Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 387. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1009  —  387. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 152 27. desember 1996, um breytingu á lögum nr. 92 24. maí
1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, með síðari breytingum.

Frá minni hluta sjávarútvegsnefndar.



    Frumvarp það sem hér er til umfjöllunar gerir ráð fyrir að gildistími laga um Þróunarsjóð sjávarútvegsins verði styttur þannig að lögin falli úr gildi 1. júlí nk. Frumvarpið er angi af þeim breytingum sem gerðar hafa verið samhliða upptöku veiðigjalds og tilfærslu gjalda í því sambandi. Frumvarpið gerir ráð fyrir að eignir sjóðsins umfram skuldir renni til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins og að andvirði þeirra verði varið til hafrannsókna á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar.
    Á 125. löggjafarþingi, 1999–2000, samþykkti Alþingi með 49 samhljóða atkvæðum tillögu til þingsályktunar (þskj. 1186) sem flutt var af sjávarútvegsnefnd um varðveislu báta og skipa. Með þingsályktuninni var ríkisstjórninni falið að undirbúa tillögur um hvernig staðið skyldi að varðveislu gamalla skipa og báta og móta í því sambandi reglur um fjármögnun sem Þróunarsjóður sjávarútvegsins tæki m.a. þátt í. Í ljósi þess hve Alþingi hefur með skýrum hætti látið í ljós vilja sinn til að ráðstafa a.m.k. hluta af fjármunum Þróunarsjóðs sjávarútvegsins til þessara verkefna telur minni hlutinn einsýnt að Alþingi hrindi þeim vilja sínum í framkvæmd við afgreiðslu þess frumvarps sem hér er til umfjöllunar. Er það í raun ámælisvert hvernig ríkisstjórnin hefur með aðgerðarleysi sínu frá því að framangreind þingsályktunartillaga var samþykkt kosið að virða vilja Alþingis að vettugi í þessu máli. Er framlagning þessa frumvarps nú enn fremur staðfesting á því að aldrei hefur staðið til af hálfu ríkisstjórnarinnar og sjávarútvegsráðherra að virða vilja Alþingis í málinu. Hvað sem því líður liggur nú beint við að Alþingi árétti og staðfesti vilja sinn með skýrum og skuldbindandi hætti. Gerir minni hlutinn það því að tillögu sinni að hluti eigna Þróunarsjóðsins renni til varðveislu gamalla báta og skipa.
    Þróunarsjóður sjávarútvegsins hafði m.a. það hlutverk að úrelda gömul fiskiskip og er alveg óhætt að fullyrða að hann hafi þannig flýtt fyrir förgun margra gamalla skipa sem ella hefði verið talin ástæða til að vernda. Reglur um úreldingarframlag úr Þróunarsjóði gerðu skýrar kröfur um að bátum sem fengu úreldingargreiðslur skyldi fargað á þann hátt að ekki væri hægt að draga þá á flot að nýju. Bátarnir voru því annaðhvort bútaðir niður eða þeir brenndir. Er því vel við hæfi að hluti fjármuna sjóðsins verði nú notaðir til varðveislu gamalla báta og skipa. Minni hlutinn gerir þó eftir sem áður ráð fyrir að meginhluti andvirðis eigna sjóðsins renni til hafrannsókna enda eru mörg brýn verkefni á því sviði sem bíða úrlausnar. Í því sambandi er minni hlutinn sammála því áliti meiri hluta nefndarinnar að ástæðulaust sé að áskilja í lögunum að andvirði sjóðsins skuli varið til hafrannsókna á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar heldur verði jafnframt heimilt að ráðstafa því til hafrannsókna á vegum annarra aðila í samræmi við almennar reglur um ráðstöfun fjármuna úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins. Þá er minni hlutinn samþykkur breytingartillögu meiri hlutans um að lögin falli úr gildi 1. október 2005 í stað 1. júlí til að tryggt sé að nægilegur tími gefist til að ljúka uppgjöri sjóðsins.
    Ekki liggur fyrir á þessari stundu hversu miklir fjármunir munu standa eftir þegar sjóðurinn verður gerður upp, en í umsögn fjármálaráðuneytisins um frumvarpið kom fram að áætlað markaðsvirði eigna Þróunarsjóðs sé um 300–400 millj. kr. Nú er hins vegar talið að markaðsvirðið gæti orðið nokkru hærra eða allt að 500–600 millj. kr. vegna ýmissa ytri skilyrða sem hafa breyst frá því að ráðuneytið lagði mat á virði sjóðsins og því gerir minni hlutinn það að tillögu sinni að kveðið verði á um að 400 millj. kr. af virði Þróunarsjóðsins renni til hafrannsókna en það sem eftir standi við endanlegt uppgjör renni í ríkissjóð og Alþingi og fjárlaganefnd þingsins verði falið við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2006 að gera tillögur um úthlutun þessara fjármuna til verkefna sem tengjast varðveislu gamalla báta og skipa.
    Í samræmi við framangreint leggur minni hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldri

BREYTINGU:



    Efnismálsliðir 1. gr. orðist svo: Lögin gilda til 1. október 2005. Skulu 400 millj. kr. af eignum sjóðsins umfram skuldir að loknum gildistíma laganna renna til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins og andvirði þeirra varið til hafrannsókna. Andvirði eigna sjóðsins sem eru umfram 400 millj. kr. skal renna í ríkissjóð og því ráðstafað til varðveislu gamalla báta og skipa.

Alþingi, 17. mars 2005.



Jón Gunnarsson,


frsm.


Jóhann Ársælsson.