Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 374. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 545  —  374. mál.




Nefndarálit


um frv. til l. um breyt. á l. nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ólaf Pál Gunnarsson frá fjármálaráðuneyti. Nefndinni bárust auk þess umsagnir um málið.
    VII. kafli laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða fjallar um fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða. Í 36. gr. laganna er kveðið á um að stjórn lífeyrissjóðs skuli móta fjárfestingarstefnu og ávaxta fé sjóðsins með hliðsjón af þeim kjörum sem best séu boðin á hverjum tíma með tilliti til ávöxtunar og áhættu. Tilgangur ákvæðisins er að stuðla að því að lífeyrissjóðir nái sem bestri ávöxtun á fé sjóðfélaga sinna og jafnframt að áhættunni sé dreift á eðlilegan hátt.
    Samkvæmt 3. mgr. 36. gr. er lífeyrissjóði heimilt að fjárfesta fyrir allt að 10% af hreinni eign sjóðs í óskráðum verðbréfum en slíkar fjárfestingar eru þó aðeins heimilar ef engar hömlur eru á viðskiptum með hlutabréfin og ársreikningar hlutafélaganna eru öllum aðgengilegir.
    Í því frumvarpi sem hér liggur fyrir er lagt til að við 3. mgr. 36. gr. verði bætt ákvæði þess efnis að í þeim tilvikum er bakábyrgðaraðili lífeyrissjóðs greiðir inn á skuldbindingu sína við sjóðinn með verðbréfum skv. 1. tölul. 1. mgr. (ríkisvíxlum, ríkisskuldabréfum og skuldabréfum tryggðum með ábyrgð ríkissjóðs) sem ekki eru skráð á skipulegum markaði þá skuli sjóðnum heimilt að eiga þau bréf, óháð framangreindri takmörkun. Er hér um almenna breytingu að ræða og markmið hennar er að bakábyrgðaraðili lífeyrissjóðs geti greitt í sjóðinn. Tilefnið er einkum kaup ríkissjóðs á hlut Akureyrarbæjar og Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun.
    Ögmundur Jónasson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 5. des. 2006.


Pétur H. Blöndal,

form., frsm.

Jóhanna Sigurðardóttir,

með fyrirvara.

Dagný Jónsdóttir.


Lúðvík Bergvinsson,

með fyrirvara.

Birgir Ármannsson.

Ágúst Ólafur Ágústsson,

með fyrirvara.


Ásta Möller.

Sæunn Stefánsdóttir.