Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 422. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 743  —  422. mál.




Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um upplýsingaskyldu bankastofnana.

    Ráðuneytið óskaði eftir því að Samtök banka og verðbréfafyrirtækja (SBV) og Kauphöll Íslands veittu því upplýsingar til þess að það gæti svarað fyrirspurninni. Í svari SBV er vísað til svarbréfs samtakanna, dags. 11. febrúar 2002, við svipaðri ósk ráðuneytisins þar sem kemur efnislega fram það álit samtakanna að skylda ráðherra til að svara fyrirspurnum þingmanna á grundvelli 49. gr. þingskaparlaga, nr. 55/1991, sbr. 49. gr. stjórnarskrárinnar, nái einvörðungu til fyrirspurna um opinber málefni en ekki fyrirspurnir um einkamálefni. Í samræmi við þetta álit SBV barst ekki efnislegt svar við ósk ráðuneytisins. Svör ráðuneytisins byggjast því fyrst og fremst á upplýsingum frá Kauphöll Íslands.

     1.      Hafa stjórnarmenn og æðstu stjórnendur bankastofnana gert sundurliðaða grein fyrir fjárhæðum lána og veðsetningum, ábyrgðum og tryggingum til handa stjórnarmönnum og æðstu stjórnendum eða nátengdum aðilum ásamt upplýsingum um vexti, greiðslukjör og aðra helstu skilmála frá því að kauphöllin setti reglur þar að lútandi á árinu 2003? Óskað er sundurliðaðra upplýsinga eftir bankastofnunum og skýringa hafi þetta ekki komið fram í ársreikningum.
    Samkvæmt upplýsingum frá Kauphöll Íslands gera reglur Kauphallarinnar er varða upplýsingaskyldu skráðra félaga um launakjör stjórnenda í kafla 2.5. kröfu um að upplýsingar komi fram í ársreikningi um laun, greiðslur og hlunnindi til einstakra stjórnarmanna (sbr. gr. 2.5.2.). Þær gera ekki kröfu um að gefnar séu upplýsingar um fjárhæðir lána, veðsetningar, ábyrgðir og tryggingar til stjórnenda og tengdra aðila nema að um óvenjuleg viðskipti sé að ræða (sbr. gr. 2.5.6.). Er skráð félög birta ársreikninga sína fara starfsmenn Kauphallarinnar yfir þær upplýsingar sem þar koma fram með reglur Kauphallarinnar til hliðsjónar. Séu þær ekki uppfylltar er kallað eftir þeim upplýsingum sem á vantar og þær birtar í fréttakerfi Kauphallarinnar um leið og þær berast.

     2.      Hvert er eðli og umfang þessara viðskipta frá því um mitt ár 2003, sbr. ákvæði 2.5.2. í reglum kauphallarinnar? Svar óskast sundurliðað eftir bankastofnunum og einstaka stjórnarmönnum og æðstu stjórnendum.

    Í reikningum Íslandsbanka, Kaupþings banka og Landsbanka árin 2003 og 2004 (ársuppgjör 2005 liggur ekki fyrir) er gerð grein fyrir heildarfjárhæð lána sem veitt eru bankaráðsmönnum, forstjórum og framkvæmdastjórum (samtala). Samkvæmt þeim veitti Íslandsbanki stjórnendum lán árið 2003 samtals að fjárhæð 1.244 millj. kr. og 3.212 millj. kr. árið 2004, KB-banki veitti stjórnendum lán að fjárhæð 1.315 millj. kr. árið 2003 og 1.944 millj. kr. árið 2004 og Landsbankinn veitti stjórnendum lán að fjárhæð 210 millj. kr. árið 2003 og 252 millj. kr. árið 2004.

     3.      Hafa bankarnir veitt stjórnendum sínum óvenjuleg lán sem geta talist verðmótandi og ber að tilkynna hverju sinni samkvæmt reglum kauphallarinnar (ákvæði 2.2.1.) frá miðju ári 2003? Sé svo er óskað sundurliðaðra upplýsinga um lánin, greiðslukjör, veðsetningar, ábyrgðir og aðra helstu skilmála eftir bankastofnunum, einstaka stjórnarmönnum og æðstu stjórnendum.

    Í svari Kauphallar Íslands kemur fram að í ársreikningum framangreindra fyrirtækja sé þess getið að lánakjör séu hliðstæð við þau sem gerist í sambærilegum lánum til annarra viðskiptamanna bankanna. Í svarinu kemur fram að Kauphöllin gerði ekki athugasemdir við upplýsingagjöfina og taldi hana samrýmast gildandi reglum. Í svarinu kemur enn fremur fram að Kauphöllinni hafi ekki borist neinar tilkynningar, sem taldar voru verðmótandi, um óvenjuleg lán bankanna til stjórnenda sinna.