Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 295. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 314  —  295. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, með síðari breytingum.

Frá allsherjarnefnd.



1. gr.

    Í stað 2.–4. málsl. 3. mgr. 133. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Sæki ákærði þing telst dómur birtur fyrir honum en annars lætur ákærandi birta dóm skv. 20. gr. Séu ákærða gerð viðurlög er varða sektum eða upptöku eigna sem svarar til lægri fjárhæðar en áfrýjunarfjárhæð í einkamálum ásamt greiðslu sakarkostnaðar þarf ekki að birta honum dóm þótt ekki sé sótt þing af hálfu ákærða við uppkvaðningu hans.

2. gr.

    Lög þessi taka þegar gildi.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á 133. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, með síðari breytingum. Á 131. löggjafarþingi voru gerðar breytingar á lögunum með það að markmiði að einfalda sektarinnheimtu og birtingu sektardóma. Í frumvarpinu sem þá var lagt fram var lagt til að ef ákærða yrðu ekki gerð önnur viðurlög en sekt eða upptaka eigna ásamt greiðslu sakarkostnaðar þyrfti ekki að birta fyrir honum dóminn.
    Frumvarpinu var breytt nokkuð í meðförum þingsins þar sem allsherjarnefnd taldi að með heimildinni gæti verið gengið töluvert nærri réttaröryggi sakborninga. Birting dóms hefur þær lögfylgjur að marka upphaf fjögurra vikna áfrýjunarfrests og hefur hann verið túlkaður eftir orðanna hljóðan í dómum Hæstaréttar. Lagði nefndin því til þær breytingar á frumvarpinu að fyrirkomulaginu yrði einungis breytt í einföldustu málunum, þ.e. þegar sektir eða upptaka eigna nema lægri fjárhæð en áfrýjunarfjárhæð í einkamálum ásamt greiðslu sakarkostnaðar. Áfram yrði að birta dóma þar sem ákærða yrðu gerð viðurlög sem svöruðu til hærri fjárhæðar en áfrýjunarfjárhæðar í einkamálum ásamt greiðslu sakarkostnaðar.
    Þær breytingar sem nefndin lagði til skiluðu sér ekki efnislega réttar og er því nauðsynlegt að breyta 3. mgr. 133. gr. Við gerð frumvarpsins var litið til laganna eins og þau voru fyrir gildistöku laga nr. 81/2005 sem breyttu greininni og lagt til að fyrst verði kveðið á um meginregluna um að birta þurfi dóm fyrir ákærða sæki hann ekki þing. Því næst verði kveðið á um undantekningar frá þeirri meginreglu þegar svo stendur á að ákærða eru í dómi gerð önnur viðurlög en sektir eða upptaka eigna sem svarar til lægri fjárhæðar en áfrýjunarfjárhæð í einkamálum ásamt greiðslu sakarkostnaðar.