Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 492. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 922  —  492. mál.




Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um gjaldtöku fyrir farsíma- og netþjónustu.

     1.      Hver hefur verið þróun gjaldtöku fyrir farsíma- og netþjónustu sl. þrjú ár og hvernig er verðlagningu hérlendis háttað borið saman við gjaldtöku fyrir þessa þjónustu annars staðar á Norðurlöndum?
    Eftirfarandi samanburður á farsímaþjónustu byggist á gagnagrunni Teligen en þar eru valin tvö stærstu farsímafyrirtæki í hverju landi sem hafa sameiginlega meira en 50% markaðshlutdeild miðað við heildarfjölda notenda. Þess vegna eru farsímafélagið Sko sem hóf rekstur þann 1. apríl á síðasta ári og IMC Ísland ehf. sem hefur veitt staðbundna farsímaþjónustu á Akureyri frá júlí 2002 ekki með í þessum samanburði. Mynd 1 lýsir verðþróun farsímaþjónustu Símans og Og Vodafone (Vodafone) miðað við meðalnotkun farsíma fyrir eftirágreiddar áskriftir. Hjá Símanum hefur farsímaþjónusta notenda lækkað um 9% í verði frá nóvember 2003 til nóvember 2006. Á sama tíma hefur farsímaþjónsta Vodafone lækkað um 3%. Ef boðnar eru fríar mínútur eða SMS án skilyrða um notkun, þá er um eiginlegan afslátt að ræða sem hægt er að draga frá mánaðargjaldi, notuðum mínútum eða SMS. Verðlækkun á eftirágreiddum áskriftum hjá Símanum í nóvember 2006 stafaði m.a. af því að boðnar voru óskilyrtar fríar mínútur og tiltekinn fjöldi SMS sem tekið er tillit til hér. Ekki er hins vegar tekið tillit til afsláttar í formi mínútna og SMS ef hann er skilyrtur við tiltekin númer eða farsímanet.

Mynd 1: Verðþróun á eftirágreiddum áskriftum.
Heimild: Teligen.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Mynd 2 lýsir verðþróun farsímaþjónustu Símans og Og Vodafone (Vodafone) miðað við meðalnotkun farsíma og ódýrustu fyrirframgreiddu kortin. Hjá Símanum hefur farsímaþjónusta notenda hækkað um 25,9% í verði frá nóvember 2003 til nóvember 2006. Á sama tíma hefur farsímaþjónsta Vodafone hækkað um 25,4% í verði.

Mynd 2: Verðþróun á fyrirframgreiddum kortum.
Heimild: Teligen.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Mynd 3 sýnir verðþróun farsímaþjónustu á Norðurlöndunum síðastliðin þrjú ár. Um er að ræða ódýrustu meðalnotkun hvort sem um er að ræða eftirágreiddar áskriftir eða fyrirframgreidd kort. Á síðustu þremur árum hefur farsímaþjónusta lækkað um 9% í verði hér á landi en 46% í Finnlandi, 57% í Noregi, 59% í Svíþjóð og 63% í Danmörku.
    Verðlækkun á Norðurlöndunum má m.a. rekja til óskilyrts afsláttar í formi tiltekins fjölda mínútna og SMS sem tekið er tillit til en ekki er tekið tillit til afsláttar ef hann er skilyrtur með einhverjum hætti eins og fyrr segir. Síminn hóf á árinu 2006 að bjóða óskilyrtan afslátt af mínútum og fjölda SMS í áskriftum sem dreginn er frá mánaðargjaldi og verðlækkun sem átti sér stað í nóvember 2006 má m.a. rekja til þess. Rétt er að taka fram að Vodafone býður viðskiptavinum sínum tiltekinn fjölda af fríum mínútum og SMS-sendingum sem skilyrtur er við ákveðin númer í farsímaneti fyrirtækisins en ekki er tekið tillit til þessa í kostnaðarútreikningi Teligen.

Mynd 3: Verðþróun farsímaþjónustu á Norðurlöndunum.
Heimild: Teligen.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Við samanburð á innlendri verðþróun á netþjónustu er ekki hægt að styðjast við gagnagrunn Teligen þar sem fyrirtækið tekur ekki saman upplýsingar um verð fyrir þá þjónustu heldur er stuðst við upplýsingar frá Hagstofu Íslands.
    Það gefur almennt ekki rétta mynd af verðþróun fyrir netþjónustu að bera eingöngu saman verð fyrir þessa þjónustu sl. þrjú ár þar sem hraði tenginga hefur aukist í kjölfar þróunar og uppfærslu á DSL-búnaði fjarskiptafyrirtækjanna, fleiri áskriftir eru í boði en fyrir þremur árum ásamt því að meira gagnamagn í erlendu niðurhali fylgir nú áskriftum. Verð fyrir netþjónustu hefur þrátt fyrir aukna þjónustu almennt lækkað um 13,5% frá desember 2003 til desember 2006 eins og sjá má í töflu 1 hér að neðan.

Tafla 1: Verðþróun internetþjónustu síðastliðin 3 ár.
Heimild: Hagstofa Íslands.

Desember 2003 2004 2005 2006 Breyting
Vísitala neysluverðs 110 100 100 95,2 –13,5%
Skýring: Grunnur mars 1997=100, nema þegar undirvísitölu er bætt við síðar.
Vísitalan fær þá gildið 100.

    Ráðgjafar og rannsóknarfyrirtækið Wairuaconsulting (www.wairua.com) hefur tekið saman skýrslu 1 sem birt var í maí 2006 þar sem breiðbandsmarkaðurinn innan 26 OECD- landa var borinn saman. Ef eingöngu er litið á Norðurlöndin í þeirri skýrslu kemur m.a. fram að meðalkostnaður við netþjónustu hér á landi er næstmestur ef miðað er við mánaðaráskriftir allra breiðbandstenginga sem í boði eru, leiðrétt fyrir kaupmætti. Meðalkostnaður vegna tengigjalds fyrir DSL-áskriftir til heimila er mestur hér á landi af Norðurlöndunum.

     2.      Er ástæða til að ætla að farsímafyrirtækin séu með samræmda gjaldtöku fyrir reikisímtöl í farsíma?
    Upplýsingar liggja ekki fyrir um slíkt en mismunandi verð er gefið upp af símafyrirtækjunum.

     3.      Hver má ætla að kostnaður símafyrirtækja sé vegna flutnings símtala í farsíma annars vegar og hins vegar raunkostnaður fyrirtækjanna við símtalaflutning milli landa? Hver er síðan kostnaður neytenda af þessari þjónustu?
    Eins og flestum farsímanotendum er eflaust ljóst getur verið mjög kostnaðarsamt að nota farsíma á ferðalögum erlendis. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur um árabil beitt sér fyrir lækkun þessara gjalda með aðvörunum til neytenda, með skoðanakönnunum og með tilvísunum í samkeppnislög. Þrátt fyrir fyrirheit margra símafyrirtækja um lækkanir hafa þær ekki skilað sér til neytenda með þeim hætti sem framkvæmdastjórnin hefði kosið. Við nánari skoðun er ljóst að meðaltalsverð í smásölu er í sumum tilfellum meira en fimm sinnum hærra en raunkostnaður við að veita þjónustuna í heildsölu að sögn Evrópusambandsins. Nákvæm greining á þessum þjónustuþáttum stendur nú fyrir dyrum og má að öllum líkindum vænta niðurstöðu þeirra greininga á næstu mánuðum.

     4.      Er á döfinni að setja bindandi reglur um hámarksgjald sem taka má fyrir farsímaþjónustu, líkt og fyrirhugað er innan Evrópusambandsins?
    12. júlí 2006 kom fram tillaga frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um setningu reglugerðar sem mun takmarka möguleika fjarskiptafyrirtækjanna á gjaldtöku fyrir reikisamtöl ef hún verður samþykkt.
    Ef reglugerðin verður samþykkt fer hún í hefðbundið umsagnarferli til ESA sem síðan leiðir að öllum líkindum til innleiðingar hér á landi eins og EES-samningurinn segir til um.
Neðanmálsgrein: 1
1     www.internetnz.net.nz/media/2006-05-29-research-report.