Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 189. máls.

Þskj. 190  —  189. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um búnaðarfræðslu,
nr. 57/1999, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




1. gr.

    1. gr. laganna orðast svo:
    Lög þessi taka til menntastofnana landbúnaðarins sem eru Landbúnaðarháskóli Íslands og Hólaskóli – Háskólinn á Hólum.

2. gr.

    Í stað „nr. 136/1997“ í 2. mgr. 2. gr. laganna kemur: nr. 63/2006.

3. gr.

    4. gr. laganna fellur brott.

4. gr.

    7. gr. laganna orðast svo:
    Yfirstjórn hverrar stofnunar tekur ákvörðun um fyrirkomulag kennslu, náms, námsmats og rannsókna og aðra þætti er lúta að málefnum hennar, enda sé ákvörðunin í samræmi við markmið laga þessara skv. 3. gr.

5. gr.

    10. gr. laganna orðast svo:
    Nemendur sem hefja háskólanám við menntastofnanir landbúnaðarins skulu hafa lokið stúdentsprófi, öðru sambærilegu námi eða búa yfir jafngildum þroska og þekkingu að mati stjórnar háskólans. Háskólaráð getur ákveðið sérstök viðbótarinntökuskilyrði fyrir hverja skilgreinda námsbraut háskólanámsins.
    Inntökuskilyrði í háskólanám við menntastofnanir landbúnaðarins og námskröfur svari til þess sem krafist er í viðurkenndum háskólum á sambærilegu sviði erlendis.

6. gr.

    2. mgr. 13. gr. laganna orðast svo:
    Landbúnaðarráðherra gefur út skrá um prófgráður.
    

7. gr.

    14. gr. laganna orðast svo:
    Nú er í almennum framhaldsskóla stofnað til búnaðarnámsbrautar, og skal þá námskrá slíkrar kennslu, fyrirkomulag á verknámi og námsmat hljóta samþykki menntamálaráðherra að fenginni umsögn landbúnaðarráðherra.

8. gr.

    Á eftir 2. mgr. 15. gr. laganna kemur ný málsgrein er orðast svo:
    Menntastofnunum landbúnaðarins er heimilt að taka gjald fyrir þjónustu sem telst utan þeirrar þjónustu sem þeim er skylt að veita. Þeim er enn fremur heimilt að taka gjöld fyrir endurmenntun og fræðslu fyrir almenning. Háskólaráð hvors skóla skal setja nánari reglur um gjaldtöku og ráðstöfun gjalda samkvæmt ákvæði þessu.

9. gr.

    2. mgr. 23 gr. laganna orðast svo:
    Tilnefna skal og skipa bæði aðal- og varamenn í háskólaráð. Landbúnaðarráðherra skipar háskólaráð til þriggja ára í senn.

10. gr.

    VI. kafli laganna, er hefur fyrirsögnina Hólaskóli – Háskólinn á Hólum. Stjórn og starfslið, orðast svo:

    a. (29. gr.)
    Hólaskóli er vísindaleg fræðslu- og rannsóknastofnun á háskólastigi sem veitir nemendum sínum fræðslu og vísindalega þjálfun er miðast við að þeir geti tekið að sér sérfræði- og rannsóknastörf á sérsviðum skólans.
    Hólaskóli er miðstöð fyrir kennslu og rannsóknir í hrossarækt og hestamennsku, fiskeldi og ferðaþjónustu í dreifbýli.
    Við skólann er heimilt að starfrækja alþjóðlega deild í hrossarækt og hestamennsku þar sem innheimta má skólagjöld.

    b. (30. gr.)
    Stjórn Hólaskóla er falin háskólaráði og rektor. Háskólaráð markar stefnu í kennslu og rannsóknum og mótar skipulag skólans.
    Rektor er yfirmaður stjórnsýslu háskólans og ber ábyrgð á rekstri hans. Hann ber ábyrgð á gerð starfs- og rekstraráætlana og að þær séu samþykktar af háskólaráði. Rektor er æðsti fulltrúi Hólaskóla gagnvart mönnum og stofnunum innan skólans og utan. Hann stýrir starfsemi háskólans og hefur frumkvæði að því að háskólaráð marki sér heildarstefnu í málefnum skólans. Rektor hefur ráðningarvald yfir öllum starfsmönnum skólans. Verkefni rektors skulu skilgreind í erindisbréfi hans.

    c. (31. gr.)
    Í háskólaráði eiga sæti:
     1.      Rektor sem jafnframt er formaður ráðsins.
     2.      Einn fulltrúi tilnefndur af landbúnaðarráðherra.
     3.      Einn fulltrúi tilnefndur af menntamálaráðherra.
     4.      Einn fulltrúi tilnefndur af háskólaráði Háskóla Íslands.
     5.      Einn fulltrúi tilnefndur af sjávarútvegsráðherra.
     6.      Einn fulltrúi tilnefndur af samgönguráðherra.
     7.      Einn fulltrúi tilnefndur af Félagi tamningamanna.
     8.      Einn fulltrúi tilnefndur af starfsmönnum stofnunarinnar.
     9.      Einn fulltrúi tilnefndum af nemendum.
    Tilnefna skal og skipa bæði aðal- og varamenn í háskólaráð. Landbúnaðarráðherra skipar háskólaráð til þriggja ára í senn.

    d. (31. gr. a.)
    Rektor boðar til funda í háskólaráði. Óski þrír háskólaráðsmenn eftir fundi er rektor skylt að boða til hans. Rektor stýrir fundum háskólaráðs. Fundur háskólaráðs er ályktunarbær ef tveir þriðju hlutar atkvæðisbærra manna sækja fund hið fæsta. Afl atkvæða ræður úrslitum mála. Ef atkvæði falla jöfn sker atkvæði rektors úr. Varamenn sitja fundi háskólaráðs í forföllum aðalmanna.

    e. (32. gr.)
    Landbúnaðarráðherra skipar í stöðu rektors Hólaskóla til fimm ára að fenginni umsögn háskólaráðs. Skal staðan auglýst laus til umsóknar. Þann einan má skipa í stöðu rektors sem lokið hefur æðri prófgráðu við háskóla og öðlast stjórnunarreynslu.

    f. (33. gr.)
    Kennarar við Hólaskóla eru prófessorar, dósentar, lektorar, aðjunktar og stundakennarar.
    Prófessorar, dósentar og lektorar skulu vera þeir einir sem hafa kennslu og rannsóknir að aðalstarfi. Um kröfur til menntunar kennara sem kenna á framhaldsskólastigi fer samkvæmt ákvæðum laga um framhaldsskóla, nr. 80/1996.
    Háskólaráð setur nánari reglur um starfsskyldur fastráðinna kennara.

    g. (34. gr.)
    Rektor ræður prófessora, dósenta, lektora, aðjunkta og stundakennara. Umsækjendur um prófessors-, dósents- og lektorsstörf skulu láta fylgja umsókn sinni upplýsingar um háskólamenntun sína, vísindastörf og önnur störf, svo og ritsmíðar og rannsóknir.
    Kennarar við Hólaskóla skulu hafa lokið meistaraprófi hið minnsta eða hafa jafngilda þekkingu og reynslu að mati dómnefndar. Þeir skulu jafnframt hafa sýnt þann árangur í starfi að þeir njóti viðurkenningar á starfssviði sínu.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. 33. gr. er heimilt að ráða kennara í verklegum greinum sem hafa aflað sér fullnægjandi þekkingar og starfsþjálfunar á viðkomandi sviði að mati rektors og háskólaráðs.
    Skipa skal þriggja manna dómnefnd til þess að dæma um hæfni umsækjenda til að gegna starfi prófessors, dósents eða lektors. Rektor skipar dómnefnd, einn mann eftir tilnefningu landbúnaðarráðherra, og tvo menn eftir tilnefningu háskólaráðs og skipar rektor annan þeirra formann nefndarinnar. Skal hann hafa sama eða æðra hæfi og um er fjallað, verði því við komið. Í dómnefnd má skipa þá eina sem lokið hafa a.m.k. meistaraprófi úr háskóla og skulu a.m.k. tveir nefndarmanna starfa utan skólans.
    Dómnefnd skal láta uppi rökstutt álit um það hvort ráða megi af vísindagildi rita og rannsókna umsækjanda, svo og af námsferli hans og störfum, að hann sé hæfur til að gegna starfinu.
    Engum manni má veita prófessors-, dósents- eða lektorsstöðu nema meiri hluti dómnefndar hafi látið það álit í ljós að hann sé til þess hæfur.

11. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2007.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Störf hjá Hólaskóla eru lögð niður við gildistöku laga þessara. Starfsfólki stofnunarinnar skulu boðin störf hjá Hólaskóla – Háskólanum á Hólum.
    Þrátt fyrir ákvæði 11. gr. laga þessara skal skipa rektor Hólaskóla og háskólaráð frá 1. janúar 2007 og skal háskólarektor og háskólaráð frá þeim tíma undirbúa framkvæmd laga þessara.
    Við gildistöku laga þessara tekur Hólaskóli – Háskólinn á Hólum við öllum eignum og skuldbindingum Hólaskóla, Hólum í Hjaltadal.
    Nemendur sem við gildistöku laganna stunda nám í Hólaskóla eiga rétt á því að ljúka námi samkvæmt gildandi námsskipulagi skólans við gildistöku laganna. Nemendur geta þó lokið prófum samkvæmt nýju skipulagi ef þeir kjósa svo.
    Fyrir 1. júní 2008 skulu lög þessi endurskoðuð til að samræma og auka samvinnu við gæðaeftirlit og námsframboð á háskólastigi, sbr. ákvæði til bráðabirgða í lögum um háskóla, nr. 63/2006.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með lögum nr. 57/1999, um búnaðarfræðslu, var sú breyting gerð að Bændaskólinn á Hvanneyri, sem allt frá árinu 1947 hafði starfrækt búvísindadeild og útskrifað nemendur með B.S. gráðu í búvísindum, fékk formlega stöðu háskóla. Með lögum nr. 71/2004, um breytingu á lögum um búnaðarfræðslu, nr. 57/1999, og með lögum nr. 79/2004, um breytingu á lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, nr. 64/1965, var stigið annað skref í endurskoðun á stofnanaskipan landbúnaðarins á sviði rannsókna og fræðslu með sameiningu Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Garðyrkjuskóla ríkisins í eina stofnun, Landbúnaðarháskóla Íslands. Markmiðið með þessum breytingum var að efla kennslu og rannsóknir í landbúnaði með það fyrir augum að þær þjónuðu betur þörfum landbúnaðarins í breyttu starfsumhverfi. Í áliti meiri hluta landbúnaðarnefndar Alþingis við breytingu á lögum sem leiddu til stofnunar Landbúnaðarháskóla Íslands vorið 2004 kemur fram að mikilvægt sé að fara jafnframt yfir stöðu og málefni Hólaskóla. Hinn 14. júní 2004 skipaði landbúnaðarráðherra nefnd til að yfirfara stöðu skólans. Í skipunarbréfi nefndarinnar kemur m.a. fram að nefndin skuli gera tillögur um mögulegan þátt Hólaskóla í frekara samrunaferli meðal mennta- og rannsóknastofnana landbúnaðarins og í því ljósi sérstaklega skoða lagalega stöðu skólans. Nefndin skilaði áliti sínu 1. október 2004. Hólaskóli hefur á undanförnum árum eflst sem vísindaleg kennslu- og rannsóknastofnun á sviði fiskeldis, hrossaræktar og hestamennsku og ferðamála. Með reglugerð nr. 244/2003 fékk skólinn formlega heimild til kennslu á háskólastigi og með frumvarpi þessu er lagt til að skrefið verði stigið til fulls og Hólaskóli gerður að háskóla er starfi á afmörkuðum sviðum landbúnaðar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Greinin felur það í sér að menntastofnanir landbúnaðarins, Landbúnaðarháskóli Íslands og Hólaskóli – Háskólinn á Hólum, starfa báðar á háskólastigi verði frumvarpið að lögum.

Um 2. gr.

    Greinin kveður á um að gæði menntunar sem menntastofnanir landbúnaðarins veita samkvæmt lögum þessum skuli uppfylla skilyrði nýsamþykktra háskólalaga, nr. 63/2006, og laga um framhaldsskóla, nr. 80/1996.

Um 3. gr.

    Með greininni er lögð til sú breyting að ákvæði laganna um búfræðsluráð verði felld niður. Samkvæmt núgildandi ákvæði er hlutverk búfræðsluráðs að vera landbúnaðarráðherra til ráðuneytis um mörkun heildarstefnu í búfræðslumálum og samræmingu starfa þeirra er að þeim vinna. Verði frumvarpið samþykkt verða eftirleiðis tvær rannsókna- og kennslustofnanir á háskólastigi starfandi á sviði landbúnaðarins sem hvor um sig lýtur stjórn háskólaráðs sem er æðsti ákvörðunaraðili innan háskólans ásamt rektor, markar stefnu, m.a. í kennslu og rannsóknum, mótar skipulag skólans og samþykkir starfs- og rekstraráætlanir. Það er mat ráðuneytisins að við slíka skipan mála hafi hlutverk búfræðsluráðs færst til háskólaráðanna og sé því óþarft.

Um 4. gr.

    Greinin er til samræmis við ákvæði 3. gr. um niðurfellingu búfræðsluráðs og vísar til ákvæða 3. gr. laganna um markmið búnaðarfræðslu.

Um 5. gr.

     Greinin fjallar um kröfur sem gerðar eru til menntunar þeirra sem hefja nám við menntastofnanir landbúnaðarins.

Um 6. gr.

    Breytingin er til samræmis við ákvæði 3. gr. um niðurfellingu ákvæðanna um búfræðsluráð.

Um 7. gr.

     Breytingin er til samræmis við ákvæði 3. gr. um niðurfellingu ákvæðanna um búfræðsluráð. Lagt er til að menntamálaráðherra samþykki námskrár búnaðarnámsbrauta við almenna framhaldsskóla að fenginni umsögn landbúnaðarráðherra.

Um 8. gr.

    Ákvæðið gerir ráð fyrir að menntastofnunum landbúnaðarins sé heimilt að taka gjald fyrir þjónustu sem telst utan þeirrar þjónustu sem þeim er skylt að veita. Ákvæðið er hliðstætt ákvæðum í 18. gr. laga um Háskóla Íslands

Um 9. gr.

    Meginbreytingin sem greinin felur í sér er að háskólaráð skuli skipuð til þriggja ára í senn í stað fimm ára eins og núgildandi ákvæði mæla fyrir um.

Um 10. gr.

     Um a-lið (29. gr.).
    Greinin fjallar um stöðu og hlutverk Hólaskóla. Í greininni er kveðið á um að skólinn starfi á þremur afmörkuðum sviðum kennslu og rannsókna, þ.e. á sviði hrossaræktar og hestamennsku, á sviði fiskeldis og á sviði ferðaþjónustu í dreifbýli. Nýjung er að kveðið er á um að við skólann sé heimilt að starfrækja alþjóðlega deild í hrossarækt og hestamennsku. Mikil eftirspurn er eftir slíku námi erlendis frá og brýn þörf að efla alþjóðlega þekkingu á þjálfun og meðferð íslenska hestsins. Miðað er við að kennsla fari fram á ensku og meginhluti nemendanna verði erlendir. Lagt er til að heimilt verði að innheimta skólagjöld fyrir slíkt nám.
     Um b-lið (30. gr.).
    Greinin fjallar um stjórnskipan skólans og hvernig hlutverkum er skipt milli rektors og háskólaráðs. Háskólaráði er fyrst og fremst ætlað að móta stefnu skólans í kennslu og rannsóknum. Rektor ber hins vegar ábyrgð á allri stjórnsýslu skólans, starfsmannahaldi og rekstri stofnunarinnar. Rektor er jafnframt embættismaður í skilningi 22. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og ber því ábyrgð á að útgjöld séu í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt.
     Um c-lið (31. gr.).
    Greinin fjallar um skipan háskólaráðs. Lagt er til að í háskólaráði eigi sæti, auk rektors og fulltrúa landbúnaðarráðuneytisins, fulltrúar annarra ráðuneyta sem tengjast starfssviði skólans, sjávarútvegsráðuneytis og samgönguráðuneytis. Einnig er gert ráð fyrir að tryggð séu tengsl við háskólaumhverfið í landinu með setu fulltrúa menntamálaráðuneytisins og fulltrúa háskólaráðs Háskóla Íslands í háskólaráði. Þá er gert ráð fyrir að Félag tamningamanna og starfsmenn og nemendur skólans tilnefni fulltrúa í háskólaráð.
     Um d- og e-lið (31. gr. a og 32. gr.).
    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.
     Um f-lið (33. gr.).
    Í greininni er kveðið á um að kennsla á vegum Hólaskóla geti verið á háskólastigi og framhaldsskólastigi og fjallað er um kröfur sem gerðar eru til kennara á mismunandi skólastigum.
     Um g-lið (34. gr.).
    Greinin fjallar um ráðningu, prófessora, dósenta, lektora og stundakennara og kröfur sem gerðar eru um menntun og starfsreynslu slíkra starfsmanna. Greinin er efnislega samhljóða ákvæðum núgildandi 27. gr. laganna.

Um 11. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Gert er ráð fyrir að störf hjá Hólaskóla verði lögð niður við gildistöku laganna en starfsfólki stofnunarinnar boðin störf hjá Hólaskóla – Háskólanum á Hólum. Ákvæði þetta er hliðstætt þeim ákvæðum sem sett voru í lögin um stofnun Landbúnaðarháskóla Íslands.
    Ljóst er að það kallar á nokkra vinnu að undirbúa framkvæmd laganna og því er lagt til að rektor og háskólaráð taki til starfa 1. janúar 2007 til að undirbúa starfsemi hinnar nýju stofnunar.
    Eðlilegt þykir að nemendur geti haldið áfram námi óháð því að þeir flytjist til nýrrar stofnunar og því er þeim gefinn kostur á því að ljúka núverandi námi samkvæmt gildandi námsskrá.
    Í samræmi við ákvæði til bráðabirgða í nýsamþykktum lögum um háskóla, nr. 63/2006, er kveðið á um endurskoðun laga um búnaðarfræðslu fyrir l. júní 2008 til þess að samræma og auka samvinnu við gæðaeftirlit og námsframboð á háskólastigi.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um búnaðarfræðslu,
nr. 57/1999, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er mælt fyrir breytingum á skipulagi búnaðarfræðslu í landinu. Meginefni frumvarpsins felst í því að gera Hólaskóla að háskóla og er skólanum ætlað að starfa á þremur sviðum kennslu og rannsókna, þ.e. á sviði hrossaræktar og hestamennsku, á sviði fiskeldis og á sviði ferðaþjónustu í dreifbýli. Heiti skólans er breytt og verður það: Hólaskóli – Háskólinn á Hólum. Verði frumvarpið að lögum verða því tvær vísindalegar fræðslu- og rannsóknastofnanir á háskólastigi á sviði landbúnaðar starfandi í landinu, Landbúnaðarháskóli Íslands og Hólaskóli – Háskólinn á Hólum. Til viðbótar því meginefni frumvarpsins að gera Hólaskóla að háskóla er tekjugrundvöllur menntastofnana landbúnaðarins styrktur með ótvíræðri lagaheimild til gjaldtöku fyrir þjónustu aðra en þá sem þeim er skylt að veita. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða verða störf hjá Hólaskóla lögð niður og starfsfólki skólans boðin störf hjá Hólaskóla – Háskólanum á Hólum. Sú breyting kann að skapa rétt á biðlaunum en fjárhæð er óviss.
    Eins og áður segir er í frumvarpinu lagt til að Hólaskóli verði formlega gerður að háskóla. Í því felst m.a. að kennarar við skólann fá stöður prófessora, dósenta og lektora, auk stundakennara, og skulu þeir er skipa þrjár fyrstnefndu stöðurnar hafa kennslu og rannsóknir að aðalstarfi. Auknar menntunarkröfur eru auk þess gerðar til kennara við skólann frá því sem er í gildandi lögum og skulu þeir hafa meistaragráðu hið minnsta eða jafngilda þekkingu og reynslu að mati dómnefndar. Reikna má með að auknar menntunarkröfur kunni að geta leitt til hærri launa, en samkvæmt upplýsingum landbúnaðarráðuneytis er ekki búist við að þær verði umtalsverðar.
    Samkvæmt framansögðu er því reiknað með að lögfesting frumvarpsins hafi óveruleg bein áhrif á kostnað ríkissjóðs þar sem frumvarpið felur aðeins í sér formbreytingu, en nú þegar er kennt við Hólaskóla á háskólastigi. Líklegt má hins vegar telja að óbein áhrif geti orðið töluverð, ekki síst ef skólinn hyggst hljóta viðurkenningu sem háskóli samkvæmt lögum um háskóla, nr. 63/2006. Það er skoðun fjármálaráðuneytisins að því fylgi óhjákvæmilega kostnaður að bjóða upp á viðurkennt háskólanám. Með hliðsjón af frumvarpinu, núverandi stöðu Hólaskóla, nýjum háskólalögum og öðrum fyrirliggjandi gögnum er það mat ráðuneytisins að í tilviki Hólaskóla kunni viðbótarkostnaður að geta legið á bilinu 70 til 80 m.kr. á heilu ári. Munar þar mest um aukið námsframboð og rannsóknir ásamt aðfararnámi og kerfisbundnu eftirliti með gæðum kennslu og rannsókna. Útgjöld skólans og þróun þessara mála ræðst af fjárveitingu fjárlaga hverju sinni.