Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 794. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1270  —  794. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um breyt. á l. nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl., með síðari breytingum.

Frá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Jóhönnu Sigurðardóttur og Lúðvík Bergvinssyni.



     1.      4. gr. orðist svo:
                      Ákvæði til bráðabirgða I í lögunum, sbr. lög nr. 70/2005 og 126/2005, orðast svo:
                      Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 1. gr. laga þessara skal fjárhæð olíugjalds vera 35 kr. á hvern lítra af olíu frá gildistöku laga þessara til 31. desember 2006.
     2.      Á undan 1. gr. komi ný kaflafyrirsögn, I. kafli, Breyting á lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl., með síðari breytingum.
     3.      Við bætist nýr kafli, II. kafli, Breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum, með einni grein, 6. gr., svohljóðandi:
                      Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
                      Þrátt fyrir ákvæði 14. gr. laganna skal greiða 3,28 kr. vörugjald af hverjum lítra af bensíni frá 1. júlí 2006 til 31. desember 2006.
     4.      Fyrirsögn frumvarpsins verði: Frumvarp til laga um breytingu lagaákvæða sem varða bensíngjald og olíugjald.

Greinargerð.


    Með þessum breytingartillögum er lagt til að olíugjald verði lækkað um 6 kr. umfram það sem frumvarpið gerir ráð fyrir eða úr 41 kr. í 35 kr. frá 1. júlí til 31. desember nk. Jafnframt er lögð til tímabundin lækkun á bensíni um 6 kr. yfir sama tímabil. Með þessum breytingum mundi útsöluverð á bensíni og olíu lækka um tæpar 7,50 kr. þegar virðisaukaskattur hefur verið lagður á. Þótt tekjutap ríkissjóðs vegna þessara breytingar verði 600 millj. kr. á tímabilinu vegna bensínlækkunar og 385 millj. kr. vegna olíulækkunar umfram það sem frumvarpið gerir ráð fyrir eru viðbótartekjur ríkissjóðs á heilu ári engu að síður verulega umfram þessar fjárhæðir. Áhrifin á vísitöluna við þessa breytingu eru 0,4% sem vinna mundi gegn áhrifum vaxandi verðbólgu. Með breytingunni yrði dregið úr útgjöldum heimilanna um 750 millj. kr. á seinni helmingi ársins eingöngu vegna þessarar tímabundnu bensínlækkunar en aukin útgjöld vegna þróunar bensínsverðs fyrir meðalbílinn eru yfir 40 þús. kr. á einu ári. Þetta er sama leiðin og valin var af stjórnvöldum árið 2002, en þá var lögð til tímabundin lækkun á almenna vörugjaldinu með þeim rökstuðningi að áhrif hækkunar á bensínverði væru umtalsverð og gætu stofnað verðlagsmarkmiðum kjarasamninga í hættu.