Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 711. máls.
Þskj. 1047  —  711. mál.




Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um framhaldsskóla,
nr. 80/1996, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




1. gr.

    2. málsl. 3. mgr. 16. gr. laganna orðast svo: Bóknámsbrautir eru fjórar: félagsfræðabraut, viðskipta- og hagfræðibraut, náttúrufræðabraut og tungumálabraut.

2. gr.

    2. og 3. málsl. 2. mgr. og 4. mgr. 24. gr. laganna falla brott.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til tvær breytingar á gildandi lögum um framhaldsskóla, nr. 80/1996, með síðari breytingum. Annars vegar er lagt til að bóknámsbrautir framhaldsskóla verði fjórar í stað þriggja eins og nú er. Hins vegar er lagt til að fella niður ákvæði í 24. gr. laganna um samræmd stúdentspróf í tilteknum greinum.
    Með því að bóknámsbrautir framhaldsskóla verði fjórar í stað þriggja eins og er nú er lagt til að til viðbótar tungumálabraut, félagsfræðabraut og náttúrufræðabraut komi viðskipta- og hagfræðibraut. Með setningu núgildandi laga var námsbrautum til stúdentsprófs fækkað verulega. Ætlunin var að viðskiptanám yrði skilgreint sem starfsnám og viðkomandi starfsgreinaráði falið að gera tillögur þar um. Á undanförnum árum hefur mikill vöxtur hlaupið í háskólanám á sviði viðskipta, fjármála og hagfræði. Sú breyting er í samræmi við þróun í atvinnulífi og þjóðlífi almennt. Hafa bæði framhaldsskólar og viðtökuskólar á háskólastigi kallað eftir því að viðskipta- og hagfræðibraut verði tekin upp aftur sem bóknámsbraut og lagt er til að við því verði orðið í 1. gr. frumvarpsins.
    Í gildandi framhaldsskólalögum voru í fyrsta sinn lögfest ákvæði um samræmd stúdentspróf í tilteknum greinum í framhaldsskóla. Þegar framhaldsskólalögin tóku gildi 1. ágúst 1996 var tekið fram í gildistökuákvæði að þau skyldu komin að fullu til framkvæmda í upphafi skólaársins 2000–2001. Í samræmi við það kvað ákvæði til bráðabirgða í lögunum á um að samræmd lokapróf í framhaldskóla skyldu ekki koma að fullu til framkvæmda fyrr en skólaárið 2000–2001. Þessi frestur var síðan framlengdur með lögum nr. 100/1999, um breyting á lögum nr. 80/1996, um framhaldsskóla, með síðar breytingum, á þann veg að ákvæði í 24. gr. um samræmd lokapróf úr framhaldsskóla skyldu ekki koma að fullu til framkvæmda fyrr en skólaárið 2003–2004. Reglugerð um prófin var gefin út árið 2002 og breytt 2003. Prófin komu síðan til framkvæmda skólaárið 2003–2004 og voru þá valfrjáls því að rétt þótti að veita nemendum og skólum aðlögun að þessu nýja prófafyrirkomulagi. Ekki var prófað nema í einni grein, íslensku. Í maí 2005 var í fyrsta skipti prófað í þremur greinum og þá var nemendum skylt að taka prófin. Síðan var aftur prófað í þremur greinum í desember 2005.
    Tilgangur samræmdra prófa getur verið margþættur. Þau eru t.d. notuð til að
     a.      athuga hvort námsmarkmiðum aðalnámskrár í viðkomandi námsgrein eða námsþáttum hafi verið náð,
     b.      veita upplýsingar um skólahald og tengsl kennsluhátta og námsárangurs,
     c.      vera leiðbeinandi um áherslur í kennslu fyrir einstaka nemendur,
     d.      veita nemendum, forsjáraðila og skólum, þ.m.t. viðtökuskólum, upplýsingar um námsárangur og námsstöðu nemenda.
    Samræmd próf eiga sér nokkra sögu í skólakerfinu. Árið 1929 voru tekin upp samræmd próf í nokkrum greinum í barnaskólum og síðar í gagnfræðaskólum. Tilgangur þeirra prófa var fyrst og fremst tengdur a- og b-liðum hér að framan. Þeim var stjórnað af fræðslumálastjórninni í samvinnu við skólastjóra og kennara um land allt.
    Í kjölfar fræðslulaganna 1946 voru einnig tekin upp samræmd próf í miðskóla gagnfræðastigsins, oftast kölluð landspróf miðskóla. Prófin voru valfrjáls, en voru sett á í jafnréttisskyni. Tilgangur þeirra var fyrst og fremst að gefa nemendum kost á samræmdu prófi til að meta námsárangur og velja nemendur til framhaldsnáms í menntaskólum, sbr. d-lið hér að framan.
    Landspróf miðskóla var lagt niður þegar ný námskrá tók gildi 1976 í anda grunnskólalaganna. Þá var tekin upp ný gerð samræmdra prófa, þar sem segja má að markmið þeirra hafi sameinað tilgang eldri prófanna frá 1929 og landsprófsins, þ.e. að veita upplýsingar um skólakerfið og framkvæmd námskráa, auk þess að veita upplýsingar um námsárangur. Einnig var nú lögð áhersla á leiðsagnarþátt námsmatsins, sbr. c-lið hér að framan.
    Í núgildandi reglugerð nr. 196/2003, með síðari breytingum, um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra stúdentsprófa í framhaldsskólum, segir að tilgangur samræmdra stúdentsprófa sé m.a. að:
     1.      veita nemendum og viðkomandi skóla upplýsingar um námsárangur nemenda og námsstöðu í þeim námsgreinum þar sem haldin eru samræmd stúdentspróf,
     2.      veita viðtökuskólum upplýsingar um námsstöðu einstakra nemenda og vera viðmið fyrir inntöku í einstakar deildir á háskólastigi,
     3.      veita fræðsluyfirvöldum upplýsingar um námsárangur, m.a. eftir framhaldsskólum, og hvort markmiðum aðalnámskrár hafi verið náð.
    Við framkvæmd prófanna árið 2005 komu í ljós ýmsir annmarkar og nemendur sáu lítinn tilgang með prófunum, auk þess sem lítil merki sáust um að skólar á háskólastigi kölluðu eftir því að nemendur hefðu lokið slíkum prófum. Nokkrir framhaldsskólanna hafa talið það vandkvæðum bundið að bæta samræmdum stúdentsprófum við prófahald sem þar hefur tíðkast um árabil, bæði í lok vor- og haustannar. Þykir sýnt að prófin í núverandi mynd henti misvel einstökum nemendum, námsbrautum og framhaldsskólum.
    Með hliðsjón af framansögðu er lagt til í 2. gr. frumvarpsins að 2. og 3. málsl. 2. mgr. og 4. mgr. 24. gr. gildandi laga falli brott og með því verða samræmd lokapróf í framhaldsskóla í tilteknum greinum aflögð. Verði frumvarp þetta að lögum nú á vorþingi er við það miðað að samræmd lokapróf í framhaldsskóla verði ekki haldin á vorönn yfirstandandi skólaárs, enda miðar gildistökuákvæði frumvarpsins við að lögin taki þegar gildi.
    Samhliða því sem samræmd stúdentspróf verða felld niður í núverandi mynd verður unnið að frekari athugun á kostum og göllum samræmds prófmats á framhaldsskólastigi í tengslum við tíu punkta samkomulag menntamálaráðuneytis og Kennarasambands Íslands um bætt skólakerfi og væntanlega heildarendurskoðun á lögum um framhaldsskóla. Menntamálaráðherra telur það vera mikilvægan lið í því starfi sem framundan er að meta heildstætt hvaða leið sé heppilegust til framtíðar, m.a. með hliðsjón af niðurstöðu starfshóps um námsmat á framhaldsskólastigi og áformum um breytta námsskipan.
    Meðal kosta sem sérstaklega þarf að gefa gaum er hvort skynsamlegt sé að tekin verði upp einstaklingsmiðuð rafræn könnunarpróf, líkt og nú er verið að þróa m.a. á Norðurlöndunum. Slík próf gefa möguleika á að koma til móts við þarfir einstakra nemenda og skóla, ásamt því að geta nýst viðtökuskólum og fræðsluyfirvöldum. Tilgangur könnunarprófanna væri fyrst og fremst að veita nemendum og skólum upplýsingar um stöðu einstakra nemenda í viðkomandi námsgrein þannig að unnt yrði að taka mið af því í áframhaldandi námi nemandans bæði á meðan hann er í námi á framhaldsskólastigi og að því námi loknu. Í öðrum löndum, svo sem Danmörku og Bretlandi, er unnið að því að taka upp einstaklingsmiðuð tölvuvædd próf, enda ljóst að þau hafa marga kosti umfram hefðbundin próf og henta betur þeirri áherslu sem lögð er á einstaklingsmiðað nám og námsmat.
    Mikilvægt er að frumvarp þetta, verði það að lögum, taki þegar gildi þar sem gildandi lög kveða á um að nemendur geti ekki lokið stúdentsprófi án þess að hafa lokið samræmdum stúdentsprófum í tilteknum greinum. Skiptir þetta máli gagnvart þeim nemendum sem hyggjast ljúka stúdentsprófi á komandi vori.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um
framhaldsskóla, nr. 80/1996, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að viðskipta- og hagfræðibraut bætist við sem sérstök bóknámsbraut, í öðru lagi að niður falli ákvæði um samræmd stúdentspróf og í þriðja og síðasta lagi að niður falli heimildarákvæði um samræmd lokapróf í tilteknum greinum framhaldsskólanáms.
    Að mati fjármálaráðuneytisins hefur það ekki áhrif á útgjöld ríkisins að heimila framhaldsskólum að bjóða á ný upp á viðskipta- og hagfræðibrautir. Útgjöld vegna samræmdra stúdentsprófa eru áætluð 24 m.kr. í fjárlögum 2006 og falla þau niður verði frumvarpið að lögum. Ekki er áætlað sérstaklega í fjárlögum fyrir útgjöldum vegna heimildarákvæðis um samræmd lokapróf.