Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 375. máls.

Þskj. 431  —  375. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um Siglingastofnun Íslands, nr. 6/1996,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




1. gr.

    6. gr. laganna orðast svo:
    Samgönguráðherra skipar siglingaráð sér til ráðuneytis um siglinga- og vitamál. Í siglingaráði skulu eiga sæti tólf fulltrúar og jafnmargir varamenn. Þar af skulu þrír fulltrúar skipaðir án tilnefningar að loknum alþingiskosningum og skal einn þeirra vera formaður ráðsins. Níu fulltrúar skulu skipaðir til allt að fjögurra ára samkvæmt tilnefningu eftirtalinna aðila sem tilnefna einn fulltrúa hver: Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, samtök skemmtibátaeigenda, Málmur, samtök fyrirtækja í málm- og skipaiðnaði, Landssamband íslenskra útvegsmanna, Landssamband smábátaeigenda, Samband íslenskra kaupskipaútgerða, Sjómannasamband Íslands, Slysavarnafélagið Landsbjörg og Vélstjórafélag Íslands. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið á vegum samgönguráðuneytisins. Með frumvarpinu er lagt til að samtök skemmtibátaeigenda tilnefni fulltrúa í siglingaráð þannig að fulltrúum í ráðinu fjölgi úr ellefu í tólf. Hlutverk siglingaráðs er meðal annars að fjalla um öryggismál skipa og sjófarenda og þykir af þeim sökum eðlilegt að samtök skemmtibátaeigenda hafi þar fulltrúa, til jafns við aðra hagsmunaaðila.
    Með frumvarpinu er gert ráð fyrir því að hagsmunasamtök skemmtibátaeigenda komi sér saman um að tilnefna einn sameiginlegan fulltrúa. Í dag eru eftirfarandi samtök skemmtibátaeigenda starfandi: Brokey – Siglingafélag Reykjavíkur, Kjölbátafélag Íslands, Siglingasamband Íslands og Snarfari, félag sportbátaeigenda.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Siglingastofnun Íslands,
nr. 6/1996, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er lagt til að samtök skemmtibátaeigenda tilnefni fulltrúa í siglingaráð þannig að fulltrúum í ráðinu fjölgi úr ellefu í tólf.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi aukinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.