Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 546. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 825  —  546. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins fyrir árið 2004.

1. Inngangur.
    Evrópuráðsþingið er vettvangur fulltrúa þjóðþinga 46 aðildarríkja Evrópuráðsins og gegnir veigamiklu hlutverki í starfsemi þess, enda hugmyndabanki stofnunarinnar. Á þinginu sitja 630 fulltrúar sem skiptast til helminga í aðalmenn og varamenn. Þá eiga 18 áheyrnarfulltrúar rétt til setu á þinginu. Ólíkt ráðherranefndinni þar sem hvert ríki hefur eitt atkvæði fer fjöldi fulltrúa á þinginu eftir stærð þjóðar. Þingið starfar í tíu málefnanefndum. Þá sitja formenn landsdeilda í stjórnarnefnd og í sameiginlegri nefnd með ráðherranefndinni, auk þess sem tuttugu þingmenn sitja í forsætisnefnd þingsins. Loks starfa á þinginu fimm flokkahópar. Þingið kemur saman ársfjórðungslega, að jafnaði í lok janúar, apríl, júní og september. Mikilvægi þingsins felst einkum í því að:
     .      eiga frumkvæði að aðgerðum og beina tillögum til ráðherranefndarinnar,
     .      hafa eftirlit með efndum fjölþjóðlegra skuldbindinga og þrýsta á um skjótar aðgerðir,
     .      vera samráðsvettvangur þingmanna aðildarríkjanna og efla þannig tengsl þjóðþinga.
    Hlutverk Evrópuráðsins er að standa vörð um mannréttindi og lýðræði og stuðla að efnahagslegum og félagslegum framförum í öllum aðildarríkjum. Til þess beitir ráðið sér fyrir samningu og samþykkt bindandi fjölþjóðasáttmála. Ályktanir Evrópuráðsins og fjölþjóðasáttmálar sem þar eru samþykktir hafa haft víðtæk áhrif í álfunni allri. Fjölmargir sáttmálar ráðsins á ýmsum sviðum þjóðlífsins eru mikilvægar mælistikur fyrir þjóðir sem eru að koma á lýðræði og réttarríki, en mælistikur Evrópuráðsins gilda einnig fyrir aðrar fjölþjóðastofnanir og -samtök. Þar ber að sjálfsögðu hæst mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.
    Á þingfundum eru skýrslur málefnanefnda ræddar og ályktað á grundvelli þeirra. Ályktunum, tilmælum eða áliti er því næst vísað til ráðherranefndarinnar sem fjallar um þær og framkvæmir til samræmis við þær ef þurfa þykir, annaðhvort með beinum aðgerðum eða lagasetningu í þjóðþingum. Evrópuráðsþingið á því oft frumkvæði að samningu fjölþjóðlegra sáttmála sem eru lagalega bindandi fyrir aðildarríkin. Þá er Evrópuráðsþingið umræðuvettvangur fyrir stjórnmál, efnahagsmál, félagsmál, mannréttindamál, umhverfismál, menningar- og menntamál, og eina samevrópska fjölþjóðastofnunin þar sem þingmenn Vestur-, Mið- og Austur-Evrópu starfa saman á jafnréttisgrundvelli. Ólíkt Evrópuþinginu eru fulltrúar á Evrópuráðsþinginu þjóðkjörnir þingmenn og hafa störf þingsins því beina skírskotun til starfa þjóðþinganna sjálfra. Þingfundir Evrópuráðsþingsins, þar sem menn starfa saman á jafnræðisgrundvelli, bera saman bækur sínar og skiptast á hugmyndum, eru því afar mikilvægir. Hefur þetta farsæla samstarf hraðað mjög þeirri öru lýðræðisþróun sem átt hefur sér stað í Mið- og Austur-Evrópu á undangengnum árum. Þá hefur reynslan sýnt að þjóðir sem hafa skýr markmið í störfum sínum innan þingsins og kappkosta við að ná þeim geta haft áhrif langt umfram stærð og pólitískt bolmagn. Sú staðreynd varpar skýru ljósi á mikilvægi, og ekki síður möguleika, Evrópuráðsþingsins fyrir íslenska hagsmuni, ekki síst í ljósi þess að Evrópuráðið og þingmannasamkunda þess er eina samevrópska fjölþjóðastofnunin þar sem Ísland nýtur fullrar aðildar.
2. Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins.
    Fram til 1. október 2004 voru aðalmenn Íslandsdeildar Sólveig Pétursdóttir, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Kristinn H. Gunnarsson, varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, og Margrét Frímannsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Varamenn voru Árni R. Árnason, þingflokki Sjálfstæðisflokks, en við andlát hans var Birgir Ármannsson skipaður í sætið, Birkir J. Jónsson, þingflokki Framsóknarflokks, og Össur Skarphéðinsson, þingflokki Samfylkingarinnar. Við upphaf 131. löggjafarþings var kjörin ný Íslandsdeild. Þar voru aðalmenn Sólveig Pétursdóttir, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Siv Friðleifsdóttir, varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, og Össur Skarphéðinsson, þingflokki Samfylkingarinnar. Varamenn voru Birgir Ármannsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Birkir J. Jónsson, þingflokki Framsóknarflokks, og Margrét Frímannsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Ritari Íslandsdeildar var Andri Lúthersson.

3. Helstu málefni Evrópuráðsins og Evrópuráðsþingsins árið 2004.
    Frá lokum kalda stríðsins hefur Evrópuráðið m.a. gegnt því veigamikla hlutverki að styðja lýðræðis og efnahagsuppbyggingu í nýfrjálsum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu, m.a. með efnahags-, laga-, stjórnsýslu- og tækniaðstoð og kosningaeftirliti. Aðildarríkjum ráðsins hefur fjölgað ört á þeim 15 árum sem liðin eru síðan Berlínarmúrinn féll og á árinu náði stofnunin þeim merka áfanga að aðildarríkin urðu fjörutíu og sex talsins þegar Mónakó hlaut formlega aðild. Segja má að ríki Evrópuráðsins myndi nú eina órofa pólitíska heild – að Hvíta-Rússlandi einu undanskildu – og með vaxandi verkefnum og skuldbindingum aðildarríkja og auknum umsvifum er óhætt að segja að vægi ráðsins hefur því aukist verulega undanfarin ár. Framtíð Evrópuráðsins sjálfs var mjög til umræðu á árinu enda hafði verið ákveðið að efna til þriðja leiðtogafundar Evrópuráðsins í Póllandi um mitt árið 2005. Efni fundarins var mjög í umræðunni og í lok árs var mikill samhljómur um að efni og ástæður væru til að helga fundinn framtíð Evrópuráðsins í nýrri stofnanaskipan Evrópu annars vegar og hins vegar hvernig efla mætti innra starf stofnunarinnar og veita henni skýra pólitíska sýn til framtíðar.
    Á sama tíma og Evrópuráðið hefur eflst hafa aðrar evrópskar fjölþjóðastofnanir einnig gert það og er þá einkum átt við Evrópusambandið og ÖSE (Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu). Að mörgu leyti starfa þessar þrjár mikilvægu stofnanir á sömu eða svipuðum slóðum, ekki bara landfræðilega, heldur einnig þegar litið er til málaflokkanna – lýðræðis, mannréttinda og réttarríkisins. Í þessu samhengi hefur Evrópusambandið að sjálfsögðu nokkra sérstöðu enda um mun dýpra og víðtækara samstarf þar að ræða. Nokkurra væringa hefur hins vegar gætt í samskiptum þessara þriggja stofnana á síðustu árum – sérstaklega þó Evrópuráðsins og ÖSE – og hafa menn greint mikla samkeppni milli þeirra um verkefni og skyldur. Báðar stofnanir eru fjármagnaðar með framlögum aðildarríkjanna og því um eðlilega samkeppni um fjármagn að ræða en á hinn bóginn hefur einnig orðið vart við vissan tvíverknað sem getur orðið aðildarríkjunum kostnaðarsamur. Evrópuráðið er í raun eina samevrópska stofnunin sem hefur svo mörg Evrópuríki innanborðs frá vestri til austurs. Þessi staðreynd gerir það að verkum að Evrópuráðið er í ákjósanlegri stöðu til að ná árangri við framrás grundvallargilda sinna, lýðræðis, mannréttinda og réttarríkis, í gegnum sáttmálasafn stofnunarinnar og sérfræðistofnanir þess. Einnig hefur verið nefnt að Evrópuráðið sé „eðlilegur“ samstarfsaðili Evrópusambandsins og í þessu ljósi bæri sambandinu að nýta sérfræðiþekkingu og -stofnanir Evrópuráðsins mun betur en gert hefði verið til þessa.
    Starfsemi Evrópuráðsþingsins var víðfeðm á árinu og málaflokkarnir sem til umræðu voru þinginu og í nefndum þess fjölmargir. Sem endranær voru það pólitísku málin, átök og milliríkjadeilur, sem mesta athygli fönguðu á þingfundum og af þeim málum má nefna aðdraganda stríðsins í Írak og uppbyggingarstarfið þar í landi, sambúð Bandaríkjanna og Evrópu, deilurnar fyrir botni Miðjarðarhafs, lýðræðisþróunina í Georgíu, forsetakosningar í Úkraínu, baráttuna gegn hryðjuverkastarfsemi og hlutverk Sameinuðu þjóðanna. Eru þetta aðeins fá af þeim málum sem mikla athygli hlutu á þingfundum Evrópuráðsins. Íslandsdeildin tók þátt í flestum þessara umræðna, auk margra annarra, og var afar virk í störfum þingsins.
    Nýr framkvæmdastjóri Evrópuráðsins var kjörinn á júnífundi þingsins og hlaut breski þingmaðurinn Terry Davis flest atkvæði og sigraði fráfarandi framkvæmdastjóra, Walter Schwimmer, og utanríkisráðherra Eistlands, Kristinu Ojuland. Þá tók nýr íslenskur dómari sæti í Mannréttindadómstól Evrópu en dómarar eru, líkt og framkvæmdastjórar stofnunarinnar, kosnir af Evrópuráðsþinginu.
    Hér á eftir fara ítarlegri upplýsingar um starfsemi Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins á árinu 2003.

4. Þingfundur Evrópuráðsþingsins 2004.
a. Fyrsti hluti þingsins.
    Dagana 26.–30. janúar fór fyrsti hluti þingfundar Evrópuráðsþingsins árið 2004 fram í Strassborg. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Sólveig Pétursdóttir, Kristinn H. Gunnarsson og Margrét Frímannsdóttir, auk Andra Lútherssonar ritara. Á janúarfundi Evrópuráðsþingsins var m.a. efnt til brýnnar utandagskrárumræðu um hryðjuverkastarfsemi og þá ógn sem lýðræðisríkjum stafar af henni. Til grundvallar umræðunum lá skýrsla tyrkneska þingmannsins Murat Mercan þar sem ráðherraráð Evrópuráðsins var m.a. hvatt til þess að hefja vinnu við að leggja drög að sáttmála um baráttu gegn hryðjuverkum og að í þeim sáttmála væri hryðjuverkastarfsemi skilgreind. Þá kom í skýrslunni fram að örðugt hefði verið fyrir Sameinuðu þjóðirnar að leggja slík drög þar eð mikill ágreiningur hefur verið uppi meðal aðildarríkja um skilgreiningu á hryðjuverkum. Einnig var efnt til brýnnar utandagskrárumræðu um stjórnarskrárvandann í Úkraínu. Til stóð að ræða skýrslu Svisslendingsins Dicks Martys um líknardráp á þingfundinum í janúar í ljósi þess að á fundi þingsins í október hafði meiri hluti þingheims fellt það út af dagskrá og vísað málinu aftur til nefndar. Félags-, heilbrigðis- og fjölskyldumálanefnd þingsins tók málið aftur á dagskrá og skýrslunni og ályktunardrögum var breytt lítillega til samræmis við fyrri umræður. Hins vegar var enn andstaða við skýrsludrögin á janúarþinginu og samþykkti þingheimur að vísa málinu til nefndar á ný. Og lá í loftinu að líklega yrði málið fært á dagskrá á næsta fundi þingsins að nýju. Þá bar það til tíðinda fyrsta þingdag að fulltrúar landsdeilda Möltu og Írlands voru sviptir atkvæðisrétti sínum. Forsaga þess máls var sú að á haustfundi Evrópuráðsþingsins 2003 var samþykkt ályktun og tilmæli frá jafnréttisnefnd þingsins um að allar landsdeildir sem sæti ættu á þinginu skyldu vera skipaðar að minnsta kosti einum fulltrúa annars hvors kynsins ellegar missa atkvæðisrétt sinn á þinginu og í nefndum. Nokkrar landsdeildir voru eingöngu skipaðar körlum og var þeim ritað bréf frá framkvæmdastjóra þingsins í byrjun ársins 2004 þar sem minnt var á breytingarnar sem samþykktar höfðu verið. Í byrjun janúarþingsins voru fimm landsdeildir sem enn var þannig ástatt um. Í þremur tilfellum voru konur skipaðar í landsdeildirnar áður en þingfundur hófst, en í tilfelli Möltu og Írlands náðist það ekki. Voru fulltrúarnir því sviptir atkvæðisrétti sínum fram að næsta þingfundi þegar kjörbréf sendinefndanna tveggja yrðu yfirfarin á ný. Í ávarpi þingforsetans, Peters Schieders, varð honum tíðrætt um þau áhrif sem þjóðþingin hefðu á málefni líðandi stundar og sagði að áhrifavaldi því væru settar ýmsar skorður á tímum aukinnar hnattvæðingar og samkeppni um athygli fjölmiðla. Á hinn bóginn hefði Evrópuráðsþingið uppfyllt skyldur sínar gagnvart umbjóðendum sínum afar vel á síðustu árum, ekki síst með því að veita ríkisstjórnum aðildarríkjanna verulegt aðhald. Slíkt aðhald birtist t.a.m. í því þegar ráðherrar, þjóðhöfðingjar og aðrir tignargestir ávörpuðu þingheim og svöruðu spurningum þingmanna.
    Íslandsdeildin tók að venju virkan þátt í þingstörfunum og sótti nefndarfundi í viðkomandi nefndum. Sólveig Pétursdóttir tók þátt í umræðum um hryðjuverkastarfsemi og ógn hryðjuverka við lýðræðissamfélög og var talsmaður flokkahóps hægrimanna. Í ræðu Sólveigar kom fram að áhrifa hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin gætti enn og að umtalsverður árangur hefði náðst að undanförnu í baráttunni gegn hryðjuverkum. Hins vegar væru margar hindranir á þeirri leið. Sagði hún að þessi barátta kallaði á nýjar og breyttar aðferðir og að sumar þjóðir hefðu verið lengur en aðrar að átta sig á hinni nýju heimsmynd í kjölfar hryðjuverkanna 11. september 2001. Hins vegar væri staðan nú um stundir sú að allir ættu að geta talað sama máli og því væri brýn þörf á því að friðelskandi þjóðir Evrópu sameinuðust í þessari baráttu. Varaði Sólveig jafnframt við áhrifum þess að grafa undan farsælu öryggissamstarfi Atlantshafsþjóða sem kynni að afvegaleiða hina afar knýjandi umræðu um baráttuna gegn hryðjuverkum. Þá sagði þingmaðurinn að leiðir til að stemma stigu við hryðjuverkaógninni væru mun fleiri en beiting hervalds sem lokaúrræði. Sagði hún t.a.m. ríka nauðsyn vera á því að alþjóðasamfélagið almennt og Evrópuráðið sérstaklega næðu samstöðu um heildrænan alþjóðasáttmála um baráttuna gegn hryðjuverkum. Hryðjuverk væru hrein ógn við lýðræðið og að breytinga á sviði alþjóðalaga væri þörf til að uppræta þá ógn.
    Þá tók Sólveig Pétursdóttir þátt í umræðum um stöðu almenningsfjölmiðla og sagði í ræðu sinni að sjálfstæði og frelsi almenningsútvarps- og sjónvarpskerfa væri grundvallarforsenda lýðræðisins. Sólveig, sem var talsmaður hægrimanna í umræðunum, sagði að í Evrópu væru víða blikur á lofti hvað starfsemi þessara almenningsfjölmiðla varðaði, hvort sem þeir séu í eigu ríkisins eða einkaaðila. Annars vegar hefðu stjórnvöld í Austur-Evrópu vegið að starfsemi og sjálfstæði fjölmiðlanna og að nauðsynlegt væri að úrbótum, sem alþjóðasamfélagið hefur beitt sér fyrir, yrði hrundið í framkvæmd. Sagði hún stöðuna allt aðra þegar litið væri á Vestur-Evrópuríki, þar sem víðast hvar hefði átt sér stað samþjöppun á fjölmiðlamarkaði. Athugunarvert væri hvort og þá hvernig Evrópuríkin gætu stemmt stigu við samþjöppun á fjölmiðlamarkaði. Í ræðunni kom fram að þessi mál væru ofarlega á baugi á Íslandi og að þar væri að störfum nefnd er fjallaði um hringamyndun á fjölmiðlamarkaði. Sólveig lagði áherslu á að stjórnvöldum í Evrópuríkjum bæri að slá skjaldborg um tjáningarfrelsið og sjálfstæði fjölmiðla, en að á sama tíma yrði að gæta þess að ekki væri vegið að almannahagsmunum. Þá sagði hún almenningsfjölmiðla og sem óheftur aðgangur er að, vera afar mikilvæga í menningarlegu tilliti, sérstaklega í löndum eins og Íslandi, þar sem mikill menningararfur væri fólginn í tungumálinu.
    Fundinn ávörpuðu eftirtaldir: Alvaro Gil-Robles, mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins, Walter Schwimmer, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, Tassos Papadopoulos, forseti Kýpur, Bernard Rudolf Bot, utanríkisráðherra Hollands sem fór með formennsku í ráðherraráði Evrópuráðsins fyrri hluta ársins 2004, Mikhail Saakashvili, forseti Georgíu, og Sergio Páes Verdugo, forseti Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU).

b. Annar hluti þingsins.
    Dagana 26.–30. apríl fór annar hluti þingfundar Evrópuráðsþingsins árið 2004 fram í Strassborg. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Sólveig Pétursdóttir, Kristinn H. Gunnarsson og Margrét Frímannsdóttir í fjarveru Össurar Skarphéðinssonar, auk Andra Lútherssonar ritara. Á aprílfundi Evrópuráðsþingsins var m.a. efnt til fjögurra umræðna undir dagskrárliðnum brýn utandagskrárumræða, þ.e. um málefni nýrrar innflytjendastefnu Hollands og stöðu mála í Kosovo-héraði, Kýpur og Armeníu. Af öðrum málum sem miklar umræður stóðu um má nefna eflingu Sameinuðu þjóðanna og umræður um líknardráp en þeim hafði tvívegis verið skotið á frest áður. Á þingfundinum voru kjörnir fulltrúar 18 Evrópuráðsríkja til setu í Mannréttindadómstól Evrópu, þ.m.t. Íslands. Davíð Þór Björgvinsson lagaprófessor var kjörinn fulltrúi Íslands til setu í dómstólnum með miklum meiri hluta atkvæða og tók hann um haustið sæti Gauks heitins Jörundssonar. Peter Schieder, forseti Evrópuráðsþingsins, hélt ræðu við upphaf þingfundarins mánudaginn 26. apríl og sagði meðal annars að hann fagnaði því sérstaklega að allar landsdeildirnar sem sæti ættu á Evrópuráðsþinginu væru nú skipaðar bæði konum og körlum og þakkaði breytingar þær á þingsköpum sem samþykktar voru árið 2003. Nokkur órói hafði skapast á fyrsta þingfundi ársins 2004 þegar tvær landsdeildir, Möltu og Írlands, höfðu aðeins á körlum að skipa. Nú hefðu konur verið skipaðar í landsdeildirnar og sagði Schieder að Evrópuráðsþingið væri nú að mörgu leyti fyrirmynd annarra alþjóðaþingmannasamkundna en jafnframt að hann vonaðist eftir að konur mundu í náinni framtíð skipa mun fleiri sæti í landsdeildum en þær gerðu nú. Vék hann því næst að málefnum þingsins og sagði að sjá mætti glögglega á dagskrá þingsins að þar væru til umræðu þau mál sem mest brynnu á Evrópubúum þessa dagana. Hann sagði að á undanförnum árum hefði þingið beitt sér mjög hart fyrir að hefja umræður um erfið úrlausnarefni. Fagnaði hann þessu og sagðist vonast til að framhald yrði á. Ræddi hann sérstaklega um málefni Kýpur og lýsti yfir djúpum vonbrigðum sínum með að Kýpur-Grikkir hefðu fellt sameiningu við tyrkneska hlutann í þjóðaratkvæðagreiðslu nokkrum dögum áður. Sagði hann að Evrópuráðsþingið virti úrslitin en að vonbrigðin væru mikil. Sögulegt tækifæri hefði gengið úr greipum. Þá vék hann máli sínu að Ísrael og fordæmdi morð á tveimur leiðtogum Hamas- hreyfingarinnar. Schieder sagðist telja málefni Miðausturlanda vera í blindgötu ofbeldis og að verknaður Ísraelsstjórnar hefði gert lítið annað en að hella frekari olíu á eldinn. Mannréttindi almennra borgara yrði að virða og báðir deiluaðilar yrðu að bæta ráð sitt. Að lokum ræddi Schieder um stækkun Evrópusambandsins og sagði að stór og mikilvægur áfangi í ferli friðar og farsældar mundi nást 1. maí er tíu ný ríki gerðust aðilar að sambandinu. Af þeim málum sem rædd voru í Strassborg að þessu sinni má nefna málefni Hvíta-Rússlands. Þingið samþykkti á fundi sínum að beita hvít-rússnesk stjórnvöld „pólitískum hámarksþrýstingi“ með það að markmiði að þau upplýstu um afdrif fjögurra andófsmanna sem hurfu sporlaust á árunum 1999 og 2000. Var samþykkt að refsiaðgerðum yrði beitt sem meðal annars fælust í því að hugsanlega yrði Hvíta-Rússlandi meinuð öll aðild að ákvörðunum og framkvæmd samþykkta Evrópuráðsins og að pólitísk samskipti yrðu lítil sem engin. Að sama skapi yrði aukið mjög við samskipti Evrópuráðsins við félagasamtök. Á fundi sínum samþykkti Evrópuráðsþingið tillögur til úrbóta fyrir Mannréttindadómstól Evrópu sem á síðustu árum hefur átt í miklum erfiðleikum með að sinna öllum þeim mikla fjölda kærumála sem til hans berst, einkum frá nýju aðildarríkjunum í Mið- og Austur- Evrópu. Mæltist þingið meðal annars til þess að aðildarríkin öxluðu auknar byrðar við framkvæmd mannréttindasáttmála Evrópu. Í ályktun þingsins var enn fremur stutt að kjörtímabil dómara við dómstólinn skyldi vera 9 ár og að þeir gætu ekki verið endurkjörnir.
    Sólveig Pétursdóttir, formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins, tók þátt í umræðum þingsins um eflingu Sameinuðu þjóðanna og var þar talsmaður flokkahóps hægrimanna. Í ræðu sinni tók Sólveig undir með öðrum ræðumönnum sem sögðu að Íraksstríðið hefði reynt mjög á þanþol Sameinuðu þjóðanna og að á mörgum sviðum hefðu samtökin brugðist án þess þó að sökinni væri skellt á eitt ríki öðrum fremur. Slíkt hefði einnig gerst áður, t.a.m. á Balkanskaga, og svæðisbundnar stofnanir líkt og Atlantshafsbandalagið orðið að grípa inn í hættuástand til að afstýra frekari hörmungum. Sagði hún að allir hlytu að vera þeirrar skoðunar að það væri eflingu stofnunarinnar síst til framdráttar að ásaka einstök ríki fyrir að ekki hefði náðst samstaða um tiltekin mál í öryggisráðinu. Umbætur til framtíðar væru lykilatriðið.
    Sólveig sagði að Sameinuðu þjóðirnar væru hinn rétti vettvangur fyrir mörg afar mikilvæg málefni og með starfi sínu ynnu samtökin að bættum hag hundruða milljóna manna þótt kastljósi fjölmiðla væri beint annað. Baráttan gegn mansali, alnæmi og fátækt væru fáein dæmi um þá mikilvægu málaflokka sem Sameinuðu þjóðirnar beittu sér fyrir úrlausn á. Í ræðunni sagði Sólveig að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna yrði að endurspegla aðildarríki stofnunarinnar og jafnframt yrði að gæta að skilvirkni stofnunarinnar. Taldi hún að aukinn fjöldi sæta í öryggisráðinu, bæði fastafulltrúa og kjörinna, hefði mikið gildi og að ný ríki sem hlytu fast sæti í öryggisráðinu undirgengust sömu skyldur og nytu sömu réttinda og þau sem fyrir eru. Sagði Sólveig að minni ríki gætu haft pólitísk áhrif á alþjóðavettvangi og í flestum tilfellum væru þau áhrif afar jákvæð. Í mörgum tilfellum væru smærri ríki betur til þess fallin að miðla málum og Norðurlöndin væru gott dæmi um það. Þá sagði hún að Íslendingar hefðu tilkynnt um framboð sitt til setu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna fyrir árin 2009–2010 og væri það rökrétt framhald á þeirri stefnu íslenskra stjórnvalda að stuðla að friði, öryggi, lýðræði og hagsæld.
    Fundinn ávörpuðu eftirtaldir: Stéphane Valéri, forseti þjóðarráðs Mónakó, Ivo Sanader, forsætisráðherra Króatíu, Nurtay Abikayev, forseti þjóðþings Kasakstan, Jan Peter Balkenende, forsætisráðherra Hollands, og Ilham Aliiyev, forseti Aserbaídsjan.

c. Þriðji hluti þingsins.
    Dagana 21.–25. júní fór þriðji hluti þingfundar Evrópuráðsþingsins árið 2004 fram í Strassborg. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Sólveig Pétursdóttir, Kristinn H. Gunnarsson og Össur Skarphéðinsson, auk Andra Lútherssonar ritara. Þá sótti Margrét Frímannsdóttir nefndarfundi. Á júnífundi Evrópuráðsþingsins bar einna hæst kjör í embætti framkvæmdastjóra Evrópuráðsins en kosið er í þá stöðu af þingheimi á fjögurra ára fresti. Þrír höfðu sótt um stöðuna að þessu sinni, breski þingmaðurinn Terry Davis, formaður flokkahóps jafnaðarmanna á þinginu, Kristina Ojuland, utanríkisráðherra Eistlands og fyrrum formaður flokkahóps frjálslyndra, og Walter Schwimmer, fráfarandi framkvæmdastjóri Evrópuráðsins. Úrslit urðu á þann veg að Terry Davis hlaut meiri hluta atkvæða í fyrstu umferð og var þar með kjörinn framkvæmdastjóri til næstu fjögurra ára. Næstflest atkvæði hlaut Schwimmer og kom Ojuland þar nokkuð á eftir.
    Í upphafsávarpi Peters Schieders ræddi hann nokkuð um úrslit Evrópuþingskosninganna sem farið höfðu fram stuttu áður í öllum aðildarríkjunum, þar á meðal nýju ríkjunum tíu. Sagði Schieder að kosningarnar hefðu verið gríðarmiklar að umfangi og að framkvæmd þeirra ættu í raun að vera gleðiefni. Á hinn bóginn hefðu úrslit þeirra þau áhrif að menn verði að hugsa næstu skref. Fyrir tuttugu árum hefði þátttaka í Evrópuþingskosningum verið um og yfir fimmtíu af hundraði. Nú væri staðan hins vegar allt önnur. Meðaltalið væri um 45% og það sem meira væri, í sumum af nýju aðildarríkjunum hefði kosningaþátttakan verið um 20% og jafnvel minni. Á sama tíma og þessi þróun ætti sér stað hefðu ýmsir flokkahópar sem aðhylltust lýðskrum og öfgastefnu vaxið mjög í fylgi. Þá hefðu enn fremur frambjóðendur sem hefðu uppi mjög opinskáa og óvægna gagnrýni á ESB aukið við fylgi sitt. Sagði þingforsetinn að svo virtist vera sem Evrópuþingið bæri allan skaða af öllu því sem framkvæmdaarmur ESB hefði láðst að gera á undanförnum árum. Evrópusambandinu bæri skylda til að upplýsa Evrópubúa um á hvaða vegferð sambandið sé og hver séu meginmarkmið þess en sá boðskapur hefði því miður greinilega ekki komist til skila. Sagði Schieder að þetta væri mikið áhyggjuefni, ekki bara fyrir ESB, heldur fyrir alla Evrópubúa. Stofnanir og samtök Evrópuríkja yrðu að taka þessa stöðu með í reikninginn og reyna að snúa við blaðinu og koma fram með jákvæð skilaboð. Eitt skref í þessa átt væri t.a.m. opinská og almenn umræða um stjórnarskrárdrög sambandsins sem ættu enn eftir að hljóta samþykki aðildarríkjanna tuttugu og fimm. Af þeim fjölmörgu málum sem rædd voru á þinginu að þessu sinni voru til dæmis skuldbindingar Tyrklands á vettvangi Evrópuráðsins. Samþykkti þingið að hætta eftirliti með lýðræðisumbótum í landinu og lýsti því yfir að lagaumbætur síðustu þriggja ára hefðu skilað meiri árangri en allan áratuginn þar á undan. Sérstaklega var tekið til stjórnarskrárbreytinga þar sem dauðadómar voru afnumdir og að ríkisvaldið leyfði ekki nokkurt form af pyntingum. Þá kom fram í tilmælum þingsins að mikill árangur hefði náðst í að knýja fram aukin borgaraleg réttindi. Af öðrum málum má nefna skýrslu þingsins um framlag Evrópuráðsins til friðar í Írak sem fjallað var um undir liðnum brýn utandagskrárumræða. Samþykkti þingið að Evrópuráðið ætti að verða við beiðni Sameinuðu þjóðanna um að aðstoða við uppbyggingarferlið og eflingu lýðræðis í landinu. Beindi þingið þeim tilmælum til ráðherraráðsins að sérfræðingar Feneyjanefndarinnar yrðu fengnir til að aðstoða Íraka við að leggja drög að nýrri stjórnarskrá. Í upphafi þingfundar höfðu komið fram tvær aðrar beiðnir um brýna utandagskrárumræðu, um stöðu mála í Téténíu og um þriðja leiðtogafund Evrópuráðsins. Hlutu þessi mál ekki nægan fjölda atkvæða til að verða tekin fyrir á dagskrá.
    Íslandsdeildin tók að venju virkan þátt í þingstörfunum og sótti nefndarfundi í viðkomandi nefndum. Sólveig Pétursdóttir, formaður Íslandsdeildarinnar og talsmaður flokkahóps hægrimanna, tók þátt í umræðum þingsins um skýrslu Ítalans Guiseppe Gaburro um heimilisþrældóm þar sem fjallað var um sívaxandi vanda af ólöglegri starfsemi tengdri flutningi kvenna frá fátækum svæðum til ríkja í Evrópu þar sem þeim væri haldið gegn vilja sínum og gert að vinna gegn afar lágum launum eða launalaust. Í skýrslunni kemur fram að í upphafi er ungt fólk, oftast konur, ginnt til að koma til Evrópu til starfa eða sem skiptinemar eða til að giftast. Flestar konur flyttust búferlum sjálfviljugar en þegar á áfangastað væri komið væru þær oft neyddar til starfa gegn hótunum. Greindi skýrslan frá því að skipuleg glæpasamtök leituðust við að lokka konur til Evrópu á þennan hátt og þrifust þannig á fátækt og fáfræði fórnarlambanna. Í ræðu Sólveigar kom fram að ekki væri hægt að nefna ánauð erlendra kvenna sem haldið væri föngnum á heimilum í Evrópu neitt annað en nútímaþrældóm. Evrópuráðið ætti ekki að líða nútímaþrælahald hvort sem það væri inni á heimilum eða annars staðar. Sólveig sagði að mannréttindi margra kvenna væru þannig þverbrotin. Til þessa hefði oft lítið verið hægt að gera til að rétta fórnarlömbunum hjálparhönd því að úrræðin skorti, þ.e. löggjöf aðildarríkja tæki ekki mið af aðstæðum þessara kvenna. Hvatti hún til þess að ríki endurskoðuðu innflytjenda- og refsilög svo að fórnarlömb slíkra glæpa gætu kært brotamennina og fengið alla nauðsynlega aðstoð. Hún benti enn fremur á að þau vandamál sem fjallað væri um í skýrslunni, þ.e. heimilisþjónusta, au pair, skiptinemaáætlanir og póstlistagiftingar tengdust oft mansali. Mansal væri sérstakt vandamál sem Evrópuráðið yrði nauðsynlega að taka á strax. Sólveig vakti athygli á breytingum á íslenskri löggjöf í þessu sambandi, bæði útlendingalögum og hegningarlögum. Þá tók hún undir tilmæli í skýrslunni um að þörf væri á að ræða sérstaklega drög að bókun eða sáttmála Evrópuráðsins er fjallaði um réttindi heimilisstarfsmanna. Sagði Sólveig að þetta væri brýnn vandi sem sneri einnig að löglegri starfsemi á sviði vinnumiðlunar og skiptinemaáætlana. Glæpasamtök gætu þannig staðið fullkomlega löglegri og nauðsynlegri starfsemi fyrir þrifum og stjórnvöld yrðu því að hafa færar leiðir til að skilja á milli löglegrar starfsemi og ólöglegrar.
    Össur Skarphéðinsson lagði á fundi flóttamannanefndarinnar fram skýrslubeiðni sína um málefni alþjóðlegra starfsmannaleigna til undirritunar. Í skýrslubeiðninni kom fram að starfsemi margra alþjóðlegra starfsmannaleigna brytu í bága við mannréttindi og að brögð hefðu verið að því að þær nýttu sér óljósa löggjöf í þeim löndum þangað sem þær sendu erlent vinnuafl. Farið var fram á að Evrópuráðsþingið rannsakaði starfsmannaleigumarkaðinn í skýrslu sem tekin yrði síðar fyrir af þinginu. hlaut beiðnin áskilin fjölda undirskrifta og var þar með vísað til fastanefndar þingsins til frekari afgreiðslu.
    Fundinn ávörpuðu eftirtaldir: Jean-Claude Trichet, bankastjóri Seðlabanka Evrópu, Jan Petersen, utanríkisráðherra Noregs sem fer með formennsku í ráðherraráði Evrópuráðsins seinni hluta árs 2004, Jean Lemierre, bankastjóri Evrópska uppbyggingar- og framþróunarbankans, Kjell Magne Bondevik, forsætisráðherra Noregs, og Robert Kocharian, forseti Armeníu.

d. Fjórði hluti þingsins.
    Dagana 4.–8. október fór fjórði hluti þingfundar Evrópuráðsþingsins árið 2004 fram í Strassborg. Fundinn sóttu af hálfu nýskipaðrar Íslandsdeildar Sólveig Pétursdóttir, Siv Friðleifsdóttir og Margrét Frímannsdóttir, í fjarveru Össurar Skarphéðinssonar, auk Andra Lútherssonar ritara. Þess má geta að í þetta sinn var Íslandsdeildin eina landsdeildin á þingfundinum sem eingöngu var skipuð konum. Á haustfundi Evrópuráðsþingsins bar einna hæst umræður um hryðjuverk, stöðu mála í Téténíu, kosningaþátttöku kvenna og umræður um skuldbindingar Serbíu og Svartfjallalands á vettvangi Evrópuráðsins. Þingið samþykkti ályktun um áhrif hryðjuverka á aðildarríki Evrópuráðsins þar sem hvatt var til þess að stofnunin beitti sér fyrir að komið væri á sameiginlegu lagalegu umhverfi hvað aðgerðir gegn skipulegum hryðjuverkum varðar. Í því samhengi var enn fremur mælst til þess að Evrópuráðsríkin kæmust að sameiginlegri niðurstöðu um eina skilgreiningu á hryðjuverkum, en skortur á slíkri skilgreiningu er oft talin standa sameiginlegum aðgerðum fyrir þrifum. Þá hvatti þingið til þess að vitnavernd yrði aukin í aðildarríkjunum svo auðveldara yrði að sækja hryðjuverkamenn til saka. Í ályktuninni kom einnig fram að efla ætti samvinnu milli lögreglu, sérsveita og dómskerfis aðildarríkjanna og jafnframt að íhuga bæri möguleikann á að útvíkka sameiginlegu handtökuskipun Evrópusambandsins til Evrópuráðsríkjanna allra. Þá hvatti þingið til þess að lögsaga stríðsglæpadómstóls Sameinuðu þjóðanna næði einnig til hryðjuverka. Í umræðum um stöðu mála í Téténíu var vikið að hryðjuverkaógninni og nýliðnum atburðum í Beslan. Í ræðum kom fram að mannréttindi í Téténíu væru þverbrotin og aðstæður almennra borgara óásættanlegar og að svo hefði lengi verið. Jafnframt kom fram að héraðið væri að mörgu leyti orðið gróðrarstía fyrir upprennandi hryðjuverkamenn. Í ályktun þingsins var mælst til þess að Evrópuráðið beitti sér fyrir því að efnt yrði til hringborðsumræðna um ástand mála í Téténíu með þátttöku allra hlutaðeigandi aðila og að meginmarkmið þeirra ætti að vera að fylgjast með ástandi í mannréttindamálum, dómsmálum og lýðræðisþróun í lýðveldinu. Þá var mælst til þess að fram færi söfnun og upptaka léttvopna og að baráttan gegn skipulegri glæpastarfsemi yrði efld sem og að frjálsir fjölmiðlar yrðu styrktir.
    Í upphafsávarpi sínu ræddi Peter Schieder, forseti þingsins, um hryðjuverkaógnina og sagði að í starfi sínu á síðustu tveimur árum hefði hann þurft allt of oft að senda forsetum þjóðþinga aðildarríkjanna samúðarkveðjur vegna válegra tíðinda. Sú hafði einnig verið raunin nokkrum vikum fyrr eftir atburðina í Beslan. Fagnaði hann miklum áhuga þingsins á hryðjuverkaumræðunni og yfirlýstum vilja þess til að samræma aðgerðir aðildarríkja Evrópuráðsins til að stemma stigu við þeirri ógn sem af alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi hlytist. Þó vildi hann nota tækifærið og minna á að hryðjuverkaöfl spryttu ekki upp úr engu. Þar lægju ýmsar forsendur til grundvallar og menn yrðu að huga að því úr hvaða umhverfi hryðjuverkamenn eru sprottnir á sama tíma og fordæma bæri öll verk af þeirra hendi. Í annan stað minnti hann fulltrúa á að það væri skylda þingmanna að skilja á milli þess sem talist gætu eðlileg viðbrögð við hryðjuverkavánni og þeirrar tilhneigingar stjórnvalda margra ríkja að kasta ýmsum almennum lýðréttindum fyrir róða undir því yfirskyni að um baráttu gegn hryðjuverkum væri að ræða. Ítrekaði Schieder að ef hryðjuverkamönnum tækist að ginna þjóðir inn á slíkar brautir þá færu þeir með sigur af hólmi. Þá vék forsetinn máli sínu að samskiptum Evrópuráðsins við Afríkuálfu og fagnaði stofnun afríska þingmannasambandsins fyrr á árinu. Sagði hann að Evrópuríkjum bæri að efla hjálparstarf í Afríku með það fyrir augum að lina þjáningar og harðræði þeirra milljóna sem sýktar væru af alnæmi. Nefndi hann að í löndunum sunnan Sahara væru ellefu milljónir barna sem misst hefðu foreldra sína úr alnæmi. Setti Schieder þetta í samhengi við íbúatölur í Evrópu og sagði að ef þessir munaðarleysingjar teldust vera ein Evrópuþjóð þá væri hún tólfta stærsta aðildarríki Evrópuráðsins. Sagði hann að Evrópuráðsþinginu bæri að láta rödd sína heyrast í þessu brýna máli og ef það yrði rætt í Strassborg mundi það vekja athygli og eftirtekt á alþjóðavettvangi. Þá sagði hann frá því að með fullri aðild Mónakó að Evrópuráðinu síðar í vikunni mynduðu aðildarríkin órofa heild Evrópuríkja að frátöldu Hvíta-Rússlandi. Vildi hann nota tækifærið og hvetja hvít-rússnesk stjórnvöld að stíga þau skref sem nauðsynleg væru til að sameinast fjölskyldu Evrópuríkja.
    Terry Davis, sem kjörinn var framkvæmdastjóri Evrópuráðsins á sumarfundi þingsins, ávarpaði þingið í fyrsta sinn á haustfundi þess. Í framsögu sinni fór hann yfir helstu forgangsmál sín og ræddi þar meðal annars um leiðtogafund Evrópuráðsins sem ráðgert er að halda í Varsjá í maí á næsta ári. Þá ræddi hann um aðgerðir Evrópuráðsins í baráttunni gegn hryðjuverkum og mansali jafnframt því sem hann ræddi um samskipti Evrópuráðsins við aðrar samevrópskar alþjóðastofnanir á borð við Evrópusambandið og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu.
    Íslandsdeildin tók að venju virkan þátt í þingstörfunum og sótti nefndarfundi í viðkomandi nefndum. Sólveig Pétursdóttir tók þátt í umræðum um hryðjuverkavána í Evrópuráðsríkjum, sem talsmaður flokkahóps hægrimanna, þar sem hún fordæmdi harðlega nýlegar hryðjuverkaárásir í Rússlandi. Í ræðunni kom fram að alþjóðasamfélagið hefði horft skelfingu lostið á atburðina í Beslan og fólk spyrði sig hvernig einstaklingar gætu framið slík óhæfuverk og hvað þeir teldu sig áorka með slíkum aðgerðum. Svörin væru hvorki einföld né augljós. Um skipulega starfsemi væri að ræða og að ásetningurinn væri að vekja ótta og skelfingu meðal saklausra borgara. Sólveig lagði þunga áherslu á að það væri engum pólitískum málstað til framdráttar að fremja óhæfuverk sem slík og að ekkert gæti réttlætt árásir á saklausa borgara. Um hreina glæpi gegn mannkyni væri að ræða. Hefðu hryðjuverkin fært heim sanninn um mikilvægi styrkrar alþjóðlegrar samstöðu í baráttunni gegn hryðjuverkastarfsemi. Sagði Sólveig að á meðal nýlegra fórnarlamba hryðjuverkastarfsemi væru m.a. ríki á borð við Spán, Tyrkland og Marokkó. Þar fyrir utan hefði mörgum Evrópuráðsríkjum borist hótanir á síðustu missirum sem taka bæri alvarlega. Rík þörf væri á því að vera stöðugt á varðbergi og Evrópuráðsríki mættu hvergi hvika í viðleitni sinni til að uppræta hryðjuverkaöfl. Hvað það varðaði sagði Sólveig að fjölmargt væri hægt að gera innan Evrópuráðsins. Hvatti hún m.a. ríki sem ekki hefðu staðfest og fullgilt sáttmála Evrópuráðsins á þessu sviði að gera það hið fyrsta jafnframt því sem hún hvatti Evrópuráðið til að halda áfram starfi því sem miðaði að heildrænum sáttmála um hryðjuverkastarfsemi. Þá væri afar mikilvægt að aðildarríkin héldu áfram að leita allra leiða til að sporna gegn fjármögnun starfsemi hryðjuverkahópa með smygli á vopnum, eiturlyfjum og fólki. Í lok ræðunnar sagði Sólveig að á fundi í Reykjavík í september hefðu formenn utanríkismálanefnda þjóðþinga Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna auk Richards Lugars, formanns utanríkismálanefndar bandarísku öldungadeildarinnar, samþykkt harðorða yfirlýsingu þar sem óhæfuverkin í Rússlandi voru fordæmd. Sagðist Sólveig vona að innan Evrópuráðsþingsins ríkti sama einurð og vilji til að stöðva hryðjuverkastarfsemi.
    Þá tók Íslandsdeildin virkan þátt í umræðum um þátttöku kvenna í kosningum. Í ræðu Sólveigar Pétursdóttur kom fram að konur víðs vegar hefðu þurft að berjast fyrir atkvæða- og framboðsrétti sínum þrátt fyrir að nokkur munur væri á árangri þjóða hvað þetta varðaði. Hins vegar væru þau dæmi sem nefnd væru í skýrslu Írans Pascals Mooneys, um það m.a. að í þónokkrum Evrópuráðsríkjum tíðkaðist að höfuð fjölskyldunnar greiddi atkvæði fyrir hennar hönd, bæði ólýðræðisleg og algerlega óásættanleg. Meðan slíkt liðist lægi Evrópuráðið einnig undir ámæli í augum utanaðkomandi aðila. Sagði Sólveig að tölur þær sem í skýrslunni kæmu fram vektu menn til umhugsunar. Meðaltal þingkvenna í þjóðþingum Evrópuráðsríkjanna væri 18,4% og þótt það væri afar lágt hlutfall þá væri sú tala hreinlega há miðað við hlutfall þingkvenna í tilteknum Evrópuráðsríkjum. Sagði hún þingheimi að það hlyti að vera fullljóst að helmingur mannkyns væri konur og spurði hvers konar skilaboð væri verið að senda konum og dætrum þeirra. Þá ræddi Sólveig um reynsluna á Norðurlöndunum og hverju hún hefði skilað í breyttum hugsunarhætti. Í ræðu sinni benti Sólveig á að meira að segja í Afganistan, fátæku og stríðshrjáðu ríki sem hefði sætt stjórn talebana, væri það metnaðarfull stefna stjórnvalda að 25% þingmanna í þingkosningum næsta árs væru konur. Spurði hún hvort það gæti verið að sum Evrópuráðsríki gætu lært af Afgönum.
    Siv Friðleifsdóttir sagði í ávarpi sínu að tæplega væri hægt að ræða um fullþróað lýðræði fyrr en þátttaka kvenna í stjórnmálum væri hlutfallslega jöfn þátttöku karla. Í því ljósi væri óhætt að segja að lýðræði hefði ekki náð þroska fyrr en konur væru 40–50% þingmanna. Þá sagði Siv að það væri afar mikilvægt að konur og stúlkur hefðu sterkar fyrirmyndir í stjórnmálum og nefndi dæmi um að á Íslandi hefði tíð Vigdísar Finnbogadóttur í embætti forseta breytt hugsunarhætti heillar kynslóðar sem ólst ekki upp við neitt annað en konu sem forseta. Þá ræddi hún reynslu Íslendinga af þverpólitískri nefnd um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum fyrir kosningarnar 1999 og hverju hún hefði skilað og arfleifð Kvennalistans. Ræddi hún enn fremur stöðu kynjanna á Alþingi á yfirstandandi kjörtímabili og sagði að af 18 nýjum þingmönnum vorið 2003 hefðu 15 karlar og 3 konur verið kjörnar. Sagði hún að dæmin frá Íslandi og annars staðar þar sem þróunin hefði verið jákvæð í gegnum tíðina sýndu ljóslega fram á mikilvægi þess að upplýsa þjóðir. Í skýrslunni sem til grundvallar lægi, kæmi fram skýr vitnisburður um að margt væri að og því afar brýnt að eyða þeim hindrunum sem konum væru settar fyrir aukinni þátttöku í stjórnmálum. Ef pólitískur vilji væri nægur ættu meginmarkmið skýrslunnar að hafa náð fram að ganga mun fyrr en árið 2020.
    Fundinn ávörpuðu eftirtaldir: Gertrude Mongella, forseti afríska þingmannasambandsins, Antonio La Pergola, formaður Feneyjanefndarinnar, Terry Davis, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, Supachai Panitchapakdi, framkvæmdastjóri Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO), Jan Petersen, utanríkisráðherra Noregs, sem fór með formennsku í ráðherraráði Evrópuráðsins síðari hluta ársins 2004, Albert krónprins af Mónakó, Giovanni di Stasi, forseti ráðstefnu sveitar- og héraðsstjórna í Evrópu, Recep Erdögan, forsætisráðherra Tyrklands, og Herwig Schlögl, aðstoðarframkvæmdastjóri Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD).

5. Stjórnarnefnd.
a. Fundur stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins í Ósló.
    Hinn 7. september sl. fór fram venjubundinn haustfundur stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins. Var fundurinn að þessu sinni haldinn í Ósló. Fundinn sótti Andri Lúthersson ritari af hálfu Íslandsdeildar. Hryðjuverkin í Beslan í Norður-Ossetíu sem framin höfðu verið nokkrum dögum fyrr settu mark sitt á fundinn og var samþykkt yfirlýsing þar sem þau voru harðlega fordæmd. Tóku margir til máls við upphaf fundarins og lýstu yfir skömm sinni á óhæfuverkunum í Beslan og hvöttu til þess að Evrópuráðsríkin sameinuðust enn betur í baráttu sinni gegn skipulegri hryðjuverkastarfsemi. Nefndu menn jafnframt að leita yrði allra leiða til þess að koma í veg fyrir að öfgaöfl, sem ranglega settu myrkraverk sín í trúarlegan búning, næðu að sá frekari hatri á Vesturlöndum í huga múslima. Þá var hvatt til þess að Evrópuráðið hraðaði sem frekast væri vinnu sinni að heildarsáttmála um baráttu gegn hryðjuverkum.
    Á fundinum héldu ýmsir tignargestir ávörp auk forseta Evrópuráðsþingsins, Peters Schieder, sem stjórnaði fundum. Jörgen Kosmo, forseti norska þingsins, hélt ræðu við upphaf fundarins og vottaði þar rússnesku þjóðinni samúð sína vegna hryðjuverkanna. Þá vék hann máli sínu að formennsku Norðmanna í ráðherraráði Evrópuráðsins seinni hluta ársins 2004 og sagðist vilja sérstaklega benda á eitt forgangsmálanna. Taldi hann afar mikilvægt að reynt yrði að auka samráð og efnislega verkaskiptingu á milli Evrópuráðsins, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu og Evrópusambandsins. Sagðist hann á þeirri skoðun að þingmannavídd þessara alþjóðastofnana mundi hagnast verulega á betri samskiptum milli stofnananna enda í hag allra að styrkja starf þingmannasamkundnanna. Þá taldi hann og mikilvægt að þingin sjálf, hvort sem um væri að ræða Evrópuráðsþingið, ÖSE-þingið eða Evrópuþingið, forðaðist að útvíkka starfsemi sína frekar en orðið er. Um talsverðan tvíverknað væri nú þegar að ræða og stæði það frekari styrk þingmannasamkundnanna fyrir þrifum. Í þessu samhengi benti Kosmo á að Evrópuráðsþingið hefði skilað afar góðu starfi hvað varðaði Balkanskaga, Téténíu og Kákasussvæðið í heild. Þá minnti hann einnig á að Evrópuráðið mætti ekki heldur gleyma eftirlitshlutverki sínu í Noregi eða öðrum vestur-evrópskum lýðræðisríkjum, mikilvægt væri að öll aðildarríkin sættu sama eftirliti.
    Þá flutti Jan Petersen, utanríkisráðherra og formaður ráðherraráðs Evrópuráðsins síðari hluta árs 2004, ræðu þar sem hann fór yfir helstu forgangsmál Norðmanna. Sagði hann að hryðjuverkin í Beslan kölluðu á að Evrópuráðið og aðrar stofnanir skyldu vinna mun harðar að uppbyggingu innviða á Kákasussvæðinu sem væri orðið gróðrarstía fyrir hryðjuverkaöfl. Þá vék hann að helstu forgangsmálum Norðmanna í formennsku ráðherraráðsins og sagði þau vera aðallega af þrennum toga. Í fyrsta lagi væri frekari efling mannréttinda og lagalegs samstarfs ríkja í milli. Hvað þetta varðar léki Mannréttindadómstóllinn mikilvægt hlutverk. Petersen nefndi að brýnt væri að umbótaáætlun fyrir dómstólinn yrði hrint sem fyrst í framkvæmd, sérstaklega bókun nr. 14 við mannréttindasáttmálann sem miðar að einföldun stjórnkerfis dómstólsins. Í öðru lagi legðu Norðmenn áherslu á að styrkja samstarfið milli Evrópuráðsins og annarra samevrópskra stofnana. Sagði ráðherrann að nokkur brögð væru að því að samkeppni ríkti milli stofnana á evrópskum vettvangi. Því yrði að breyta og efla samstarfið þess í stað. Ætti þetta aðallega við um samskipti Evrópuráðsins og Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu. Í þriðja lagi væri markmiðið að efla hlutverk Evrópuráðsins við að koma í veg fyrir að átök brjótist út. Í því augnamiði beindi stofnunin sjónum sínum að því að breiða út góða stjórnsýsluhætti og efla samskipti ólíkra menningarheima. Þá vék Petersen stuttlega að framlagi Norðmanna til friðarumleitana fyrir botni Miðjarðarhafs en Terje Röd Larsen, sérlegur fulltrúi Sameinuðu þjóðanna í deilum Ísraela og Palestínumanna, sem átti að ávarpa stjórnarnefndarfundinn, átti ekki heimangengt. Sagði Petersen frá stöðu mála og þeim forsendum sem hann sæi til grundvallar því að unnt yrði að koma friðarferlinu aftur í gang í anda „vegvísis til friðar“. Grundvallarforsenda væri að um tveggja-ríkja lausn væri að ræða og undir þeim formerkjum væru fimm álitaefni sem leysa þyrfti úr. Í fyrsta lagi yrði að koma í veg fyrir að landtökumenn á Gaza-ströndinni yrðu færðir á Vesturbakkann. Í öðru lagi yrði brottfærsla landtökumanna að vera í nánu samráði við heimastjórn Palestínu. Í þriðja lagi yrðu Ísraelsmenn og palestínska heimastjórnin að semja um það, á grundvelli landamæranna frá 1967, hvert landtökumenn yrðu fluttir. Í fjórða lagi mætti ekki hreyfa við frekari landtöku Ísraela á Vesturbakkanum og í síðasta lagi yrði að semja um stöðu palestínskra flóttamanna. Ítrekaði Petersen að Evrópuríkin yrðu að styðja friðarferlið af heilum hug. Að öðrum kosti væri friðarferlið dæmt til að mistakast. Að lokum ræddi Petersen um mikilvægi Norður- Evrópu fyrir álfuna alla, ekki síst með tilliti til umhverfisþátta. Sagði ráðherrann frá því sem Norðmenn hefðu gert til að styðja við umhverfisvernd í Norðvestur-Rússlandi og lýsti þeim vám sem þar væru fyrir hendi vegna slæmrar umgengni um kjarnorkuúrgang og gamla kjarnorkukafbáta.
    Á stjórnarnefndarfundinum voru kjörbréf nýrra landsdeilda Austurríkis, Belgíu, Lettlands, Lúxemborgar, Möltu, Rússlands og Spánar samþykkt. Þá var fjallað um skýrslur málefnanefnda þingsins og fjallað um dagskrá haustfundar Evrópuráðsþingsins. Af skýrslum þeim sem nokkrar umræður voru um má nefna skýrslu stjórnmálanefndarinnar um ástand mála á Norður-Írlandi, skýrslu laga- og mannréttindanefndarinnar um nýja trúarbragðalöggjöf í Búlgaríu og skýrslu um internetið og löggjöf til að sporna gegn óæskilegum áhrifum þess. Þá fjallaði stjórnarnefndin um fyrirliggjandi skýrslubeiðnir málefnanefndanna og vísaði þeim til réttra nefnda á grundvelli umsagnar fastanefndarinnar.

b. Fundur stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins í Varsjá.
    Hinn 23. nóvember var efnt til stjórnarnefndarfundar Evrópuráðsþingsins í Varsjá en Pólverjar tóku við formennsku í ráðherraráði Evrópuráðsins í nóvember 2004. Fundinn sótti af hálfu Íslandsdeildar Sólveig Pétursdóttir, auk Örnu Bang alþjóðaritara. Fyrir utan venjubundin stjórnarnefndarstörf fór mestur fundartími í ávarp utanríkisráðherra Póllands og formanns ráðherraráðsins, Wlodzimierz Cimoszewicz, sem ræddi um málefni þriðja leiðtogafundar Evrópuráðsins sem ráðgert er að halda í Varsjá 16.–17. maí 2005. Þá var efnt til brýnnar utandagskrárumræðu um málefni Hvíta-Rússlands, rætt um nýafstaðnar forsetakosningar í Úkraínu auk þess sem rætt var um framlag Evrópuráðsins til baráttunnar gegn hryðjuverkum.
    Fundurinn hófst á því að Jozef Oleksy, forseti neðri deildar pólska þingsins, bauð fundargesti velkomna og minnti á að Pólland hefði verið annað ríkið í Mið- og Austur-Evrópu sem gerðist aðili að Evrópuráðinu eftir að járntjaldið féll. Í ávarpi utanríkisráðherrans Wlodzimierz Cimoszewicz kom fram að Pólverjar, líkt og margar aðrar þjóðir Mið- og Austur-Evrópu, væru afar viðkvæmir gagnvart því er dregnar væru pólitískar línur innan álfunnar og byggðist það á nýliðinni sögu og því ranglæti sem þjóðirnar urðu að sæta á dögum kalda stríðsins. Sagði hann að það væri ákveðin hætta fólgin í því að Evrópusambandið auki á þá tilfinningu meðal þjóðanna sem utan þess standa að þær séu útilokaðar frá samrunaþróuninni og í annarri deild en aðildarríkin. Þetta vilji Pólverjar forðast fyrir alla muni og hét ráðherrann því að pólsk stjórnvöld mundu gera allt sem í þeirra valdi stæði til að forðast að slík þróun ætti sér stað. Minnti hann á að Evrópuráðið hefði verið fyrsta evrópska fjölþjóðastofnunin sem opnaði dyr sínar fyrir nýfrjálsum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu og í því ljósi legðu Pólverjar mikið upp úr því að Evrópuráðið aðlagaðist fljótt að breyttum aðstæðum í evrópskri stofnanagerð og verði í fararbroddi í umræðu um mannréttindi, lýðræði og forsendur réttarríkisins í álfunni. Markmiðið væri Evrópa án þröskulda og til að svo mætti verða væri rík nauðsyn á að skilgreina með skýrum hætti hvaða verkefnum hver fjölþjóðastofnun ætti að sinna og koma þannig í veg fyrir hættu á tvíverknaði. Í þessu samhengi benti ráðherrann á að afar mikilvægt væri að skilgreina muninn á starfsemi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) og Evrópuráðsins. Báðar stofnanirnar hefðu verið aðsópsmiklar í þeim víðfeðmu pólitísku umbreytingum sem orðið hefðu undanfarin 15 ár, en nú væri kominn tími til að aðgreina verksvið stofnananna með skýrum hætti líkt og Norðmenn hefðu lagt til í síðustu formennskutíð Evrópuráðsins. Þá vék Cimoszewicz að málefnum Úkraínu og sagði að Pólverjar ættu mikið undir því að sú pólitíska ólga sem upp spratt í kjölfar fyrri forsetakosninganna mundi fljótt réna. Í þessu samhengi nefndi hann einnig stöðu mála í Hvíta- Rússlandi og lýsti yfir þungum áhyggjum af stjórnarfari þar. Því næst ræddi ráðherrann um ógnir samtímans og sagði það afar mikilvægt að Evrópuráðið beitti sér af fullum þunga í baráttunni gegn hryðjuverkastarfsemi. Sagði hann að sú barátta mundi styrkjast mikið með almennri og útbreiddri framkvæmd ýmissa sáttmála Evrópuráðsins á þessu sviði. Að lokum ræddi Cimoszewicz um þriðja leiðtogafundinn og helstu málefni hans. Sagðist hann vonast til þess að fundurinn yrði árangursríkur og jafnframt nokkurs konar útgangspunktur fyrir allsherjarendurskilgreiningu á fjölþjóðlegu stofnanakerfi álfunnar og til eflingar sameiginlegum evrópskum gildum. Ræða yrði því og ákvarða samstarfsreglur stofnana á borð við Evrópuráðið, ESB, ÖSE, undirstofnanir Sameinuðu þjóðanna og ýmsar aðrar svæðisbundnar stofnanir. Í ávarpinu kom fram að af tilteknum málefnasviðum væri markmiðið að mótuð yrði pólitísk stefna ráðsins hvað varðaði baráttu gegn mansali og hryðjuverkum, peningaþvætti, spillingu, skipulega glæpastarfsemi, barnaþrældóm, verndun minnihlutahópa, og frjálsa fólksflutninga. Þegar hefði verið unnið að stefnumótun á sviði fjölmiðlafrelsis, jafnréttis kynjanna, eflingar grasrótarsamtaka, menntamála, heilbrigðismála, félagslegra réttinda, sjálfbærrar þróunar, og fjölmenningarsamfélagsins, sem lagt yrði fyrir leiðtogafundinn í vor.
    Að loknum föstum dagskrárliðum stjórnarnefndarfundarins tóku við umræður um kosningaeftirlit Evrópuráðsins í forsetakosningunum í Úkraínu fyrr í mánuðinum. Ýmsir nefndarmenn tóku til máls, þar á meðal nokkrir sem tekið höfðu þátt í eftirlitinu, og ræddu stjórnmálaástandið í landinu. Sögðust menn almennt hafa nokkrar áhyggjur af því að upp úr kynni að sjóða og voru á því máli að Evrópuráðinu bæri að nota pólitískan styrk sinn til að leiða deilandi aðila að samningaborðinu og koma í veg fyrir að svo færi. Þá ræddu fundarmenn um stöðu mála í Hvíta-Rússlandi, eina Evrópuríkinu sem ekki er aðili að Evrópuráðinu, og lýstu yfir þungum áhyggjum af viðvarandi mannréttindabrotum og ofríki stjórnvalda þar í landi. Samþykkti stjórnarnefndin yfirlýsingu um pólitískt ástand í Hvíta-Rússlandi þar sem stjórnvöld voru harðlega gagnrýnd og hvatt til þess að viðeigandi úrbótum í mannréttindamálum, leikreglum réttarríkisins og almennu lýðræði yrði hrundið í framkvæmd tafarlaust. Einungis þannig mundi Hvíta-Rússland uppfylla skuldbindingar sínar gagnvart Evrópuráðinu og endurheimta sæti sitt meðal evrópskra bræðraþjóða.
    Að loknum umræðum um Úkraínu og Hvíta-Rússland var rætt um þær skýrslur og ályktunardrög sem fyrir fundinum lágu. Ástæðulaust er að rekja almennar umræður en af þeim málum sem mest kvað að má nefna skýrslu um framkvæmd ákvarðana Mannréttindadómstóls Evrópu, skýrslu um eftirlitsferli Evrópuráðsþingsins, skýrslu um hópa fólks sem ekki hefðu getað snúið til heimkynna sinna vegna vopnaðra átaka á Balkanskaga, og skýrslu um hagnýtingu menningarbundinna þátta í baráttunni gegn hryðjuverkum.

6. Nefndastörf.
a. Skipting Íslandsdeildarinnar í nefndir.
Sameiginleg nefnd með ráðherranefnd: Sólveig Pétursdóttir.
    Til vara: Siv Friðleifsdóttir.
Stjórnarnefnd: Sólveig Pétursdóttir.
    Til vara: Siv Friðleifsdóttir.
Stjórnmálanefnd: Sólveig Pétursdóttir.
    Til vara: Birgir Ármannsson.
Laga- og mannréttindanefnd: Sólveig Pétursdóttir.
    Til vara: Birgir Ármannsson.
Jafnréttisnefnd: Össur Skarphéðinsson.
    Til vara: Margrét Frímannsdóttir.
Efnahagsnefnd: Siv Friðleifsdóttir.
    Til vara: Birkir J. Jónsson.
Umhverfis- og landbúnaðarnefnd: Siv Friðleifsdóttir.
    Til vara: Birkir J. Jónsson.
Þingskapanefnd: Sólveig Pétursdóttir.
    Til vara: Birgir Ármannsson.
Mennta- og vísindanefnd: Siv Friðleifsdóttir.
    Til vara: Birkir J. Jónsson.
Félags- og heilbrigðismálanefnd: Össur Skarphéðinsson.
    Til vara: Margrét Frímannsdóttir.
Nefnd um fólksflutninga og málefni flóttamanna: Össur Skarphéðinsson.
    Til vara: Margrét Frímannsdóttir.

b. Þátttaka í nefndafundum utan þinga.
    Fulltrúar Íslandsdeildar sóttu nokkra nefndarfundi á árinu. Kristinn H. Gunnarsson sótti fund umhverfisnefndar í Mexíkóborg í janúarmánuði, fund efnahagsmálanefndar í París í febrúar, og fundi umhverfisnefndar, menningar- og menntamálanefndar og efnahagsnefndar í París í september. Siv Friðleifsdóttir sótti fund menningar- og menntamálanefndar í París í desember. Þá sótti Össur Skarphéðinsson fundi jafnréttisnefndar og flóttamannanefndar í París í september og fund flóttamannanefndar í París í desember.

Alþingi, 9. febr. 2005.



Sólveig Pétursdóttir,


form.


Siv Friðleifsdóttir,


varaform.


Margrét Frímannsdóttir.

Fylgiskjal.


Ályktanir, álit og tilmæli Evrópuráðsþingsins árið 2004.


    Eftirfarandi ályktanir, álit og tilmæli til ráðherranefndar Evrópuráðsins voru samþykkt á þingfundum Evrópuráðsþingsins árið 2004:

Fyrsti hluti þingfundar, 26.–30. janúar:
     .      tilmæli nr. 1647, um efnahagslegar afleiðingar stækkunar ESB og næstu verkefni,
     .      ályktun nr. 1365, um efnahagslegar afleiðingar stækkunar ESB og næstu verkefni,
     .      tilmæli nr. 1648, um afleiðingar stækkunar ESB á frjálsa fólksflutninga á Evrópuráðssvæðinu,
     .      tilmæli nr. 1649, um fulltrúa til kjörs í Mannréttindadómstól Evrópu,
     .      ályktun nr. 1366, um fulltrúa til kjörs í Mannréttindadómstól Evrópu,
     .      tilmæli nr. 1644, um hryðjuverk og ógnina við lýðræðisríki,
     .      tilmæli nr. 1645, um aðstoð og vernd til handa hælisleitenda í evrópskum höfnum,
     .      tilmæli nr. 1646, um aðstoð til handa þróunarríkjunum,
     .      ályktun nr. 1364, um stjórnmálaástandið í Úkraínu,
     .      tilmæli nr. 1642, um ástand mála á Kýpur,
     .      ályktun nr. 1362, um ástand mála á Kýpur,
     .      tilmæli nr. 1643, um lýðræðislegar stofnanir í Georgíu,
     .      ályktun nr. 1363, um lýðræðislegar stofnanir í Georgíu,
     .      tilmæli nr. 1641, um almannafjölmiðla,
     .      ályktun nr. 1358, um virkni lýðræðislegra stofnana í Aserbaídsjan,
     .      ályktun nr. 1359, um pólitíska fanga í Aserbaídsjan,
     .      ályktun nr. 1360, um kjörbréf landsdeilda Írlands og Kýpur,
     .      ályktun nr. 1361, um skuldbindingar Armeníu á vettvangi Evrópuráðsins,
     .      ályktun nr. 1357, um Strassborg sem höfuðborg Evrópu, og
     .      tilmæli nr. 1640, um þriðju ársskýrslu mannréttindafulltrúa Evrópuráðsins.

Annar hluti þingfundar, 26.–30. apríl:
     .      álit nr. 252, um viðbótarbókun við Mannréttindasáttmála Evrópu um lífefnarannsóknir,
     .      tilmæli nr. 1661, um framtíð almannatrygginga í Evrópu,
     .      ályktun nr. 1375, um stöðu mála í Kosovo-héraði,
     .      tilmæli nr. 1660, um stöðu mála í Kosovo-héraði,
     .      ályktun nr. 1376, um Kýpur,
     .      ályktun nr. 1377, um skuldbindingar Albaníu á vettvangi Evrópuráðsins,
     .      tilmæli nr. 1657, um mannshvörf í Hvíta-Rússlandi,
     .      ályktun nr. 1371, um mannshvörf í Hvíta-Rússlandi,
     .      tilmæli nr. 1658, um ofsóknir á hendur fjölmiðlum í Hvíta-Rússlandi,
     .      ályktun nr. 1372, um ofsóknir á hendur fjölmiðlum í Hvíta-Rússlandi,
     .      tilmæli nr. 1659, um eflingu Sameinuðu þjóðanna,
     .      ályktun nr. 1373, um eflingu Sameinuðu þjóðanna,
     .      álit nr. 251, um viðbótarbókun nr. 14 við sáttmála um verndun mannréttinda og mannfrelsis, breytingar á stjórnkerfi sáttmálans,
     .      ályktun nr. 1374, um skuldbindingar Armeníu á vettvangi Evrópuráðsins,
     .      álit nr. 250, um aðildarumsókn furstadæmisins Mónakó,
     .      ályktun nr. 1370, um kjörbréf landsdeildar Serbíu og Svartfjallalands,
     .      tilmæli nr. 1656, um stöðu mála í evrópskum fangelsum og gæsluvarðhaldsstofnunum,
     .      tilmæli nr. 1655, um evrópska eftirlitsstofnun með fólksflutningum,
     .      álit nr. 249, um útgjöld Evrópuráðsþingsins árið 2005, og
     .      álit nr. 248, um fjárhagsáætlun Evrópuráðsins fyrir árið 2005.

Stjórnarnefndarfundur, 2. mars:
     .      tilmæli nr. 1650, um tengslin milli brottfluttra Evrópumanna og heimalanda þeirra,
     .      tilmæli nr. 1651, um leiðir til að sporna við ránum á afrískum menningarverðmætum,
     .      tilmæli nr. 1652, um menntun flóttamanna,
     .      tilmæli nr. 1653, um reikningsendurskoðun á grundvelli umhverfismála,
     .      tilmæli nr. 1654, um ríkisborgararétt og jafnrétti,
     .      ályktun nr. 1367, um ógnir af hryðjuverkum með lífefnavopnum,
     .      ályktun nr. 1368, um skýrslubeiðnir Evrópuráðsþingsins, og
     .      ályktun nr. 1369, um fjármál flokkahópa Evrópuráðsþingsins.

Þriðji hluti þingfundar, 21.–25. júní:

     .      tilmæli nr. 1667, um stöðu flóttamanna og í Rússlandi og nokkrum löndum Samveldis sjálfstæðrar ríkja,
     .      tilmæli nr. 1668, um stjórn vatnaforða í Evrópu,
     .      tilmæli nr. 1669, um alþjóðleg vatnasvæði í Evrópu,
     .      ályktun nr. 1386, um framlag Evrópuráðsins til friðar í Írak,
     .      ályktun nr. 1387, um einokun á rafrænum fjölmiðlum og hugsanlega misbeitingu valds á Ítalíu,
     .      ályktun nr. 1388, um ítalska löggjöf um rökstuddan grun,
     .      ályktun nr. 1383, um skuldbindingar Bosníu og Hersegóvínu á vettvangi Evrópuráðsins,
     .      tilmæli nr. 1664, um skuldbindingar Bosníu og Hersegóvínu á vettvangi Evrópuráðsins,
     .      ályktun nr. 1384, um eflingu lýðræðislegra stofnana í Bosníu og Hersegóvínu,
     .      ályktun nr. 1385, um hættuástandsstjórnun og hlutverk kvenna,
     .      tilmæli nr. 1665, um hættuástandsstjórnun og hlutverk kvenna,
     .      tilmæli nr. 1666, um evrópskt bann við að beita börn líkamlegum refsingum,
     .      ályktun nr. 1380, um skuldbindingar Tyrklands á vettvangi Evrópuráðsins,
     .      tilmæli nr. 1662, um skuldbindingar Tyrklands á vettvangi Evrópuráðsins,
     .      ályktun nr. 1381, um framkvæmd Tyrklands á dómum Mannréttindadómstóls Evrópu,
     .      ályktun nr. 1382, um framlag Evrópska uppbyggingar- og framþróunarbankans (EBRD) í Mið- og Austur-Evrópu,
     .      tilmæli nr. 1663, um heimilisþrældóm,
     .      ályktun nr. 1378, um evruna, og
     .      ályktun nr. 1379, um samsetningu fastanefndar (Bureau) Evrópuráðsþingsins.

Stjórnarnefndarfundur, 8. september:
     .      tilmæli nr. 1670, um internetið og lög,
     .      tilmæli nr. 1671, um samþykkt bókana við mannréttindasáttmála Evrópu,
     .      tilmæli nr. 1672, um Þróunarbanka Evrópuráðsins: sameinuð rödd,
     .      tilmæli nr. 1673, um peningafalsanir,
     .      tilmæli nr. 1674, um vanda sem blasir við evrópskum ljósvakamiðlum,
     .      ályktun nr. 1389, um Evrópuráðið og stöðu mála á Norður-Írlandi,
     .      ályktun nr. 1390, um nýja trúarbragðalöggjöf í Búlgaríu,
     .      ályktun nr. 1391, um samþykkt bókana við mannréttindasáttmála Evrópu,
     .      ályktun nr. 1392, um viðskiptasiðferði í Evrópu,
     .      ályktun nr. 1393, um löggjafarþing og upplýsingasamfélagið,
     .      ályktun nr. 1394, um mannfjölgunarmál, og
     .      ályktun nr. 1395, um innihald yfirlýsinga og skýrslubeiðna Evrópuráðsþingsins.

Fjórði hluti þingfundar, 4.–8. október:
     .      tilmæli nr. 1680, um nýja aðferð við mat á lýðræðisþróun,
     .      ályktun nr. 1407, um nýja aðferð við mat á lýðræðisþróun,
     .      tilmæli nr. 1682, um fræðslustefnu í Evrópu,
     .      tilmæli nr. 1681, um úrræði til að sporna við heimilisofbeldi í Evrópu,
     .      tilmæli nr. 1683, um mannfjöldaþróun í Evrópu,
     .      ályktun nr. 1402, um pólitíska stöðu mála í Téténíu,
     .      tilmæli nr. 1678, um pólitíska stöðu mála í Téténíu,
     .      ályktun nr. 1403, um stöðu mannréttinda í Téténíu,
     .      tilmæli nr. 1679, um stöðu mannréttinda í Téténíu,
     .      ályktun nr. 1405, um framkvæmd ályktunar 1361 og 1374 um skuldbindingar Armeníu á vettvangi Evrópuráðsins,
     .      ályktun nr. 1404, um stöðu téténskra flóttamanna,
     .      ályktun nr. 1406, um hækkandi hitastig jarðar,
     .      ályktun nr. 1401, um Efnahags- og framfarastofnun Evrópu (OECD) og hið hnattræna hagkerfi,
     .      ályktun nr. 1400, um hryðjuverkavána í Evrópuráðsríkjum,
     .      tilmæli nr. 1677, um hryðjuverkavána í Evrópuráðsríkjum,
     .      ályktun nr. 1397, um lýðræðislegar stofnanir í Serbíu-Svartfjallalandi,
     .      ályktun nr. 1398, um framkvæmd ályktunar 1358 um skuldbindingar Aserbaídsjan á vettvangi Evrópuráðsins,
     .      ályktun nr. 1399, um Evrópustefnu í fólksfjöldaþróun,
     .      tilmæli nr. 1675, um Evrópustefnu í fólksfjöldaþróun,
     .      tilmæli nr. 1676, um þátttöku kvenna í kosningum, og
     .      ályktun nr. 1396, um alþjóðaviðskipti og Doha-samningalotu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO).

Stjórnarnefndarfundur, 25. nóvember:
     .      tilmæli nr. 1684, um framkvæmd ákvarðana Mannréttindadómstóls Evrópu,
     .      tilmæli nr. 1685, um hópa fólks sem ekki hafa getað snúið til heimkynna sinna vegna vopnaðra átaka á Balkanskaga,
     .      tilmæli nr. 1686, um frjálsar ferðir og réttinn til að sameina fjölskyldur,
     .      tilmæli nr. 1687, um hagnýtingu menningarbundinna þátta í baráttunni gegn hryðjuverkum,
     .      tilmæli nr. 1688, um tvístraða menningarhópa,
     .      tilmæli nr. 1689, um veiðimennsku og jafnvægi í umhverfi Evrópu,
     .      ályktun nr. 1408, um stöðu mála í Vestur-Sahara,
     .      ályktun nr. 1409, um framlag þingmanna til Stöðugleikasáttmála Suðaustur-Evrópu,
     .      ályktun nr. 1410, um endurgreiðslur erlends gjaldeyris í Ljubljanska-bankanum á árunum 1977–1991,
     .      ályktun nr. 1411, um framkvæmd ákvarðana Mannréttindadómstóls Evrópu,
     .      ályktun nr. 1412, um eftirlitsferli Evrópuráðsþingsins,
     .      ályktun nr. 1413, um leiðir til að sporna gegn rafmagnsleysi í Evrópu, og
     .      ályktun nr. 1414, um hópa fólks sem ekki hafa getað snúið til heimkynna sinna vegna vopnaðra átaka á Balkanskaga.