Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 195. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 196  —  195. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á umferðarlögum, nr. 50 30. mars 1987, með síðari breytingum.

Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir, Margrét Frímannsdóttir, Dagný Jónsdóttir,


Þuríður Backman, Sigurjón Þórðarson.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 72. gr. laganna:
       a.      Við 1. mgr. bætast tveir nýir málsliðir sem orðast svo: Þá skal hver sá sem er á bifhjóli nota viðurkenndan lágmarkshlífðarfatnað ætlaðan til slíkra nota. Sama er um þann sem er á hliðarvagni, eftirvagni eða tengitæki bifhjóls.
       b.      2. mgr. orðast svo:
                 Ökumaður á bifhjóli eða torfærutæki skal sjá um að farþegi yngri en 15 ára noti hlífðarhjálm. Þá skal ökumaður á bifhjóli sjá um að farþegi yngri en 15 ára noti viðurkenndan lágmarkshlífðarfatnað.
       c.      Við bætist ný málsgrein sem orðast svo:
                 Ráðherra setur reglur um hvað teljist viðurkenndur lágmarkshlífðarfatnaður. Í þeim reglum skal m.a. kveðið á um hvaða kröfur gerðar eru til hlífðarfatnaðar.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Á undanförnum árum hefur bifhjólum fjölgað mjög hér á landi sem annars staðar. Landsmenn eiga nú 5461 hjól og þar af eru létt bifhjól 1237.
    Með bættu vegakerfi og auknum hraða hefur alvarlegum slysum og banaslysum fjölgað í umferðinni. Við þessu þarf að bregðast með öllum tiltækum ráðum.
    Slys á ökumönnum og farþegum bifhjóla geta orðið mjög alvarleg. Vörn sem bifhjól veita í slysum er ekki í líkingu við þá vörn sem ökumenn og farþegar bifreiða hljóta af sínum ökutækjum. Þegar bifhjólaslys verður kastast bifhjólafólk nær undantekningarlaust af bifhjólinu og lendir á götunni eða í nánasta umhverfi. Af þessu leiðir að hlífðarfatnaður er mikilvægasti öryggisbúnaður bifhjólafólks og getur skipt sköpum um meiðsli ef slys verður.
    Erlendar rannsóknir sýna að meðallækniskostnaður á hvern slasaðan bifhjólamann er tvöfalt hærri en aðra ökumenn. Bifhjólafólk sem lágmarkar skaða sinn með notkun hlífðarfatnaðar sparar ekki bara sjálfu sér mikinn sársauka heldur atvinnurekendum, tryggingafélögum og ríkinu umtalsverðar fjárhæðir.
    Í samantekt sem Bifhjólasamtökin Sniglar hafa tekið saman um niðurstöður ýmissa rannsókna kemur fram að bresk rannsókn gerð 2004 sýnir að í 90% tilvika kemur hlífðarfatnaður í veg fyrir eða dregur úr alvarlegum áverkum í bifhjólaslysum. Önnur erlend rannsókn sýnir að hlífðarfatnaður gerði það að verkum að 40% þeirra sem lentu í alvarlegum bifhjólaslysum fengu minni varanlegan skaða en þeir sem notuðu hann ekki. Fram kom einnig að flestar rannsóknir sem gerðar hafa verið sýni fram á víðtækan ávinning sem hlífðarfatnaður veitir gegn þeim skaða sem bifhjólaslys valda. Í samantekt Sniglanna kemur fram að það sé áhyggjuefni að stór hluti ökumanna léttra bifhjóla séu börn undir lögaldri, 15–18 ára, og fæst klædd hlífðarfatnaði. Benda þeir á að þar sem allar rannsóknir benda til að slys þar sem hægt er að lágmarka skaða með hlífðarfatnaði, verði á undir 60 km hraða þurfi ökumenn léttra bifhjóla greinilega á hlífðarfatnaði að halda.
    Það hefur sýnt sig að hlífðarfatnaður dregur mjög úr meiðslum bifhjólamanna þegar slys hafa orðið. Nú þegar er að finna í umferðarlögum ákvæði um að hver sá sem er á bifhjóli skuli nota viðurkenndan hlífðarhjálm ætlaðan til slíkra nota. Þá hefur nýlega verið sett regla um að hver sá sem situr í sæti bifhjóls sem búið er öryggisbelti skuli nota beltið þegar bifhjólið er á ferð. Hins vegar er ekki að finna í lögum nein ákvæði um hlífðarfatnað sem bifhjólamenn skuli nota.
    Bifhjólasamtökin Sniglar hafa barist mjög fyrir því að lögleiddur verði hlífðarfatnaður fyrir bifhjólafólk. Á umliðnum vikum hafa forsvarsmenn samtakanna fengið umsagnir ýmissa aðila hvað varðar lögfestingu hlífðarfatnaðar. Þar koma fram sterk rök fyrir lögfestingu og verða þau rakin hér. Þannig kemur fram hjá Rannsóknarnefnd umferðarslysa að hlífðarfatnaður geti skipt sköpum. Nefndin styður heilshugar að leitað verði leiða til þess að skýrt verði kveðið á um notkun hlífðarfatnaðar í umferðarlögum.
    Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins segir í sinni umsögn að slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn hafi séð í starfi sínu að góður hlífðarfatnaður hafi takmarkað og jafnvel komið í veg fyrir alvarlega áverka sem annars hefðu orðið. Því styðji þeir heilshugar baráttu Sniglanna fyrir því að lögleiða notkun á hlífðarfatnaði fyrir ökumenn og farþega bifhjóla.
    Í umsögn Sjóvár kemur fram að fyrirtækið telji nauðsynlegt að allir ökumenn og farþegar bifhjóla, hvort sem um er að ræða létt eða þung bifhjól noti viðurkenndan hlífðar- og öryggisfatnað. Jafnframt kom fram í umsögninni að á meðan þessi notkun sé ekki lögbundin sé ekki hægt að stöðva ökumenn og farþega sem ekki eru klæddir þessum öryggisbúnaði. Verði umferðarslys þar sem óvarðir bifhjólamenn lenda í óhöppum eru afleiðingarnar oftar en ekki mun alvarlegri en í þeim tilfellum þegar viðkomandi hefur verið klæddur viðkenndum hlífðarbúnaði.
    Í umsögn fræðisviðs Barnaspítala Hringsins kemur fram að á spítalanum hafi fólk umtalsverðar áhyggjur af slysum á börnum er tengjast vélhjólum, stórum sem smáum, þríhjólum og fjórhjólum. Svo virðist sem foreldrar og aðstandendur þekki ekki eða hunsi þær stórkostlegu hættur sem þessu fylgja. Allmörg slys á börnum og unglingum eru til marks um það.
    Í umsögn hjúkrunarfræðinga á Landspítala – háskólasjúkrahúsi kemur fram að bifhjólafólk sem klæðist viðeigandi hlífðarfatnaði er það lendir í slysi eða óhappi hafi að jafnaði ekki eins alvarlega áverka og þeir sem nota ekki viðeigandi hlíðarfatnað. Megi þar fyrst og fremst nefna skrapsár og brunasár, fleiðusár, beinbrot og liðhlaup í útlimum.
    Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að bifhjólamönnum verði skylt að nota viðurkenndan lágmarkshlífðarfatnað. Þá er gert ráð fyrir að ráðherra setji reglur um hvaða kröfur eru gerðar til hlífðarfatnaðar. Verði frumvarp þetta að lögum þarf að gera breytingar á reglugerð nr. 575/2001 um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim.
    Með hlífðarfatnaði samkvæmt frumvarpinu er átt við jakka, buxur, hanska og skó. Í staðinn fyrir jakka og buxur getur komið heill samfestingur úr leðri eða öðru slitsterku efni sem hefur mikið álags- og slitþol, og framleiddur er fyrir notkun á bifhjólum. Um er að ræða lágmarksalfatnað sem merktur er sérstaklega til bifhjólanotkunar. Flestur hlífðarfatnaður fyrir bifhjól nú á dögum inniheldur oftar en ekki öryggishlífar sem draga úr höggi á ákveðnum svæðum líkamans.
    Hlífðarfatnaður bifhjólafólks er nú tollflokkaður sem tískuvara. Sem tískuvara ber fatnaðurinn hærri tolla en fatnaður sem ætlaður væri sem hlífðarfatnaður/öryggisfatnaður og tollflokkaður í innflutningi sem slíkur. Eðlilegt er að þessi tollflokkun verði endurskoðuð. Afar brýnt er að reyna að stýra sem flestum inn á að kaupa góðan hlífðarfatnað. Verðlækkun á slíkum fatnaði ætti að skila fleiri vel búnum bifhjólamönnum á götur landsins.