Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 656. máls.

Þskj. 982  —  656. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um útflutningsaðstoð, nr. 160/2002.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      3. málsl. 1. mgr. orðast svo: Nefndin skal funda eigi sjaldnar en tvisvar á ári.
     b.      Í stað 2.–5. málsl. 2. mgr. kemur einn nýr málsliður sem orðast svo: Utanríkisráðherra skipar fulltrúa í samráðsnefndina að höfðu samráði við stjórn Útflutningsráðs.

2. gr.

    7. gr. laganna orðast svo:
    Verði ekki annað ákveðið með lögum fellur markaðsgjald skv. 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. niður frá og með 1. janúar 2013, þó þannig að álagning gjaldsins fari fram árið 2013 vegna gjaldstofns ársins 2012.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


Tilgangur.
    Tilgangur með frumvarpi þessu er að tryggja áframhaldandi fjármögnun Útflutningsráðs. Núverandi fyrirkomulag rennur sitt skeið í lok ársins, en það hefur verið í gildi frá upphafi árs 2003. Í frumvarpinu er lagt til að núgildandi fjármögnun verði framlengd til fimm ára á nýjan leik eins og gert var með gildandi lögum. Í frumvarpinu er einnig lagt til að breytingar verði á fyrirkomulagi og skipan funda samráðsnefndar atvinnulífs og stjórnvalda um utanríkisviðskipti og útflutningsaðstoð.

Fjármögnun Útflutningsráðs – sögulegt yfirlit.
    Útflutningsráð Íslands hefur alla tíð verið sjálfstæð stofnun fjármögnuð beint af atvinnulífinu, án fjárframlaga á fjárlögum, nema að litlu leyti fyrstu árin. Útflutningsmiðstöð iðnaðarins, sem stofnuð var árið 1971, var forveri Útflutningsráðs.
    Í fyrstu lögum um Útflutningsráð, sem samþykkt voru á Alþingi á árinu 1986, var gert ráð fyrir því að fyrirtæki innan iðnaðar og sjávarútvegs stæðu ein straum af fjármögnun starfseminnar og að framlag sjávarútvegs til Útflutningsráðs yrði tekjur af útflutningsgjaldi af sjávarafurðum og að framlag iðnaðar yrði tekjur af iðnlánasjóðsgjaldi. Um svipað leyti og Útflutningsráð tók til starfa var útflutningsgjaldið hins vegar lagt niður. Af þeim sökum var ákveðið að framlag sjávarútvegsins til Útflutningsráðs á árunum 1987–1989 yrði hluti af endurgreiddum uppsöfnuðum söluskatti í sjávarútvegi. Um áramótin 1989/1990 var söluskattur lagður niður en virðisaukaskattur tekinn upp í hans stað.
    Vorið 1990 skipaði utanríkisráðherra fimm manna nefnd til að gera tillögur um stjórnarskipun og framtíðartekjustofna fyrir Útflutningsráð. Nefndin lagði til að tekjustofn Útflutningsráðs yrði sá sami og aðstöðugjaldsstofninn og samþykkti Alþingi í desember 1990 lög sem byggðust á tillögum nefndarinnar, þar sem ákveðið var að „útflutningsráðsgjald“ yrði 0,05% af aðstöðugjaldsstofni fiskvinnslu, iðnaðar og byggingarstarfssemi, 0,03% af aðstöðugjaldsstofni fiskveiða og 0,01% af aðstöðugjaldsstofni flutninga á sjó og flugrekstrar. Í bréfi nefndarinnar til ráðherra kom fram að nefndin fjallaði um þann möguleika að „allt atvinnulífið tæki þátt í fjármögnun aðgerða til að efla útflutning“ og taldi hann um „margt æskilegan“, enda uppi háværar raddir um að óeðlilegt væri að þessar greinar einar greiddu skatt af þessum toga.
    Þegar innheimta aðstöðugjaldsins var lögð niður árið 1992 þótti ekki lengur ástæða að viðhalda aðstöðugjaldsstofninum eingöngu til þess að innheimta af honum þá aukaskatta sem við hann höfðu verið tengdir, svo sem útflutningsráðsgjald, iðnlánasjóðsgjald, iðnaðarmálagjald og kirkjugarðsgjald. Hið síðastnefnda var 1,5% álag á aðstöðugjaldið og rann til kirkjugarða í hlutaðeigandi sóknum. Forsvarsmenn atvinnurekenda innan Vinnuveitendasambands Íslands o.fl. beittu sér fyrir því haustið 1993 að samkomulag tækist um að kirkjugarðsgjaldið yrði afnumið í nokkrum þrepum og í stað þess kæmi nýtt markaðsgjald sem næmi 0,015% af veltu atvinnufyrirtækja, eins og hún var skilgreind samkvæmt virðisaukaskattslögum. Markaðsgjaldið skyldi renna til Útflutningsráðs Íslands. Kirkjugarðsgjaldið og hið nýja markaðsgjald gáfu af sér svo til sömu skatttekjur. Skattbyrði var því létt af þeim atvinnurekstri sem áður greiddi einn útflutningsráðsgjaldið. Því takmarki sem nefndin frá 1990 hafði fjallað um, að „allt atvinnulíf tæki þátt í fjármögnun aðgerða til að efla útflutning“ var því náð. Lög um Útflutningsráð voru endurskoðuð af þessu tilefni og jafnframt sett inn sólarlagsákvæði um tekjustofninn. Skyldu lögin endurskoðuð fyrir árslok 1998 og félli innheimta markaðsgjaldsins niður frá og með árinu 1999 ef lögin yrðu ekki endurskoðuð. Var þetta m.a. gert vegna athugasemda um að vegna tengingar við veltu fyrirtækjanna þá félli markaðsgjaldið óeðlilega þungt á verslunarfyrirtæki, en þau greiddu þá um 38% gjaldsins.
    Með hliðsjón af framansögðu skipaði utanríkisráðherra fimm manna nefnd haustið 1998 til að endurskoða lög um Útflutningsráð. Árið þar á undan hafði utanríkisráðuneytið sett á laggirnar sína eigin viðskiptaþjónustu (VUR) og var á margan hátt óljóst hver ætti að vera verkaskipting milli hennar og Útflutningsráðs. Nefndin komst ekki að sameiginlegri niðurstöðu um hvernig heppilegast væri að skipa opinberri þjónustu við útflutningsatvinnuvegina og taldi ráðherra að lengri tíma þyrfti til að leiða þau mál til lykta. Alþingi samþykkti þó í lok árs 1998 veigamiklar breytingar á lögum um Útflutningsráð þar sem m.a. var stofnuð sérstök samráðsnefnd um Útflutningsráð, stjórnarmönnum var fækkað, ákvæði var sett í lögin um að ráðið skyldi ráðstafa 14% af tekjum af markaðsgjaldi til að markaðssetja Ísland fyrir erlenda fjárfesta og tekinn var upp nýr tekjustofn, markaðsgjald, sem nú var lagt á sama stofn og tryggingargjaldið. Var það reiknað sem 0,05% hlutfall af öllum launagreiðslum í landinu. Við þetta dreifðist skattbyrðin enn meira og féll hlutur verslunar niður í 11%, en starfsemi hins opinbera greiddi 20% gjaldsins. Sólarlagsákvæði til tveggja ára var sett á tekjustofninn með þeim rökum að enn ætti eftir að ákveða framtíðarfyrirkomulag útflutningsaðstoðarinnar og verkaskiptingu milli Útflutningsráðs og viðskiptaþjónustunnar. Markaðsgjaldið var framlengt enn á ný fyrir árslok 2000 til tveggja ára, m.a. með þeim rökum að lítið hefði áunnist í að samhæfa starfsemi Útflutningsráðs og viðskiptaþjónustunnar.
    Haustið 2002 hófu forsvarsmenn viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins og Útflutningsráðs markvissa vinnu við að undirbúa „samtengingu til sóknar“, þ.e. gerð rammasamnings er skýrði verka- og hlutverkaskiptingu aðilanna og tryggði að þjónusta þeirra gagnvart fyrirtækjunum væri gagnsæ og án tvíverknaðar. Formlegur samstarfssamningur var undirritaður á ársfundi Útflutningsráðs í mars 2003. Eru í samningnum m.a. ákvæði um sérstaka stýrinefnd er fylgi eftir markmiðum samningsins, settur var á laggirnar átakssjóður til að leggja fé í samstarfsverkefni aðilanna og ákveðið var að Útflutningsráð tæki að sér að selja þjónustu viðskiptafulltrúa sem starfa í sendiráðum Íslands erlendis. Í millitíðinni var gengið frá breytingum á lögum um útflutningsaðstoð. Var samráðsnefndinni m.a. gefið nýtt og veigameira hlutverk og skilgreiningar um þjónustuhlutverk Útflutningsráðs voru útvíkkaðar. Markaðsgjaldið, eins og það var ákveðið með lögum í desember 1998, var enn á ný framlengt, í það skiptið til fimm ára.

Stefnumótun Útflutningsráðs.
    Stjórn Útflutningsráðs samþykkti á fundi sínum í desember 2006 stefnumótun fyrir Útflutningsráð til næstu ára. Um samstarfið við utanríkisráðuneytið annars vegar og fjármögnun starfseminnar hins vegar segir í stefnumótunarskjalinu:
        „Útflutningsráð hefur náið samstarf við utanríkisráðuneytið og sérstakur samstarfssamningur milli ráðsins og ráðuneytisins kveður á um ákveðna verkaskiptingu milli Útflutningsráðs og viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins með það að markmiði að efla íslenskan útflutning og styrkja samkeppnishæfni þjóðarinnar. Samkvæmt samningnum annast Útflutningsráð m.a. sölu á þjónustu viðskiptafulltrúa sem starfa í sendiráðunum. Með þessu samstarfi býðst viðskiptavinum Útflutningsráðs því ráðgjöf og ýmiss konar þjónusta á þeim markaðssvæðum þar sem sendiráðin eru staðsett. Samningsaðilar koma fram sem ein heild gagnvart fyrirtækjum og öðrum notendum þjónustunnar og stefna að því að kynna þjónustu sína erlendis undir einu heiti. Mikilvægt er að auka vægi viðskiptaþjónustu sendiráðanna m.a. með fjölgun viðskiptafulltrúa og efla hið víðtæka ræðismannanet utanríkisþjónustunnar, sem er einnig mikilvægur hlekkur í þjónustukeðjunni við íslensk fyrirtæki. Útflutningsráð er samkvæmt lögum samstarfsvettvangur fyrirtækja og stjórnvalda og hefur frá upphafi (1986) verið sjálfstæð stofnun, fjármögnuð beint af atvinnulífinu án fjárframlaga á fjárlögum, nema að litlum hluta fyrstu árin. Frá árinu 1998 hefur rekstur Útflutningsráðs verið fjármagnaður að miklu leyti með markaðsgjaldinu, sem er 0,05% gjald á sama tekjustofn og tryggingargjaldið. Hefur þetta fyrirkomulag reynst mjög vel og skapað festu um reksturinn.“
    Af framangreindu er ljóst að samstarf Útflutningsráðs og utanríkisráðuneytisins er í góðum farvegi. Því er lagt til að núverandi fyrirkomulag á fjármögnun starfseminnar með markaðsgjaldinu verði óbreytt til næstu fimm ára.
    Frumvarpið felur enn fremur í sér breytingar á skipan í samráðsnefnd atvinnulífs og stjórnvalda um utanríkisviðskipti og útflutningsaðstoð. Óþarft er að binda fjölda funda samráðsnefndarinnar og fundarstjórn í lög. Sama máli gegnir um skipan nefndarinnar. Hún er og verður áfram skipuð fulltrúum samtaka úr atvinnulífinu og stjórnvalda auk stjórnar Útflutningsráðs. Lögbindingin skapar óþarfa formfestu og í framkvæmd hefur fleiri aðilum en kveðið er á um í lögunum verið boðið á fundi, auk þess sem tiltölulega tíðar breytingar á samsetningu og nöfnum hagsmunasamtaka og stofnun nýrra gerir lagaákvæði af þessu tagi fljótt úrelt. Tilgangur almennara og opnara orðalags er að tryggja enn víðtækari þátttöku á fundum nefndarinnar, en m.a. verður höfð hliðsjón af skiptingu markaðsgjaldsins við samsetningu hennar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Breyting á 1. mgr. 1. gr. felur í sér fækkun lögbundinna funda samráðsnefndarinnar og afnám þess skilyrðis að utanríkisráðherra stjórni fundum. Tilgangur breytinganna er að auka sveigjanleika í störfum nefndarinnar, enda er heppilegra að nefndin haldi fundi þegar tilefni gefst til samkvæmt eigin ákvörðun. Þó er gert ráð fyrir að fundir verði að lágmarki tveir á ári.
    Breyting á 2. mgr. 1. gr. hefur það að markmiði að auka möguleika á aðkomu fleiri aðila að fundum samráðsnefndarinnar og tryggja þannig sem víðtækasta þátttöku, hagsmunaaðilum til hagsbóta. Ábendingar frá þeim hafa leitt í ljós aukinn áhuga á þátttöku í samráðsnefndinni, en gert er ráð fyrir að utanríkisráðherra skipi í nefndina að höfðu samráði við stjórn Útflutningsráðs.

Um 2. gr.

    Ákvæðið felur í sér að sólarlagsákvæði gildandi laga, sem að óbreyttu félli niður í árslok 2007, er framlengt á nýjan leik um fimm ár.

Um 3. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum
um útflutningsaðstoð, nr. 160/2002.

    Með frumvarpinu er lagt til að núverandi fjármögnun Útflutningsráðs verði haldið áfram ótímabundið. Fjármögnunin hefur fengist með 0,05% markaðsgjaldi sem lagt er á gjaldstofn til greiðslu tryggingagjalds. Samkvæmt fjárlögum 2007 er áætlað að tekjur vegna markaðsgjalds verði 334,2 m.kr.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.