna þeirra skuldbindinga.
989     Fæðingarorlof.
        1.11
Fæðingarorlofssjóður. Gerð er tillaga um 880 m.kr. framlag til sjóðsins. Endurskoðuð áætlun hefur leitt í ljós að meðaltalsgreiðslur eru hærri en áætlað var og fjöldi þeirra sem fá greitt úr sjóðnum er meiri. Þannig hækka meðalgreiðslur um 20% á milli ára og stafar það m.a. af auknum fjölda karlmanna sem taka orlof. Með nýjum lögum um Fæðingarorlofssjóð sem taka gildi 1. janúar 2005 er gert ráð fyrir að útgjöld lækki nokkuð frá því sem áætlað er á árinu 2004.
        1.13
Foreldrar utan vinnumarkaðar. Gerð er tillaga um 35 m.kr. viðbótarfjárheimild vegna greiðslna í fæðingarorlofi foreldra utan vinnumarkaðar. Fleiri hafa átt rétt á greiðslum en ráð var fyrir gert í fyrri áætlun.
999     Félagsmál, ýmis starfsemi.
        1.41
Stígamót. Gerð er tillaga um 2 m.kr. aukafjárveitingu til samtakanna til að bæta rekstrarhalla sem stafar m.a. af vanmetnum kostnaði og fjölgun viðtala.

08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis verði aukin um 40,1 m.kr.
101     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, aðalskrifstofa.
        1.01
Yfirstjórn. Lögð er til 14,1 m.kr. hækkun framlags til reksturs aðalskrifstofu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis vegna aukins rekstrarkostnaðar í tengslum við flutning í nýtt og stærra húsnæði. Í forsendum fjárlaga fyrir árið 2004 miðaði heilbrigðisráðuneytið við að aðalskrifstofan yrði flutt í nýtt húsnæði um mitt ár 2004 og gerði því ráð fyrir rekstri í nýju húsnæði í hálft ár. Þær forsendur breyttust og flutti aðalskrifstofan í lok mars 2004, en ráðuneytið tók við húsnæðinu um miðjan mars. Þessi breytta tímaáætlun eykur rekstrarkostnað hins nýja húsnæðis á árinu 2004 um rúmar 9 m.kr. umfram fyrri áætlanir. Heilbrigðisráðuneytið greiddi auk þess leigu fyrir eldra húsnæði til septemberloka í samræmi við uppsagnarákvæði þess leigusamnings. Ráðuneytið greiddi því leigu á tveimur stöðum í 6,5 mánuði á árinu. Nemur sá kostnaður rúmum 6 m.kr.
             Einnig er gerð tillaga um 6 m.kr. fjárveitingu til að mæta kostnaði ráðuneytisins við fund aðalstjórnar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, forstjóra stofnunarinnar og allra framkvæmdastjóra svæðisskrifstofa, sem haldinn verður á Íslandi 8.–11. desember 2004, en ekki var gert ráð fyrir fundinum í fjárlögum. Á sama tíma og fundurinn er haldinn verður forstjóri stofnunarinnar í opinberri heimsókn á Íslandi. Fundinn sitja alls 50 manns og er áætlaður kostnaður vegna hans um 6 m.kr.
399     Heilbrigðismál, ýmis starfsemi.
        1.15
Nefnd um gerð og starfrækslu gagnagrunns á heilbrigðissviði. Lagt er til að 25 m.kr. fjárheimildir nefndar um gerð og starfrækslu gagnagrunns á heilbrigðissviði verði felldar niður þar sem verkefni nefndarinnar er lokið og engin starfsemi á hennar vegum. Jafnframt eru felldar niður jafnháar rekstrartekjur á tekjuhlið ríkissjóðs.
401     Hjúkrunarheimili, almennt.
        1.91
Ýmis verkefni öldrunar- og endurhæfingarstofnana. Gerð er tillaga um 30 m.kr. fjárveitingu til uppgjörs á rekstrarhalla sjálfseignarstofnana.
491     Reykjalundur, Mosfellsbæ.
        1.10
Reykjalundur, Mosfellsbæ. Lögð er til 15 m.kr. hækkun á fjárveitingu til endurhæfingarstöðvarinnar á Reykjalundi en það er leiðrétting á reiknuðum verðbótum samkvæmt þjónustusamningi við Reykjalund.
             Jafnframt er lagt til að 15 m.kr. verði millifærðar af fjárlagaliðnum 08-700 Heilbrigðisstofnanir. Í fjárlögum fyrir árið 2004 voru 100 m.kr. færðar á þann lið sem var hluti af 700 m.kr. viðbótarramma ráðuneytisins árið 2004 og skyldi varið til að mæta rekstrarvanda heilbrigðisstofnana.
700     Heilbrigðisstofnanir.
        1.01
Almennur rekstur. Lagt er til að 15 m.kr. verði millifærðar af þessum lið á fjárlagalið 08-491 Reykjalundur, Mosfellsbæ eins og að framan greinir.

09 Fjármálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild fjármálaráðuneytis verði aukin um 734,6 m.kr.
711     Afskriftir skattkrafna.
        1.11
Afskriftir skattkrafna. Í ljósi afskrifta það sem af er árinu er lagt til að gjaldfærðar afskrifaðar skattkröfur hækki um 1 milljarð kr. og verði 5 milljarðar kr. Þetta er gjaldfærsla en ekki greiðsla úr ríkissjóði og hefur þetta því ekki áhrif á lánsfjárjöfnuð ríkissjóðs. Aðallega er um að ræða áætlanir og dráttarvexti af þeim.
989     Launa- og verðlagsmál.
        1.90
Launa- og verðlagsmál. Gert er ráð fyrir að fjárheimildir ýmissa fjárlagaliða lækki samtals um 265,4 m.kr. og er skipting á einstök viðfangsefni sýnd í sérstöku yfirliti með breytingartillögum meiri hlutans. Í forsendum fjárlaga er ekki spáð fyrir um þróun á gengi gjaldmiðla heldur er jafnan miðað við gengi þeirra í byrjun september. Sú mikla styrking sem orðið hefur á gengi krónunnar gagnvart bandaríkjadal frá forsendum fjárlaga, eða um 10%, leiðir til lækkunar á útgjöldum tiltekinna gengisbundinna fjárlagaliða. Á það nær eingöngu við um útgjöld sem beinlínis eru greidd í bandaríkjadölum, svo sem útgjöld tiltekinna sendiráða, framlög til þróunaraðstoðar og framlög og aðildargjöld til alþjóðasamtaka. Mun minni breyting hefur orðið á gengi krónunnar gagnvart öðrum myntum, t.d. er hún óveruleg gagnvart evru. Í samræmi við endurmat á þessum forsendum er gert ráð fyrir að fjárheimildir viðkomandi fjárlagaliða verði lækkaðar sem nemur alls um 265,4 m.kr.

10 Samgönguráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild samgönguráðuneytis verði aukin um 126,2 m.kr.
101     Samgönguráðuneyti, aðalskrifstofa.
        1.01
Yfirstjórn. Lagt er til að veittar verði 4 m.kr. til aðalskrifstofu samgönguráðuneytisins vegna kostnaðar af starfi nefndar sem skipuð var til að rannsaka Skerjafjarðarslysið. Skipan nefndarinnar var samþykkt af ríkisstjórninni og var ljóst að af starfi hennar mundi hljótast nokkur kostnaður, en óvissa var um hve mikill hann yrði.
212     Framkvæmdir Vegagerðarinnar.
        6.10
Framkvæmdir. Lagt er til að breyta ráðstöfun á fjármagni til vegagerðar í samgönguáætlun 2003–2006 á þann veg að nýta allt að 140 m.kr. af ónotuðum fjárveitingum Suðurstrandarvegar til framkvæmda við þjóðveg nr. 1 um Svínahraun. Er um breytta forgangsröð að ræða með það að markmiði að gerð verði mislæg gatnamót milli nýs hluta Suðurlandsvegar og Þrengslavegar og þjóðvegurinn breikkaður um eina akrein á um 6 km kafla í Svínahrauni að Hveradalabrekku. Heildarkostnaður við þessar framkvæmdir er áætlaður um 400 m.kr. Þetta eru breytingar á fyrri áformum samgönguáætlunar sem hafa ekki áhrif á útgjöld ríkissjóðs.
335     Siglingastofnun Íslands.
        1.01
Yfirstjórn. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að útgjöld Siglingastofnunar lækki um 20 m.kr. á árinu vegna einkavæðingar skipaskoðunar og flutnings til faggiltra skoðunarstofa. Það byggðist á því að kostnaður lækkaði strax á þessu ári til jafns við lækkaðar tekjur af skipaskoðun og voru því tekjur og gjöld lækkuð um 20 m.kr. Nú hefur komið í ljós að kostnaður mun ekki lækka til fulls á þessu ári og er því gerð tillaga um 10 m.kr. fjárheimild.
471     Rekstur Flugmálastjórnar.
        1.01
Flugmálastjórn. Lagt er til að gjaldaheimildir Flugmálastjórnar verði hækkaðar um 52,2 m.kr. vegna kostnaðar sem stofnunin hefur af auknum umsvifum flugrekenda. Útgjöldunum er mætt með auknum mörkuðum tekjum.
             Jafnframt er lagt til að bein greiðsla úr ríkissjóði lækki um 69,1 m.kr. vegna aukinnar fjármögnunar með mörkuðum ríkistekjum í ljósi endurskoðaðra áætlana.
472     Flugvellir.
        6.41
Framkvæmdir. Lagt er til að veitt verði 60 m.kr. framlag til Flugmálastjórnar vegna kostnaðar sem hlýst af reglugerð um flugvernd. Reglugerðin er sett með heimild í lögum um loftferðir, nr. 60/1998. Kostnaður sem talinn er verða af setningu reglugerðarinnar felst í framkvæmdum vegna takmarkana á aðgengi að flugvöllum innan lands og kaupum á búnaði til leitar í fragt og farangri. Kostnaðinum verður mætt með auknum mörkuðum tekjum.

11 Iðnaðarráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild iðnaðarráðuneytis verði aukin um 50,0 m.kr.
411     Byggðastofnun.
        1.10
Byggðastofnun. Gerð er tillaga um 50 m.kr. framlag sem ætlað er til að greiða fyrir því að kalkþörungaverksmiðja geti risið í Vesturbyggð.

14 Umhverfisráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild umhverfisráðuneytis verði aukin um 36,1 m.kr.
101     Umhverfisráðuneyti, aðalskrifstofa.
        1.01
Yfirstjórn. Gerð er tillaga um 4,8 m.kr. fjárveitingu vegna flutnings ráðuneytisins í nýtt húsnæði við Skuggasund. Eru 0,5 m.kr. vegna hækkunar á húsaleigu og 4,3 m.kr. vegna kostnaðar við endurbætur á húsnæðinu.
211     Umhverfisstofnun.
        1.11
Endurgreiðslur til sveitarfélaga vegna veiða á ref og mink. Gerð er tillaga um 9,8 m.kr. fjárveitingu til að endurgreiða sveitarfélögum kostnað við refa- og minkaveiðar og er það uppgjör vegna ársins 2002 þar sem endurgreiðsluhlutfallið var 50%. Frá og með árinu 2003 tekur endurgreiðsluhlutfallið hins vegar mið af fjárlögum hverju sinni.
401     Náttúrufræðistofnun Íslands.
        1.02
Setur í Reykjavík. Gerð er tillaga um 12 m.kr. fjárveitingu vegna rekstrarvanda stofnunarinnar í kjölfar lækkunar sértekna á þessu ári.
             Jafnframt er gerð tillaga um 4,5 m.kr. fjárveitingu vegna húsaleigu síðastliðin þrjú ár fyrir húsnæði Náttúrufræðistofnunar við Hlemm sem Háskóli Íslands hafði áður lagt stofnuninni til endurgjaldslaust, allt þar til Fasteignir ríkissjóðs tóku við húsnæðinu á árinu 2002. Náttúrufræðistofnun fékk 3,5 m.kr. fjárveitingu vegna þessa í fjárlögum fyrir árið 2003 en húsaleiga og annar húsnæðiskostnaður er 5 m.kr. á ári. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2005 er jafnframt gert ráð fyrir 1,5 m.kr. varanlegri fjárveitingu.
410     Veðurstofa Íslands.
        1.01
Almenn starfsemi. Gerð er tillaga um 5. m.kr. fjárveitingu vegna mannaðra veðurathugunarstöðva. Með því er horfið frá áformum um að fækka þeim.


SKÝRINGAR VIÐ 3. GR.

    Lagðar eru til tvær breytingar á lánsfjárheimildum Íbúðalánasjóðs. Annars vegar er gert ráð fyrir að heimild til lántöku húsbréfadeildar lækki um 1.500 m.kr. frá því sem áður var áætlað og hins vegar að heimild til fjármögnunar viðbótarlána aukist um 2.900 m.kr. Eru breytingarnar byggðar á nýjum áætlunum sjóðsins, en í gildandi fjárlögum er gert ráð fyrir 49,6 milljarða kr. heimild til húsbréfadeildar og 10,1 milljarði kr. til viðbótarlána.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem skýrðar hafa verið hér að framan og gerð er tillaga um í sérstökum þingskjölum.

Alþingi, 16. nóv. 2004.



Magnús Stefánsson,


form., frsm.


Einar Oddur Kristjánsson.


Drífa Hjartardóttir.



Birkir J. Jónsson.


Birgir Ármannsson.


Hilmar Gunnlaugsson.