Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 417. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.

Þskj. 484  —  417. mál.




Beiðni um skýrslu


frá utanríkisráðherra um þróunarsamvinnu og þróunarhjálp.

Frá Guðrúnu Ögmundsdóttur, Össuri Skarphéðinssyni, Þórunni Sveinbjarnardóttur, Jóhönnu Sigurðardóttur, Ágústi Ólafi Ágússyni, Einari Má Sigurðarsyni,


Katrínu Júlíusdóttur, Margréti Frímannsdóttur,
Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Önnu Kristínu Gunnarsdóttur.

    Með vísan til 46. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að utanríkisráðherra flytji Alþingi skýrslu um þátttöku Íslendinga í þróunarsamvinnu og þróunarhjálp.
    Í skýrslunni verði leitast við að svara eftirfarandi spurningum:
     1.      Hversu mikið fé hefur verið veitt til þróunaraðstoðar í fjárlögum íslenska ríkisins sl. fimm ár (2002–2006), þ.e. til:
                  a.      verkefna á vegum Sameinuðu þjóðanna og þá hvaða stofnana þeirra,
                  b.      annarra alþjóðlegra stofnana, svo sem Alþjóðabankans og Norræna þróunarsjóðsins,
                  c.      Þróunarsamvinnustofnunar Íslands,
                  d.      uppbyggingar á ófriðarsvæðum með þátttöku Íslensku friðargæslunnar eða með öðrum hætti,
                  e.      ríkisstjórna annarra ríkja, t.d. til aðstoðar í kjölfar náttúruhamfara,
                  f.      frjálsra félagasamtaka, þ.e.: Alþjóða rauða krossins, Rauða kross Íslands, Hjálparstarfs kirkjunnar, svo og annarra mannúðarsamtaka og þá hverra og hversu mikið fé var veitt til þróunarstarfs þeirra?
     2.      Hversu stór hluti af vergri landsframleiðslu Íslands var þróunaraðstoðin og hverjar eru framtíðaráætlanir um þróunarsamvinnu og þróunarhjálp? Til samanburðar er óskað upplýsinga um hversu háu hlutfalli vergrar landsframleiðslu önnur norræn ríki verja til þessa málaflokks.
     3.      Til hvaða verkefna hefur fénu verið varið, á hvaða sviði eru þau, í hvaða löndum og á hverra vegum, svo sem:
                  a.      alþjóðastofnana,
                  b.      Þróunarsamvinnustofnunar Íslands,
                  c.      til uppbyggingar á ófriðarsvæðum með þátttöku Íslensku friðargæslunnar eða með öðrum hætti,
                  d.      frjálsra félagasamtaka og annarra aðila og þá hverra?
     4.      Hvernig er unnið að forgangsröðun verkefna í hverju landi fyrir sig? Hvernig er samráði háttað við stjórnvöld, Sameinuðu þjóðirnar, aðrar alþjóðastofnanir, grasrótarsamtök o.s.frv.?
     5.      Hvernig skiptast verkefni eftir málefnum, þ.e. í heilbrigðismál, lýðræðisþróun, félagsmál, málefni barna, málefni kvenna o.s.frv.? Hversu miklir fjármunir renna til hvers málaflokks og hvernig samræmast þessi verkefni þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna?
     6.      Hvernig er ákvörðun tekin um samstarfslönd? Hvaða þættir liggja til grundvallar ákvörðun og hver tekur hana? Hver hefur með höndum mat á þörf í hverju landi fyrir sig? Sérstaklega er óskað eftir upplýsingum um hvort höfð er hliðsjón af öðrum alþjóðlegum stuðningi til viðkomandi landa.
     7.      Hvernig er lagt mat á verkefnin sem unnin eru hverju sinni? Hvaða þættir eru lagðir til grundvallar ákvörðun um í hvaða verkefni er ráðist?
     8.      Hvernig er metið hverju verkefnin hafi skilað og hvort þeim skuli haldið áfram? Hverjir gera slíkt mat og á hvaða forsendum?
     9.      Hversu margir íslenskir starfsmenn sinna öllum þessum verkefnum erlendis, í hvaða löndum starfa þeir og á vegum hvaða íslenskra stofnana eða samtaka?
     10.      Hversu miklu fé hafa innlend þróunarsamvinnu- og mannúðarsamtök aflað beint frá almenningi sl. fimm ár, skipt eftir árum og stofnunum?

Greinargerð.

    Mikilvægt er að fá heildarsýn yfir þá aðstoð sem Ísland veitir til þróunaraðstoðar og í þróunarsamvinnu víðs vegar í heiminum. Nokkrar skýrslur hafa verið unnar á þessu sviði og þá um afmörkuð verkefni. Nauðsynlegt er hins vegar að hafa upplýsingar um þessi mál á einum stað svo að hægt sé að átta sig á því hvert fjármunir fara, í hvernig verkefni og hversu vel markmið þeirra samrýmast þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem Ísland hefur samþykkt. Einnig er mikilvægt að sjá hvar verkefni gera mest gagn, í samvinnu við hverja þau eru unnin og hvar í heiminum aðstoð er veitt hverju sinni. Jafnframt að upplýst sé um eðli og umfang þeirra verkefna sem nú er unnið að og þá hvort um skörun geti verið að ræða, t.d. milli hjálparsamtaka innbyrðis og annarra er veita þróunaraðstoð. Augljóst er að margir vinna góð verk sem gagnast í þeim löndum þar sem þau eru unnin. Sem dæmi um slíkt má nefna að Sameinuðu þjóðirnar greiða 400 milljónir dollara (25 milljarða kr.) til Malaví.
    Koma þarf fram í skýrslunni hver sé áætlun ríkisstjórnar varðandi fjárframlög til þróunaraðstoðar og þróunarsamvinnu sem skýrslubeiðendur telja eðlilegt að miðist við þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna, sem eru til ársins 2015, og jafnframt hversu stór hluti það framlag er hvert ár af vergri landsframleiðslu Íslands. Einnig er óskað eftir samanburði við framlög annarra norrænna ríkja til þróunaraðstoðar sem hlutfall af landsframleiðslu þeirra.