Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 709. máls.

Þskj. 1045  —  709. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um lausafjárkaup, lögum um þjónustukaup og lögum um neytendakaup.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




I. KAFLI
Breytingar á lögum nr. 50 16. maí 2000, um lausafjárkaup.
1. gr.

    Á undan 99. gr. laganna kemur ný grein sem orðast svo:
    Viðskiptaráðherra skipar kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa til fimm ára í senn, sbr. 40. gr. laga nr. 42/2000, um þjónustukaup, með síðari breytingum. Nefndarmenn skulu vera þrír. Ráðherra skipar einn nefndarmanna eftir tilnefningu Neytendasamtakanna, annan eftir tilnefningu Samtaka atvinnulífsins og hinn þriðja skipar ráðherra án tilnefningar og skal hann jafnframt vera formaður nefndarinnar. Hann skal fullnægja skilyrðum til að vera héraðsdómari. Kærunefndin skal vistuð hjá Neytendastofu sem sér nefndinni fyrir fundaraðstöðu, tekur við kvörtunum til nefndarinnar, annast tilkynningar og sér um vörslu gagna.
    Greini aðila að lausafjárkaupum á um réttindi sín og skyldur samkvæmt lögum þessum geta þeir, einn eða fleiri, snúið sér til kærunefndar lausafjár- og þjónustukaupa og óskað eftir álitsgerð nefndarinnar um ágreiningsefnið.
    Niðurstöðum kærunefndar verður ekki skotið til annarra stjórnvalda en aðilar geta lagt ágreining sinn fyrir dómstóla með venjulegum hætti.
    Viðskiptaráðherra skal með reglugerð setja nánari ákvæði um valdsvið og verkefni kærunefndar, málsmeðferðarreglur fyrir nefndinni og störf hennar að öðru leyti.

2. gr.

    Fyrisögn XVI. kafla laganna verður: Kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa, gildistaka o.fl.

3. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða í lögunum fellur brott.

II. KAFLI

Breytingar á lögum nr. 42 16. maí 2000, um þjónustukaup.

4. gr.

    Á eftir 39. gr. laganna kemur nýr kafli, XI. kafli, Kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa, gildistaka o.fl., með einni nýrri grein, 40. gr., sem orðast svo:
    Viðskiptaráðherra skipar kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa til fimm ára í senn, sbr. 99. gr. laga nr. 50/2000, um lausafjárkaup, með síðari breytingum. Nefndarmenn skulu vera þrír. Ráðherra skipar einn nefndarmanna eftir tilnefningu Neytendasamtakanna, annan eftir tilnefningu Samtaka atvinnulífsins og hinn þriðja skipar ráðherra án tilnefningar og skal hann jafnframt vera formaður nefndarinnar. Hann skal fullnægja skilyrðum til að vera héraðsdómari. Kærunefndin skal vistuð hjá Neytendastofu sem sér nefndinni fyrir fundaraðstöðu, tekur við kvörtunum til nefndarinnar, annast tilkynningar og sér um vörslu gagna.
    Greini aðila að þjónustukaupum á um réttindi sín og skyldur samkvæmt lögum þessum geta þeir, einn eða fleiri, snúið sér til kærunefndar lausafjár- og þjónustukaupa og óskað eftir álitsgerð nefndarinnar um ágreiningsefnið.
    Niðurstöðum kærunefndar verður ekki skotið til annarra stjórnvalda en aðilar geta lagt ágreining sinn fyrir dómstóla með venjulegum hætti.
    Viðskiptaráðherra skal með reglugerð setja nánari ákvæði um valdsvið og verkefni kærunefndar, málsmeðferðarreglur fyrir nefndinni og störf hennar að öðru leyti.

5. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða í lögunum fellur brott.

III. KAFLI

Breytingar á lögum nr. 48 20. mars 2003, um neytendakaup.

6. gr.

    Á eftir 62. gr. laganna kemur ný grein sem orðast svo:
    Greini aðila að neytendakaupum á um réttindi sín og skyldur samkvæmt lögum þessum geta þeir, einn eða fleiri, snúið sér til kærunefndar lausafjár- og þjónustukaupa, sbr. 40. gr. laga um þjónustukaup, nr. 42/2000, með síðari breytingum, og 99. gr. laga um lausafjárkaup, nr. 50/2000, með síðari breytingum, og óskað eftir álitsgerð nefndarinnar um ágreiningsefnið.

7. gr.

    Fyrirsögn XIII. kafla laganna verður: Kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa, gildistaka o.fl.

8. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða í lögunum fellur brott.

9. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Á Alþingi voru samþykkt árið 2000 annars vegar ný lög um lausafjárkaup og hins vegar þjónustukaupalög. Vegna innleiðingar á tilskipun 1999/44/EB um tiltekna þætti í sölu neysluvara og ábyrgð þar að lútandi reyndist nauðsynlegt að setja hér á landi sérstök lög sem gilda um lausafjárkaup þegar annar aðili að viðskiptunum er neytandi, sbr. lög nr. 48/2003, um neytendakaup. Við þinglega meðferð framangreindra mála og að tillögu efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis var ákveðið að setja inn ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið væri á um að viðskiptaráðherra skyldi skipa til fimm ára kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa. Í samræmi við ákvæði laganna nær starfsheimild framangreindrar nefndar aðeins til ársins 2005. Á þeim fimm árum, sem nefndin hefur starfað, hefur hún fengið um eða yfir tuttugu mál til umfjöllunar og fellt alls þrettán úrskurði. Lagaúrræði, þar sem unnt er að fara með ágreiningsmál fyrir úrskurðarnefnd með þeim hætti sem kveðið er á um í framangreindum lögum er bæði skjótvirk og ódýr leið til að leita úrlausnar á lögfræðilegum deilum í tengslum við þau viðskipti sem fjallað er um í framangreindum lögum. Reynslan af starfsemi nefndarinnar þau fimm ár, sem hún hefur starfað að úrlausn slíkra ágreiningsmála hefur því verið góð og er hér því lagt til að þetta réttarúrræði verði framlengt og verði eðlilegur þáttur í þeim þremur lagabálkum sem hingað til hafa heimilað þetta úrræði.
    Nefndin hefur á undanförnum fimm árum verið vistuð hjá viðskiptaráðuneyti. Á árinu 2005 voru samþykkt ný lög um Neytendastofu og talsmann neytenda, sbr. lög nr. 62/2005. Ráðuneytið telur eðlilegt með hliðsjón af framangreindri breytingu að nefndin verði framvegis vistuð hjá Neytendastofu. Í frumvarpinu er því að finna það nýmæli að vistun og umsjón nefndarinnar skuli vera hjá Neytendastofu. Ákvæði frumvarpsins eru annars efnislega óbreytt frá þeim ákvæðum til bráðabirgða sem nú er að finna í framangreindum þremur lagabálkum.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um lausafjárkaup,


lögum um þjónustukaup og lögum um neytendakaup.


    Markmiðið með frumvarpinu er að kveða varanlega á um kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa í lögum um lausafjárkaup, lögum um þjónustukaup og lögum um neytendakaup.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.