Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 592. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1015  —  592. mál.




Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um öryggisráðstafanir vegna barnaníðinga.

     1.      Hvað hyggst ráðherra gera til að bæta öryggi borgaranna gagnvart barnaníðingum, t.d. þegar þeir afplána hluta dóms utan veggja fangelsis?
    Um áramót varð mikil breyting á lögregluumdæmum landsins. Markmiðið er að stórefla starf lögreglunnar, ekki síst getu hennar til rannsóknar mála með aukinni sérhæfingu lögreglumanna. Í langstærsta umdæminu, á höfuðborgarsvæðinu, hafa svo ákveðin skref verið stigin og má nefna að þar hefur nú verið stofnuð sérstök deild sem eingöngu sinnir rannsókn kynferðisbrota.
    Lögregla og fangelsisyfirvöld stefna nú að aukinni samvinnu, einkum að því er varðar afplánunarfanga sem leyfi fá til að ljúka afplánun utan fangelsisveggja. Skipst verður á upplýsingum og metið í hverju tilviki hvernig unnt er að líta sem öruggast og best eftir þeim sem eru að ljúka afplánun.
    Mikið eftirlit er með föngum sem ljúka afplánun í tengslum við áfangaheimili Verndar, starfsmenn heimilisins fylgjast með föngum og fangaverðir fylgjast með vinnustöðum. Áfangaheimili Verndar hefur gefið mjög góða raun við aðlögun refsifanga að lífinu utan múranna og illt væri ef í framtíðinni yrði að hverfa frá því fyrirkomulagi. Það er a.m.k. ljóst að í framtíðinni munu fangelsisyfirvöld leggja enn meiri vinnu en áður í að meta hvort hætta sé á að fangi sem framið hefur brot gegn börnum fái að ljúka afplánun sinni utan fangelsis.
    Ríkislögreglustjóri á samstarf við Barnaheill, en samtökin reka ábendingalínu á netinu þar sem borgararnir geta tilkynnt um vefsíður með barnaklámi. Barnaheill eiga í alþjóðlegu samstarfi um slíkar ábendingalínur og í gegnum það samstarf berast upplýsingar til lögregluyfirvalda í viðkomandi ríki. Ef Barnaheill á Íslandi fá upplýsingar um erlenda síðu með barnaklámi sér alþjóðadeild ríkislögreglustjórans um að koma þeim upplýsingum tafarlaust rétta leið í gegnum alþjóðalögregluna Interpol. Þá fær embættið upplýsingar beint frá Interpol ef erlendis er upplýst að slíku efni er hlaðið niður frá Íslandi. Ríkislögreglustjóri rannsakar þá hver á í hlut og kemur málinu því næst til viðeigandi lögreglustjóra.

     2.      Telur ráðherra rétt að lögregla fái heimildir til að fylgjast með mönnum sem hafa afplánað dóm fyrir kynferðisbrot og til að nota tálbeitur til að koma upp um barnaníðinga?

    Innan lögreglunnar er unnið að því að auka sérþekkingu rannsóknarmanna á net- og tölvumálum og hugað er að gerð upplýsingagrunns um fólk sem hneigist til afbrigðilegrar kynhegðunar og einkum um einstaklinga sem leita á börn. Horft verður til kerfa sem hönnuð hafa verið í Bandaríkjunum og í Evrópu. Við alla gagnavinnslu verður tekið mið af lögum um persónuvernd.
    Dómstólar hafa staðfest að lögreglu sé heimilt að beita tálbeitu við rannsókn mála og brot þar sem væntanlegur brotamaður leggur snörur fyrir sér ókunnug, saklaus börn hljóta að sjálfsögðu að koma þar sérstaklega til álita. Mikið væri unnið ef tækist að fæla menn frá því að reyna að nálgast barnung fórnarlömb um netið.
    Í tillögum að frumvarpi til laga um meðferð sakamála sem nú eru til skoðunar í ráðuneytinu er gert ráð fyrir að ríkissaksóknara verði heimilt að setja reglur um sérstakar aðferðir og aðgerðir lögreglu við rannsókn sakamála. Skal í reglunum m.a. koma fram hvaða skilyrði þurfa að vera fyrir hendi til að gripið verði til tiltekinnar aðferðar eða aðgerðar, hverjir séu bærir til að taka ákvörðun um hana og hvernig staðið skuli að framkvæmd hennar. Á þetta m.a. við um notkun tálbeitu. Byggist þessi tillaga í frumvarpinu á skýrslu um sérstakar rannsóknaraðferðir lögreglu, sem samin var á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytis og birtist árið 1999.

     3.      Hefur ákvæði 67. gr. hegningarlaga um öryggisráðstafanir verið beitt gegn dæmdum kynferðisbrotamönnum eftir að afplánun lýkur og telur ráðherra ástæðu til að endurskoða og styrkja þau ákvæði?

    Ákvæði 67. gr. hegningarlaga hefur verið beitt að kröfu ákæruvaldsins gagnvart tveimur dæmdum kynferðisbrotamönnum og vísast í þeim efnum til dóms Hæstaréttar í máli nr. 281/1990 og dóms héraðsdóms Reykjavíkur nr. S-3593/2003. Í báðum tilvikunum voru brotamenn greindir með svo alvarlega barnagirnd að þeim væri ekki sjálfrátt að þessu leyti.
    Í fyrra tilvikinu var kröfu ákæruvaldsins um gæslu eftir afplánun, sbr. 67. gr. hegningarlaga, vísað frá dómi, þar sem ákæruvaldið hefði ekki gert grein fyrir því hvernig umræddri gæslu yrði háttað og hvort kostur væri á gæslu annars staðar en í fangelsi. Staðan nú er hin sama, þ.e. ákæruvaldið gæti ekki bent á neinn annan vistunarstað en fangelsi. Í síðari dómnum vísaði dómarinn til þess að samkvæmt skýrslu sálfræðings væri mikið undir ákærða sjálfum komið og þeirri sálfræðilegu aðstoð sem hann ætti kost á í refsivistinni, hvort honum tækist að vinna bug á ranghugmyndum sínum varðandi kynlíf með börnum. Taldi dómarinn, að miðað við lengd refsivistar sem ákærða var dæmd í málinu (5 ár), yrði ekki fallist á það með ákæruvaldinu, að nauðsyn bæri til að kveða á um það í þessu máli að ákærði skyldi beittur öryggisráðstöfunum að refsivist lokinni. Hann var því sýknaður af þessari kröfu.
    Ráðuneytið hefur óskað eftir við refsiréttarnefnd að VII. kafli almennra hegningarlaga, sem fjallar m.a. um öryggisráðstafanir og sviptingu borgararéttinda, verði endurskoðaður. Þá hefur sérfróðum aðilum verið falið að gera tillögur um hvort gera eigi breytingu á 67. gr. hegningarlaga.

     4.      Telur ráðherra koma til greina að taka upp rafræna vöktun með barnaníðingum með því að nota ökklaband sem skráir ferðir viðkomandi og gerir viðvart í eftirlitsstöð ef reglur um útivist eru brotnar, eins og gert er í nágrannalöndum, t.d. Bretlandi, Danmörku og Svíþjóð?

    Fulltrúar fangelsismálastofnunar og dómsmálaráðuneytis fóru til Svíþjóðar til að kynna sér rafræna vöktun árið 1998 og var niðurstaða þeirra sú að ekki væri ráðlegt að taka þetta kerfi upp á Íslandi. Annars vegar með hliðsjón af miklum kostnaði við uppsetningu miðstöðvar til að stjórna vöktuninni og hins vegar með hliðsjón af því að kerfi Verndar svipaði mjög til rafrænnar vöktunnar. Alþingi hefur á þessu kjörtímabili samþykkt ný lög um fullnustu refsinga. Við meðferð þess máls á þingi var ekki rætt sérstaklega um nauðsyn rafrænnar vöktunar.

     5.      Hefur verið skoðað, t.d. í samráði við Barnaverndarstofu og aðra sérfróða aðila, hvort setja eigi ákvæði í hegningarlög um að dæma megi barnaníðinga til meðferðar, sbr. svar við fyrirspurn á 130. löggjafarþingi (843. mál)?
    Sjá niðurlag svars við 3. tölul. fyrirspurnarinnar. Ráðuneytið hefur til skoðunar að beina því til refsiréttarnefndar að nefndin taki til athugunar hvort rétt sé að setja í lög sérstakt ákvæði sem heimilar að dæma megi kynferðsbrotamenn sem brjóta gegn börnum til að gangast undir meðferð.