Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 356. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 579  —  356. mál.




Svar



félagsmálaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um aðstæður kvenna sem gista í athvarfinu Konukoti.

     1.      Er ráðherra reiðubúinn að bæta í samráði við borgaryfirvöld aðbúnað þeirra kvenna sem nú hafa náttstað í athvarfinu Konukoti, þ.m.t. að veita aðstoð svo að þær geti haft aðstöðu þar allan sólarhringinn?
    Í einróma samþykkt fundar Velferðarráðs Reykjavíkurborgar frá 23. nóvember sl. segir m.a.: ,,Velferðarráð Reykjavíkurborgar telur afar mikilvægt að bæta og auka þjónustu við þá sem eru utangarðs í samfélaginu eins og samþykkt hefur verið í starfsáætlun Velferðarsviðs fyrir árið 2006. Þá fagnar Velferðarráð skýrslu samráðshóps félagsmálaráðherra um heimilislausa og styður tillögur hópsins. Nauðsynlegt er að mæta þörfum hvers og eins, ekki einungis fyrir bráðabirgðahúsnæði heldur einnig til lengri tíma litið. Velferðarráð óskar eftir tillögum Þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða, Gistiskýlisins og Konukots um aðgerðir í nánustu framtíð. Þá samþykkir Velferðarráð að veita fé til Rauða kross Íslands til þess að Konukot verði opið allan sólarhringinn … Jafnframt er minnt á að Gistiskýlið er nú opið allan sólarhringinn og er ætlað jafnt konum sem körlum …“
    Samþykkt þessi svarar 1. spurningu en ljóst er að Reykjavíkurborg bregst af fullri alvöru við þeim vanda sem við blasir.

     2.      Mun ráðherra beita sér fyrir því í samráði við borgaryfirvöld og Reykjavíkurdeild Rauða krossins að fundið verði varanlegt húsnæði fyrir konur sem leita aðstoðar í Konukoti og að skoðað verði hvernig bæta megi til frambúðar aðstæður þeirra á félags- og heilbrigðissviði?
    Áætlanir Reykavíkurborgar í þessum málum sýna að borgin leitast markvisst við að leysa vanda húsnæðislausra, þ.m.t. með því að finna varanlegt húsnæði fyrir þær konur sem hér um ræðir og tryggja þeim félags- og heilbrigðisþjónustu.
    Hjá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar hafa fengist þær upplýsingar að í starfsáætlun sviðsins fyrir árið 2006 sé gert ráð fyrir að Gistiskýlið flytjist í betra húsnæði í byrjun næsta árs. Þar verður rými fyrir allt að 18 manns og bætt aðstaða til að bjóða stuðning og ráðgjöf.
    Reykjavíkurborg hefur á undanförnum árum unnið skipulega að því að bæta aðstæður húsnæðislausra. Stofnað hefur verið heimili ætlað þeim sem lengst höfðu dvalið í gistiskýlinu. Ráðgjafarþjónusta hefur verið færð út fyrir veggi stofnunarinnar og samvinna ólíkra aðila sem koma að þjónustu við þennan hóp hefur verið efld með það að markmiði að samhæfa og bæta þjónustuna. Auðvitað má alltaf gera betur eins og skýrsla samráðshóps um heimilislausa, sem félagsmálaráðherra lét vinna, leiddi meðal annars í ljós.
    Aðgerðir borgaryfirvalda fram undan á þessu sviði eru nánar tilteknar:
     a.      að móta stefnu í málefnum utangarðsfólks af báðum kynjum,
     b.      að auka þjónustu og stuðning við þá sem dvelja langdvölum í gistiskýlinu, meðal annars með því að bjóða upp á ráðgjöf á staðnum og dagdvöl þar sem unnið er með hverjum einstaklingi við að finna leiðir til að auka lífsgæði þeirra,
     c.      að setja á laggirnar í tilraunaskyni rýnihóp með utangarðsfólki af báðum kynjum til að greina möguleg úrræði fyrir þennan hóp.
    Í skýrslu samráðsnefndarinnar, sem félagsmálaráðherra skipaði á síðastliðnu ári, er lagt til að teymi verði stofnað sem hafi yfirsýn yfir stöðu húsnæðislausra á höfuðborgarsvæðinu á hverjum tíma og úrræði til að leysa úr bráðum vanda meðan unnið er að varanlegri lausn. Fulltrúar í teyminu komi frá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar, Heilsugæslunni í Reykjavík og lögreglunni í Reykjavík. Tryggt verði að teymið eigi greiðan aðgang að sjúkrastofnunum og annarri lögbundinni þjónustu og vinni í nánu samstarfi við Landspítala – háskólasjúkrahús. Teymið skuli hafa möguleika á að koma saman með mjög skömmum fyrirvara. Félagsmálaráðherra hefur þegar sent framangreindum aðilum bréf og hvatt til þess að slíkt teymi verði sett á laggirnar hið fyrsta. Augljóst er að samvinna félagsmálayfirvalda, heilbrigðisyfirvalda og lögreglu er forsenda þess að þeir sem eru á götunni vegna félagslegra og heilsufarslegra vandamála komist í varanlegt húsaskjól.
    Bein aðkoma félagsmálaráðuneytis að málefnum húsnæðislausra í borginni að svo komnu máli mun felast í samvinnu við borgina um stofnun tveggja heimila fyrir samtals 16 einstaklinga á næstu tveimur árum. Félagsmálaráðherra mun beita sér fyrir því að þeirri uppbyggingu verði hraðað svo sem nokkur kostur er. Samstarfið byggist á því að ríkið hefur skyldum að gegna gagnvart fötluðum en hluti þeirra sem eru utangarðs eru geðfatlaðir.

     3.      Hver er ástæða þess að konur sem nú gista í Konukoti eru ekki taldar heimilislausar í nýlegri skýrslu ráðherra um aðstæður heimilislausra þegar þær hafa einungis afdrep í Konukoti hluta sólarhringsins?
    Samkvæmt upplýsingum Reykjavíkurdeildar Rauða krossins, sem rekur Konukot, gistu 40 konur þar á síðastliðnu ári, frá nóvember 2004 til október 2005, en fastagestir eru átta til tíu. Að meðaltali gistu 2,5 einstaklingar á hverri nóttu í Konukoti á þessu sama tímabili. Ef litið er til síðastliðinna sex mánaða gistu þar þrír einstaklingar að jafnaði. Samráðsnefndin sem félagsmálaráðherra skipaði og samdi umrædda skýrslu taldi hins vegar fimm konur í Reykjavík húsnæðislausar um síðastliðin áramót, en á þeim tíma gistu ein til tvær konur (1,5) í Konukoti. Nefndin vakti reyndar athygli á því að ef til vill væru konur vantaldar. Það er mikilvægt að þessar staðreyndir komi skýrt fram og það er jafnframt undirstrikað að með þessari upplýsingagjöf á vettvangi Alþingis er síður en svo verið að gera lítið úr þeim vanda sem húsnæðislausir og þeir sem utangarðs eru búa við. Félagsmálaráðherra setti samsráðsnefndina á fót til þess að draga fram stöðu þessa hóps. Það er mikilvægt að hún liggi ljós fyrir og er forsenda þess að raunverulega sé unnt að taka á málum.
    Konurnar í Konukoti voru ekki taldar sérstaklega í skýrslunni þar sem gert var ráð fyrir að þær væru meðal þeirra sem Velferðarsvið borgarinnar hefur yfirlit yfir. Skýrslan var byggð á gögnum frá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar og gögnum frá lögreglunni í Reykjavík og leitast var við að hafa alla með en tvítelja engan. Það var talin forsenda raunhæfra tillagna til úrlausnar. Gengið var út frá því að þeir sem skilgreindir væru húsnæðislausir og dveldu í gistiskýlinu og Konukoti hefðu sótt um húsnæði hjá Reykjavíkurborg.
    Það er mikilvægt að konurnar í Konukoti, sem taldar eru húsnæðislausar, séu skráðar hjá Velferðarsviðinu sem hefur upp á varanleg úrræði að bjóða. Að öðrum kosti fara þær á mis við margþætta félagslega ráðgjöf Velferðarsviðs borgarinnar. Úr þessu verður nú bætt.
    Frá því að fyrirspurnin var lögð fram hefur margt breyst til batnaðar, sbr. fyrrgreinda samþykkt þar sem m.a. kom fram að Konukot verður nú opið allan sólarhringinn. Einnig hefur verið ákveðið að veita konum sem dvelja í Konukoti ráðgjöf á vegum Þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða í tvær klukkustundir á viku til að byrja með.