Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 404. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1164  —  404. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 2/1995, um hlutafélög, með síðari breytingum (opinber hlutafélög).

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Samhliða umfjöllun um frumvarp viðskiptaráðherra um breytingu á hlutafélagalögum fjallaði nefndin um frumvarp frá þingmönnum Samfylkingarinnar um sama efni (436. mál). Það frumvarp gengur talsvert lengra í þá átt að auka aðhald kjörinna fulltrúa hvað varðar hlutafélög í eigu ríkis eða sveitarfélaga, bæði með því að veita þeim seturétt á hluthafafundum með fullt málfrelsi sem og skilgreindan rétt til upplýsinga um starfsemi opinberra hlutafélaga. Þessi umfjöllun hafði þau áhrif að 1. minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar ákvað að leggja til að inn í frumvarp viðskiptaráðherra komi ákvæði sem veiti eftir atvikum þingmönnum og sveitarstjórnarmönnum ákveðinn en þó mjög afmarkaðan rétt. Þannig hafa þeir samkvæmt tillögunni einvörðungu rétt til að sitja aðalfundi opinberra hlutafélaga en hafa þar ekki málfrelsi heldur aðeins rétt til að leggja fram skriflegar fyrirspurnir. Þetta er vissulega skref í rétta átt en nær þó ansi skammt. Hluthafafundir í hlutafélögum eru ekki síður mikilvægir en aðalfundir og gjarnan til þeirra boðað ef taka þarf mikilvægar ákvarðanir sem varða starfsemi félaganna. Þess vegna er ekki ástæða til að gera greinarmun á aðalfundum og hluthafafundum varðandi aðkomu kjörinnar fulltrúa. Aðrar breytingar sem meiri hlutinn hefur lagt til eru flestar til bóta en allar minni háttar. Frumvarpið stendur því eftir sem áður aðeins að takmörkuðu leyti undir þeim tilgangi sem því er ætlað, þ.e. að bæta aðgengi að upplýsingum um hlutafélög í opinberri eigu.
    Minni hlutinn leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
     1.      Í 1. gr. segir að þá og því aðeins skuli hlutafélag teljast opinbert hlutafélag að það sé að fullu í eigu opinberra aðila. Lögð er til breyting á þessari skilgreiningu þannig að hlutafélag teljist opinbert hlutafélag ef ríkið eða sveitarfélag hefur sömu tengsl við félagið og móðurfélag hefur við dótturfélag. Er þetta í samræmi við þá skilgreiningu sem notuð er í dönsku hlutafélagalögunum. Þetta þýðir í raun að félag telst opinbert hlutafélag ef ríki eða sveitarfélög eiga svo mikinn hluta hlutafjár í félaginu að þau fara með meiri hluta atkvæða.
     2.      Í 2. gr. er kveðið á um að farið skuli að jafnréttislögum við kjör í stjórn. Lögð er til breyting með það að markmiði að styrkja þetta ákvæði. Hlutfall kynjanna verði sem jafnast og þar sem því verði við komið verði hvort kyn um sig ekki undir 40% stjórnarmanna. Þetta viðmið næst ekki í þriggja manna stjórn en ætti ekki að vera vandkvæðum bundið í fjölmennari stjórnum.
     3.      Í 5. gr. er kveðið á um rétt fjölmiðla til að sækja aðalfund opinberra hlutafélaga. Lögð er til sú breyting að kjörnum fulltrúum á Alþingi og í sveitarstjórnum, eftir því sem við á, verði heimilað að sitja hluthafafundi og taka þar til máls. Þarna er gengið lengra en í breytingatillögu meiri hlutans sem leggur til að kjörnir fulltrúar hafi aðeins heimild til að sækja aðalfundi opinberra hlutafélaga og leggja þar fram skriflegar fyrirspurnir.
     4.      Lagt er til að við 8. gr. bætist fimm nýir málsliðir. Þar verði kveðið á um skyldu stjórnar og framkvæmdastjóra í opinberu hlutafélagi til að veita þeim ráðherra eða framkvæmdastjóra sveitarfélags sem fer með eignarhlut hins opinbera aðila í félaginu upplýsingar um starfsemi félagsins, verði eftir því leitað. Rétturinn til upplýsinga verði sambærilegur og kveðið er á um í upplýsingalögum en þó megi undanskilja upplýsingar sem varða samkeppnisrekstur félagsins. Beiðni um upplýsingar skal vera skrifleg. Í frumvarpi þingmanna Samfylkingarinnar er ákvæði svipaðs efnis en það er þó víðtækara því þar er gert ráð fyrir að þingmenn geti kallað eftir upplýsingum frá félagsstjórn og framkvæmdastjóra. Hér er farin sú leið að binda réttinn til upplýsinga við ráðherra og framkvæmdastjóra sveitarfélaga. Þingmenn og/eða sveitarstjórnarmenn geta eftir sem áður óskað eftir upplýsingum um opinber hlutafélög með því að leggja fram fyrirspurn til viðkomandi ráðherra eða framkvæmdastjóra á viðeigandi vettvangi. Með þessu fyrirkomulagi ætti hinn formlegi réttur þingmanna til upplýsinga um opinber hlutafélög að vera sambærilegur rétti þeirra til upplýsinga um opinberar stofnanir nema hvað samkeppnisþáttinn varðar.

Alþingi, 11. apríl 2006.



Ingibjörg Sólrún Gísladóttir,


frsm.


Margrét Frímannsdóttir.